Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 507 . mál.


808. Frumvarp til laga



um Seðlabanka Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



I. KAFLI


Staða og markmið.


1. gr.


Staða.


    Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Hann lýtur sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum.
     Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans.

2. gr.


Heimili og varnarþing.


     Heimili og varnarþing Seðlabankans er í Reykjavík.

3. gr.


Markmið.


     Meginmarkmið Seðlabankans er að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins og stuðla að stöðugu verðlagi.
    Enn fremur skal hann:
    Stuðla að virkri og öruggri starfsemi á fjármagnsmarkaði.
    Varðveita nægjanlegan gjaldeyrisvarasjóð til þess að greiða fyrir frjálsum viðskiptum við útlönd og treysta fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.
    Stuðla að greiðri og hagkvæmri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

II. KAFLI


Gjaldmiðill Íslands.


4. gr.


Gjaldmiðill Íslands.


    Gjaldmiðill Íslands nefnist króna. Í hverri krónu eru hundrað aurar.
     Seðlabankinn hefur einkarétt til að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil er geti gengið manna á milli í stað löglegra peningaseðla og löglegrar myntar. Bankinn ákveður hvort slegin skuli og gefin út mynt í aurum.
     Seðlar, mynt og annar gjaldmiðill, sem Seðlabankinn gefur út, skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.

5. gr.


Lögun, útlit og ákvæðisverð peninga.


     Seðlabankinn ákveður gerð, lögun, útlit og fjárhæð seðla þeirra og myntar sem bankinn gefur út. Hann skal birta auglýsingu um það efni í Lögbirtingablaðinu. Sama gildir um gerð, þunga, stærð og málmblöndu myntarinnar.

6. gr.


Skemmdir eða slitnir peningar.


    
Peningaseðlar og slegnir peningar, sem eru svo skemmdir eða máðir að númer, áletranir eða ákvæðisverð verður ekki örugglega greint, teljast ekki lögmætur gjaldmiðill. Seðlabankanum er þó heimilt að leysa til sín seðla og slegna peninga með fullu verði eða hluta af verði. Ákvarðanir þar að lútandi skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

7. gr.


Innköllun peninga.


    
Seðlabankanum er heimilt að innkalla einstakar gerðir peningaseðla og sleginna peninga sem í umferð eru. Ákvarðanir þar að lútandi skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Innkallaðir peningaseðlar og slegnir peningar hætta að vera lögeyrir einu ári eftir birtingu auglýsingar bankans.
     Seðlabankanum er þó skylt að taka við innkölluðum peningaseðlum og slegnum peningum með fullu ákvæðisverði, sbr. þó 6. gr., í a.m.k. fimm ár frá birtingu auglýsingar um innköllun skv. 1. mgr.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd innköllunar hverju sinni. Reglurnar skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.
     Ákvæði 1. mgr. taka ekki til almennrar innköllunar gjaldmiðils.

8. gr.


Fjárhæðir krafna og reikninga.


    
Seðlabankanum er heimilt að ákveða að fjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skuli
greind með heilum tug aura eða aurum sleppt. Ákvarðanir þar að lútandi skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

9. gr.


Takmörkun á skyldu til að taka við slegnum peningum.


    
Eigi eru aðrir en innlánsstofnanir skyldugir að taka við greiðslu í einu á meira fé en
500 krónum í slegnum peningum.

III. KAFLI


Innlend viðskipti.


10. gr.


Innstæður lánastofnana.


    
Seðlabankinn tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Honum er einnig heimilt að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum.
    Seðlabankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal hvaða lánastofnunum öðrum en innlánsstofnunum er heimilt að eiga innstæður í bankanum.

11. gr.


Lánveitingar til lánastofnana.


    
Seðlabankinn getur veitt lánastofnunum, sem innlánsviðskipti geta átt við bankann, sbr. 10. gr., lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt. Bankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein.
     Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins getur hann að höfðu samráði við ráðherra veitt lánastofnunum önnur lán en um ræðir í 1. mgr.

12. gr.


Viðskipti með verðbréf.


    
Til að ná markmiðum sínum í peningamálum kaupir og selur Seðlabankinn ríkistryggð verðbréf og önnur trygg, innlend og erlend markaðsverðbréf.

13. gr.


Útgáfa verðbréfa til lánastofnana.


    
Seðlabankanum er heimilt að gefa út verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja
lánastofnunum sem geta átt innlánsviðskipti við hann. Óheimilt er að framselja slík verðbréf til annarra en lánastofnana sem innlánsviðskipti geta átt við bankann.

14. gr.


Vextir í viðskiptum bankans.


    
Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann, af lánum sem hann veitir og
verðbréfum sem hann gefur út.

15. gr.


Bindiskylda.


    
Seðlabankanum er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum sem nemi tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé eða innlánsfé þeirra. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar samkvæmt þessari grein, þar á meðal til hvaða lánastofnana hún tekur. Í þeim má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir flokkum lánastofnana, flokkum innlána og annarra skulda sem bindingin nær til.

16. gr.


Laust fé lánastofnana.


    
Seðlabankinn setur reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana svo þær hafi ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi þeirra fylgja. Með lausu fé er átt við peninga í sjóði, óbundnar nettóinnstæður í innlendum og erlendum innlánsstofnunum, ríkisvíxla og aðrar sambærilegar nettóeignir með skemmri binditíma en 90 daga.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar, þar á meðal til hvaða lánastofnana hún tekur og hvaða eignir teljist til lauss fjár. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana.

17. gr.


Bankaþjónusta fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir.


    
Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs og annast fyrir hann hvers konar bankaþjónustu. Innstæður ríkissjóðs skulu vera í bankanum eftir því sem við verður komið.
     Seðlabankanum er heimilt að veita ríkisstofnunum og sjóðum í eigu ríkisins bankaþjónustu, aðra en lánafyrirgreiðslu.
     Seðlabankanum er heimilt að annast innlendar og erlendar lántökur ríkissjóðs og þeirra aðila sem ríkisábyrgðar njóta, þar með talda útgáfu verðbréfa þessara aðila.

18. gr.


Upplýsingar um ríkisfjármál.


    
Fjármálaráðherra skal veita Seðlabankanum þær upplýsingar um ríkisfjármál, sem bankinn telur nauðsynlegar til að ná markmiðum sínum í peningamálum, þar á meðal reglulegar upplýsingar um greiðsluáætlanir ríkissjóðs og áform hans um lántökur á innlendum og erlendum markaði.

19. gr.


Lánveitingar til opinberra aðila.


    
Seðlabankanum er óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán.
     Verðbréf, sem gefin eru út af þeim aðilum sem um ræðir í 1. mgr. og Seðlabankinn kaupir á verðbréfamarkaði eða af lánastofnunum til að ná markmiðum sínum í peningamálum, skulu ekki teljast lán samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

20. gr.


Önnur banka- og verðbréfaviðskipti.


    
Seðlabankinn stundar önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Í því skyni er bankanum m.a. heimilt að eiga aðild að fyrirtækjum og stofnunum á sviði verðbréfa- og greiðslumiðlunar.
     Seðlabankanum er óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Honum er þó heimilt að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður hefur gefið út.

IV. KAFLI


Gengismál og erlend viðskipti.


21. gr.


Gengisskráning.


    
Seðlabankinn ákveður, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið, þar með talið hvort og með hvaða hætti gengi krónunnar miðist við erlendar myntir. Meðal annars er heimilt að ákveða að gengi krónunnar skuli skilgreint gagnvart einum erlendum gjaldmiðli, meðaltali erlendra gjaldmiðla eða samsettum gjaldmiðli, svo sem evrópsku mynteiningunni (ECU) og sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR). Heimilt er að ákveða sérstakt hámarks- og lágmarksgengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri gengisviðmiðun sem valin hefur verið. Bankinn getur með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri eða öðrum aðgerðum, sem hann telur nauðsynlegar, hlutast til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.
     Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið ákveðið að takmarka viðskipti með erlendan gjaldeyri. Í því skyni getur hann fellt niður gengisskráningu skv. 22. gr. og takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulögðum gjaldeyrismarkaði.
     Birta skal opinberlega ákvarðanir Seðlabankans um skipan gengisskráningar skv. 1. mgr.

22. gr.


Opinbert viðmiðunargengi.


    
Hvern þann dag, sem bankastofnanir eru almennt opnar til viðskipta, skal Seðlabankinn á þeim tíma dags, sem hann ákveður, skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin.

23. gr.


Gjaldeyrisviðskipti.


    
Seðlabankinn kaupir og selur erlendan gjaldeyri og verðbréf sem erlendir ríkissjóðir hafa gefið út eða önnur trygg og auðseljanleg verðbréf í erlendri mynt til að ná markmiðum sínum í peningamálum og sinna hlutverki sínu í gengis- og gjaldeyrismálum, sbr. 21. og 24. gr. Bankanum er jafnframt heimilt að skipuleggja hér á landi markað þar sem slík viðskipti fara fram. Bankinn setur reglur um viðskipti á skipulögðum gjaldeyrismarkaði.
     Seðlabankinn annast framkvæmd og eftirlit í gjaldeyrismálum eftir því sem ákveðið er í lögum um gjaldeyrismál eða öðrum lögum.

24. gr.


Gjaldeyrisvarasjóður.


    
Seðlabankinn varðveitir gjaldeyrisvarasjóð landsins. Hann skal varðveittur, eftir því
sem unnt er, í gulli, tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innstæðum í erlendum gjaldmiðlum, erlendum peningaseðlum eða slegnum peningum sem nota má til greiðslu í alþjóðaviðskiptum, sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR) eða öðrum sambærilegum eignum.
     Seðlabankanum er heimilt að taka lán erlendis til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Honum er jafnframt heimilt að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra banka- og fjármálastofnana um lánveitingar til að efla gjaldeyrisvarasjóð þátttakenda.

25. gr.


Aðild að alþjóðlegum stofnunum.


    
Seðlabankinn hefur með höndum samskipti og viðskipti við alþjóðlegar stofnanir í umboði ríkisstjórnarinnar eftir því sem óskað er eða honum er falið með lögum.
     Seðlabankinn er fyrir hönd ríkisins fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Honum er jafnframt heimilt að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka.

26. gr.


Önnur erlend viðskipti.


    
Seðlabankinn annast gerð og framkvæmd greiðslusamninga við önnur ríki. Enn fremur stundar hann önnur erlend viðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka.

V. KAFLI


Bankaeftirlit.


27. gr.


Eftirlit með fjármálastofnunum.


    
    Seðlabankinn hefur eftirlit með því að lánastofnanir og aðrar fjármálastofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir eða það sem telja má eðlilega viðskiptahætti nema eftirlitið sé falið öðrum með lögum.

28. gr.


Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands.


    
Eftirlit Seðlabankans með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum skal falið sérstakri deild í bankanum er nefnist bankaeftirlit. Bankaeftirlitið starfar undir yfirstjórn bankastjórnar.
    Bankaráð ræður forstöðumann bankaeftirlitsins samkvæmt tillögu bankastjórnar. Forfallist forstöðumaðurinn um stundarsakir getur bankaráð samkvæmt tillögu bankastjórnar sett mann tímabundið í stöðu hans.
     Seðlabankinn hefur samráð við ráðuneytið um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins og gefur ráðuneytinu skýrslu um starfsemi þess eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

29. gr.


Starfsemi bankaeftirlitsins.


    
Bankaeftirlitið athugar bókhald og reikninga lánastofnana og annarra fjármálastofnana og kannar að öðru leyti fjárhag og starfsemi þeirra svo oft sem þurfa þykir. Þeim er skylt að veita bankaeftirlitinu aðgang að öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum, verðmætum og öðrum gögnum í vörslu stofnunarinnar er varða starfsemina og veita að öðru leyti þær upplýsingar sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegar til eftirlits með þeim hætti og svo oft sem óskað er.
     Bankaeftirlitið fylgist með því að útlán og aðrar skuldbindingar viðskiptaaðila við lánastofnun eða aðra fjármálastofnun séu í samræmi við þá áhættu sem í viðskiptunum felst með hliðsjón af greiðslutryggingum, fjárhagslegum styrkleika stofnunarinnar og eigin fé hennar. Sama gildir um heildarskuldbindingar fleiri en eins viðskiptamanns sem eru svo fjárhagslega tengdir að skoða verður sameiginlegar skuldbindingar þeirra við lánastofnun eða aðra fjármálastofnun með tilliti til útlánaáhættu.

30. gr.


Reglur um fjárhagslegt öryggi fjármálastofnana.


    
Seðlabankinn setur nánari reglur um ýmsa þætti í starfsemi lánastofnana og annarra
fjármálastofnana sem snerta fjárhagslegt öryggi þeirra, svo sem ákvæði um jöfnuð gengis- og vísitölubundinna eigna og skulda, um leiðir til að draga úr vaxtaáhættu, um hámark lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra lántakenda og um útreikning eiginfjárhlutfalls. Reglur þessar skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

31. gr.


Réttur bankaeftirlitsins til íhlutunar um starfsemi fjármálastofnana.


    Komi í ljós við athuganir bankaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum þessa kafla að lánastofnun eða önnur fjármálastofnun fylgi ekki lögum og öðrum reglum sem gilda um starfsemi hennar skal bankaeftirlitið krefjast úrbóta innan ákveðins frests.
     Telji bankaeftirlitið að stjórn lánastofnunar eða annarrar fjármálastofnunar hafi vanrækt skyldu sem á henni hvílir samkvæmt lögum, reglugerðum eða samþykktum getur bankaeftirlitið boðað til fundar í stjórn stofnunarinnar um leiðir til úrbóta. Fulltrúi bankaeftirlitsins situr fundinn með málfrelsi og tillögurétti og stýrir honum.
     Sé kröfum eða athugasemdum bankaeftirlitsins um úrbætur ekki sinnt getur það gripið til viðurlaga gagnvart lánastofnun eða öðrum fjármálastofnunum, sbr. 49. gr. Bankaeftirlitinu er þá einnig heimilt að skipa fulltrúa sinn eftirlitsmann með viðkomandi stofnun. Er stofnuninni skylt að veita eftirlitsmanninum aðgang að upplýsingum, sbr. 29. gr., og veita að öðru leyti þær upplýsingar sem eftirlitsmaðurinn óskar eftir. Eftirlitsmaðurinn hefur rétt til að sitja fundi í stjórn stofnunarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Kostnaður við störf eftirlitsmanns greiðist af viðkomandi lánastofnun eða fjármálastofnun.
     Telji Seðlabankinn brýna ástæðu til getur hann að fengnu samþykki ráðherra tekið stjórn lánastofnunar eða annarrar fjármálastofnunar í sínar hendur í allt að þrjá mánuði. Ráðherra er heimilt að framlengja tímabilið um allt að þrjá mánuði að tillögu Seðlabankans.
     Bankaeftirlitið skal gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur lánastofnunar eða annarrar fjármálastofnunar óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti enda þótt ákvæði 1. og 2. mgr. eigi ekki við.
     Kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir bankaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skulu þegar í stað tilkynntar ráðherra, bankaráði Seðlabankans, bankaráði hlutaðeigandi viðskiptabanka og félagsstjórn sé um aðra lánastofnun eða fjármálastofnun að ræða.

VI. KAFLI


Skýrslugerð.


32. gr.


Hagskýrslugerð og upplýsingar til almennings.


    
Seðlabankinn gerir skýrslur og áætlanir um peningamál, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bankans varðar. Hann birtir opinberlega sem rækilegastar upplýsingar um þau efni og skýrir stefnu sína og aðgerðir á þeim sviðum.
     Skylt skal öllum aðilum, sem hlut eiga að máli, að láta Seðlabankanum í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar. Bankinn nýtur í þessu efni sömu réttinda og Hagstofa Íslands og liggja sömu viðurlög við ef út af er brugðið.

33. gr.


Skýrslur til Alþingis og ríkisstjórnar.


    
Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en tvisvar á ári gera Alþingi og ríkisstjórn skriflega grein fyrir þróun í peningamálum, gengis- og gjaldeyrismálum og aðgerðum sínum á þeim sviðum. Í greinargerð bankans skal einnig fjallað um horfur í þessum efnum svo og stefnu bankans.

VII. KAFLI


Stjórnskipulag.


34. gr.


Yfirstjórn.


    Viðskiptaráðherra fer með málefni Seðlabankans. Stjórn hans er í höndum bankaráðs og bankastjórnar svo sem mælt er fyrir í lögum þessum.

35. gr.


Samskipti við ríkisstjórn.


     Seðlabankanum er skylt að hafa samráð við ríkisstjórn um mótun og framkvæmd stefnu í peningamálum, gengis- og gjaldeyrismálum og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt er varðar þau mál.
     Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi sem hann telur það ekki ganga gegn markmiðum sínum skv. 3. gr.
     Ríkisstjórnin veitir Seðlabankanum þær upplýsingar um efnahagsmál sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi hans.

36. gr.


Skipan bankaráðs.


    
Bankaráð Seðlabankans skipa fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi til
fjögurra ára í senn ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur lánastofnana eða fjármálastofnana, sem Seðlabankinn hefur eftirlit með, til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins. Bankaráðsmenn skulu hafa óflekkað mannorð og víðtæka þekkingu á efnahagsmálum.
     Ráðherra skipar formann og varaformann bankaráðs úr hópi aðalmanna. Taki nýr ráðherra við störfum getur hann skipað nýjan formann og varaformann.
     Ráðherra ákveður þóknun bankaráðsmanna.

37. gr.


Starfshættir bankaráðs.


    
Formaður bankaráðs kallar bankaráð saman til fundar. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar einn eða fleiri bankaráðsmenn æskja þess. Fundir bankaráðs eru lögmætir ef a.m.k. þrír bankaráðsmenn eru á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Á fundum bankaráðs skal halda gerðabók.
     Bankastjórar sitja fundi bankaráðs og taka þátt í umræðum. Þeir skulu þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður. Bankastjórn hefur tillögurétt á fundum bankaráðs.

38. gr.


Verkefni bankaráðs.


