Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 245 . mál.


465. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Bjarnasonar um rannsóknir á háhitasvæði í Öxarfirði.

    Hvaða fjármunum hefur verið varið af hálfu ríkisins til rannsókna á háhitasvæðinu í Öxarfirði?
    Rannsóknir Orkustofnunar í Öxarfirði til þessa hafa verið af þrennum toga:
    a. Rannsóknir á háhita.
    b. Rannsóknir á náttúrulegum aðstæðum til fiskeldis.
    c. Rannsóknir á uppruna jarðgass í setlögum Öxarfjarðar.
    Hér verður eingöngu fjallað um rannsóknir Orkustofnunar á háhita og það sem þeim tengist. Rannsóknir á háhita hófust 1973 og héldu áfram nokkuð óslitið út árið 1977. Á þessum tíma var megináhersla lögð á viðnámsmælingar vítt og breitt um Öxarfjörð. Þessi áfangi rannsóknanna var í einu og öllu fjármagnaður af almennum fjárveitingum ríkisins til Orkustofnunar, en upplýsingar um kostnað þessa áfanga rannsóknanna eru ekki aðgengilegar.
    Árið 1984 var aftur hafist handa um rannsóknir á háhita í Öxarfirði og hafa rannsóknir staðið yfir fram á árið 1990. Hluti þessa síðari áfanga rannsóknanna tengdist fiskeldi (sbr. b-lið hér að framan), þ.e. borun 70 m rannsóknarholu B-1 við Bakkahlaup og viðbót við viðnámsmælingar áranna 1973–1977. Var sá hluti áfangans því að nokkru fjármagnaður af framlagi frá heimamönnum. Á verðlagi miðs árs 1991 nam heildarkostnaður rannsókna þessara 19,6 millj. kr.

    Hvaða fjármunum hefur verið varið af hálfu heimamanna (sveitarfélaga, fyrirtækja eða einstaklinga) til sömu rannsókna?
    Framlag heimamanna til framangreindra rannsókna hefur numið 351 þús. kr. Þeir hafa einnig lagt fram hærri fjárhæð til rannsókna á lághita.

    Er algengt að heimamenn leggi fram fjármuni til frumrannsókna af þessu tagi?
    Mjög algengt er að fyrirtæki, sveitarfélög og jafnvel einstaklingar fjármagni að talsverðu leyti frumrannsóknir á jarðhita innan sinna áhrifasvæða, marka sveitarfélagsins eða landareigna. Má þar nefna framlög Hitaveitu Reykjavíkur til rannsókna í Henglinum og á Ölkelduhálsi, Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi og Lindarlax hf. í Trölladyngju. Hlutdeild slíkra aðila hefur farið vaxandi á síðari árum eftir því sem framlag ríkisins til jarðhitarannsókna hefur minnkað.

    Hvernig var staðið að þessum rannsóknum á sl. ári og hverjar voru niðurstöður þeirra?
    Ekki var með beinum hætti unnið að háhitarannsóknum í Öxarfirði á sl. ári, en hins vegar var varið fé til þess að kanna með borun uppruna lífræns gass. Til þess var varið 11,2 millj. kr. Þessi borun gaf einnig upplýsingar um eðli jarðhita í Öxarfirði. Unnið hefur verið að gerð heildarskýrslu um rannsóknir háhitans í Öxarfirði, en henni er ekki lokið.

    Er iðnaðarráðuneytið eða Orkustofnun með einhverjar áætlanir um áframhaldandi rannsóknir á þessu svæði, þar með talin athugun á uppruna lífræns gass sem upp kom við boranir í Öxarfirði árið 1988?
    Samstarfsverkefni, sem að standa Landsvirkjun, Hitaveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og Orkustofnun, er í uppsiglingu í ár. Áætlað er að verkið nái til nokkurra ára og beinist að kerfisbundinni rannsókn háhitasvæða landsins með vinnslu raforku í huga. Á þessu ári eru veittar 5,3 millj. kr. af fjárveitingu til Orkustofnunar í þetta verkefni og er gert ráð fyrir 5,9 millj. kr. framlagi frá framangreindum orkufyrirtækjum til verksins. Auk þess er gert ráð fyrir að nokkrum hluta almennrar fjárveitingar Orkustofnunar verði varið beint til verkefnisins. Í áætlunum fyrir þetta verkefni er gert ráð fyrir að næsta stig rannsókna í Öxarfirði verði borun djúprar rannsóknarholu í meint háhitasvæði við Bakkahlaup.
    Ekki er áformað að halda áfram rannsóknum á uppruna lífræns gass úr setlögum Öxarfjarðar á þessu ári að öðru leyti en því að ljúka skýrslu um niðurstöður sl. árs. Búist er við að hún verði tilbúin til útgáfu í mars næstkomandi. Tillögur Orkustofnunar um framhald rannsókna, er tengjast lífrænu gasi, verða síðan gerðar á grundvelli framangreindrar skýrslu.