Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 60 . mál.


446. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Til fundar við nefndina komu Ari Edwald, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Einar Torfason, forstöðumaður Bifreiðaprófa ríkisins, Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs, og Birgir Hákonarson og Jón Baldur Þorbjörnsson frá Bifreiðaskoðun Íslands hf. Nefndinni bárust enn fremur skriflegar umsagnir og bréf frá Áhugahópi um bætta umferðarmenningu, Bandalagi íslenskra leigubílstjóra, Bindindisfélagi ökumanna, Bílgreinasambandinu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, landlækni, Landssambandi íslenskra akstursíþróttafélaga, Landssambandi vörubifreiðastjóra, lögreglustjóranum í Reykjavík, menntamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Slysavarnafélagi Íslands, Umferðarráði, Vegagerð ríkisins, Ökukennarafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að Umferðarráð skuli hafa með höndum umsjón með ökunámi og eftirlit með ökukennslu og annast ökupróf undir yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins. Það samræmist hlutverki stofnunarinnar og þeirri þekkingu á umferðarmálum sem hún hefur yfir að ráða. Þessi tilhögun skapar og tengsl milli stofnunarinnar og ökunema, foreldra og ökukennara og eykur þannig möguleika hennar á að ná árangri í starfi sínu. Í dómsmálaráðuneytinu er nú unnið að setningu reglugerðar um ökuskírteini, ökukennslu, próf ökumanna o.fl. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að þar verði kveðið á um þær gæðakröfur sem gera á til ökunámsins, m.a. að því er varðar námsskrár og námsefni og þær kröfur sem þeir aðilar verða að uppfylla sem ætla að annast ökukennslu. Auk faglegra sjónarmiða mæla rekstrarleg sjónarmið með því að færa umsjón ökukennslu frá Bifreiðaprófum ríkisins til Umferðarráðs. Fjárhagslega hagkvæmara er að starfrækja eina stofnun á þessu sviði en tvær.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagt er til að Áhugahópur um bætta umferðarmenningu fái sæti í Umferðarráði. Þau samtök hafa auk þess félagsskapar sem getið er í 2. gr. frumvarpsins óskað eftir að eiga fulltrúa í Umferðarráði. Þykja engar ástæður mæla gegn því. Umferðarráð er fyrst og fremst vettvangur umræðu um umferðarmál og er eftirsóknarvert að sem flestir sem hlut eiga að máli eigi rödd í ráðinu. Eðlilegt er að það verði athugað við almenna endurskoðun á umferðarlögum sem nú stendur yfir.
    Lagt er til að síðasti málsliður 3. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins falli brott. Niðurlag þess málsliðar, sem kveður á um að samþykki dómsmálaráðuneytisins þurfi til ráðningar starfsfólks Umferðarráðs, hefur sætt nokkurri gagnrýni. Bent hefur verið á að heppilegra sé að Umferðarráð geti ráðið til sín starfsfólk án samþykkis ráðuneytisins. Nefndin styður það sjónarmið. Ef niðurlagi málsliðarins er sleppt þykir rétt að fella hann allan niður. Í ákvæðinu er þá einungis getið um frávik frá því sem annars mundi vera, þ.e. að skipun framkvæmdastjóra megi vera tímabundin, en um annað fer eftir almennum stjórnsýslureglum.
    Lagt er til að lögin taki gildi 1. maí 1992. Ákvæði 5. gr. frumvarpsins um gildistöku á ekki lengur við.

Alþingi, 25. febr. 1992.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Björn Bjarnason.


form., frsm.

með fyrirvara.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Össur Skarphéðinsson.