    
Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Seðlabankans og er bankastjórn til ráðuneytis um stefnu bankans í peningamálum, gengis- og gjaldeyrismálum og um meginþætti í starfsemi hans. Sérstaklega skal bankaráð sinna eftirtöldum verkefnum:
    Taka að fengnum tillögum bankastjórnar ákvörðun um útgáfu, gerð, lögun, útlit, verðgildi, innlausn og innköllun peningaseðla og sleginna peninga.
    Vera bankastjórn til ráðuneytis um reglur bankans um viðskipti bankans með verðbréf skv. 12. og 13. gr., vexti í viðskiptum bankans skv. 14. gr., bindiskyldu skv. 15. gr., laust fé lánastofnana skv. 16. gr. og fyrirkomulag gengisskráningar skv. 21. gr.
    Vera bankastjórn til ráðuneytis um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins og staðfesta reglur um fjárhagslegt öryggi fjármálastofnana, sbr. 30. gr. Enn fremur skal bankaráð gera tillögu til ráðherra um yfirtöku Seðlabankans á stjórn lánastofnunar eða annarrar fjármálastofnunar skv. 4. mgr. 31. gr.
    Staðfesta tillögur bankastjórnar um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans.
    Auglýsa eftir umsóknum um stöður bankastjóra og gera tillögur til ráðherra um skipun í þær.
    Ákveða laun og ráðningarkjör bankastjóra og gera við þá ráðningarsamninga þar sem m.a. er kveðið á um rétt til eftirlauna.
    Staðfesta ráðningu aðstoðarbankastjóra.
    Ráða forstöðumann bankaeftirlitsins samkvæmt tillögu bankastjórnar. Bankaráð ákveður laun og ráðningarkjör forstöðumannsins og gerir við hann ráðningarsamning þar sem m.a. er kveðið á um rétt til eftirlauna. Bankaráð segir forstöðumanni bankaeftirlitsins upp störfum að fenginni tillögu bankastjórnar.
    Hafa umsjón með starfi sérstakrar endurskoðunardeildar við bankann, ráða forstöðumann hennar og segja honum upp starfi, ákveða laun og ráðningarkjör hans og gera við hann ráðningarsamning þar sem m.a. er kveðið á um rétt til eftirlauna.
    Ákveða hvaða starfsmenn bankans aðrir en bankastjórar hafa heimild til að skuldbinda bankann og setja reglur þar um.
    Eiga aðild að kjarasamningum við starfsmenn bankans og setja reglur um eftirlaunasjóð þeirra.
    Gera tillögu til ráðherra um reikningsskil og gerð ársreiknings bankans.
    Gera tillögu til ráðherra að reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, sbr. 49. gr.
    Hafa eftirlit með öllum eignum og rekstri bankans og taka ákvörðun um allar meiri háttar fjárfestingar.
    Taka ákvörðun um ráðstöfun á tekjuafgangi að því marki sem annað er ekki ákveðið í lögum og staðfesta ársreikning bankans.

39. gr.


Bankastjórn.


    
Í bankastjórn Seðlabankans eiga sæti þrír bankastjórar og er einn þeirra formaður bankastjórnar. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.
     Auglýst skal opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra og þar skal tekið fram hvort um sé að ræða stöðu formanns bankastjórnar. Bankastjórar skulu hafa víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum sviðum efnahagsmála.
     Ráðherra skipar bankastjóra til sjö ára úr hópi þeirra sem sótt hafa um stöðuna og atkvæði hafa fengið í bankaráði. Umsækjandi um stöðu formanns bankastjórnar skal þó hafa hlotið a.m.k. tvö atkvæði í bankaráði til að ráðherra geti skipað hann í stöðuna.
     Óheimilt er að skipa sama mann í stöðu bankastjóra oftar en tvisvar sinnum. Þó er heimilt að skipa sama mann í þriðja sinn í stöðu bankastjóra enda sé þá um að ræða stöðu formanns bankastjórnar og viðkomandi hafi ekki gegnt henni oftar en einu sinni áður. Bankastjóri skal láta af störfum þegar hann er fullra sjötíu ára að aldri.
     Forfallist bankastjóri um stundarsakir getur ráðherra, að fengnum tillögum bankaráðs, sett mann tímabundið í stöðu hans.
     Bankaráð getur gert tillögu til ráðherra um að bankastjóri sé leystur frá störfum. Í tillögu bankaráðs skulu tilgreindar ástæður þessa. Hafi bankastjóri brotið af sér í starfi getur bankaráð vikið honum fyrirvaralaust úr starfi án staðfestingar ráðherra og án launa.

40. gr.


Formaður bankastjórnar.


    
Formaður bankastjórnar er talsmaður Seðlabankans og kemur fram fyrir hönd bankastjórnar. Hinir tveir bankastjórarnir skiptast á um að vera staðgenglar formanns bankastjórnar til eins árs í senn.
     Formaður bankastjórnar kallar bankastjórn saman til fundar. Ávallt skal boðað til fundar þegar annar hinna bankastjóranna óskar þess. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns bankastjórnar.
     Ákvarðanir bankastjórnar skal skrá í gerðabók.

41. gr.


Störf æðstu stjórnenda utan bankans.


    
Bankastjórum, aðstoðarbankastjórum og forstöðumanni bankaeftirlitsins er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Rísi ágreiningur um ákvæði þessarar greinar gagnvart bankastjórum sker ráðherra úr.

VIII. KAFLI


Reikningsskil og ráðstöfun hagnaðar.


42. gr.


Reikningsár og gerð ársreiknings.


    Reikningsár Seðlabankans er almanaksárið. Fyrir hvert reikningsár skal gera ársreikning og skal gerð hans lokið innan tveggja mánaða frá lokum reikningsárs. Um gerð ársreiknings fer eftir lögum og góðri reikningsskilavenju.
     Ráðherra setur nánari reglur um reikningsskil og gerð ársreiknings að fengnum tillögum Seðlabankans.

43. gr.


Endurskoðun.


     Við Seðlabankann starfar endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun, sbr. i-lið
38. gr. Auk þess skal endurskoðun hjá Seðlabankanum framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skoðunarmaðurinn skal vera löggiltur endurskoðandi.
     Að lokinni endurskoðun á ársreikningi bankans skal hann undirritaður af bankastjórn og staðfestur af bankaráði. Hafi bankaráðsmaður fram að færa athugasemdir við ársreikning skal hann undirritaður með fyrirvara og koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Endurskoðaður reikningur skal lagður fyrir ráðherra til úrskurðar eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Ársreikning Seðlabankans skal birta í ársskýrslu bankans. Enn fremur skal bankinn birta mánaðarlegt efnahagsyfirlit.

44. gr.


Ráðstöfun hagnaðar.


    
Árlega skal meðalhagnaður næstliðinna þriggja ára, að frádregnu framlagi í arðsjóð skv. 3. mgr., greiddur í ríkissjóð. Skal við þann útreikning endurmeta afkomu fyrri áranna tveggja til verðlags hins þriðja. Greiðsla fer fram eigi síðar en 1. júní ár hvert.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiðsla Seðlabankans í ríkissjóð nema fjórðungi af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð skv. 3. mgr. ef eigið fé bankans í lok reikningsárs er lægra en 6% af vergri landsframleiðslu ársins á undan. Endurmeta skal verga landsframleiðslu til verðlags í lok reikningsársins.
     Árlega skal leggja í arðsjóð a.m.k. jafngildi 130 milljóna króna miðað við verðlag í árslok 1991. Arðsjóður skal ávaxtaður á bestu fáanlegum vaxta- og verðtryggingarkjörum. Árlega skal helmingur tekna arðsjóðs renna í Vísindasjóð, sbr. lög um Vísindasjóð.

IX. KAFLI


Ýmis ákvæði.


45. gr.


Hlutabréfaeign og þátttaka í atvinnurekstri.


    
Seðlabankanum er óheimilt að eiga innlend eða erlend hlutabréf eða önnur verðbréf
sem fela í sér þátttöku í atvinnurekstri eða taka að öðru leyti þátt í atvinnurekstri nema það samrýmist hlutverki hans sem seðlabanka.

46. gr.


Biðlaun bankastjóra.


    
Við starfslok skulu bankastjórar fá greidd biðlaun í tólf mánuði, jafnhá föstum launum er starfi þeirra fylgdu. Eigi bankastjóri rétt til eftirlauna fellur niður greiðsla biðlauna. Taki bankastjóri við annarri stöðu á biðlaunatíma fellur niður greiðsla biðlaunanna ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka biðlaunatímans.
     Sé bankastjóra vikið úr starfi vegna brots í starfi fellur greiðsla biðlauna niður.

47. gr.


Þagnarskylda og gagnkvæm upplýsingaskipti.


    
Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabankans eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna bankans, málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Bankaráðsmönnum, bankastjórum og öðrum starfsmönnum Seðlabankans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði er lög þessi taka til, að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.

48. gr.


Undanþága frá tekjuskatti og eignarskatti og stimpilgjaldi.


    
Seðlabankinn er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti.
     Bækur bankans, ávísanir og hvers konar skuldbindingar sem gefnar eru út af bankanum og í nafni hans, svo og skuldbindingar sem veita bankanum handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum bankans og framsöl þeirra skulu undanþegin stimpilgjaldi.

49. gr.


Viðurlög.


    
Um mál út af brotum á lögum þessum fer að hætti opinberra mála.
     Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að sekta lögaðila eða svipta starfsréttindum. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     Seðlabankanum er heimilt að beita lánastofnanir og aðrar fjármálastofnanir viðurlögum í formi dagsekta sem ákveðnar eru af bankastjórn að höfðu samráði við bankaráð hlíti þær ekki reglum bankans um bindiskyldu skv. 15. gr., laust fé skv. 16. gr. og fjárhagslegt öryggi fjármálastofnana skv. 30. gr. eða fullnægi ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart bankaeftirlitinu skv. 29. gr. Viðurlög skulu kynnt lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum. Úrskurði bankans um viðurlög má skjóta til ráðherra. Sé um ítrekaða vanrækslu að ræða er bankanum heimilt að leggja til við ráðherra að viðkomandi stofnun sé svipt starfsleyfi.
     Seðlabankanum er heimilt að beita þá aðila viðurlögum sem vanrækja að veita bankanum upplýsingar sem hann á rétt á skv. 32. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 29/1895, um hagfræðiskýrslur, með áorðnum breytingum.

X. KAFLI


Gildistaka o.fl.


50. gr.


Reglugerð.


    
Ráðherra getur, að fenginni tillögu bankaráðs, sett með reglugerð nánari ákvæði um
framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara.

51. gr.


Gildistaka.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 36/1986, um Seðlabanka
Íslands, með áorðnum breytingum, og lög nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Við gildistöku laga þessara kýs Alþingi fimm menn í bankaráð Seðlabankans og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

II.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 39. gr. gegna bankastjórar Seðlabankans við gildistöku laga þessara starfi sínu til loka skipunartímabils síns. Við gildistöku laga þessara skal bankastjórn Seðlabankans velja sér formann til bráðabirgða. Í fyrsta sinn, sem staða bankastjóra Seðlabankans losnar eftir gildistöku laga þessara, skal bankaráð auglýsa lausa til umsóknar stöðu formanns bankastjórnar skv. e-lið 38. gr. og 2. mgr. 39. gr.

III.


    
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 28. gr. gegnir forstöðumaður bankaeftirlitsins við gildistöku laga þessara starfi sínu til loka skipunartímabils síns.

IV.


    Þeir seðlar og slegnir peningar, sem við gildistöku laga þessara eru lögmætur gjaldmiðill á Íslandi, skulu halda gildi sínu þar til gefnir hafa verið út nýir í þeirra stað skv. 4. og 5. gr.

V.


    Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. um laust fé lánastofnana er Seðlabankanum heimilt í allt að sex mánuði frá gildistöku laga þessara að láta gilda reglur um laust fé innlánsstofnana sem settar hafa verið á grundvelli 4. og 5. mgr. 8. gr. og 41. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, sbr. lög nr. 11/1989, um breytingu á þeim.

VI.


    Þar til lög hafa verið samþykkt um verðbréfaþing hér á landi setur Seðlabankinn reglur um Verðbréfaþing Íslands að fengnu samþykki ráðherra. Ákvæði þetta fellur úr gildi eigi síðar en 1. janúar 1995.

VII.


    Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. er Seðlabankanum heimilt allt til ársloka 1995 að veita ríkissjóði yfirdráttarlán. Heildarskuld ríkissjóðs í bankanum skal á hverjum tíma ekki verða hærri en 3 milljarðar króna á árinu 1993, 2 milljarðar króna á árinu 1994 og 1 milljarður króna á árinu 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Gerð frumvarpsins.
     Hinn 20. febrúar 1991 skipaði Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra nefnd til að fjalla um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands og gera tillögur um breytingar á þeim í samræmi við niðurstöður slíkrar endurskoðunar.
     Í nefndina voru skipaðir: Ágúst Einarsson prófessor, formaður, Geir H. Haarde alþingismaður, Guðmundur Ágústsson alþingismaður, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður, Guðrún J. Halldórsdóttir alþingismaður, Már Guðmundsson hagfræðingur og Ólafur B. Thors forstjóri. Guðmundur Ágústsson hætti störfum í nefndinni í maí 1991. Finnur Sveinbjörnsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, og Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður í peningamáladeild Seðlabanka Íslands, störfuðu með nefndinni.
     Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a. að breyttar aðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði frá því að núgildandi lög um Seðlabanka Íslands voru samin og aukið fjölþjóðasamstarf á sviði gengis- og vaxtamála muni í vaxandi mæli setja mark sitt á efnahagslíf Íslendinga í framtíðinni. Breyttar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð og bætt stjórntæki Seðlabankans í gengis-, vaxta- og peningamálum. Nefndinni var einnig falið að taka skipan og hlutverk bankastjórnar og bankaráðs til endurskoðunar með það að markmiði að stjórnskipulag bankans tryggði sem best faglega stjórnun hans og þátttöku hans í hagstjórn.
     Nefndin hélt fjörutíu fundi. Hún leitaði álits bankastjórnar Seðlabankans, forstöðumanns bankaeftirlitsins, skoðunarmanns bankans og embættismanna í fjármálaráðuneytinu auk ýmissa annarra sérfræðinga á þessu sviði.
     Í apríl 1992 sendi nefndin viðskiptaráðherra tillögur sínar að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands. Frumvarp þetta, sem lagt er fram til kynningar, er óbreytt frá tillögum nefndarinnar. Sérálit Guðrúnar J. Halldórsdóttur er birt sem fskj. I með frumvarpinu og sérálit Más Guðmundssonar sem fskj. II.

2. Nýjar aðstæður á fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum.
     Á undanförnum árum hafa orðið verulegar breytingar á innlendum fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum. Fyrstu almennu lögin um viðskiptabanka tóku gildi í ársbyrjun 1986 (lög nr. 86/1985). Þau komu í stað eldri laga um sérhvern af viðskiptabönkunum sem þá störfuðu. Á sama tíma gengu einnig í gildi ný lög um sparisjóði (lög nr. 87/1985). Síðar á sama ári gengu í gildi ný lög um Seðlabanka Íslands (lög nr. 36/1986) og árið eftir vaxtalög (lög nr. 25/1987) í stað laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Þessi breyting hafði m.a. annars í för með sér að almennt samningsfrelsi um vexti var lögleitt hér á landi. Árið 1989 gengu í gildi tvenn lög um nýjungar á fjármagnsmarkaðinum: annars vegar lög nr. 19/1989, um eignarleigur, og hins vegar lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þá tók fyrsta skipulagða verðbréfaþingið hér á landi, Verðbréfaþing Íslands, til starfa árið 1985 á grundvelli heimildar í 15. gr. seðlabankalaganna frá 1961.
     Með setningu fyrrnefndra laga ásamt lögunum um Seðlabankann frá 1986 voru innviðir fjármagnsmarkaðarins styrktir, skýrar leikreglur settar og bankaeftirliti Seðlabankans falið eftirlit með stofnunum á þessum markaði. Jafnframt hefur fjármagnsmarkaðurinn tekið nokkrum breytingum. Viðskiptabönkum og sparisjóðum hefur fækkað við samruna fyrirtækja. Eignarleigur, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir hafa náð að festa sig í sessi. Samhliða hefur þróast markaður fyrir verðbréf, einkum skuldabréf til langs tíma, en einnig víxla og önnur skammtímabréf og hlutabréf.
     Samtímis því sem innlendur fjármagnsmarkaður hefur eflst hefur smám saman verið dregið úr gjaldeyrishöftum. Það hefur styrkt tengsl innlends fjármagnsmarkaðar og erlendra fjármagnsmarkaða. Stórt skref í þá átt var stigið árið 1990 þegar ný reglugerð um gjaldeyrismál og fjórar auglýsingar Seðlabankans á þessu sviði tóku gildi. Mikilvægasta breytingin frá eldri reglum fólst í því að Íslendingum var heimilað að fjárfesta í útlöndum innan tiltekinna fjárhæðarmarka, hvort heldur sem var í atvinnurekstri, fasteignum eða verðbréfum. Fjárhæðarmörkin fara stighækkandi uns þau falla niður í árslok 1992. Með þessum breytingum hafa opnast nýjar leiðir fyrir fjármagn til að streyma til og frá landinu og þær hafa tengt innlendan fjármagnsmarkað erlendum traustari böndum en áður.
     Enn eitt skref í sömu átt var stigið í mars 1991 þegar lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri tóku gildi. Í þeim er m.a. kveðið á um að erlendir aðilar megi eiga allt að 25% af hlutafé í innlendum hlutafélagsbanka og að frá og með ársbyrjun 1992 sé erlendum hlutafélagsbönkum heimilt að opna útibú hér á landi. Í viðskiptabankalögunum frá 1985 er hins vegar heimild fyrir erlenda hlutafélagsbanka að opna umboðsskrifstofur hér á landi.
     Í lok ársins 1992 verður Vestur-Evrópa orðin nánast að einum fjármagnsmarkaði þar sem fjármagn getur streymt hindrunarlaust frá einu ríki til annars. Hér vega þyngst áform Evrópubandalagsins (EB) um að gera aðildarríkin að einu markaðssvæði frá árslokum 1992. Til þess að þeirra eigin fyrirtæki og almenningur hafi einnig aðgang að stórum fjármagnsmarkaði hafa önnur ríki Vestur-Evrópu brugðist við þessum áformum með því að auka frelsi í gjaldeyrismálum. Er nú svo komið að langflest ríki Vestur-Evrópu hafa þegar afnumið gjaldeyrishöft að mestu eða öllu leyti. Með samningi um Evrópskt efnahagssvæði (EES), sem áformað er að taki gildi í ársbyrjun 1993, verður formlega komið á sameiginlegum fjármagnsmarkaði fyrir aðildarríki EB og Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Samkvæmt samningsdrögunum hefur Ísland frest til ársloka 1994 til að aflétta öllum gildandi hömlum á fjármagnshreyfingum ef undan eru skildar hömlur á fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi.
     Samruni fjármagnsmarkaða skapar nýjar aðstæður fyrir hagstjórn. Hún verður vandasamari en áður og nýjar áherslur skapast. Stjórntæki, sem áður dugðu, missa gildi sitt þegar einstaklingar og fyrirtæki geta án nokkurra takmarkana leitað eftir fyrirgreiðslu í öðrum ríkjum. Þessar aðstæður gera einnig auknar kröfur til eftirlits með rekstri og starfsemi fjármálastofnana. Slíkt eftirlit er sívaxandi þáttur í starfsemi seðlabanka erlendis.
     Á sameiginlegum markaði skapa gengissveiflur óvissu, óþarfa kostnað og draga úr milliríkjaviðskiptum. Þess vegna hefur meiri hluti aðildarríkja EB haft með sér náið samstarf í gengismálum um nokkurra ára skeið. Er ekki talinn leika vafi á því að þetta samstarf og þær skorður, sem það setur við innbyrðis gengisbreytingum myntanna, hafi átt drjúgan þátt í að stuðla að stöðugleika í verðlagsmálum innan bandalagsins. Á leiðtogafundum EB í Madríd á Spáni árið 1989 og í Maastricht í Hollandi árið 1991 var ákveðið að efla þetta samstarf enn frekar. Þar náðist samkomulag um að í síðasta lagi í ársbyrjun 1999 verði evrópska mynteiningin ECU gerð að sameiginlegum gjaldmiðli sem kemur í stað núverandi þjóðmynta þeirra ríkja sem uppfylla tiltekin skilyrði til að geta tekið þátt í þessu samstarfi. Samtímis tekur einnig til starfa sameiginlegur seðlabanki Evrópubandalagsins (Seðlabanki Evrópu) sem gefa mun út hina sameiginlegu mynt og ráða stefnu bandalagsins í peningamálum. Seðlabankar aðildarríkjanna verða þó áfram til en hlutverk þeirra breytist. Í stað þess að móta sjálfstæða stefnu í peningamálum munu þeir ásamt Seðlabanka Evrópu hrinda hinni sameiginlegu stefnu í framkvæmd og taka þátt í mótun hennar. Maastricht-samkomulagið öðlast ekki gildi nema þjóðþingin í öllum aðildarríkjum bandalagsins staðfesti það. Í Danmörku og á Írlandi verður það auk þess borið undir þjóðaratkvæði.
    Gengisfesta innan Evrópubandalagsins og góður árangur í baráttunni við verðbólgu hefur leitt til þess að þjóðir utan EB hafa kosið að tengja gjaldmiðla sína við gjaldmiðla aðildarríkja Evrópubandalagsins. Þannig hefur austurríski schillingurinn verið tengdur þýska markinu um langt árabil. Finnland, Noregur og Svíþjóð ákváðu á árinu 1991 að fasttengja gengi gjaldmiðla sinna við ECU.
     Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um gengismál frá 3. október 1991 segir að ekki sé tímabært að sinni að tengja gengi íslensku krónunnar við ECU en unnið skuli markvisst að því að skapa þær aðstæður að tenging með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndum verði möguleg árið 1993. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið í ársbyrjun 1992 þegar gjaldmiðlavogin, sem gengi krónunnar er miðað við, var einfölduð úr sautján gjaldmiðlum í einungis þrjá, Bandaríkjadollar, japanskt yen og ECU. Á næstu missirum verður unnið að því að þróa gjaldeyrismarkað hér á landi þannig að gengi krónunnar geti í auknum mæli ráðist af framboði og eftirspurn á markaði. Jafnframt þarf að efla stjórntæki Seðlabankans þannig að hann geti með kaupum og sölu á gjaldeyri, vaxtabreytingum og öðrum aðgerðum í peningamálum haldið gengi krónunnar innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.
     Af öllu þessu má ljóst vera að miklar breytingar hafa orðið á innlendum og erlendum fjármagnsmörkuðum frá því að lögin um Seðlabankann gengu í gildi árið 1986. Fjármagnsmarkaðir tengjast æ meir og starfsumhverfi seðlabanka einstakra ríkja verður alþjóðlegra. Þá kallar aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum á endurskoðun á þeim aðferðum sem seðlabankar beita til að hrinda stefnu sinni í peningamálum í framkvæmd. Þessar breyttu aðstæður krefjast aukins sjálfstæðis Seðlabankans og virkrar og faglegrar stjórnunar hans til þess að bankinn geti brugðist skjótt við óvæntum aðstæðum í peninga-, gengis- og gjaldeyrismálum. Sérstaklega er mikilvægt að bankanum sé tryggt sjálfstæði í framkvæmd peningamála.
     Á síðustu árum hafa jafnframt komið í ljós ýmis atriði sem betur mættu fara í seðlabankalögunum. Nægir þar að nefna ákvæði um stjórntæki bankans í peningamálum, ákvæði um vaxtaíhlutun, samskipti bankans og ríkisstjórnar, takmarkalausan aðgang ríkissjóðs að lánsfé í bankanum, takmarkandi ákvæði um fyrirkomulag á skráningu á gengi íslensku krónunnar, skort á heimildum til að hafa eftirlit með nýjum tegundum stofnana á fjármagnsmarkaðinum og skort á heimildum til að setja innlánsstofnunum reglur um jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda.

