Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 256 . mál.


433. Tillaga til þingsályktunar



um heildaráætlun um nýtingu vatnsorku.

Flm: Páll Pétursson, Steingrímur Hermannsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera heildaráætlun um nýtingu vatnsorku á Íslandi. Áætlunin sé þannig unnin að unnt sé að bera saman nýtanlega virkjunarkosti með tilliti til umhverfisverndar, hagkvæmni og fyrirhugaðrar nýtingar.

Greinargerð.


     Á undanförnum árum hefur Landsvirkjun einkum annast og kostað virkjunarrannsóknir. Landsvirkjun hefur byggt og rekur allar okkar stærri virkjanir þannig að segja má að þetta fyrirkomulag hafi verið eðlilegt. Landsvirkjun hefur enda eitt fyrirtækja í landinu haft burði til að reisa stórvirkjanir.
     Nú eru stjórnvöld að gera gælur við það að einkavæða Landsvirkjun og kljúfa fyrirtækið þannig að búast má við að hún búi ekki við neinn einkarétt á hagkvæmustu virkjunarkostum í framtíðinni og komi til með að eiga í samkeppni. Ef verður af aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði verður ekki unnt að halda nýtingu orkulindanna í höndum Íslendinga til frambúðar. Þannig er ekki sanngjarnt að leggja allan kostnað af heildaráætlun um nýtingu vatnsorkunnar á Landsvirkjun og þar með láta þá sem nú kaupa raforku af Landsvirkjun bera allan undirbúningskostnaðinn. Eðlilegra er að frumáætlanir um virkjanaröð séu kostaðar af almannafé þótt sjálfsagt sé að nýta mannafla og þekkingu Landsvirkjunar til þessa verkefnis að einhverju leyti. Á hinn bóginn er sjálfsagt að Landsvirkjun annist hönnun og fullnaðarundirbúning þeirra virkjana sem fyrirtækið kemur til með að reisa.
     Á undarförnum árum hafa Íslendingar fjárfest mikið í virkjunarframkvæmdum. Þessi fjárfesting hefur í sumum tilfellum verið tilviljanakennd, bæði hvað varðar markaðssetningu orkunnar og val virkjunarstaða og stundum hefur ekki verið leitað umhverfisvænstu virkjunarkosta. Þá hefur reynslan leitt í ljós að fram hafa komið nýjar og miklu vænlegri leiðir hvað snertir tilhögun virkjananna eftir að þær hafa verið ákveðnar og jafnvel verið komnar á framkvæmdarstig. Nægir þar að nefna Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Hvað Blönduvirkjun varðar gjörbreyttist virkjunartilhögun frá frumáætlun og veituleið var breytt eftir að langt var liðið á framkvæmdatímann. Þá var heppilegasta virkjunartilhögun ekki valin með tilliti til náttúruverndar þar sem vistvænni virkjunarkostum var hafnað að óathuguðu máli þar sem „ekki ynnist tími til“ að gera nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings raunhæfs kostnaðarsamanburðar.
     Hvað Fljótsdalsvirkjun áhrærir var upphaflega áformað að ráðast í virkjun Bessastaðaár, en síðan voru sett lög 1981 á grundvelli tilhögunar sem Orkustofnun og Landsvirkjun töldu heppilegasta. 1989 gerðu norskir verkfræðingar tillögur um gjörbreytingu á veitukerfi virkjunarinnar og lögðu til að í stað ógnarlegra veituskurða og stíflugerða yrðu boruð göng til að veita vatninu að virkjuninni. Þetta var miklu umhverfisvænni og hagfelldari lausn en sú sem áður hafði verið talin fullrannsökuð og talin sú besta. Þetta hefur verið staðfest með útboðum. Því miður eru horfur á að virkjun í Fljótsdal dragist vegna frestunar á byggingu álvers. Nú hafa komið fram hugmyndir sem benda til þess að ekki sé endilega enn þá fundið heppilegasta frambúðarfyrirkomulag virkjunar í Fljótsdal.
     Settar hafa verið fram hugmyndir um Austurlandsvirkjun af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. Þessar hugmyndir snerta Fljótsdalssvirkjun mjög og benda á margar leiðir til virkjunar Jökulsár á Brú og Jöklulsár á Fjöllum, m.a. niðri í Fljótsdal. Þá eru uppi hugmyndir um Hraunavirkjun sem nýtti vatn af hálendinu austan Fljótsdals. Auk ofantaldra virkjunarhugmynda eru uppi lauslegar hugmyndir um virkjanir sem til greina gætu komið, í Jökulsánum í Skagafirði, Skjálfandafljóti og í neðri hluta Þjórsár. Áætlanir um virkjanir á efra Þjórsársvæðinu eru lengra komnar.
