Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 213 . mál.


283. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu samkomulags um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda.

(Lögð fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulag um breytingu á samstarfssamningnum frá 23. mars 1962 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sem undirritað var í Tammerfors 21. ágúst 1991.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu

þessa.
    Samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar var undirritaður í Helsingfors 23. mars 1962. Breytingar á honum voru gerðar með samningum 13. febrúar 1971, 11. mars 1974, 15. júní 1983 og 6. maí 1985. Samninginn og breytingar er að finna í auglýsingum í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1962, 16/1971, 17/1975, 13/1983 og 16/1985, sbr. einnig auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 4/1986.
     Hinn 21. ágúst 1991 var undirritað í Tammerfors samkomulag um breytingar á 51., 52., 54., 56., 57. og 58. gr. samningsins. Eiður Guðnason umhverfisráðherra undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd. Samkomulagið er birt sem fylgiskjal með tillögu þessari.
     Helstu breytingar á Helsingforssamningnum samkvæmt samkomulaginu eru þessar:
    Gert er ráð fyrir því að hægt verði að boða til reglulegs þings Norðurlandaráðs oftar en einu sinni á ári (breyting á 2. mgr. 51. gr.).
    Fulltrúum í stjórnarnefnd Norðurlandaráðs er fjölgað úr 10 í 11 (breyting á 52. gr.).
    Stjórnarnefndinni og fastanefndum ráðsins verður heimilt að gera tillögur til ráðsins (breyting á 1. mgr. 55. gr.).
    Stjórnarnefndinni verður heimilt að afgreiða tillögur til ráðsins án þess að vísa þeim til nefndar (breyting á 2. mgr. 55. gr.).
    Fulltrúum í ráðinu verður heimilt að beina fyrirspurnum til ríkisstjórnar og ráðherranefndarinnar milli þinga ráðsins (breyting á 57. gr.).
    Framvegis fellur það í verkahring stjórnarnefndarinnar að ákveða hvernig sameiginlegur kostnaður ráðsins skiptist milli deildanna (breyting á 2. mgr. 58. gr.).
     Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samkomulagsins frá 21. ágúst 1991.