3. Lög um Seðlabanka Íslands.
     Fyrstu heilsteyptu lög um starfsemi seðlabanka hér á landi voru lög nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands. Um þá starfsemi giltu áður lög nr. 63/1957, um Landsbanka Íslands. Samkvæmt þeim lögum var Landsbankanum skipt í tvær deildir, seðlabanka og viðskiptabanka, sem hvor um sig laut sérstakri stjórn. Sú skipan hélst til 1961 þegar lögin um Seðlabankann tóku gildi og bankinn varð að sjálfstæðri stofnun.
     Árið 1972 var skipuð bankamálanefnd til að endurskoða bankakerfið, þar á meðal lögin um Seðlabankann og starfsemi hans. Nefndin skilaði áliti í janúar 1973. Hún taldi ekki ástæðu til að gerðar yrðu meiri háttar skipulagsbreytingar á bankanum. Aftur á móti mælti hún með ýmsum breytingum í starfsemi hans. Sérstaklega tilgreindi hún ákvæði um útlánahámark innlánsstofnana, takmörkun á lántökum þeirra erlendis og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. Nefndin taldi þó ekki ástæðu til að gera ákveðnar tillögur að lagabreytingum á þessu stigi málsins.
     Önnur bankamálanefnd var skipuð 1981 til að endurskoða allt bankakerfið, þar á meðal lögin um Seðlabankann og hlutverk hans. Í mars 1984 sendi nefndin viðskiptaráðuneytinu tillögur sínar að lagafrumvörpum um Seðlabanka Íslands og viðskiptabanka. Frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands, sem að langmestu leyti var byggt á tillögum nefndarinnar, var lagt fram á Alþingi snemma á vorþingi 1986 og varð að lögum 5. maí 1986.
     Með lögunum var starfsemi Seðlabankans takmörkuð í meira mæli en áður hafði verið við hefðbundin verkefni seðlabanka. Þannig var t.d. lögfest sú meginregla að bankinn ætti einungis viðskipti við innlánsstofnanir og ríkissjóð og honum bannað að skipta við almenning og keppa við innlánsstofnanir um viðskipti. Með lögunum voru tengslin milli bindiskyldu innlánsstofnana og endurkaupa Seðlabankans á afurðalánum af innlánsstofnunum endanlega rofin og bindiskyldan gerð að raunverulegu stjórntæki bankans í peningamálum. Jafnframt var bankanum í fyrsta skipti heimilað að setja innlánsstofnunum reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem þeim beri ætíð að ráða yfir. Þá var almenn heimild Seðlabankans til að ákveða innláns- og útlánsvexti innlánsstofnana felld niður. Þó var bankanum heimilað við tilteknar aðstæður að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana. Með lögunum var fellt niður það hlutverk Seðlabankans að veita umsagnir um umsóknir innlánsstofnana til að opna útibú og stunda gjaldeyrisviðskipti, enda gert ráð fyrir því að ákvarðanir þar að lútandi færðust alfarið til stofnananna sjálfra. Þá var lögfest að ríkissjóður endurgreiddi skammtímaskuld sína við bankann eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok hvers fjárlagaárs. Að síðustu má nefna að ákvæði um eftirlit Seðlabankans með innlánsstofnunum eru mun ítarlegri en í fyrri lögum.
     Frá því að lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, tóku gildi hefur þeim verið breytt í tvígang. Með lögum nr. 11/1989 var breytt skilgreiningu á lausu fé innlánsstofnana (4. mgr. 8. gr.). Jafnframt voru verðbréfasjóðir felldir undir bindiskylduákvæði innlánsstofnana, þó með þeim hætti að í stað bundinna innlána í Seðlabankanum skyldu þeir kaupa örugg verðbréf, einkum ríkisskuldabréf (1. mgr. 8. gr.). Þá var bankanum heimilað að setja innlánsstofnunum reglur um gengisbundnar eignir og skuldir til að draga úr gengisáhættu þeirra (5. mgr. 8. gr.). Á sama tíma var orðalagi ákvæðisins um vaxtaíhlutun Seðlabankans breytt með það að markmiði að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana yrðu bæði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum. Áður gilti einungis síðara skilyrðið. Þá skal við mat á óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána taka tillit til annarra tekna innlánsstofnana en svo var ekki áður (2. mgr. 9. gr.). Vegna þeirra breytinga, sem orðið höfðu á innlendum fjármagnsmarkaði með þróun verðbréfamarkaðar, var sett í seðlabankalögin ákvæði þess efnis að hafi bankinn hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum geti hann einnig bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða (3. mgr. 9. gr.). Þá voru seðlabankalögin aðlöguð lögunum um Ríkisendurskoðun þannig að í stað þess að tveir þingkjörnir skoðunarmenn endurskoðuðu reikninga bankans var Ríkisendurskoðun falin endurskoðunin (33. gr.). Loks var ákveðið að innheimt viðurlög vegna þess að reglum bankans væri ekki hlítt skyldu að þremur fjórðu hlutum renna í ríkissjóð (41. gr. og ákvæði til bráðabirgða VI).
     Seðlabankalögunum var breytt á ný í mars 1992 þegar gengisákvæði laganna (18. gr.) var breytt á sama veg og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. að gengi krónunnar geti ráðist af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði og að Seðlabankanum sé heimilt að kaupa og selja erlendan gjaldeyri á markaði til að halda gengi krónunnar innan einhverra ákveðinna marka. Jafnframt var fellt brott úr 18. gr. ákvæði þess efnis að ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skyldu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina. Þá var ákvæði 18. gr. um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins flutt í b-lið 3. gr. Loks voru ákvæði laganna aðlöguð lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila, með því að bæta útibúum erlendra hlutafélagsbanka við skilgreiningu á innlánsstofnunum (6. gr.) og í upptalningu þeirra stofnana sem heimild hafa til að versla með erlendan gjaldeyri hér á landi (19. gr.).
4. Lög um seðlabanka í iðnríkjunum.
     Nefndin fór yfir gildandi lög um seðlabanka í flestum iðnríkjanna, þar á meðal annars staðar á Norðurlöndum, auk stofnskrár hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins. Þá fór hún yfir greinargerðir alþjóðastofnana og fræðimanna um starfsemi seðlabanka. Nefndin tók til sérstakrar athugunar atriði eins og markmið og hlutverk seðlabanka, stjórntæki í peningamálum, stjórnskipulag, verkaskiptingu bankaráðs og bankastjóra, tengsl seðlabanka við ríkisstjórn, fyrirgreiðslu við ríkissjóð og hvort seðlabanki hafi bankaeftirlit með höndum.
     Athuganir nefndarinnar sýna að lög um seðlabanka í iðnríkjunum geta ekki verið einhlít fyrirmynd um efnisatriði í lögum um Seðlabanka Íslands. Þó má draga þá ályktun af nýlegum lögum á Nýja-Sjálandi, stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins og fyrirliggjandi tillögum að breytingum á lögum um Seðlabanka Kanada að þeirri skoðun aukist fylgi að seðlabanki hafi aðeins eitt markmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi. Jafnframt er reynt að tryggja í fyrrgreindum lögum, stofnskrá og lagadrögum að bankinn geti mótað stefnu sína í peningamálum og beitt þeim stjórntækjum, sem hann hefur yfir að ráða, án afskipta ríkisstjórnar.
     Seðlabanki Danmerkur (Danmarks Nationalbank, lög frá 1942) hefur það hlutverk að viðhalda öruggu fjármálakerfi í landinu og greiða fyrir greiðslumiðlun og lánastarfsemi. Í Finnlandi (Suomen Pankki, lög frá 1925) er bankanum ætlað að viðhalda stöðugu og traustu peningakerfi og tryggja lipra greiðslumiðlun í landinu. Í Noregi (Norges Bank, lög frá 1985) er markmið bankans að stuðla að hagkvæmri greiðslumiðlun í landinu. Hið sama gildir í Svíþjóð (Sveriges Riksbank, lög frá 1988). Á Nýja-Sjálandi (Reserve Bank of New Zealand, lög frá 1989) hefur seðlabankinn það eina markmið að tryggja stöðugt verðlag en ríkisstjórn getur þó ákveðið með sérstökum hætti að bankinn víki tímabundið frá því markmiði. Í Þýskalandi (Deutsche Bundesbank, lög frá 1957) er markmið seðlabankans að tryggja verðgildi gjaldmiðilsins. Hann skal þó styðja almenna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar svo framarlega sem það gengur ekki gegn meginmarkmiði bankans. Svipað ákvæði er í stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins (The European Central Bank) frá 1991 nema að þar er meginmarkmið bankans samkvæmt skilgreiningu að viðhalda stöðugu verðlagi.
     Með því að setja seðlabanka það eina markmið að stuðla að stöðugu verðlagi er í rauninni verið að gefa stöðugleika í verðlagi forgang umfram önnur efnahagsleg markmið. Rökin fyrir því byggjast á því að stöðugt verðlag sé til lengdar forsenda fyrir því að öðrum mikilvægum markmiðum verði náð, eins og auknum hagvexti og litlu atvinnuleysi. Reynsla, bæði hér á landi og erlendis, hefur sýnt að til lengri tíma litið er enginn ávinningur af verðbólgu. Það er ekki unnt til lengdar að tryggja hátt atvinnustig og hagvöxt með verðbólgu. Þvert á móti gerir verðbólga einstaklingum og fyrirtækjum erfiðara um vik að horfa langt fram á veginn og vinna að ákveðnum framtíðarmarkmiðum. Þá fer mikil orka og tími einstaklinga og fyrirtækja í það að verjast áhrifum verðbólgu auk þess sem hún hefur óæskileg áhrif á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.
     Verðlagsmarkmið er í eðli sínu langtímamarkmið. Því er nauðsynlegt að tryggja seðlabanka sjálfstæði til að geta beitt þeim stjórntækjum, sem hann hefur yfir að ráða, til að ná markmiðinu án afskipta stjórnvalda sem kynnu að láta ýmis skammtímasjónarmið ráða gerðum sínum.
     Stjórnskipulag seðlabanka er með ýmsum hætti. Víða eru bankaráðsmenn kosnir af þjóðþingum en annars staðar eru þeir skipaðir af ráðherra eða ríkisstjórn. Sums staðar situr bankastjóri í bankaráðinu, jafnvel sem formaður þess. Víðast er einn bankastjóri ásamt einum eða fleiri varabankastjórum en einnig þekkjast dæmi um fjölskipaðar bankastjórnir, svo sem í Danmörku og Finnlandi. Bankastjórar eru ýmist valdir af bankaráði, ráðherra eða ríkisstjórn. Í sumum tilvikum er óheimilt að endurskipa bankaráðsmenn og bankastjóra nema í tiltekinn fjölda skipta en í öðrum tilvikum eru engar slíkar takmarkanir og bankastjórar jafnvel ráðnir til óákveðins tíma. Sums staðar tekur bankaráð ákvarðanir um beitingu helstu stjórntækja bankans í peningamálum en annars staðar er valdið í höndum bankastjóra. Í sumum ríkjum er seðlabanka bannað að veita ríkissjóði lán. Í öðrum ríkjum eru settar einhverjar skorður við lánum til ríkissjóðs og í enn öðrum gilda engar takmarkanir á þessu sviði.
     Í athugasemdum við einstakar greinar er nánari grein gerð fyrir tilteknum ákvæðum seðlabankalaga annars staðar á Norðurlöndum, Nýja-Sjálandi, Þýskalandi og í stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins.

5. Hlutverk seðlabanka við stjórn efnahagsmála.
     Í grófum dráttum má segja að hlutverk seðlabanka sé fjórþætt. Í fyrsta lagi að gefa út seðla og mynt. Seðlabankar hafa yfirleitt einkarétt á þessu sviði. Í öðru lagi að varðveita gjaldeyrisforða landsins. Í þriðja lagi að vera banki ríkissjóðs. Í fjórða lagi að vera banki innlánsstofnana og veita þeim lán ef fjárhagslegt öryggi þeirra er í hættu. Vegna viðskipta sinna við innlánsstofnanir og útgáfu seðla og myntar hefur seðlabönkum jafnframt verið falið í mörgum löndum að hafa eftirlit með starfsemi fjármálastofnana og greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
    Í löggjöf margra landa eru ofangreind verkefni að einhverju leyti skilgreind sem markmið seðlabanka. Dæmi um slíkt er að seðlabanki skuli stuðla að traustu fjármálakerfi og greiðri og hagkvæmri greiðslumiðlun.
     Þau stjórntæki, sem seðlabankar hafa yfir að ráða, eru einkum á sviði peningamála, gengis- og gjaldeyrismála. Algengustu stjórntæki seðlabanka á sviði peningamála eru bindiskylda, markaðsaðgerðir og ákvörðun vaxta í viðskiptum seðlabankans. Með markaðsaðgerðum er átt við kaup og sölu verðbréfa á markaði. Á síðari árum hefur mikilvægi markaðsaðgerða farið vaxandi. Með þeim getur seðlabanki haft áhrif á lausafé lánastofnana og þar með bein eða óbein áhrif á vexti. Meginstjórntæki bankans á sviði gengis- og gjaldeyrismála eru ýmist bein ákvörðun um gengi gjaldmiðilsins eða kaup og sala á erlendum gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði til að hafa áhrif á gengið.
     Á undanförnum árum hefur vaxandi áhersla verið lögð á gildi þess að tryggja stöðugt verðlag. Þetta á einkum rætur sínar að rekja til reynslunnar af mikilli verðbólgu víða um heim á áttunda áratugnum. Talið er nauðsynlegt að tryggja aga við stjórn peningamála þannig að stjórn þeirra ráðist ekki af skammtímasjónarmiðum ríkisstjórna. Hér liggur að baki það sjónarmið að ríkissstjórnir á hverjum tíma kunni að freistast til að slaka á taumhaldi peningamála í því skyni að ná öðrum efnahagslegum markmiðum en stöðugu verðlagi með stjórmálaleg sjónarmið í huga. Af þessum sökum kann að vera heppilegra að auka sjálfstæði seðlabankans og einfalda markmið hans og fela honum fyrst og fremst það markmið að stuðla að stöðugu verðlagi. Í þessu felst að bankinn mótar stefnu í peningamálum og beitir stjórntækjum sínum á því sviði án afskipta ríkisstjórnar. Með þessu móti er komið á þeirri verkaskiptingu milli ríkisstjórnar og seðlabanka að bankinn einbeiti sér að stjórn peningamála með því markmiði að stuðla að stöðugu verðlagi. Eðli seðlabankastarfsemi gerir það að verkum að eðlilegast er að fela honum þetta verkefni. Þau stjórntæki, sem hann hefur yfir að ráða, hafa áhrif á vexti. Vaxtabreytingar hafa aftur áhrif á bæði gengi viðkomandi gjaldmiðils, þegar engar hömlur eru á fjármagnshreyfingum milli landa, og eftirspurn innan lands. Breytingar á gengi gjaldmiðils og innlendri eftirspurn hafa síðan áhrif á verðlagsþróun. Öðrum efnahagslegum markmiðum, svo sem jöfnuði í viðskiptum við útlönd, háu atvinnustigi og góðum rekstrarskilyrðum atvinnuvega, er alls ekki fórnað á kostnað verðlagsmarkmiðs sjálfstæðs seðlabanka heldur verða þau á verksviði ríkisstjórnar sem starfar í umboði lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Til að ná þessum efnahagslegu markmiðum getur ríkisstjórn beitt stefnu sinni í gengismálum, ríkisfjármálum og launamálum að því leyti sem þau koma til kasta ríkisstjórnar. Með þessum hætti verður verkaskipting milli seðlabanka og ríkisstjórnar skýrari.
     Sé litið til reynslu annarra þjóða er ekki einhlítt samhengi milli sjálfstæðis seðlabanka og árangurs í verðlagsmálum. Víða hefur seðlabanki takmarkað sjálfstæði en engu að síður hefur náðst góður árangur í verðlagsmálum. Þetta sýnir að löggjöf af þessu tagi er ekki nauðsynleg til að koma á aga í peningamálum. Hægt er að ná sama árangri með samkomulagi seðlabanka og ríkisstjórnar ef skilningur er fyrir hendi um vinnubrögð og aðferðir við stjórn peningamála. Mestu máli skiptir hér að seðlabanki hafi frelsi til að beita stjórntækjum sínum og að ríkissjóður fjármagni ekki halla sinn með lántökum í seðlabanka.
     Ljóst er að þau lönd, þar sem seðlabanki hefur umtalsvert sjálfstæði, hafa nánast öll náð góðum árangri í stjórn verðlagsmála. Um það má hins vegar deila hvort þessi árangur stafar af sjálfstæði seðlabanka eða hvort sjálfstæði seðlabankans og árangurinn í verðlagsmálum á hvort tveggja rætur að rekja til almennrar stjórnmálalegrar samstöðu um að halda verðbólgu í skefjum.
     Aukið sjálfstæði seðlabanka þýðir hins vegar ekki að seðlabanki beri ekki ábyrgð á gerðum sínum gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Með auknu sjálfstæði er eðlilegt að seðlabanka verði lagðar á herðar auknar skyldur til að upplýsa almenning og kjörna fulltrúa hans um stefnu sína og aðgerðir. Einnig er nauðsynlegt að fulltrúar kjörnir til eftirlits með starfsemi bankans fái aukið vald og hlutverk. Þessar breytingar hljóta að vera nauðsynlegt og eðlilegt mótvægi við aukið sjálfstæði bankans.

