Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 23 . mál.


493. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um sparisjóði, nr. 87 4. júlí 1985.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þetta frumvarp samhliða 22. máli, um viðskiptabanka, enda gera bæði frumvörpin ráð fyrir að upp verði teknar svonefndar BIS-reglur er fjalla um lágmark og útreikning eigin fjár innlánastofnana. Hefur nefndin kallað á sinn fund sömu aðila og komu vegna 22. máls og sömu umsagnir hafa verið hafðar til hliðsjónar. Þó hefur umsögn Sambands íslenskra sparisjóða verið sérstaklega könnuð með tilliti til þessa máls.
    Nefndin leggur til sömu breytingar á heitum þeirra þátta sem eigið fé innlánsstofnunar skal samsett úr við útreikning á eiginfjárhlutfalli og lagðar eru til í 22. máli, að notuð verði heitin „eiginfjárþáttur A“ og „eiginfjárþáttur B“ í stað orðanna „hreint eigið fé“ og „blandað eigið fé“. Að sama skapi er lagt til að afskriftareikningur vegna almennrar útlánaáhættu verði fluttur úr eiginfjárþætti B í eiginfjárþátt A. Þá er lagt til að í upptalningu á eiginfjárþætti A verði ekki notað orðið „hlutabréf“ heldur orðið „stofnfjárhluti“ þar sem hér er um sparisjóð en ekki hlutafélag að ræða.
    Í b- og c-liðum 1. tölul. breytingartillagnanna eru lagðar til breytingar sem varða eignarhlut sparisjóða í Lánastofnun sparisjóðanna. Hefur að nokkru verið tekið tillit til athugasemda frá Sambandi íslenskra sparisjóða með því að eignarhlutur sparisjóðs umfram 10% af hlutafé í Lánastofnun sparisjóða er undanskilinn skyldu til frádráttar eigin fé eins og var í upphaflega frumvarpinu. Eignarhlutir í Lánastofnun sparisjóðanna koma hins vegar til frádráttar samkvæmt ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins hvort sem þeir eru yfir eða undir 10% af hlutafé Lánastofnunar sparisjóðanna.
    Að lokum er lögð til orðalagsbreyting á ákvæði til bráðabirgða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Stefánsson tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Halldórs Ásgrímssonar og Magnús Jónsson í stað Rannveigar Guðmundsdóttur.

Alþingi, 4. mars 1992.



Matthías Bjarnason,

Magnús Jónsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Steingrímur J. Sigfússon.



Vilhjálmur Egilsson.

Ingi Björn Albertsson.

Guðmundur Stefánsson.