Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


305. Breytingartillaga



við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.

Frá Finni Ingólfssyni.



    Við 6. gr. Nýr liður:
    5.19         Að kaupa eða taka á leigu húsnæði til uppbyggingar heilsugæslu í Reykjavík.

Greinargerð.


     Nefnd, sem heilbrigðisráðherra skipaði til að gera tillögu um hvernig sameina megi Borgarspítala og Landakotsspítala í eitt sjúkrahús, hefur gert tillögu um að heilsugæslustöðin í Borgarspítalanum verði flutt þaðan. Ekkert húsnæði er því til að taka á móti þeirri starfsemi sem nú er í heilsugæslustöðinni í Fossvogi. Undanfarin ár hefur verið inni í 6. gr. fjárlaga heimild handa fjármálaráðherra til að kaupa eða taka á leigu húsnæði til uppbyggingar heilsugæslu í Reykjavík. Nú er þetta ákvæði ekki í 6. gr. frumvarpsins og því engar heimildir fyrir fjármálaráðherra til að kaupa eða taka á leigu húsnæði fyrir heilsugæslu í Fossvogi þegar hún verður flutt úr Borgarspítalanum.
     Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 5. desember 1991 var eftirfarandi samþykkt gerð samhljóða:
    „Borgarstjórn samþykkir að skora á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir því að á fjárlögum ársins 1992 verði varið fé eða a.m.k. aflað heimildar í 6. gr. til áframhaldandi uppbyggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er engu fé varið til uppbyggingar heilsugæslustöðva í borginni né heldur er heimildarákvæði í 6. gr.“