6. Meginefni frumvarpsins.
     Frumvarpið felur í sér mjög miklar breytingar á núgildandi lögum um Seðlabanka Íslands og mun breyta miklu í starfsemi hans. Tilgangurinn er að skapa fjárhagslega traustan og sjálfstæðan seðlabanka sem hefur skýr og afmörkuð markmið og ræður yfir stjórntækjum sem duga til að ná þeim markmiðum.
     Tvennt veldur því að þessar breytingar eru nú aðkallandi. Annars vegar kalla breyttar aðstæður á fjármagnsmarkaði á breytingar á lögum um Seðlabankann og hins vegar eru núgildandi seðlabankalög úr takti við þá strauma og þær breytingar sem gerðar hafa verið á markmiðum og stöðu seðlabanka í iðnríkjunum á undanförnum árum. Reyndar byggjast þær breytingar ekki í öllum tilfellum á breyttri löggjöf heldur einnig á skilningi eða samkomulagi milli seðlabanka og stjórnvalda um verkefni og stefnu bankans. Þegar hefur verið gerð nokkur grein fyrir breytingum á fjármagnsmarkaði og lögum um seðlabanka í iðnríkjunum.
     Margvíslegir gallar eru á núgildandi seðlabankalögum. Þegar hefur verið vikið að nokkrum þeirra. Í fyrsta lagi má nefna að bankanum eru sett mörg markmið sem geta stangast á. Einnig er ljóst að nokkur þeirra liggja ýmist utan áhrifasviðs stjórntækja bankans eða stjórntæki hans hafa óskýr eða veik áhrif til að ná markmiðunum. Þannig er í núgildandi seðlabankalögum mælt fyrir um að bankinn skuli stuðla að því að verðlag haldist stöðugt og að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Hér er um mótsögn að ræða þar sem aðgerðir til að bæta nýtingu á framleiðslugetu atvinnuveganna með stjórntækjum bankans geta hæglega verið verðbólguhvetjandi við viss skilyrði. Jafnframt er ljóst að stjórntæki Seðlabankans eru varla þau sem æskilegast er að beita til að ná þessu markmiði.
     Þar til núgildandi seðlabankalögum var breytt í mars 1992 var í þeim kveðið á um að Seðlabankinn skyldi halda gengi krónunnar sem stöðugustu samhliða því sem náð væri jöfnuði í viðskiptum við útlönd og rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina tryggður. Í þessu fólst augljós mótsögn þar sem aðgerðir Seðlabankans til að tryggja rekstrargrundvöll atvinnugreina stangast í mörgum tilvikum á við markmið um stöðugt gengi og verðlag. Reynslan hér á landi og erlendis sýnir að önnur stjórntæki efnahagsmála, svo sem aðgerðir í ríkisfjármálum, hafa beinni áhrif á viðskiptajöfnuð en þau stjórntæki sem seðlabankar hafa almennt yfir að ráða. Eins er ljóst að vafasamt er að fela seðlabanka markmið um rekstrargrundvöll útflutnings- og samkeppnisgreina. Ábyrgð á því sviði hlýtur fyrst og fremst að hvíla á fyrirtækjunum sjálfum og þeirri almennu umgjörð og þeim sérstöku ráðstöfunum sem önnur stjórnvöld móta eða grípa til á hverjum tíma.
     Reynslan hér á landi og erlendis sýnir svo ekki verður um villst að það þjónar engum tilgangi að fela seðlabanka fleiri verkefni en hann hefur stjórntæki til að ráða við. Af eðlilegum ástæðum eru verkefni seðlabanka á sviði peningamála og hallast nú margir fræðimenn og stjórnvöld erlendis að því að binda verkefni þeirra við það svið og styrkja stjórntæki þeirra og auka sjálfstæði til að ná settum markmiðum. Jafnframt hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að stöðugleiki í verðlags- og gengismálum sé mikilvægt skilyrði hagvaxtar og hagsældar. Æ fleiri halda fram þeirri skoðun að það sé aðeins tímabundinn ávinningur af því að auka nýtingu á framleiðslugetu atvinnuveganna með örvandi aðgerðum á sviði peninga- og gengismála. Þegar til lengri tíma er litið hafi aðgerðir af þessu tagi takmörkuð áhrif á hagvöxt og hagsæld en geti hins vegar leitt til aukinnar verðbólgu.
     Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er í frumvarpi þessu lagt til að markmið Seðlabankans verði einfölduð verulega og honum falið það eitt meginmarkmið að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins og stuðla að stöðugu verðlagi. Jafnframt er lagt til að sjálfstæði bankans til að móta og hrinda í framkvæmd stefnu í peningamálum verði aukið verulega frá því sem nú er. Í þessu felst m.a. að beiting á stjórntækjum bankans er ekki háð samþykki ráðherra.
     Auk meginmarkmiðsins er lagt til að Seðlabankanum verði sett þrjú önnur markmið. Í fyrsta lagi að stuðla að virkri og öruggri starfsemi á fjármagnsmarkaði. Ljóst er að aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði eykur þær hættur sem starfsemi fjármálastofnunar eru samfara. Mikilvægur þáttur á þessu sviði er eftirlit með starfsemi fjármálastofnana í þeim tilgangi að vernda hag neytenda og fjárfesta. Lagt er til að Seðlabankanum verði áfram falið að hafa eftirlit með starfsemi fjármálastofnana. Í öðru lagi er Seðlabankanum falið að varðveita nægjanlegan gjaldeyrisvarasjóð til þess að greiða fyrir frjálsum viðskiptum við útlönd og treysta með því fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Í þriðja lagi er lagt til að bankanum verði falið að stuðla að greiðri og hagkvæmri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem eðlilegt er að fela Seðlabankanum í ljósi einkaréttar hans til að gefa út seðla og mynt.
     Auk fækkunar og einföldunar á markmiðum Seðlabankans er í frumvarpinu lagt til að breytingar verði gerðar á ákvæðum um stjórntæki hans í peningamálum í því skyni að laga þau að þegar breyttum aðstæðum á fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum og fyrirsjáanlegri framtíðarþróun á allra næstu árum. Því er lagt til að dregið verði úr heimildum bankans til beinnar stýringar en aukið vægi lagt á markaðsaðgerðir.
     Einna mikilvægastar eru þær breytingar sem lagðar eru til á lánafyrirgreiðslu Seðlabankans við ríkissjóð. Beinn aðgangur ríkissjóðs að skammtímalánum í Seðlabankanum hefur á undanförnum árum verið eitt meginvandamálið í stjórn peningamála. Sjálfdæmi ríkissjóðs um lántökur í bankanum í formi yfirdráttar á reikningum sínum hefur í raun gert Seðlabankanum ókleift að reka sjálfstæða stefnu í peningamálum. Reynslan hér á landi og annars staðar sýnir greinilega að nauðsynlegt er að fjármagna lánsfjárþörf ríkissjóðs á markaði utan seðlabanka. Með því er dregið úr sveiflum á peningaframboði og seðlabankinn kemst í þá aðstöðu að geta sjálfur vegið og metið hvort hann skuli auka eða minnka lausafé á markaðinum með kaupum og sölu á verðbréfum í ljósi markmiða sinna í peningamálum. Í frumvarpinu er lagt til að bankanum verði óheimilt að lána ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum. Í ákvæði til bráðabirgða er lagður til þriggja ára aðlögunarfrestur að þessu ákvæði þannig að hámarksskuld ríkissjóðs í bankanum fari stigminnkandi.
     Auk þeirra breytinga, sem lagðar eru til og varða sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstjórn, er lagt til að veigamiklar breytingar verði gerðar á ákvæðum um yfirstjórn bankans. Í grófum dráttum má skipta þeim tillögum í tvennt. Annars vegar er lagt til að valdsvið bankaráðs verði aukið frá því sem nú er og gert skýrara. Þó er lagt til að stefnumótun og vald til aðgerða í peningamálum verði hjá bankastjórn en ekki bankaráði. Hins vegar er lagt til að staða formanns bankastjórnar verði styrkt nokkuð og hann m.a. ráðinn sérstaklega en ekki valinn af bankastjórum. Tilgangur þessarar breytingar er sá að auka og treysta faglega yfirstjórn bankans og skilvirkni í stjórn peningamála.
     Auk þeirra tillagna, sem þegar hafa verið nefndar, er gert ráð fyrir fjölmörgum breytingum á gildandi lagaákvæðum. Þeirra helstar eru:
    Lagt er til að lög um gjaldmiðil Íslands verði felld inn í lög um Seðlabankann. Þetta er í samræmi við löggjöf margra annarra þjóða.
    Lagt er til að felld verði niður ákvæði um möguleika bankans til að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana, enda samræmist það ekki sífellt frjálsara og alþjóðlegra fjármálakerfi.
    Til að efla möguleika Seðlabankans til að hafa áhrif á þróun peningamála og vaxta með markaðsaðgerðum er gert ráð fyrir að hann hafi ótvíræðar heimildir til að kaupa og selja verðbréf á verðbréfamarkaði og gefa út eigin verðbréf til að selja lánastofnunum á millibankamarkaði.
    Seðlabankanum er heimilað að skipuleggja hér á landi gjaldeyrismarkað og kaupa og selja erlendan gjaldeyri til að hlutast til um að gengi krónunnar haldist innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.
    Lagt er til að ákvæði um laust fé lánastofnana verði þrengt frá því sem nú er, þannig að það þjóni einungis þeim tilgangi að tryggja að stofnanir hafi yfir nægjanlegu lausu fé að ráða til að mæta fjárþörf sinni, en ekki sem almennt stjórntæki í peningamálum eða leið til að örva sölu ríkisverðbréfa.
    Gert er ráð fyrir því að heimildir bankaeftirlitsins til að grípa inn í starfsemi fjármálastofnana verði auknar frá því sem nú er. Jafnframt er í ákvæðum frumvarpsins um bankaeftirlitið tekið mið af væntanlegum breytingum á fjármagnsmarkaði en ör þróun á því sviði hefur oft verið á undan löggjöf um eftirlit.
    Lagt er til að Seðlabankanum verði heimilt að höfðu samráði við ráðherra að veita lánastofnunum önnur lán en hefðbundin lán vegna lausafjárerfiðleika þeirra enda telji hann þörf á því til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins.
    Lagðar eru til verulegar breytingar á stjórn bankans eins og þegar hefur verið rakið. Gert er ráð fyrir að bankinn stuðli að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi sem hann telji það ekki ganga gegn markmiðum sínum. Með þessu er sjálfstæði bankans gagnvart ríkisstjórn eflt verulega. Lagt er til að gerðar verði hæfniskröfur til bankaráðsmanna og bankastjóra. Auglýsa skal stöður bankastjóra og skipar ráðherra í þær samkvæmt tillögum bankaráðs til sjö ára í senn. Sérstök ákvæði eru um formann bankastjórnar sem er talsmaður Seðlabankans og kemur fram fyrir hönd bankastjórnar.
    Gert er ráð fyrir því að ákvæði þar sem kveðið er á um samþykki ráðherra við ákvörðun Seðlabankans verði nær alls staðar felld úr lögum. Slíkt samþykki eða samráð er í flestum tilvikum fært til bankaráðs og miðar að því að auka sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstjórn. Jafnframt eru sett ítarleg ákvæði um verkefni bankaráðs.
    Lagt er til að eigið fé bankans verði byggt upp með þeim hætti að þar til það hefur náð 6% af vergri landsframleiðslu renni fjórðungur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára í ríkissjóð en þegar þessu eiginfjármarki er náð renni allur hagnaður í ríkissjóð. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi rennur ávallt helmingur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára í ríkissjóð óháð eiginfjárstöðu bankans. Auk seðla og myntar í umferð stendur eigið fé Seðlabankans og bundið fé lánastofnana á móti gjaldeyrisvarasjóðnum. Með því að breyta ákvæðinu um greiðslur Seðlabankans í ríkissjóð á þann hátt sem lagt er til og byggja upp eigið fé bankans skapast raunhæfar forsendur til að lækka bindiskyldu lánastofnana.
     Í fjölmörgum lögum öðrum en seðlabankalögum eru lagðar ýmiss konar kvaðir á Seðlabankann. Sem dæmi má nefna umsögn bankans um vaxtaákvarðanir fjárfestingarlánasjóða, eignaraðild að Útflutningslánasjóði, tilnefningu fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og þátttöku í rekstrarkostnaði Þjóðhagsstofnunar. Ljóst er að verði frumvarp þetta að lögum er ástæða til að taka ákvæði af þessu tagi til endurskoðunar. Brýnast virðist vera að endurskoða ákvæði laga um eignaraðild Seðlabankans að Útflutningslánasjóði og ákvæði um umsögn bankans um vaxtaákvarðanir fjárfestingarlánasjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um stöðu og markmið Seðlabanka Íslands. Í kaflanum eru þrjár greinar, 1.–3. gr. Í I. kafla núgildandi seðlabankalaga, sem heitir Skipulag bankans og hlutverk og í eru fjórar greinar, er fjallað um stöðu hans innan stjórnkerfisins, hlutverk og samskipti við ríkisstjórn. Hér eru því lagðar til tvær grundvallarbreytingar á kaflanum. Í fyrsta lagi að markmið bankans skipi höfuðsess en ekki hlutverk hans. Þá er lagt til að fjallað verði um samskiptin við ríkisstjórn í VII. kafla frumvarpsins um stjórnskipulag bankans.

Um 1. gr.


    1. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. gr. núgildandi seðlabankalaga.
     2. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. málsl. 2. gr. núgildandi seðlabankalaga. Eðlilegra þykir að fjallað sé um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum bankans í sömu grein og kveðið er á um stöðu hans innan stjórnkerfisins fremur en í greininni þar sem kveðið er á um heimili hans og varnarþing.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Í greininni eru markmið Seðlabankans skilgreind. Í 3. gr. í núgildandi lögum er kveðið á um hlutverk bankans, en honum sett ýmis markmið í nokkrum öðrum greinum laganna. Hér er lagt til að markmið bankans verði skilgreint strax í upphafskafla frumvarpsins en hvorki fjallað þar né annars staðar í einni grein um hlutverk bankans. Hlutverk bankans ræðst því af ákvæðum einstakra greina og er lýst með frumvarpinu í heild.
     Samkvæmt 1. mgr. er bankanum sett það meginmarkmið að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins og stuðla að því að verðlag haldist stöðugt. Ákvæðið ber að skilja svo að bankinn skuli að jafnaði stefna að því að halda verðbólgu hér á landi í skefjum. Það er hins vegar ljóst að til skemmri tíma litið kann verðbólga að sveiflast eitthvað vegna aðstæðna sem bankinn hefur engin áhrif á og vegna þess að stjórntæki hans hafa ekki full áhrif um leið og þeim er beitt. Í ákvæðinu felst að ekki er ásættanlegt að verðbólga sé mikil, þótt hún sé stöðug, vegna þess að bankanum ber einnig að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins þannig að það rýrni ekki vegna verðlagsbreytinga innan lands.
     Í greininni felst mikil breyting frá gildandi lögum þar sem verðlagsmarkmiðið er einungis eitt af mörgum jafnréttháum markmiðum og hefur iðulega vikið fyrir öðrum markmiðum eins og reynslan sýnir.
     Markmið Seðlabankans samkvæmt núgildandi lögum, sbr. breytingu á þeim í mars 1992, eru:
    Að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt (a-liður 3. gr.). Hér er í rauninni um tvíþætt markmið að ræða.
    Að varðveita og efla gjaldeyrissjóð er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við (b-liður 3. gr.).
    Að vinna að því að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar nái tilgangi sínum (1. mgr. 4. gr.).
     Hér er um fjölda markmiða að ræða. Þau geta hæglega stangast á og nokkur eru í rauninni utan áhrifasviðs stjórntækja Seðlabankans eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp þetta.
     Stjórntæki Seðlabankans eru á sviði peninga- og gengismála. Með þeim er ekki unnt að tryggja að framleiðslugeta atvinnuveganna sé nýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Þar verða að koma til önnur stjórntæki í efnahagsmálum auk aðgerða atvinnugreinanna sjálfra. Svipað gildir um markmiðið um að tryggja rekstrargrundvöll útflutnings- og samkeppnisgreina. Einnig má benda á að Seðlabankinn getur ekki einn tryggt jöfnuð í viðskiptum við útlönd heldur skiptir þar ekki minna máli stefnan í gengismálum, ríkisfjármálum og launamálum.
     Fjöldi mótsagnakenndra markmiða veldur því að Seðlabankinn þarf að velja á milli þeirra. Slíkt val er í eðli sínu stjórnmálalegt og ætti því með réttu að fara fram á vettvangi kjörinna fulltrúa almennings. Því er lagt til að bankanum verði sett eitt skýrt meginmarkmið sem falli vel að hefðbundnum stjórntækjum seðlabanka.
     Í greininni er jafnframt lagt til að bankanum verði gefnar frekari leiðbeiningar í þremur liðum, nokkurs konar undirmarkmið. Þau falla mjög vel að hefðbundinni starfsemi seðlabanka. Í fyrsta lagi er lagt til að bankinn stuðli að virkri og öruggri starfsemi á fjármagnsmarkaði. Samkvæmt þessu er bankanum m.a. falið að hafa með höndum eftirlit með starfsemi fjármálastofnana, sbr. V. kafla frumvarpsins. Hér er um mjög mikilvægt hlutverk að ræða og fer mikilvægi þess vaxandi með auknu frjálsræði og sífelldum nýjungum á fjármagnsmarkaðinum.
     Í öðru lagi er lagt til að bankinn varðveiti nægjanlegan gjaldeyrisvarasjóð til að greiða fyrir frjálsum viðskiptum við útlönd. Hér er um að ræða hefðbundið verkefni seðlabanka.
     Í þriðja lagi er lagt til að bankinn stuðli að greiðri og hagkvæmri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem m.a. tengist útgáfu bankans á seðlum og slegnum peningum en jafnframt notkun annarra greiðslumiðla í viðskiptum innan lands og milli landa. Með þessu ákvæði er lögð ákveðin skylda á bankann til að hafa áhrif á fyrirkomulag greiðslumiðlunar með það fyrir augum að hagkvæmni sé gætt.