     Flutningsmenn taka að svo stöddu ekki afstöðu til einstakra hugmynda, enda eru umhverfissjónarmið einungis að litlu leyti athuguð. Þó er óhjákvæmilegt að kanna þessar hugmyndir nánar og í samhengi við aðrar virkjunarframkvæmdir á viðkomandi svæðum. Mikilvægt er, áður en í virkjun er ráðist, að hafa sæmilega heildarmynd af framtíðarfyrirkomulagi nýtanlegs vatns þannig að með einum virkjunaráfanga sé ekki komið í veg fyrir aðra og ætíð sé leitað umhverfisvænstu leiða, enda standist þær eðlilegan kostnaðarsamanburð.
     Höfuðáherslu ber að leggja á það að haga virkjunum þannig að þær spilli umhverfinu sem allra minnst. Okkur ber að umgangast landið með siðlegum hætti og vinna því ekki tjón ef unnt er að komast hjá því. Uppistöðulón eyðileggja sums staðar gróðurlendi og það ber að forðast ef unnt er. Við verjum miklum fjármunum til uppgræðslu á Íslandi og er almennur skilningur á nauðsyn þess. Því er sárt að eyða gróðurlendi í stórum stíl vegna virkjunarlóna. Sumarið 1991 eyddist meira gróðurlendi vegna virkjunarframkvæmda á Íslandi en gerst hefur áður af mannavöldum á einu sumri. Þá ber að hafa hliðsjón af varðveislu fagurra fossa og annarra merkilegra náttúrusmíða. Umhverfismál varðandi línulagnir verður einnig að gaumgæfa vandlega og leita bestu leiða. Umfjöllun um virkjunarkosti tekur tíma og kanna verður öll sjónarmið. Sennilega er óhjákvæmilegt að afskrifa alveg suma fjárhagslega hagkvæma virkjunarkosti vegna umhverfisverndarsjónarmiða.
     Á undanförnum árum hefur stundum gleymst að gera ráð fyrir því á fullnægjandi hátt hvar og til hvers eigi að nota orkuna frá þeim orkuverum sem byggð hafa verið eða ákveðið hefur verið að byggja. Þetta leiðir til mikils óþarfakostnaðar við flutning orkunnar og þó sérstaklega til mjög mikils aukakostnaðar á raforku til almennra notenda vegna tímabundinnar offjárfestingar í virkjunum (Reykvíkingar þurfa að borga 15% hærra raforkuverð vegna Blönduvirkjunar samkvæmt úttekt tímaritsins Vísbendingar).
     Þetta er ekki skynsamlegt háttarlag. Á sínum tíma hefði verið réttara að ráðast í 35 MW virkjun hjá Villinganesi í Skagafirði á undan Blönduvirkjun, enda væri virkjað fyrir innlendan markað. Samningar um sölu á raforku til stóriðju á framleiðslukostnaðarverði eru enn ekki í höfn. Vonandi tekst okkur að selja raforku til stóriðju á a.m.k. því verði er kostar að framleiða hana innan allt of langs tíma. Þjóðarbúið þarf á því að halda að framleiðsla aukist í landinu, fiskstofnar eru flestir fullnýttir, útflutningsiðnaður á erfitt uppdráttar og ekki blæs byrlega með útflutning landbúnaðarframleiðslu.
    Þá hafa verið settar fram athyglisverðar hugmyndir um útflutning raforku um sæstreng. Verðmæti skapast fyrst og fremst þar sem raforkan er nýtt, ekki þar sem hún er framleidd. Þrátt fyrir það getur raforkuútflutningur, skattlagður til ríkisins, orðið raunhæfur kostur innan fárra áratuga. Ef virkjað er til útflutnings raforku ber að virkja austan lands og norðan þar sem þaðan er styttra að flytja orkuna. Þar er a.m.k. þriðjungur hagkvæmustu vatnsorkunnar. Þá er ástæða til að leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld velji stóriðjuverum stað með hliðsjón af æskilegri byggðaþróun, umhverfismálum og öðrum aðstæðum en láti staðarvalið ekki í hendur erlendra fyrirtækja. Heppilegur undirbúningstími virkjana er talinn 12–15 ár. Þótt nú sé hlé um sinn á virkjunarframkvæmdum er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og undirbúningi og nýta þekkingu og mannafla sem tiltækur er þannig að ekki þurfi að rasa um ráð fram þegar úr rætist. Þess vegna er þessi tillaga flutt.



