Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 185 . mál.


204. Tillaga til þingsálykt

unar

um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1991.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Johnsen, Jón Helgason,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



         Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hrinda í framkvæmd eftirfarandi ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru í Qaqortoq á Grænlandi 7. ágúst 1991:
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að reglum þeim, sem gilda um Þróunarsjóð Vestur-Norðurlanda, verði breytt í því skyni að unnt verði að veita áhættulán til atvinnustarfsemi í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi.
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að áframhaldandi starfsemi ferðamálanefndar Vestur-Norðurlanda verði tryggð með norrænum fjárframlögum og fjárframlögum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að staða vestnorrænu nefndarinnar innan skipulags norræns samstarfs verði metin í því skyni að gera nefndina eins hæfa og mögulegt er til að sinna þeim störfum sem fylgja auknu samstarfi Vestur-Norðurlanda.
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands feli þeim ráðherrum, sem fara með norræn samstarfsmál, meðferð vestnorrænna samstarfsmála ríkis- og landsstjórnanna og framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands tryggi fjármögnun vegna þeirra þriggja ráðstefna sem Vestnorræna þingmannaráðið ályktaði árið 1989 um að haldnar yrðu árið 1992. Vísað er til ályktunar Vestnorræna þingmannaráðsins nr. 4/1989, en þar ályktaði Vestnorræna þingmannaráðið um að árið 1992 yrði vestnorrænt ár og þá yrði sérstök áhersla lögð á jafnrétti kvenna og karla, umhverfismál og ungt fólk. Ráðstefnur yrðu haldnar um jafnréttismál á Íslandi, um umhverfismál á Grænlandi og ungmennaráðstefna yrði haldin í Færeyjum. Fjármagn til þessa yrði tryggt og fulltrúar landanna þriggja tilnefndir til að undirbúa vestnorræna árið.
    Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands um að samningur sá, sem samgönguráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands gerðu í desember 1990 um samstarf um samgöngumál, kæmi strax til framkvæmda.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi þeim tillögum sem samþykktar voru á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Qaqortoq 7. ágúst 1991. Jafnframt fylgja með tillögunni sem fylgiskjöl tvær yfirlýsingar ráðsins frá sama fundi.


Fylgiskjal I.

Yfirlýsing nr. 1/1991.


(Qaqortoq, 7. ágúst 1991.)


         Vestnorræna þingmannaráðið leggur til að þeirri reglu verði fylgt að sú stofnun eða atvinnustarfsemi, sem umhverfismengun berst frá, greiði það tjón sem af menguninni hlýst, en ekki sá sem fyrir tjóninu verður.



Fylgiskjal II.

Yfirlýsing nr. 2/1991.


(Qaqortoq, 7. ágúst 1991

.)
         Vestnorræna þingmannaráðið fjallaði á aðalfundi sínum í Qaqortoq um samningsviðræður EFTA- og Evrópubandalagsríkjanna. Að þeim umræðum loknum komust fundarmenn að þeirri niðurstöðu að þörf væri á frekari beinum viðræðum milli vestnorrænu landanna um lausn á vandamálum tengdum fiskveiðum og aðgangi að mörkuðum Evrópubandalagsins þar sem fiskveiðar væru undirstöðuatvinnugrein í þeim löndum sem aðild eiga að Vestnorræna þingmannaráðinu.
         Með tilliti til þess hve umræður um þessi mál milli ríkisstjórna og þingmanna landanna eru nauðsynlegar felur Vestnorræna þingmannaráðið skrifstofu sinni að kanna möguleika á því að ráðstefna verði haldin um þá þýðingu og þau áhrif sem „innri markaðurinn“ muni hafa fyrir vestnorrænu löndin með sérstakri hliðsjón af sjávarútvegi.
         Þátttakendur ráðstefnunnar skulu vera jafnt úr hópi utanríkis- og sjávarútvegsráðherra sem og fulltrúa í þeim þingnefndum sem fjalla um samskiptin við Evrópubandalagið ásamt öðrum aðilum sem hafa þekkingu og áhuga á þessum málum hvort sem þeir eru með eða á móti tengslum við Evrópubandalagið.