Um II. kafla.


     Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um gjaldmiðil Íslands. Í kaflanum eru sex greinar,
4.–9. gr. Hér er lagt til að efnisatriðum laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, og efnisatriðum II. kafla núgildandi seðlabankalaga verði steypt saman og öll nauðsynleg lagaákvæði um gjaldmiðil Íslands höfð í lögum um Seðlabanka Íslands. Því er í gildistökugrein frumvarpsins lagt til að lög nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, verði felld úr gildi. Nefna má að mjög víða erlendis eru lagaákvæði um gjaldmiðil viðkomandi ríkis í lögum um seðlabankann.
     Efnisatriði þessa kafla eru þau sömu og í lögum nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands. Orðalag hefur þó víða verið einfaldað og fært til nútímalegra horfs.

Um 4. gr.


    Þessi grein svarar efnislega til 1., 2. og 3. gr. gildandi gjaldmiðilslaga. Í 1. mgr. er tekið fram að krónan skiptist í hundrað aura.
     Í 2. mgr. er Seðlabankanum veittur einkaréttur til að gefa út peningaseðla, mynt eða annan gjaldmiðil sem getur komið í stað þeirra. Hér er um að ræða verkefni og einkarétt sem seðlabankar í flestum ríkjum hafa með höndum. Með þessu er þó alls ekki verið að útiloka að aðrir aðilar í þjóðfélaginu geti gefið út ýmiss konar greiðslumiðla, svo sem greiðslukort. Slíkir greiðslumiðlar draga iðulega úr þörf fyrir peningaseðla og mynt en leysa þá þó aldrei algerlega af hólmi.
     Í lokamálslið 2. mgr. er bankanum falið að ákveða hvort slegin skuli og gefin út mynt í aurum.

Um 5. gr.


    Þessi grein samsvarar 4. og 5. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga. Lögð er til sú efnisbreyting að í stað þess að ráðherra ákveði, að tillögu Seðlabankans, gerð, lögun, útlit og ákvæðisverð peningaseðla og myntar ákveði bankinn það sjálfur. Þannig er það á öðrum Norðurlöndum, í Þýskalandi og á Nýja-Sjálandi og þannig verður það innan Evrópubandalagsins þegar sameiginlegur gjaldmiðill hefur verið tekinn í notkun. Í 38. gr. er lagt til að ákvörðunarvald í þessu efni verði í höndum bankaráðs.
     Í greininni er einnig lagt til að felld verði brott ákvæði í núgildandi gjaldmiðilslögum um að bankinn þurfi að fullnægja eðlilegri þörf fyrir skiptimynt á hverjum tíma og að mynt skuli vera það rétt slegin að mismunur á þunga einstakra peninga sem eiga að hafa sömu þyngd skuli eigi nema meira en einum af hundraði. Telja verður sjálfgefið að bankinn gæti þess að nóg sé til af mynt í landinu, sbr. c-lið 3. gr. frumvarpsins, og að hann sjái til þess að vandvirkni verði gætt við sláttu hennar.

Um 6. gr.


    Þessi grein samsvarar 7. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga. Lögð er til sú efnisbreyting að í stað þess að ráðherra geti í reglugerð ákveðið að Seðlabankinn leysi skemmda eða máða peningaseðla eða mynt, sem teljast ekki lengur lögmætur gjaldmiðill, til sín með fullu verði eða hluta af verði, geti bankinn tekið ákvarðanir þar að lútandi. Í 38. gr. er lagt til að ákvörðunarvald í þessu efni verði í höndum bankaráðs.

Um 7. gr.


    Þessi grein samsvarar 10. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga. Í 1. mgr. er lögð til sú efnisbreyting að ákvörðun um innköllun peningaseðla og myntar verði ekki í höndum ráðherra heldur Seðlabankans. Í 38. gr. er lagt til að ákvörðunarvald í þessu efni verði í höndum bankaráðs. Lagt er til að áfram gildi sú regla að innkallaðir peningaseðlar og slegnir peningar hætti að vera lögeyrir einu ári eftir birtingu auglýsingar um innköllun. Hins vegar er lagt til í 2. mgr. að Seðlabankanum sé skylt að taka við innkölluðum peningaseðlum og slegnum peningum með fullu ákvæðisverði í að minnsta kosti fimm ár frá birtingu auglýsingar um innköllun í stað tveggja ára í gildandi lögum.
    Í samræmi við það sem komið hefur fram í athugasemdum við 1. mgr. er í 3. mgr. kveðið á um að Seðlabankanum, en ekki ráðherra, sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd innköllunar hverju sinni.
     Ákvæði 4. mgr. er efnislega óbreytt frá 4. mgr. 10. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga. Með því er tryggt að almenn innköllun gjaldmiðils, eins og árið 1981, verði að eiga sér stoð í sérstökum lögum.

Um 8. gr.


    Þessi grein samsvarar 8. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga. Hér er lögð til sú efnisbreyting að Seðlabankinn, en ekki ráðherra, ákveði hvort fjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skuli greind með heilum tug aura eða aurum sleppt. Í 38. gr. er lagt til að ákvörðunarvald í þessu efni verði í höndum bankaráðs. Frá því að gjaldmiðlinum var breytt árið 1981 og verðmæti krónunnar hundraðfaldað hefur dregið úr notkun aura í viðskiptalífinu. Nú er svo komið að ein króna er smæsta eining í viðskiptum ríkissjóðs og fjölmargra annarra aðila. Á grundvelli þessarar greinar gæti Seðlabankinn ákveðið að svo skyldi almennt gilda í þjóðfélaginu.

Um 9. gr.


    Þessi grein er efnislega óbreytt frá 6. gr. núgildandi gjaldmiðilslaga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um III. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um innlend viðskipti Seðlabankans. Í kaflanum eru ellefu greinar, 10.–20. gr. Í fyrstu tveimur greinum kaflans er fjallað um hlutverk Seðlabankans sem viðskiptabanka lánastofnana. Í næstu fjórum greinum er fjallað um helstu stýritæki bankans í peningamálum, þ.e. kaup og sölu verðbréfa á markaði, útgáfu á verðbréfum á millibankamarkaði, vexti í viðskiptum bankans og bindiskyldu. Síðan er í einni grein fjallað um laust fé lánastofnana. Þá er í þremur greinum fjallað um hlutverk Seðlabankans sem viðskiptabanka ríkissjóðs og ríkisstofnana og lánveitingar til opinberra aðila. Í síðustu grein kaflans er fjallað um önnur banka- og verðbréfaviðskipti Seðlabankans á innlendum markaði.
     Kaflinn samsvarar III. kafla í núgildandi seðlabankalögum. Lagt er til að fjölmargar efnisbreytingar verði gerðar á kaflanum og verða þær skýrðar í athugasemdum við einstakar greinar.

Um 10. gr.


    Þessi grein samsvarar 6. gr. núgildandi seðlabankalaga. Í henni er kveðið á um hið hefðbundna hlutverk seðlabanka að taka við innlánum frá innlánsstofnunum. Í greininni er tekið fram að til innlánsstofnana teljist viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi. Lagt er til að innlánsdeildir samvinnufélaga verði ekki sérstaklega taldar upp í þessari skilgreiningu, enda falla þær undir síðasta hluta skilgreiningarinnar. Með breytingum, sem gerðar voru á seðlabankalögunum í mars 1992, teljast útibú erlendra hlutafélagsbanka nú til innlánsstofnana hér á landi. Í ljósi þeirrar opnunar, sem fyrirsjáanleg er á innlendum fjármagnsmarkaði á komandi árum, er hér lagt til að til innlánsstofnana teljist ekki einungis útibú erlendra hlutafélagsbanka heldur allra erlendra innlánsstofnana, þar á meðal erlendra sparisjóða.
     Í 2. mgr. 6. gr. núgildandi seðlabankalaga er ákvæði þess efnis að þegar sérstaklega standi á megi ákveða í reglugerð að Seðlabankinn taki við innlánum frá öðrum peningastofnunum en innlánsstofnunum. Hugtakið peningastofnun er ekki skilgreint í lögunum né heldur í athugasemdum við greinina í frumvarpinu á sínum tíma. Nú er lagt til að í lokamálslið 1. mgr. verði bankanum heimilað að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum. Fellt er niður það ákvæði að slíkt skuli ákveðið með reglugerð en í stað þess er lagt til að bankinn ákveði það sjálfur. Er það sama fyrirkomulag og var í seðlabankalögunum frá 1961. Slík breyting er liður í því að auka sjálfstæði bankans.
     Með hugtakinu lánastofnun er í frumvarpinu átt við stofnanir eða fyrirtæki sem taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum sjóðum frá einstaklingum eða lögaðilum og veita lán í eigin nafni. Með endurgreiðanlegum sjóðum er átt við fjárskuldbindingar sem um gilda skýr ákvæði um endurgreiðslu. Til lánastofnana hér á landi teljast innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar sambærilegar stofnanir, auk fjárfestingarlánasjóða og eignarleiga. Til lánastofnana teljast hins vegar ekki verðbréfasjóðir, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir. Í samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði eru ákvæði um að hér á landi verði lögfest ýmis ákvæði um starfsemi lánastofnana. Það kallar á endurskoðun á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði auk þess sem væntanlega verða sett sérstök lögum aðrar lánastofnanir. Við þessa endurskoðun verður væntanlega kveðið nánar á í lögum um hugtakið lánastofnun til samræmis við skilgreiningu Evrópubandalagsins, sbr. 1. gr. tilskipunar 77/780/EBE.
     Lagt er til að felld verði brott sérstök heimild Seðlabankans til að eiga viðskipti við Lánastofnun sparisjóðanna hf., enda telst hún til lánastofnana og því óþarft að tiltaka hana sérstaklega.
     Í 2. mgr. er kveðið á um að Seðlabankinn setji nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein. Í þeim er honum meðal annars heimilað að mismuna á milli einstakra flokka lánastofnana. Eðlilegt þykir að bankinn hafi slíka heimild og geti t.d. ákveðið að hann taki ekki við innlánum frá eignarleigum eða fjárfestingarlánasjóðum.

Um 11. gr.


    Fyrri málsgrein þessarar greinar er efnislega samhljóða 7. gr. núgildandi seðlabankalaga en nokkuð stytt. Í henni er kveðið á um heimild Seðlabankans til að veita lánastofnunum, sem innlánsviðskipti eiga við bankann, lán gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Hér er einkum um að ræða lán vegna tímabundinna lausafjárerfiðleika lánastofnana.
     Í síðari málsgreininni er kveðið á um önnur lán til lánastofnana, þegar sérstaklega stendur á, í þeim tilgangi að varðveita traust á fjármálakerfi landsins. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi seðlabankalögum. Þau hafa verið túlkuð þannig að Seðlabankinn hafi aðeins heimild til að veita stofnunum, sem viðskipti eiga við bankann, lán með gildum tryggingum. Hefur þetta verið túlkað þannig að Seðlabankinn veiti aðeins lán vegna lausafjárerfiðleika en hafi ekki heimild til að lána stofnunum sem glíma við neikvæða eða ótrygga eiginfjárstöðu.
     Lendi lánastofnun í verulegum erfiðleikum getur verið nauðsynlegt að veita lánafyrirgreiðslu til að afstýra keðjuverkandi, neikvæðum áhrifum á fjármálakerfi landsins. Hér er um slíka undantekningu að ræða frá almennri lánafyrirgreiðslu að eðlilegt er talið að haft sé samráð við ráðherra um beitingu þessarar heimildar. Ákvæði af þessu tagi er í lögum um sænska seðlabankann.

Um 12. gr.


    Hér er um nýtt ákvæði að ræða. Tekin eru af öll tvímæli um að Seðlabankinn hafi heimild til þess að eiga viðskipti á verðbréfamarkaði. Helst er að finna hliðstæðu í núgildandi seðlabankalögum í upphafsorðum 1. mgr. 11. gr. Lagt er til að heimildin verði bundin við viðskipti með ríkistryggð verðbréf, svo sem spariskírteini, ríkisvíxla, ríkisbréf og verðbréf með ábyrgð ríkissjóðs og önnur trygg, innlend og erlend verðbréf. Eðlilegt er að hafa ótvírætt ákvæði af þessu tagi í lögum um Seðlabankann þar sem búast má við að markaðsaðgerðir, þ.e. kaup og sala verðbréfa á markaði, muni á næstu árum skipa mikilvægari sess í stjórn peningamála en verið hefur. Í flestum ríkjum eru aðgerðir af því tagi, ásamt breytingum á vöxtum seðlabankanna í viðskiptum sínum, mikilvægustu stjórntækin í peningamálum. Ótvíræð ákvæði af þessu tagi eru til að mynda í lögum um seðlabankana í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi og í stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins.

Um 13. gr.


    Þessi grein er nýjung. Tilgangur hennar er að taka af öll tvímæli um að Seðlabankinn hafi heimild til að gefa út verðbréf í eigin nafni í innlendri eða erlendri mynt og selja þau lánastofnunum. Með því móti getur bankinn haft áhrif á laust fé lánastofnana sem lið í stjórn peningamála. Seðlabankinn hefur í nokkrum tilfellum gefið út slík bréf á undanförnum árum. Það hefur verið gert á grundvelli hins almenna ákvæðis í 12. gr. núgildandi seðlabankalaga um að bankanum sé heimilt að reka önnur bankaviðskipti sem samrýmanleg geta talist hlutverki hans sem seðlabanka.
     Lagt er til að óheimilt verði að framselja þessi bréf til annarra en lánastofnana sem innlánsviðskipti eiga við bankann. Verðbréf Seðlabankans munu því eingöngu ganga kaupum og sölum á millibankamarkaði en ekki á almennum markaði. Þau munu því ekki keppa við verðbréf lánastofnana eða annarra aðila á almennum markaði. Í nágrannalöndunum eru slík verðbréf seðlabanka mikilvægur viðskiptamiðill á millibankamarkaði. Ótvírætt ákvæði af þessu tagi er til að mynda í lögum um seðlabanka Noregs og Svíþjóðar.

Um 14. gr.


    Þessi grein samsvarar 9. gr. núgildandi seðlabankalaga.
     1. mgr. er nánast samhljóða 1. mgr. 9. gr. núgildandi seðlabankalaga. Hún felur það í sér að Seðlabankinn ákveður sjálfur vexti á útlánum sínum og innlánum, sem og verðbréfum sem hann gefur út.
     Í 2.–4. mgr. 9. gr. núgildandi seðlabankalaga eru ákvæði sem heimila Seðlabankanum undir vissum kringumstæðum að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana og ávöxtunarkröfu og annað endurgjald eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Hér er lagt til að íhlutunarákvæði af því tagi verði ekki í lögum um Seðlabankann. Fyrir því eru einkum tvenn rök. Í fyrsta lagi hefur ákvæðinu ekki verið beitt hingað til þrátt fyrir nær stöðugar deilur um raunvexti hér á landi samanborið við raunvexti erlendis. Í öðru lagi hefur ákvæði af þessu tagi ekkert gildi þegar gjaldeyrishöft einangra ekki lengur innlendan fjármagnsmarkað frá erlendum. Samkvæmt reglugerð nr. 312/1990 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála falla fjárhæðartakmarkanir á langtímahreyfingum fjármagns úr gildi í árslok 1992 og samkvæmt ákvæði í samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði skulu öll höft á skammtímahreyfingum fjármagns hafa fallið úr gildi hér á landi í árslok 1994. Þess er því ekki langt að bíða að einangrun innlends fjármagnsmarkaðar verði að fullu rofin.
     Þróun innlends fjármagnsmarkaðar hefur á undanförnum árum leitt til þess að nær ókleift er fyrir Seðlabankann að hlutast til um vexti á markaðinum með beinum hætti. Ástæða þess er aukið vægi verðbréfaviðskipta þar sem ávöxtunarkrafa kemur í stað formlegra vaxta. Þrátt fyrir heimild Seðlabankans í núgildandi seðlabankalögum til að hlutast til um ávöxtunarkröfu er ljóst að ákvæðið er í reynd óframkvæmanlegt. Grípi Seðlabankinn til þess ráðs að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana er næsta víst að fjármagn leiti frá innlánsstofnunum yfir á þann hluta fjármagnsmarkaðarins þar sem erfiðara er að beita slíkri íhlutun.
     Þróun innlends fjármagnsmarkaðar og þær breytingar, sem lagðar eru til með þessu frumvarpi, leiða til þess að möguleikar Seðlabankans aukast til að hafa áhrif á vaxtaþróun með óbeinum hætti, svo sem með viðskiptum á verðbréfamarkaði.
     Að síðustu skal bent á að ákvæði þess efnis að unnt sé að hlutast til um vaxtamun innlánsstofnana lýtur fremur að samkeppnis- og neytendamálum en peningamálum og samræmist illa því hlutverki Seðlabankans að móta og framfylgja stefnu í peningamálum.

Um 15. gr.


    Þessi grein er í meginatriðum sama efnis og 1.–3. mgr. 8. gr. núgildandi seðlabankalaga. Nokkrar efnisbreytingar eru þó lagðar til á þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi er lagt til að Seðlabankanum verði heimilað að ákveða að lánastofnanir, en ekki einungis innlánsstofnanir, eigi fé á bundnum reikningi í bankanum. Er þessi breyting til samræmis við breytingar á skilgreiningum í öðrum greinum þessa kafla. Í öðru lagi er í 2. mgr. tekið fram að Seðlabankinn setji nánari reglur um grundvöll og útreikning bindiskyldu og að heimilt sé að ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir flokkum lánastofnana, innlána og annarra skulda sem bindingin nær til. Í þriðja lagi er fellt niður ákvæði þess efnis að bindiskyldu megi aðeins beita þegar sérstaklega stendur á, enda hefur henni verið beitt samfellt síðan 1961. Í fjórða lagi er sjálfstæði bankans varðandi beitingu bindiskyldu aukið en áður var beiting þessa stjórntækis háð samþykki ráðherra.
     Rétt er að taka fram að um vexti af bundnum innstæðum fer samkvæmt ákvæðum 14. gr.

