Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 31 . mál.


481. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Birgi Ísl. Gunnarsson seðlabankastjóra, Bjarna Braga Jónsson aðstoðarseðlabankastjóra og Má Guðmundsson, forstöðumann í hagfræðideild Seðlabanka Íslands. Að auki barst erindi frá viðskiptaráðuneytinu.
    Nefndin leggur til að tvær breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að kveðið verði á um það í lögum um Seðlabanka að gjaldeyrisvarasjóður skuli varðveittur, eftir því sem unnt er, í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innlánum og gjaldeyri sem nota má til greiðslu hvar sem er. Því er gerð tillaga um að ný grein bætist við frumvarpið. Í öðru lagi er lagt til að orðalagi 2. gr. frumvarpsins verði breytt að hluta og jafnframt að við hana verði aukið ákvæðum. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að taka ákvörðun um að gengi krónunnar skuli skilgreint gagnvart einum gjaldmiðli, meðaltali erlendra gjaldmiðla eða samsettum gjaldmiðli og skal ákvörðunin birt í Stjórnartíðindum. Unnt verði að ákveða sérstakt hámarks- og lágmarksgengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri erlendu gengisviðmiðun sem valin hefur verið. Auk þessa er lögð til breyting á 2. og 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Geir H. Haarde tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Sólveigar Pétursdóttur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 26. febr. 1992.



Matthías Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Halldór Ásgrímsson,


form., frsm.

með fyrirvara.



Steingrímur J. Sigfússon,

Guðrún J. Halldórsdóttir,

Geir H. Haarde.


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Ingi Björn Albertsson.

Vilhjálmur Egilsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


með fyrirvara.