Fylgiskjal I.


Landsvirkjun:



REPRÓ


5 síður

Fylgiskjal II.


Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf.,
Almenna verkfræðistofan hf.,
Rafhönnun hf.:



Bréf til Landsvirkjunar.


(27. desember 1991.)


    Nýlega áttu undirritaðir fund með aðstoðarforstjóra og forstöðumanni verkfræðideildar Landsvirkjunar.
    Tilefni fundarins var að ræða viðbrögð við því að verkefni þeirra sem staðið hafa að undirbúningi og hönnun vatnsorkuvera muni að óbreyttu dragast stórlega saman á næstu mánuðum. Ástand þetta verður án efa tímabundið en ekki verður með neinni vissu sagt fyrir um hversu lengi það muni vara.
    Viðkomandi hafa því velt fyrir sér spurningunni um í hve ríkum mæli væri réttlætanlegt að sinna áframhaldandi undirbúningi að vatnsorkunýtingu þannig að tiltæk vitneskja og nægur mannafli yrði fyrir hendi þegar að nýju skapast verulega aukin þörf fyrir raforku.
    Ástæður eru til að nýta það lag, sem nú virðist ætla að skapast, til að sinna ýmsum þáttum virkjunarundirbúnings sem í mismunandi mæli hafa orðið út undan undanfarin ár. Verður minnst á nokkur atriði þar að lútandi hér á eftir.
    Vandi þeirra sem unnið hafa að áætlunargerð um orkunýtingu skapast nú af frestun á bygginu álvers á Keilisnesi. Orkuþörf þess yrði um það bil 3 TWh/a og telja má að undirbúningur að því að láta þá orku í té hafi að mestu verið á útboðsgagna- og samningsstigi. Látið hefur verið að því liggja að þar hafi einungis verið um að ræða fyrri áfanga og tvöfalda þyrfti afkastagetu til að fullri hagkvæmni yrði náð. Þá eru uppi hugmyndir um stórfellda orkusölu um sæstreng til Evrópu strax í upphafi næstu aldar og að slíkur orkuflutningur þurfi að nema minnst 7 TWh/a svo hagkvæmt yrði að selja orku á þennan hátt. Samtals yrði þá um að ræða 10 TWh/a til viðbótar, en áætlanir um orkuver til að fullnægja þeirri þörf eru nú einungis á forathugunar- og frumhönnunarstigi.
    Í grófum dráttum má gera ráð fyrir að taka muni allt að 12 ár að undirbúa og byggja síðastnefnd orkuver. Verður því ekki annað séð en að strax þurfi í raun að hefjast handa við slíkan undirbúning ef tryggja á að jafnvel einungis hluti orkunnar yrði tiltækur laust eftir aldamót. Í því sambandi má einnig hafa í huga að náttúruverndar- og umhverfissjónarmið geta tafið undirbúning virkjana og haft í för með sér breytta tilhögun og kostnað.
    Vafi um það hvort af slíkri orkusölu geti orðið hefur að sjálfsögðu áhrif á ákvörðun um nefndan undirbúning. Rétt er hins vegar í því tilliti að benda á að kostnaður fyrstu tvö ár undirbúningstímans verður einungis lítið brot af heildarkostnaði. Miðað við að byrjað væri á undirbúningi að því að nýta u.þ.b. 5 TWh/a yrði lauslega áætlaður kostnaður 60 millj. kr. á fyrra ári og 75 millj. kr. á hinu síðara. Vinna þessi kæmi að notum síðar þótt frekari frestun yrði á framkvæmdum.
    Mikilvægt er að skapa traustan grundvöll að áætlunum um kostnað við áframhaldandi vatnsorkunýtingu. Hér kemur m.a. til álita að hagnýta reynslu af framkvæmdum við Blönduvirkjun og einnig tilboð í Fljótsdalsvirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar. Óvissa ríkir nú helst um ýmsa þætti verkkaupakostnaðar og þá ekki síst um stærsta hluta hans, fjármagnskostnað.