Um 16. gr.


    Þessi grein samsvarar 4. mgr. 8. gr. núgildandi seðlabankalaga. Tilgangurinn með þessari grein er sá að lánastofnanir hafi ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi þeirra fylgja. Ákvæðið ber að túlka þröngt þannig að ekki séu lagðar íþyngjandi kvaðir á lánastofnanir. Hér er um ákvæði að ræða sem miðar að því að tryggja öryggi í starfsemi lánastofnana. Núgildandi ákvæði seðlabankalaga um laust fé hefur verið túlkað og beitt mjög rúmt þannig að lausafjárskyldan hefur í raun þjónað tvíþættum tilgangi. Annars vegar hefur því verið beitt í hinum eiginlega tilgangi, þ.e. að tryggja að innlánsstofnanir hafi ætíð yfir að ráða lausu fé til að mæta úttektum. Hins vegar hefur því verið beitt til að örva sölu spariskírteina ríkissjóðs, ríkisvíxla og húsbréfa.
     Lagt er til að skilgreiningin á lausu fé verði samræmd því sem er í núgildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Verði þessi breyting að lögum er enginn munur lengur á því gagnvart ákvæðum um laust fé hvort lánastofnun fjármagnar starfsemi sína innan lands eða utan, enda verður slík mismunun að teljast óeðlileg þegar einangrun íslensks fjármagnsmarkaðar er að hverfa. Vegna þessarar breytingar er í ákvæði til bráðabirgða veittur aðlögunartími í allt að sex mánuði frá gildistöku laganna.
     Með því að taka fram í skilgreiningunni á lausu fé í greininni að til þess teljist ekki önnur verðbréf en ríkisvíxlar og aðrar sambærilegar eignir með skemmri binditíma en 90 daga er í raun verið að girða fyrir þann möguleika að ákvæði um laust fé verði notuð til að greiða fyrir sölu ríkistryggðra langtímaverðbréfa. Hér er því í rauninni verið að leggja til að vextir og önnur kjör þessara verðbréfa verði ákveðin með þeim hætti að þau verði auðseljanleg á almennum markaði í stað þess að beita reglum Seðlabankans um laust fé til að örva sölu þeirra.
     Með sambærilegum eignum við ríkisvíxla er í greininni í fyrsta lagi átt við erlenda ríkisvíxla. Í öðru lagi innlenda og erlenda víxla eða skammtímaskuldabréf sem ríkissjóður Íslands eða ríkissjóður annars lands ábyrgist. Í þriðja lagi er átt við víxla eða skammtímaskuldabréf sem gefin eru út af innlendum eða erlendum lánastofnunum. Með nettóinnstæðum er í greininni átt við innstæður að frádregnum hliðstæðum skuldum. Með nettóeign er í greininni átt við heildareignir að frádregnum hliðstæðum heildarskuldum.
     Í núgildandi seðlabankalögum nær lausafjárskyldan einungis til innlánsstofnana, enda er brýnast að þær hafi yfir að ráða nægjanlegu lausu fé. Hér er hins vegar lagt til að lagaheimildin nái til allra lánastofnana, rétt eins og í flestum öðrum greinum þessa kafla, og að Seðlabankinn setji reglur um framkvæmd hennar. Gera má ráð fyrir að mismunandi reglur um laust fé gildi um innlánsstofnanir og aðrar lánastofnanir. Í sumum tilfellum, t.d. þegar um er að ræða eignarleigur, kann engin þörf að vera á sérstakri lausafjárkvöð.

Um 17. gr.


    Þessi grein svarar til 1. mgr. 10. gr. og 2. málsl. 20. gr. núgildandi seðlabankalaga.
     Í 2. mgr. er lögð til sú nýjung að Seðlabankanum sé heimilt að annast bankaþjónustu aðra en lánsviðskipti fyrir ríkisstofnanir og sjóði í eigu ríkisins. Seðlabankinn hefur til þessa veitt ýmsum ríkisfyrirtækjum og sjóðum í eigu ríkisins bankaþjónustu án þess að það hafi verið sérstaklega heimilað í lögunum um Seðlabankann. Í mörgum tilfellum hafa slík viðskipti verið heimil á grundvelli sérlaga um viðkomandi ríkisfyrirtæki eða sjóði. Það er þó talið eðlilegt að þessi grein verði túlkuð þröngt og ríkisstofnunum og sjóðum í eigu ríkisins ekki veitt bankaþjónusta í Seðlabankanum nema sérstök rök mæli með því. Jafnframt ber að túlka hugtakið bankaþjónusta þröngt þannig að í henni felist einkum greiðsluþjónusta en ekki t.d. innheimta skuldabréfa og sala ferðamannagjaldeyris til starfsmanna viðkomandi stofnana og sjóða.

Um 18. gr.


    Þessi grein er nýjung. Í henni er tekið fram að fjármálaráðherra skuli veita Seðlabankanum upplýsingar um ríkisfjármál. Tilgangurinn er sá að auðvelda Seðlabankanum stjórn peningamála og tryggja honum aðgang að nauðsynlegum upplýsingum vegna stjórnar peningamála. Hér er fyrst og fremst um að ræða upplýsingar um áform ríkissjóðs um lántökur á innlendum og erlendum lánsfjármarkaði og greiðsluáætlanir hans. Slíkar upplýsingar eru Seðlabankanum nauðsynlegar þar sem ríkissjóður er umsvifamikill á fjármagnsmarkaði og vitneskja um fyrirætlanir hans til skamms tíma er bankanum nauðsynleg til að hann geti sinnt verkefnum sínum við stjórn peningamála. Þetta er þeim mun mikilvægara í ljósi þess að í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður hafi ekki lengur aðgang að yfirdráttarlánum eða annarri lánafyrirgreiðslu í Seðlabankanum.
     Þótt hér sé um nýtt lagaákvæði að ræða er rétt að benda á að fjármálaráðherra veitir Seðlabankanum nú þegar upplýsingar um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Þá er í upphafi hvers árs gerður samningur milli þessara aðila um lánafyrirgreiðslu við ríkissjóð innan ársins sem byggist á greiðsluáætlun ársins fyrir ríkissjóð.

Um 19. gr.


    Grein þessi samsvarar 2. mgr. 10. gr. núgildandi seðlabankalaga en er verulega breytt frá því sem nú er. Í núgildandi lögum er Seðlabankanum heimilað að veita ríkissjóði skammtímalán. Þau skulu greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárlagaárs með fé sem ríkissjóður aflar utan Seðlabankans. Ákvæðið var nýjung í núgildandi seðlabankalögum og tilgangurinn var að stemma stigu við skuldasöfnun ríkissjóðs í Seðlabankanum. Ljóst er að núverandi ákvæði hefur reynst haldlítið til að draga úr yfirdráttarskuld ríkissjóðs í bankanum. Sem dæmi má nefna að á árinu 1990 fór yfirdráttarskuld ríkissjóðs hæst í 10 milljarða króna og 14 milljarða króna árið 1991. Að meðaltali nam hún 4,7 milljörðum króna árið 1990 og 9,3 milljörðum króna árið 1991. Reynsla undanfarinna ára sýnir að takmarkalaus aðgangur ríkissjóðs að yfirdráttarlánum í Seðlabankanum er einn helsti veikleiki í stjórn efnahagsmála hér á landi. Ákvæði núgildandi laga um að ríkissjóður skuli gera upp skuld sína við áramót innan þriggja mánaða frá árslokum hefur ekki sett ríkissjóði skorður að þessu leyti. Ákvæði af því tagi er einnig gagnslaust þar sem ríkissjóði er í raun í lófa lagið að taka erlent skammtímalán og nota það til að greiða yfirdráttarskuld sína í Seðlabankanum innan hinna lögbundnu tímamarka og stofna síðan til yfirdráttarskuldar í Seðlabankanum á ný til að endurgreiða erlenda lánið.
     Ákvæði um fyrirgreiðslu seðlabanka við ríkissjóð eru afar mismunandi í hinum ýmsu ríkjum. Danska seðlabankanum er heimilt að lána ríkissjóði gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Í Noregi er seðlabankanum heimilt að veita ríkissjóði lán samkvæmt nánari ákvörðun þjóðþingsins til að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs innan ársins. Í sérstökum tilfellum er bankanum einnig heimilt samkvæmt nánari ákvörðun þjóðþingsins að veita ríkissjóði langtímalán. Sænska seðlabankanum er heimilt að veita ríkissjóði skammtímalán í formi yfirdráttar án nokkurra takmarkana. Þýska seðlabankanum er heimilt að veita ríkissjóði skammtímalán innan tiltekinna fjárhæðarmarka með tryggingu í ríkisvíxlum. Hinum sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins verður með öllu óheimilt að veita ríkissjóðum aðildarríkjanna, stofnunum Evrópubandalagsins eða öðrum opinberum aðilum lán.
     Hér er lagt til að Seðlabankanum verði með öllu óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán. Í ákvæði til bráðabirgða VII er lagt til að þessu marki hvað varðar ríkissjóð verði náð í áföngum á þremur árum. Samkvæmt því getur heildarskuld ríkissjóðs vegna yfirdráttarlána á hverjum tíma á árinu 1993 orðið hæst 3 milljarðar króna, 2 milljarðar króna á árinu 1994 og 1 milljarður króna á árinu 1995. Frá og með 1. janúar 1996 verður ekki um að ræða lánafyrirgreiðslu við ríkissjóð í Seðlabankanum. Hér er um að ræða hámark á lánafyrirgreiðslu bankans við ríkissjóð. Ekki er sjálfgefið að ríkissjóður fullnýti þær heimildir sem felast í ákvæði til bráðabirgða VII.
     Rétt er að undirstrika að skv. 1. mgr. þessarar greinar eru lánastofnanir í eigu ríkisins, svo sem fjárfestingarlánasjóðir atvinnuvega, byggingarsjóðirnir og Byggðastofnun, undanþegnar banni greinarinnar við lánafyrirgreiðslu til ríkissjóðs, ríkisstofnana og sveitarfélaga. Um fyrirgreiðslu við lánastofnanir í eigu ríkisins gilda sömu reglur og um fyrirgreiðslu við aðrar lánastofnanir skv. 10. og 11. gr. frumvarpsins.
     Takmörkun á lánafyrirgreiðslu við ríkissjóð í Seðlabankanum hefur einkum tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi verður brýnna en áður að greiðslur úr ríkissjóði taki mið af því hvenær greiðslur berast til ríkissjóðs þannig að þörf hans fyrir skammtímalán verði haldið í lágmarki. Í öðru lagi verður ríkissjóður að eiga aðgang að öflugum markaði fyrir ríkisvíxla og önnur skammtímaverðbréf þannig að hann geti mætt þörf sinni fyrir skammtímalán á markaði. Ríkisvíxlamarkaðurinn hér á landi hefur nú þegar fest sig í sessi og gegnir mikilvægu hlutverki sem uppspretta lánsfjár fyrir ríkissjóð. Í lok mars 1992 var heildarfjárhæð útistandandi ríkisvíxla rúmlega 13 milljarðar króna. Búast má við að sú breyting, sem lögð er til í þessari grein frumvarpsins, verði til þess að efla enn frekar þann markað.
     Fjármögnun ríkissjóðs á skammtímasveiflum í lánsfjárþörf sinni með útgáfu víxla og annarra skammtímaverðbréfa á fjármagnsmarkaði í stað yfirdráttarlána í Seðlabankanum getur leitt til meiri sveiflna í skammtímavöxtum en ella. Að því marki sem Seðlabankinn telur slíkt óæskilegt getur hann haft áhrif á vaxtaþróunina með því að kaupa eða selja verðbréf á markaði. Með óbeinum aðgerðum af þessu tagi getur Seðlabankinn því greitt fyrir sölu ríkisverðbréfa og komið í veg fyrir óæskilega tímabundna vaxtahækkun þegar ríkissjóður þarf á mikilum skammtímalánum að halda.

Um 20. gr.


    Efnisákvæði þessarar greinar samsvara 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. núgildandi laga. Einungis er um orðalagsbreytingar að ræða. Nánar er þó kveðið á um heimildir bankans til að eiga aðild að fyrirtækjum á sviði verðbréfa- og greiðslumiðlunar. Seðlabankinn er einn af eigendum Reiknistofu bankanna sem stundar m.a. greiðslumiðlun. Með verðbréfamiðlun í skilningi þessarar greinar er ekki átt við kaup og sölu á verðbréfum heldur uppgjör á verðbréfaviðskiptum á einum stað, verðbréfamiðstöð. Dæmi um slíkar verðbréfamiðstöðvar er „Værdipapircentralen“ í Danmörku og hliðstæðar miðstöðvar í Noregi og Svíþjóð.
     Lagt er til að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. núgildandi seðlabankalaga um að Seðlabankanum sé heimilt að stofna og starfrækja verðbréfaþing í samvinnu við innlánsstofnanir og verðbréfamiðlara verði fellt brott, þar sem gert er ráð fyrir að innan tíðar verði sett lög hér á landi um starfsemi verðbréfaþinga. Verðbréfaþing Íslands hefur allt frá stofnun starfað undir verndarvæng Seðlabankans og innan veggja hans. Nú eru hins vegar uppi áform um að það flytjist út úr bankanum. Því er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði Seðlabankanum veitt heimild til að setja reglur um starfsemi þess að fengnu samþykki ráðherra þar til sett hafa verið lög um starfsemi verðbréfaþinga. Einnig má geta þess að verði af samningi um Evrópskt efnahagssvæði verður að lögfesta hér á landi fjölmörg ákvæði um verðbréfaþing.
     Í 2. mgr. er lagt til að Seðlabankanum verði óheimilt að taka að sér viðskipti við almenning sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Í þessu felst m.a. að honum er óheimilt að taka við innlánum frá almenningi og veita almenningi lán. Lagt er til að ein undantekning verði gerð frá þessu banni og bankanum heimilað að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður gefur út. Víða um lönd annast seðlabankar verkefni af þessu tagi fyrir ríkissjóð. Samkvæmt lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, er heimilt að fela Seðlabankanum verkefni af þessu tagi samkvæmt samkomulagi þar að lútandi.

Um IV. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um gengismál og erlend viðskipti Seðlabankans. Í kaflanum eru sex greinar, 21.–26. gr. Í fyrstu tveimur greinum kaflans er fjallað um skráningu á gengi íslensku krónunnar. Í næstu tveimur greinum er fjallað um gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans og gjaldeyrisvarasjóð. Í síðustu tveimur greinum kaflans er fjallað um aðild bankans að alþjóðlegum stofnunum, aðild hans að greiðslusamningum sem Ísland gerir við erlend ríki og önnur erlend viðskipti.
     Í nokkrum greinum í þessum kafla eru lagðar til umtalsverðar, efnislegar breytingar frá ákvæðum núgildandi seðlabankalaga. Þær eru skýrðar ítarlega í athugasemdum við einstakar greinar.

Um 21. gr.


    Þessi grein samsvarar 18. gr. núgildandi seðlabankalaga, sbr. breytingu á þeim í mars 1992. Meginatriði greinarinnar er að Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Samkvæmt þessu hefur ríkisstjórnin því endanlegt ákvörðunarvald í gengismálum. Ákvæðið heimilar bæði fljótandi gengi þar sem verðgildið ræðst af kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði og fasttengingu við gullfót, eins og gilti hér á landi á fyrstu áratugum þessarar aldar, og hvers konar gengisfyrirkomulag á milli þessara tveggja kosta. Má í því sambandi nefna viðmiðun við meðaltal gjaldmiðla eins og tíðkast hefur um nokkurt skeið, viðmiðun við samsettan gjaldmiðil eins og evrópsku mynteininguna (ECU), sérstök dráttarréttindi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR) og hvers konar samsetningu fyrrnefndra möguleika. Jafnframt er heimilt að ákveða hámarks- og lágmarksgengi, eða vikmörk, gagnvart þeirri gengisviðmiðun sem er valin. Benda má á að slík gengisskráning tíðkast í flestum ríkjum Vestur-Evrópu, þar á meðal á öðrum Norðurlöndum. Gildir þá einu hvort um er að ræða gengissamstarf Evrópubandalagsríkjanna, gengi sem tekur mið af vegnu meðaltali margra erlendra mynta, þ.e. gengiskörfu eins og hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum til ársins 1991, eða gengi sem er fasttengt annarri mynt (Norðurlandamyntir tengdar ECU frá 1991). Í þeim tilvikum halda seðlabankar gengi myntarinnar innan þeirra vikmarka, sem ákveðin hafa verið, með kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði eða öðrum aðgerðum í peningamálum sem áhrif hafa á gengið.
     Í 2. mgr. er lagt til að Seðlabankanum verði heimilað að takmarka tímabundið viðskipti með erlendan gjaldeyri. Er þá átt við bæði eigin viðskipti og viðskipti á skipulögðum gjaldeyrismarkaði sé hann til staðar. Jafnframt getur hann hætt að skrá hið opinbera viðmiðunargengi skv. 22. gr. Ákvæði af þessu tagi er nauðsynlegt þar sem óvenjulegar aðstæður geta leitt til þess að mikið ójafnvægi myndast í gjaldeyrisviðskiptum og við þær aðstæður kann að vera heppilegast að Seðlabankinn takmarki viðskipti á markaðinum um stund. Miðað við núverandi gengisfyrirkomulag mundi Seðlabankinn einfaldlega hætta að skrá gengið eins og gert hefur verið áður en gengið hefur verið fellt.
     Í 3. mgr. er tekið fram að ákvarðanir Seðlabankans um skipan gengisskráningar skuli birtar opinberlega. Þetta er gert til að tryggja að almenningi hafi verið tilkynnt hvaða skipan gengisskráningar gildi. Með skipan gengisskráningar er t.d. átt við það hvernig gengiskarfan, sem notuð er til að skrá gengi krónunnar, sé samsett. Ákvæðið ber að túlka þannig að Seðlabankinn geti án fyrirvara breytt skipan gengiskráningar án þess að tilkynna það opinberlega áður.

Um 22. gr.


    Þessi grein er samhljóða 3. mgr. 18. gr. núgildandi seðlabankalaga, sbr. breytingu á þeim í mars 1992. Í henni felst að einu sinni á dag, þegar bankastofnanir eru almennt opnar til viðskipta, skal Seðlabankinn skrá á ákveðnum tíma dags gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það telst opinbert viðmiðunargengi þess dags og skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Miðað við núverandi fyrirkomulag gengisskráningar, þar sem Seðlabankinn ákveður einhliða gengi krónunnar á hverjum morgni, hefur ákvæði af þessu tagi takmarkað gildi. Þá er gengið, sem bankinn birtir á morgni hverjum, hið opinbera viðmiðunargengi þess dags. Ákvæði af þessu tagi er hins vegar nauðsynlegt þegar Seðlabankinn ákveður ekki lengur einhliða gengi krónunnar og það ræðst af framboði og eftirspurn á skipulögðum gjaldeyrismarkaði. Í því tilviki gæti Seðlabankinn annaðhvort ákveðið að hið opinbera viðmiðunargengi væri það gengi, sem hann væri reiðubúinn að eiga viðskipti á, á einhverjum tilteknum tíma dags, t.d. kl. 9 að morgni eða kl. 12 á hádegi, eða meðaltal af því gengi sem hann og aðrir helstu aðilar á markaðinum bjóða á einhverjum tilteknum tíma dags. Þess má geta að hið opinbera gengi evrópsku mynteiningarinnar, ECU, er reiknað út kl. 14:15 dag hvern.

