Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 197 . mál.


349. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 78 23. desember 1980, um jöfnunargjald, sbr. lög nr. 108/1990.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



     Jöfnunargjald, sem fyrst var samþykkt með lögum nr. 83/1978 og lagt er á innfluttar iðnaðarvörur, var hugsað til þess að vega á móti uppsöfnunaráhrifum söluskatts. Gjaldið er enn við lýði tveimur árum eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp í ársbyrjun 1990. Mikið hefur verið fjallað um jöfnunargjaldið á Alþingi svo að óþarfi er að rekja sögu þess eða fyrri umfjöllun á Alþingi.
     Þriðji minni hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði fellt og byggir þá afstöðu á eftirfarandi röksemdum:
    Jöfnunargjald er í ósamræmi við fríverslunarsamninga okkar við EFTA og EB og enginn nýr efnislegur rökstuðningur hefur verið lagður fram sem réttlætir framlengingu á gjaldinu. Þjóð, sem vill láta taka mark á sér í alþjóðlegum samskiptum, stendur við gerða samninga.
    Framlenging á jöfnunargjaldi er afar óheppilegt innlegg í þær viðræður sem fram undan eru við EB vegna samninga um EES og tvíhliða samning um fiskveiðimál. Ríkisstjórn Íslands hefur gefið EB tilkynningu um niðurfellingu gjaldsins.
    Framlenging á jöfnunargjaldi mun væntanlega hafa í för með sér málssókn af hálfu innlends greiðanda gjaldsins sem jafnframt gæti verið fylgt eftir af hálfu erlends þolanda við EB. Erlend fyrirtæki, sem spurst hafa fyrir um aðflutningsgjöld eftir að núgildandi lög um jöfnunargjald voru samþykkt, hafa fengið þau svör að það félli niður um næstu áramót. Innlendur greiðandi mun væntanlega láta reyna á það hvaða réttarstöðu fríverslunarsamningarnir veita.
    Gjald eins og jöfnunargjald, sem leggst á innflutning, stuðlar að rangri skráningu gengis krónunnar. Íslenskur útflytjandi fær ekki alla þá upphæð sem innflytjandi greiðir til þess að fá til sín erlenda vöru. Slíkir skattar, sem gera innflutning óhagkvæmari án þess að gera útflutning jafnframt hagkvæmari, virka sem tæki til þess að viðhalda röngu gengi og lenda í raun á almenningi og útflutningsfyrirtækjum.
    Það er skoðun þriðja minni hluta nefndarinnar að þótt vissulega séu miklir erfiðleikar í ríkisfjármálum muni framlenging gjaldsins stefna margföldum hagsmunum í hættu miðað við þá upphæð sem framlenging á að skila.

Alþingi, 20. des. 1991.



Vilhjálmur Egilsson,

Ingi Björn Albertsson.


frsm.