    Fyrir útboð á neðanjarðarvirkjum Blönduvirkjunar töldu margir að áætlanir um framkvæmdakostnað fengjust trauðla staðist og hætta væri á óvæntum erfiðleikum við jarðgangagerðina. Mönnum yfirsást að jarðgöng höfðu áður verið sprengd á Íslandi án þess að óyfirstíganlegir erfiðleikar hefðu komið upp. Erfitt reyndist hins vegar að staðfesta hvort og þá í hve ríkum mæli kostnaður hefði farið úr böndum þar sem vanrækt hafði verið að halda til haga og hagnýta reynslu af fyrri framkvæmdum. Dæmi þetta sýnir þörf á því að reynsla af jarðgangagerð við Blöndu og veggangagerð í Ólafsfjarðarmúla verði skjalfest tryggilega með hliðsjón af því sem vænta megi við síðari jarðgangagerð.
    Ný tækni við jarðgangagerð ryður sér nú til rúms, nafargöng (heilboruð eða vélboruð göng). Mikilvægt er að kanna hver áhrif þessa eru á áætlaðan kostnað við vatnsorkunýtingu og þá e.t.v. ekki síst á áætlaðan kostnað við virkjun Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú (Austurlandsvirkjun) sem er langálitlegasti virkjunarkosturinn ef ráðist verður í stórfellda orkusölu um sæstreng til Evrópu. Hér kæmi m.a. til álita að hagnýta upplýsingar sem liggja fyrir í tilboðum í jarðgöng Fljótsdalsvirkjunar.
    Góður undirbúningur, sem stuðlar að hagkvæmri hönnun mannvirkja og áreiðanlegri áætlunargerð um kostnað, er að sjálfsögðu mikilvægur þáttur í virkjunarundirbúningi, en vel grundvallaðar áætlanir um orku virkjananna eru þó ekki síður mikilvægar. Ákvarðanir á orku einstakra virkjana hafa á undanförnum árum verið of sundurleitar til að vekja almennt traust á niðurstöðum þar að lútandi. Brýna nauðsyn ber því til að gaumgæfa þetta atriði, en vandinn virðist fólginn í því að lítt breyttar forsendur hafa óeðlilega mikil áhrif á niðurstöður. Tekið skal fram að sami vandi virðist ekki vera uppi á teningnum þegar um er að ræða orku heilla virkjunarkerfa.
    Hér að framan hefur verið fjallað um nokkur atriði er varða undirbúning að vatnsorkunýtingu. Fleira mætti tína til, en í stuttu máli gæti það allt falist í samræmdum hönnunarforsendum um þessi efni. Unnið hefur verið að gerð slíkra forsendna en langur vegur er frá því að þær hafi hlotið viðurkenningu hvað þá heldur staðfestingu allra aðila sem um þessi mál fjalla. Samning hönnunarforsendna er yfirgripsmikið verk en mikilvægi þeirra er óumdeilanlegt. Má í því tilliti benda á þann kostnaðarauka við virkjunarframkvæmdir sem í ýmsum tilvikum hefur átt sér stað vegna óljósra krafna um öryggi og notagildi. Síðastnefnt atriði leiðir hugann að sérstakri athugun á því hvernig lækka mætti virkjunarkostnað almennt.
    Til þessa hefur einungis verið fjallað um þann þátt er lýtur að orkuöflun. Að því er varðar orkuflutning má benda á að engar fullnægjandi áætlanir liggja fyrir um heildarfyrirkomulag á meginflutningskerfi landsins. Forsendur slíkrar áætlunargerðar eru að sjálfsögðu stærð og dreifing orkuvera á landshluta svo og staðsetning framtíðarbyggðarkjarna, stóriðju og landtökustaða sæstrengja. Brýna nauðsyn virðist bera til að bera saman mismunandi tilhögun hér að lútandi með lágmörkun á kostnaði í huga.
    Markmið með þessum hugleiðingum er að sýna fram á þörf á áframhaldandi undirbúningi að nýtingu vatnsorkunnar þannig að virkjunaraðilar verði betur í stakk búnir til að koma til móts við væntanlega stóraukna þörf fyrir raforku. Um leið væri unnt að leysa fyrirsjáanlegan vanda þeirra sem undanfarið hafa unnið að þessum málum.
    Vér vonum að þér séuð oss sammála um þörf á áframhaldandi undirbúningi að nýtingu vatnsorku á Íslandi og erum reiðubúnir til nánari tillögugerðar þar að lútandi sé þess óskað.