Um 23. gr.


    Efni þessarar greinar á sér nokkra samsvörun í 19. og 22. gr. núgildandi seðlabankalaga. Í 1. mgr. er kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að kaupa og selja erlendan gjaldeyri og ríkisverðbréf eða önnur trygg og auðseljanleg verðbréf í erlendri mynt til að ná markmiðum sínum í peningamálum og sinna hlutverki sínu í gengis- og gjaldeyrismálum. Þar með er bankanum heimilt að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði og hlutast á þann hátt til um gengi íslensku krónunnar. Í sömu málsgrein er bankanum einnig heimilað að skipuleggja gjaldeyrismarkað hér á landi. Samsvarandi ákvæði er ekki í núgildandi seðlabankalögum. Með gjaldeyrismarkaði skapast möguleikar til að láta gengi krónunnar ráðast af framboði og eftirspurn í stað þess að það sé ákveðið einhliða eins og nú er. Telja verður eðlilegt að Seðlabankinn hafi forustu um að skipuleggja slíkan markað og setja honum leikreglurnar. Sú heimild sem veitt er í 2. og 3. málsl. 1. mgr. er efnislega samhljóða breytingum sem gerðar voru á gildandi seðlabankalögum í mars 1992.
     Í 19. gr. núgildandi seðlabankalaga er tilgreint hvaða aðilar hér á landi hafa heimild til að versla með erlendan gjaldeyri. Nú er lagt til að ákvæði af því tagi verði fellt niður. Rökin fyrir því eru þau að eðlilegast sé að fjallað sé um gjaldeyrismál, þar á meðal hvaða aðilar hafi heimild til að versla með erlendan gjaldeyri, í sérstökum lögum um það efni eins og nú er í lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Auk lagaheimilda í núgildandi seðlabankalögum og núgildandi gjaldeyrislögum er kveðið á um heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til að versla með erlendan gjaldeyri í lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og lögum nr. 87/1985, um sparisjóði.
     Í 2. mgr. er lagt til að Seðlabankinn annist framkvæmd og eftirlit í gjaldeyrismálum eftir því sem ákveðið er í lögum um gjaldeyrismál eða öðrum lögum. Er þetta talið einfaldara og betra orðalag heldur en í 22. gr. núgildandi seðlabankalaga þar sem Seðlabankanum er falið að hafa umsjón með gjaldeyrisversluninni og eftirlit með því að lögum og reglum um verslun með gjaldeyri og ráðstöfun hans sé fylgt. Ítarleg ákvæði um þetta efni eru í lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Þar er einnig að finna allar nauðsynlegar reglugerðarheimildir þannig að reglugerðarheimildin í 2. mgr. 22. gr. núgildandi seðlabankalaga er óþörf.

Um 24. gr.


    Efni þessarar greinar samsvarar 21. gr. og b-lið 3. gr. núgildandi seðlabankalaga, sbr. breytingu á þeim í mars 1992. Nokkrar nýjungar er að finna í greininni.
     Í 1. mgr. er kveðið á um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins. Í núgildandi seðlabankalögum er aðeins tiltekið að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli varðveittur í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innlánum og gjaldeyri sem nota má til greiðslu hvar sem er. Þar sem gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur um langt skeið einnig verið varðveittur í öðrum tryggum eignum en taldar eru upp í núgildandi lagaákvæði, eins og gulli og sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR), þykir rétt að taka það fram í greininni.
     Ekki þykir ástæða til að skilgreina í greininni fremur en í núgildandi seðlabankalögum hvað átt er við með „trygg og auðseljanleg verðbréf“ og er mat á því lagt í hendur Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur um langt skeið gætt fyllstu varfærni við varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins.
     1. málsl. 2. mgr. er efnislega sambærilegur við 1. mgr. 21. gr. núgildandi laga en orðaröð hefur verið breytt og orðalag einfaldað.
     2. málsl. 2. mgr. er nýjung. Þar er lagt til að bankanum verði heimilað að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra stofnana sem felst í því að gerðir eru tvíhliða eða marghliða samningar um gagnkvæm lánsréttindi, þ.e. að einn geti fengið lán hjá öðrum ef gjaldeyrisvarasjóðurinn rýrnar. Þess má geta að norrænu seðlabankarnir að Seðlabanka Íslands meðtöldum hafa gert slíka samninga sín á milli. Einnig má geta þess að þegar norska krónan var tengd evrópsku mynteiningunni, ECU, gerði norski seðlabankinn tvíhliða samninga við seðlabanka aðildarríkja Evrópubandalagsins um fyrirgreiðslu ef verja þyrfti norsku krónuna áhlaupi og efla þyrfti gjaldeyrisvarasjóð Noregs.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði 2. mgr. 21. gr. núgildandi seðlabankalaga verði fellt brott. Í því er Seðlabankanum heimilað að taka lán erlendis í því skyni að endurlána það innan lands enda komi ábyrgð ríkissjóðs til við endurlánin. Ákvæði af þessu tagi kann að hafa verið nauðsynlegt á árum áður þegar tiltölulega fáir innlendir aðilar höfðu reynslu af erlendum lántökum í eigin nafni og áttu ekki greiðan aðgang að erlendu lánsfé. Þetta hefur hins vegar gerbreyst á síðustu árum. Telja verður eðlilegt að lánastarfsemi af þessu tagi sé á hendi lánastofnana eða ríkissjóðs en ekki Seðlabankans.

Um 25. gr.


    Efnisatriði þessarar greinar er að finna í 1. málsl. 20. gr. og 23. gr. núgildandi seðlabankalaga. Í 1. málsl. 20. gr. segir að bankinn hafi með höndum viðskipti við alþjóðafjármálastofnanir í umboði ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið túlkað þannig að í orðinu viðskipti felist einnig samskipti. Til að taka af öll tvímæli er lagt til orðalagið „samskipti og viðskipti“. Þetta ákvæði ber að túlka þannig að í því felist m.a. að Seðlabankanum sé heimilt að opna reikninga í nafni þessara stofnana í bankanum ef þess er óskað og í nafni hans í þessum stofnunum. Ákvæðið nær ekki aðeins til alþjóðlegra banka- og fjármálastofnana heldur einnig til alþjóðlegra stofnana eins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París.
     1. málsl. 2. mgr. samsvarar 23. gr. núgildandi laga um bankann en orðaröð hefur verið breytt. Í ákvæðinu felst að Seðlabankinn leggur fram fjárframlög til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samkvæmt reglum og ákvörðunum sjóðsins og að fenginni heimild Alþingis hverju sinni. Fjárframlögin greiðast því ekki úr ríkissjóði. Fjárframlög af þessu tagi voru síðast ákveðin með lögum nr. 103/1990, um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Um aðild Íslands að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að öðru leyti fer samkvæmt lögum nr. 105/1945, um þátttöku Íslands í stofnun gjaldeyrissjóðs og alþjóðabanka samkvæmt tillögum Bretton Woods fundarins og um lántöku í því skyni.
     2. málsl. 2. mgr. er nýjung. Frá stofnun Seðlabankans árið 1961 hefur hann átt hlutabréf í Alþjóðlega greiðslubankanum (Bank for International Settlements) í Basel í Sviss. Því þykir rétt að í lögum um bankann sé ótvírætt ákvæði sem heimili honum að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Slík aðild er þó bundin því skilyrði að hún samræmist hlutverki bankans sem seðlabanka.

Um 26. gr.


    Efni 1. málsl. greinarinnar samsvarar 1. málsl. 20. gr. í núgildandi seðlabankalögum. Þó þykir rétt að taka fram að Seðlabankinn mun ekki aðeins annast framkvæmd greiðslusamninga eins og kveðið er á um í núgildandi seðlabankalögum heldur einnig gerð þeirra.
     Þrátt fyrir aukið frjálsræði í gjaldeyrismálum víða um heim á undanförnum árum tíðkast enn að greiðslusamningar séu gerðir við einstök ríki. Þetta á einkum við um Austur-Evrópu og fyrrum sovétlýðveldi. Nýjasti greiðslusamningur af þessu tagi var gerður í janúar 1992 milli Seðlabankans og Utanríkisviðskiptabanka Rússlands. Því er talið rétt að hafa ákvæði af þessu tagi í lögum um Seðlabankann.
     2. málsl. greinarinnar er nýjung. Eðlilegt þykir að Seðlabankinn hafi almenna heimild til að stunda önnur erlend viðskipti sem ekki eru sérstaklega tilgreind í ákvæðum frumvarpsins enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka.

Um V. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um eftirlit Seðlabankans með fjármálastofnunum og starfsemi bankaeftirlits Seðlabankans. Í kaflanum eru fimm greinar, 27.–31. gr. Kaflinn byggist að miklu leyti á IV. kafla núgildandi seðlabankalaga. Þó hafa verið gerðar veigamiklar efnisbreytingar á einstökum ákvæðum hans og eru þær skýrðar í athugasemdum við einstakar greinar.

Um 27. gr.


    Í 1. mgr. 13. gr. núgildandi seðlabankalaga er honum falið eftirlit með því að innlánsstofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra. Í sérlögum hefur Seðlabankanum jafnframt verið falið eftirlit með öðrum stofnunum en innlánsstofnunum, þ.e. eignarleigum, verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum, auk þess sem honum hefur verið falið að setja reglur um gerð og endurskoðun á ársreikningum lífeyrissjóða.
     Hér er lagt til að eftirlit Seðlabankans nái til lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Hugtakið fjármálastofnun er ekki skilgreint í greininni en það ber að túlka rúmt þannig að það nái til allra stofnana og fyrirtækja sem starfa á fjármagnsmarkaði og veita almenningi og fyrirtækjum fjármálaþjónustu. Til fjármálastofnana teljast einkum bankar, sparisjóðir, fjárfestingarlánasjóðir, eignarleigur, verðbréfafyrirtæki, verðbréfasjóðir, lífeyrissjóðir og tryggingarfélög. Tekið er fram í greininni að Seðlabankinn hafi því aðeins eftirlit með starfsemi þessara stofnana og fyrirtækja að eftirlitið sé ekki öðrum falið með lögum. Ákvæði þessarar greinar kemur ekki í veg fyrir að Seðlabankanum sé með sérstökum lögum falið eftirlit með stofnunum eða fyrirtækjum sem ekki eru talin upp hér að framan. Samkvæmt þessu er bankaeftirlitinu falið eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða, en það hefur það ekki haft til þessa. Þó voru á vorþingi samþykkt lög nr. 27/1991 þar sem bankaeftirlitinu var falið að setja reglur um gerð ársreiknings og endurskoðun lífeyrissjóða. Jafnframt var því falið visst eftirlit með fjárhagsstöðu lífeyrissjóða.
     Lagt er til að Seðlabankinn hafi ekki aðeins eftirlit með því að stofnanir og fyrirtæki hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir heldur einnig það sem telja má eðlilega viðskiptahætti. Síðasta atriðið er nýjung. Eðlilegt þykir að hafa ákvæði af þessu tagi í seðlabankalögum þar sem fjármálaþjónusta tekur mjög örum breytingum og sífellt eru að verða til nýjar tegundir stofnana og fyrirtækja. Iðulega fylgir löggjafinn þessari öru þróun ekki nægjanlega hratt eftir með breytingu á lögum eða setningu nýrra laga. Á meðan svo er kann að skapast óheppilegt millibilsástand þar sem lagaákvæði skortir um viðkomandi starfsemi og óvíst er hvort bankaeftirlit Seðlabankans eða annar aðili skuli hafa eftirlit með starfseminni. Með því orðalagi, sem hér er lagt til, hefur bankaeftirlitið eftirlitsskyldu að gegna gagnvart fjármálastofnunum þó að ekki hafi verið sett lög um starfsemi þeirra. Heimildir bankaeftirlitsins til íhlutunar og aðgerða gagnvart þessum stofnunum eru þó mun takmarkaðri en gagnvart stofnunum sem lög gilda um, og takmarkast við það að gera athugasemdir, sbr. 5. mgr. 31. gr.

Um 28. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um bankaeftirlit Seðlabankans. Hún samsvarar 2. og 3. mgr. 13. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að veigamiklar breytingar verði gerðar á þeim ákvæðum. Í fyrsta lagi er lagt til að forstöðumaður bankaeftirlitsins verði ráðinn af bankaráði samkvæmt tillögu bankastjórnar en ekki skipaður af ráðherra. Breytingin er bæði liður í því að auka sjálfstæði bankans og skerpa ábyrgðarsvið og stjórnskipulag innan hans. Þykir ekki heppilegt að aðrir starfsmenn bankans en bankastjórar skuli skipaðir af ráðherra. Í ljósi þess að forstöðumaður bankaeftirlitsins gegnir veigamiklu hlutverki er lagt til að hann verði ráðinn af bankaráði. Með því móti fær staða hans aukið vægi frá því sem verið hefði ef forstöðumaðurinn væri ráðinn af bankastjórn.
     Í öðru lagi er lagt til að sérstök samstarfsnefnd ráðuneytisins og Seðlabankans til að fylgjast með starfi bankaeftirlitsins verði lögð niður. Nefnd þessi hefur gegnt veigalitlu hlutverki á undanförnum árum. Auk þess er ekki ótvírætt hvort í núgildandi lagaákvæði felist að nefndin beri á einhvern hátt ábyrgð á störfum bankaeftirlitsins. Þess í stað er tilgreint í 3. mgr. að Seðlabankinn skuli hafa samráð við ráðuneytið um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins, auk þess sem hann skal gefa ráðuneytinu skýrslu um starfsemi þess eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Samsvarandi skýrsluskylda er einnig í núgildandi seðlabankalögum. Þá er í 38. gr. frumvarpsins kveðið á um að bankaráð Seðlabankans sé bankastjórn til ráðuneytis um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins.
     Í þriðja lagi er lagt til að skýrt verði tekið fram í 1. mgr. að bankaeftirlitið starfi undir yfirstjórn bankastjórnar. Í 2. mgr. 13. gr. núgildandi seðlabankalaga segir að bankaeftirlitið starfi undir yfirstjórn bankastjórnar og bankaráðs. Er talið óheppilegt að kveða á um að tveir aðilar fari með yfirstjórn þessarar starfsemi. Þótt bankaráð ráði forstöðumann bankaeftirlitsins felst þó ekki í því að bankaráð hafi yfir honum að segja eða hafi dagleg afskipti af störfum bankaeftirlitsins. Bankaeftirlitið starfar því undir yfirstjórn og á ábyrgð bankastjórnar eins og allar aðrar deildir bankans að undanskilinni endurskoðunardeild.

Um 29. gr.


    Þessi grein samsvarar 14. og 15. gr. núgildandi seðlabankalaga. Efnisatriði eru þau sömu en orðalagi hefur verið breytt á nokkrum stöðum til einföldunar. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 30. gr.


    Þessi grein samsvarar 5. mgr. 8. gr. núgildandi seðlabankalaga. Til samræmis við breytingar á gildissviði annars staðar í frumvarpinu er lagt til að reglur um fjárhagslegt öryggi nái ekki aðeins til innlánsstofnana, eins og kveðið er á um í núgildandi seðlabankalögum, heldur til lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Í núgildandi ákvæði er einungis kveðið á um gengisbundnar eignir og skuldir en hér er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að setja reglur á fleiri sviðum er miði að því að stuðla að fjárhagslegu öryggi lánastofnana og annarra fjármálastofnana. Þessi svið eru talin upp í greininni.

Um 31. gr.


    Þessi grein samsvarar 17. gr. núgildandi seðlabankalaga að undanskilinni 4. mgr. sem er nýjung.
     Í 4. mgr. er lagt til að Seðlabankinn geti tekið stjórn lánastofnunar í sínar hendur í allt að þrjá mánuði ef hann telur brýna ástæðu til og að fengnu samþykki ráðherra. Heimilt er að framlengja tímabilið um allt að þrjá mánuði. Þetta ákvæði ber að túlka þröngt þannig að ekki sé gripið til þessa úrræðis nema ótvírætt sé að það þjóni hagsmunum viðskiptamanna viðkomandi stofnunar og tryggi öryggi á fjármagnsmarkaðinum. Í 38. gr. er lagt til að tillöguvald bankans til ráðherra um yfirtöku á stjórn stofnunar verði í höndum bankaráðs.
     Í 5. mgr. er fjallað um aðgerðir bankaeftirlitsins í þeim tilvikum þegar ótvíræð lagafyrirmæli skortir um rekstur fjármálastofnana. Í málsgreininni, sem svarar til 3. mgr. 17. gr. núgildandi seðlabankalaga, er lögð til sú breyting að í stað þess að bankaeftirlitinu sé heimilt að gera athugasemdir er því skylt að gera það ef rekstri fjármálastofnunar er á einhvern hátt ábótavant og hann brýtur í bága við eðlilega viðskiptahætti.
     Í 6. mgr., sem svarar til 4. mgr. 17. gr. núgildandi seðlabankalaga, er lagt til að kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir bankaeftirlitsins skuli einnig tilkynntar bankaráði Seðlabankans. Ákvæði þar að lútandi er ekki í núgildandi seðlabankalögum. Þessi nýjung er lögð til í ljósi þess hversu mikilvæg mál þessi eru.

Um VI. kafla.


     Í kaflanum er fjallað um skýrslugerð bankans. Í honum eru einungis tvær greinar, 32.
og 33. gr. Í þeirri fyrri er fjallað almennt um hagskýrslugerð bankans og upplýsingar til almennings. Í þeirri síðari er fjallað um skýrslur bankans til Alþingis og ríkisstjórnar. Kaflinn samsvarar VI. kafla núgildandi seðlabankalaga.

Um 32. gr.


    Efni þessarar greinar samsvarar 24. gr. núgildandi seðlabankalaga. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðum þeirrar greinar en orðalagi breytt lítillega.
     Í 1. mgr. er tekið fram að Seðlabankinn skuli gera skýrslur og áætlanir um peningamál, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bankans varðar. Litið er svo á að greiðslujöfnuður við útlönd falli undir þessi svið.
    Í síðari málslið 1. mgr. er bankanum falið að birta opinberlega upplýsingar um peningamál og gengis- og gjaldeyrismál og skýra stefnu sína og aðgerðir. Telja verður eðlilegt að sjálfstæður seðlabanki kynni stefnu sína og aðgerðir opinberlega á greinargóðan hátt.

Um 33. gr.