Virðingarfyllst,


Svavar Jónatansson, AV hf.


Gunnar Ámundason, Rafhönnun hf.


Loftur Þorsteinsson, VST hf.





Áætlaður stofnkostnaður starfræktra og fyrirhugaðra virkjana.


(Verðlag í desember 1990.)



Afl

Orka

Stofnkostn.

Samr.kostn.

Einingarkostn.


N

E

K

Ks

Ks/E


Orkuvirki

MW

GWh/a

M.kr.

M.kr.

kr/(kWh/a)




  *Kvíslaveita, Þórisvatnsmiðlun     
9.075
   Stórasjávarmiðlun     
4.250
**Vatnsfellsvirkjun     
100,0
385 6.835 6.111 15,87
   Bjallavirkjun     
70,0
330 8.115 7.832 23,73
  *Sigölduvirkjun     
150,0
795 14.160 15.010 18,88
  *Hrauneyjafossvirkjun     
210,0
1.085 12.520 13.500 12,44
**Búðarhálsvirkjun     
110,0
545 10.520 10.859 19,92
**Norðlingaölduvirkjun     
28,0
130 30.850 28.286 22,36
**Gljúfurleitarvirkjun     
264,0
1.135
**Sultartangavirkjun 1)
    
110,0
795 15.080 17.290 21,75
  *Búrfellsvirkjun 2)
    
317,3
2.345 21.270 28.032 11,95
**Núpsvirkjun     
94,0
585 10.300 11.482 19,63
**Búðafossvirkjun     
84,5
520 10.050 11.069 21,29
**Urriðafossvirkjun     
150,0
975 15.530 17.727 18,18
   Ábótavirkjun     
37,7
210 6.180 21.893 17,10
   Stóraversvirkjun     
189,3
1.070 15.980
   Haukholtavirkjun     
58,5
340 6.500 6.490 19,09
   Hestvatnsvirkjun     
41,0
265 6.950 7.099 26,79
  *Blönduvirkjun     
150,0
780 12.630 12.070 15,47
**Stafnsvatnavirkjun     
140,0
665 12.990 12.101 18,20
**Villinganesvirkjun     
35,0
225 3.705 3.825 17,00
**Íshólsvatnsvirkjun     
73,0
465 8.015 8.240 17,72
**Hafrahvammavirkjun 3)
    
485,0
2.965 116.935 119.667 13,64
**Brúarvirkjun 3)
    
937,0
5.810
  *Fljótsdalsvirkjun     
210,0
1.300 19.865 20.292 15,61
**Lagarfossvirkjun 4)
    
70,8
385 7.585 7.419 19,27
   Fjarðarárvirkjun     
20,0
100 3.140 3.042 30,42
  *Sogsvirkjanir     
88,8
490 9.945 9.778 19,96
  *Laxárvirkjanir     
20,5
155 4.355 4.560 29,42
  *Smávirkjanir     
35,8
150 6.670 6.326 42,17

    Samtals     
4.280,2
25.000 410.000 410.000 16,40

1) Stífla og virkjun,
2) með aflaukningu,
3) Jökulsárveita og dýpkun á farvegi Lagarfljóts meðtalin,
4) með núverandi virkjun, 50 GWh/a.
  *Núv. + álver (3 TWh/a) . 7,2 TWh/a.
**Viðb. (3+7 = 10 TWh/a) . 15,2 TWh/a — hér þarf að velja og hafna og athuga fleiri kosti (Hraunav. o.fl.).

Fylgiskjal III.


Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf.:


AUSTURLANDSVIRKJUN



VIRKJUN JÖKULSÁR Á FJÖLLUM OG JÖKULSÁR Á BRÚ



SAMANBURÐARÁÆTLANIR



(Setja í stað hauss á 1. síðu í bók.)



REPRÓ


29 síður