    Í 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga segir: „Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en tvisvar á ári senda ráðherra greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, greiðslujafnaðar- og gengismálum.“ Bankinn hefur uppfyllt þessa lagaskyldu með því að senda ráðherra ársskýrslu sína að vori og sérstaka greinargerð, svokallaða skammdegisskýrslu, um mánaðamót nóvember og desember.
     Í ljósi þess að í frumvarpinu er lagt til að sjálfstæði bankans gagnvart ríkisstjórn verði aukið, m.a. með því að bankaráð, sem kjörið er af Alþingi, gegni stærra hlutverki í starfsemi bankans en áður, en hlutverk ráðherra minnki, er lögð til breyting á ákvæði um skýrslugjöf bankans. Í stað þess að hann sendi ráðherra greinargerð er lagt til að hann sendi Alþingi og ríkisstjórn greinargerð. Þá er lagt til að í greinargerð bankans skuli ekki aðeins vera fjallað um þróun og horfur í peningamálum og gengis- og gjaldeyrismálum heldur einnig stefnu bankans og aðgerðir í þessum málum.

Um VII. kafla.


     Í kaflanum er fjallað um stjórnskipulag bankans. Í honum eru átta greinar, 34.–41. gr. Kaflinn samsvarar VII. kafla í núgildandi seðlabankalögum. Í fyrstu tveimur greinum kaflans er fjallað um tengsl bankans við framkvæmdarvaldið. Í næstu þremur greinum er fjallað um skipan, starfshætti og verkefni bankaráðs. Þá er í tveimur greinum fjallað um bankastjórn. Í síðustu grein kaflans er fjallað um önnur störf æðstu stjórnenda bankans.

Um 34. gr.


    Grein þessi samsvarar 25. gr. núgildandi seðlabankalaga. Í henni segir að yfirstjórn bankans sé í höndum viðskiptaráðherra og bankaráðs og að stjórn hans sé að öðru leyti í höndum bankastjórnar. Hér er lagt til skýrara orðalag sem kveður á um að viðskiptaráðherra fari með málefni bankans og að stjórn bankans sé í höndum bankaráðs og bankastjórnar svo sem fyrir er mælt í frumvarpinu.
     Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969. Í auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, kemur fram að Seðlabankinn heyri undir viðskiptaráðuneytið. Nefndin, sem samdi þetta frumvarp, tók enga afstöðu til breytinga á verkaskiptingu ráðuneyta. 1. málsl. þessarar greinar endurspeglar því núgildandi verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins á grundvelli auglýsingarinnar frá 1969.

Um 35. gr.


    Efni þessarar greinar svarar til 1. mgr. 4. gr. og fyrri hluta 2. málsl. 20. gr. núgildandi seðlabankalaga.
     Í 1. mgr. er kveðið á um að Seðlabankanum sé skylt að hafa samráð við ríkisstjórn um mótun og framkvæmd stefnu á starfssviði sínu og vera ríkisstjórn til ráðuneytis. Er það í samræmi við ákvæði núgildandi seðlabankalaga. Í núgildandi lögum er ákvæði um að bankastjórn Seðlabankans hafi rétt til að lýsa opinberlega verulegum ágreiningi við ríkisstjórnina og skýra skoðanir sínar. Engu að síður skal bankastjórnin telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að stefna ríkisstjórnarinnar nái tilgangi sínum. Nú er lagt til að ákvæði af þessu tagi falli brott, enda skerða þau sjálfstæði bankans. Þess í stað er lagt til í 2. mgr. að bankinn skuli stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi að það gangi ekki gegn markmiðum bankans. Það er á valdi bankans að meta hvort svo sé. Með því móti er sjálfstæði hans gagnvart ríkisstjórn undirstrikað enn frekar.
     Í 3. mgr. er kveðið á um að ríkisstjórnin veiti Seðlabankanum nauðsynlegar upplýsingar um efnahagsmál sem eru starfsemi hans nauðsynlegar. Ákvæðið ber að skilja þannig að um sé að ræða upplýsingar sem eru ríkisstjórninni tiltækar.

Um 36. gr.


    Þessi grein samsvarar 30. gr. núgildandi seðlabankalaga en er nokkru ítarlegri. 2. málsl. 1. mgr. er nýjung. Telja verður óeðlilegt vegna hættu á hagsmunaárekstrum og aðgangs að trúnaðarupplýsingum um samkeppnisaðila að stjórnendur lánastofnana og þeirra fjármálastofnana sem Seðlabankinn hefur eftirlit með sitji í bankaráði Seðlabankans. Því er lagt til að óheimilt verði að kjósa þá í bankaráðið.
     3. málsl. 1. mgr. er einnig nýjung. Rétt þykir að tilgreina að umboð bankaráðs gildi þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið til að tryggja að Seðlabankinn verði ekki án bankaráðs. Í þessari málsgrein er einnig tekið fram að varamaður taki sæti aðalmanns sem látið hefur af störfum þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins. Rétt þykir að hafa skýrt ákvæði af þessu tagi í lögunum. Í þessari málsgrein er einnig nýtt ákvæði um hæfniskröfur til bankaráðsmanna. Ákvæðið um víðtæka þekkingu á efnahagsmálum ber að túlka rúmt.
     Í 2. mgr. er lögð til sú nýjung að nýr ráðherra geti skipað nýjan formann og varaformann bankaráðs úr hópi kjörinna aðalmanna. Þar með gefst nýjum ráðherra kostur á breytingum á forustu bankaráðs kjósi hann það. Með þessu lagafrumvarpi er lagt til að áhrif ráðherra á starfsemi Seðlabankans verði takmörkuð verulega. Það verður því að teljast eðlilegt að samskiptum ráðherra við bankaráð verði hagað þannig að formaður og varaformaður bankaráðs njóti fyllsta trausts ráðherra hverju sinni. Hér er hins vegar ekki lagt til að nýjum ráðherra verði skylt að gera breytingu á forustu bankaráðs heldur verður honum það heimilt.

Um 37. gr.


    Þessi grein samsvarar 3. mgr. 31. gr. og 32. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að í stað núgildandi ákvæðis um að bankaráð haldi fundi eftir þörfum en að jafnaði eigi sjaldnar en hálfsmánaðarlega komi ákvæði þess efnis að formaður bankaráðs kalli bankaráð saman til fundar án þess að getið sé um lágmarkstíðni funda. Telja verður eðlilegt að bankaráð setji sér sjálft slíkar reglur ef þörf krefur. Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um að atkvæði formanns ráði úrslitum ef atkvæði falla jafnt á fundum bankaráðs. Einnig er lagt til að lögfest verði að halda skuli gerðabók á fundum bankaráðs.
     Í 2. mgr. er fjallað um þátttöku bankastjóra á fundum bankaráðs. Síðasti málsliður þessarar málsgreinar er nýjung. Hann ber að skilja svo að einungis bankastjórn sem heild geti lagt fram tillögur á fundum bankaráðs en ekki einstakir bankastjórar. Ekki er lagt til að kveðið verði á um þátttöku annarra starfsmanna bankans en bankastjóra á fundum bankaráðs. Aðrir starfsmenn bankans sitja því ekki bankaráðsfundi nema að ósk bankaráðs.

Um 38. gr.


    Í þessari grein eru talin upp verkefni bankaráðs. Ákvæði þar að lútandi er að finna á víð og dreif í núgildandi seðlabankalögum, svo sem 2. mgr. 13. gr., 25. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 28. gr., 29. gr., 31. gr. og 34. gr. Einnig eru talin upp fjölmörg verkefni bankaráðs í reglugerð fyrir bankann.
     Víða í frumvarpinu er vísað til ákvarðana sem Seðlabankinn skal taka eða tillagna sem hann skal gera. Sé ekki tekið fram í þessari grein að bankaráð hafi ákvörðunarvald á því sviði ber að líta svo á að ákvörðunarvaldið eða tillögurétturinn sé í höndum bankastjórnar.
     Í 1. málsl. greinarinnar er tekið fram að bankaráð hafi yfirumsjón með starfsemi bankans. Það ber að skilja þannig að bankaráði, sem er kjörið af Alþingi, sé falin yfirumsjón með starfsemi bankans og veiti rekstri og starfsemi hans aðhald og sinni eftirliti af hálfu löggjafarvaldsins auk annarra verkefna sem eru nánar tilgreind í þessari grein. Þá er í þessum málslið kveðið á um að bankaráð skuli vera bankastjórn til ráðuneytis um stefnu bankans í peningamálum og gengis- og gjaldeyrismálum og um meginþætti í starfsemi hans. Það er því ætlast til að bankaráð fjalli um stefnu bankans.
     Í stafliðum a til o eru síðan talin upp verkefni sem bankaráði er sérstaklega ætlað að sinna. Ákvæðið í b-lið ber að túlka þannig að bankastjórn kynni í bankaráði reglur bankans um öll helstu stjórntæki í peningamálum en setning þeirra og beiting sé alfarið á valdi og ábyrgð bankastjórnar. Í sumum tilvikum er um að ræða formlegar reglur sem bankinn gefur út, t.d. reglur um bindiskyldu og laust fé, en í öðrum tilvikum getur verið um að ræða vinnureglur um beitingu stjórntækja, t.d. um kaup og sölu verðbréfa.
     Í c-lið er lagt til að bankaráð verði bankastjórn til ráðuneytis um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins. Þar sem gera má ráð fyrir að mikilvægi þessa þáttar í starfsemi bankans aukist enn frekar eftir því sem frjálsræði vex á fjármagnsmarkaði er talið eðlilegt að bankaráð fjalli um meginþætti í starfsemi bankaeftirlitsins. Ákvæðið ber ekki að túlka þannig að bankaráð hafi afskipti af daglegum störfum bankaeftirlitsins eða beri ábyrgð á störfum þess, enda er lagt til í 28. gr. að bankaeftirlitið starfi undir yfirstjórn bankastjórnar.
     Ákvæði d-liðar ber að túlka þannig að bankaráð verði að staðfesta skipurit bankans og verkaskiptingu bankastjóra en ekki smærri atriði í stjórnskipulagi bankans, eins og starfslýsingar einstakra starfsmanna hans.
     Í g-lið er kveðið á um að bankaráð staðfesti ráðningu aðstoðarbankastjóra, en þeir fara með stjórn veigamikilla málaflokka í bankanum. Eðlilegt verður að telja að bankastjórn kynni í bankaráði fyrirhugaðar ráðningar í aðrar helstu stjórnunar- og ábyrgðarstöður í bankanum.

Um 39. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skipan bankastjórnar Seðlabankans. Efni hennar samsvarar 26. og 29. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að bankastjórar verði þrír eins og verið hefur frá því að Seðlabankinn varð sjálfstæð stofnun árið 1961. Í 1. mgr. er skýrt tekið fram að bankastjórn beri ábyrgð á rekstri bankans og fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum. Í 38. gr. kemur fram hvaða málaflokkar heyra undir bankaráð. Sem dæmi um verkaskiptingu bankaráðs og bankastjórnar má nefna að beiting stjórntækja bankans í peningamálum er á valdi og ábyrgð bankastjórnar, svo og ráðning allra starfsmanna bankans annarra en forstöðumanns bankaeftirlits og forstöðumanns endurskoðunardeildar. Þó skal ráðning aðstoðarbankastjóra staðfest af bankaráði.
     Lagt er til að ráðningu bankastjóra verði hagað með öðrum hætti en verið hefur hingað til. Í stað núverandi fyrirkomulags að bankastjórar séu skipaðir af ráðherra að fengnum tillögum bankaráðs til allt að sex ára er lagt til að stöður bankastjóra verði auglýstar lausar til umsóknar. Í frumvarpinu kemur fram sú nýjung að gerð er krafa um að bankastjórar hafi víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum sviðum efnahagsmála. Telja verður eðlilegt að gera kröfu af þessu tagi í ljósi hlutverks bankans og sjálfstæðis hans til stjórnunar peningamála.
     Að fengnum umsóknum um stöður bankastjóra er gert ráð fyrir að bankaráð greiði atkvæði um umsækjendur. Til að ráðherra geti skipað mann bankastjóra verður hann að hafa fengið að minnsta kosti eitt atkvæði í bankaráði. Í þessu felst mikilvæg breyting frá núgildandi lagaákvæði sem hefur verið túlkað þannig að ráðherra geti í raun skipað hvaða mann sem er í stöðu bankastjóra án þess að taka tillit til tillagna bankaráðs. Lagt er til að skipunartímabil bankastjóra verði sjö ár í stað allt að sex ára samkvæmt núgildandi seðlabankalögum. Fastákveðið skipunartímabil skapar ákveðna festu í stjórn bankans.
     Í frumvarpinu er lagt til að formaður bankastjórnar gegni veigameira hlutverki en samkvæmt núgildandi lögum. Kveðið er á um formann bankastjórnar í 40. gr. Í ljósi aukins mikilvægis þessarar stöðu er lagt til að skipað verði sérstaklega í hana til sjö ára. Til að undirstrika mikilvægi stöðunnar er lagt til að umsækjandi um stöðuna verði að hafa fengið að minnsta kosti tvö atkvæði í bankaráði til þess að ráðherra geti skipað hann.
     Samkvæmt núgildandi seðlabankalögum eru engar takmarkanir á því hversu oft skipa má sama mann í stöðu bankastjóra. Í 4. mgr. þessarar greinar er lagt til að meginreglan verði sú að óheimilt sé að skipa sama mann oftar en tvisvar sinnum í stöðu bankastjóra. Meginreglan er því sú að enginn geti gegnt stöðu bankastjóra lengur en í fjórtán ár. Samkvæmt 2. og 3. mgr. verður maður sem gegnir stöðu bankastjóra að sækja um hana að nýju þegar skipunartímabil hans rennur út. Í 2. málsl. 4. mgr. er þó lagt til að skipa megi sama mann í þriðja sinn í stöðu bankastjóra enda sé þá um að ræða skipun í stöðu formanns bankastjórnar og viðkomandi hafi annaðhvort aldrei eða aðeins einu sinni gegnt þeirri stöðu. Því er hugsanlegt að sami maður geti gegnt stöðu bankastjóra í tuttugu og eitt ár samfleytt. Hann gæti gegnt stöðu bankastjóra í eitt skipunartímabil og síðan stöðu formanns bankastjórnar í tvö skipunartímabil eða stöðu bankastjóra í tvö skipunartímabil og síðan stöðu formanns bankastjórnar í eitt skipunartímabil. Einnig geta komið upp tilvik þar sem sami maður er skipaður þrisvar sinnum en gegnir þó starfinu í skemmri tíma samfleytt en í tuttugu og eitt ár. Það gæti gerst með þeim hætti að starfandi bankastjóri sækti um og væri skipaður í stöðu formanns bankastjórnar áður en sjö ára skipunartímabili hans væri lokið.
     Í síðasta málslið 4. mgr. er ákvæði um starfslok bankastjóra fyrir aldurs sakir. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum og gilda því um bankastjóra almennar reglur um starfsmenn ríkisins. Sú hefð hefur hins vegar myndast að bankastjórum er heimilt að vinna til loka þess árs er þeir verða sjötugir. Hér er hins vegar lagt til að lögfest verði að bankastjórar láti af starfi um leið og þeir verða sjötugir.
     Í 1. málsl. 6. mgr. er lögð til mikilvæg breyting frá samsvarandi ákvæði í 29. gr. núgildandi seðlabankalaga. Samkvæmt núgildandi ákvæði getur ráðherra vikið bankastjóra úr starfi að fengnu áliti bankaráðs. Hér er lagt til að bankaráð geti tekið frumkvæði í þessu efni og lagt til við ráðherra að bankastjóra verði vikið frá störfum. Sömuleiðis er lagt til að það verði bankaráð en ekki ráðherra, eins og nú gildir, sem geti vikið bankastjóra fyrirvaralaust úr starfi hafi hann brotið af sér í starfi.

Um 40. gr.


    Efni þessarar greinar samsvarar 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. núgildandi seðlabankalaga en er mun ítarlegra. Í núgildandi seðlabankalögum segir að bankastjórn kjósi sér formann úr sínum hópi til þriggja ára í senn. Ekki er frekar kveðið á um hlutverk formanns bankastjórnar í öðrum greinum laganna eða í reglugerð um bankann. Hér er lagt til að formaður bankastjórnar verði skipaður sérstaklega. Í 1. mgr. er lagt til að formaður bankastjórnar sé talsmaður Seðlabankans og komi fram fyrir hönd hans. Í 2. mgr. er lagt til að hann kalli bankastjórn saman til fundar og að atkvæði hans ráði úrslitum þegar atkvæði falla jafnt í atkvæðagreiðslu í bankastjórn.

Um 41. gr.


    Efni þessarar greinar svarar til 2. mgr. 28. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að lögfest verði að auk bankastjóra og aðstoðarbankastjóra verði forstöðumanni bankaeftirlitsins óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Telja verður eðlilegt að bankastjórn setji reglur um þetta efni gagnvart öðrum helstu yfirmönnum bankans og öðrum starfsmönnum. Ætla verður að ákvæði um þetta efni verði í ráðningarsamningi þeim er bankaráð gerir við forstöðumann endurskoðunardeildar telji bankaráð ástæðu til þess.
     Rísi ágreiningur um efni þessarar greinar gagnvart bankastjórum þykir eðlilegt að ráðherra skeri úr. Gagnvart öðrum starfsmönnum bankans er það bankastjórnar að skera úr.
     Ákvæði þessarar greinar ber að túlka þröngt, þannig að bankastjórar, aðstoðarbankastjórar og forstöðumaður bankaeftirlitsins sitji ekki í stjórn stofnana eða atvinnufyrirtækja utan bankans eða taki þátt í atvinnurekstri nema slíkt sé sérstaklega boðið með lögum. Í lögum um Fiskveiðasjóð er kveðið á um að Seðlabankinn tilnefni einn stjórnarmanna sjóðsins. Óeðlilegt verður að telja að bankastjórar Seðlabankans eða aðrir æðstu yfirmenn hans sitji í stjórnum lánastofnana sem viðskipti geta átt við bankann og eru undir eftirliti hans.
     Í viðskiptaráðuneytinu hefur verið samið frumvarp til laga um starfsemi fjárfestingarlánasjóða. Í því er m.a. gert ráð fyrir að fjárfestingarlánasjóðum í eigu ríkisins verði breytt í hlutafélög. Þar með yrðu fyrrgreind tengsl Seðlabankans við fjárfestingarlánasjóði rofin.

Um VIII. kafla.


     Í kaflanum er fjallað um reikningsskil og ráðstöfun hagnaðar. Í honum eru þrjár greinar, 42.–44. gr. Kaflinn samsvarar VIII. kafla í núgildandi seðlabankalögum. Greinar í kaflanum eru að mestu leyti óbreyttar frá ákvæðum núgildandi seðlabankalaga ef undan er skilin 44. gr. um ráðstöfun hagnaðar.

Um 42. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um reikningsár og gerð ársreiknings. Hún samsvarar 35. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að í stað þess að tilgreina að gerð ársreiknings skuli lokið svo fljótt sem auðið er verði tiltekið að gerð ársreiknings skuli lokið innan tveggja mánaða frá lokum reikningsárs. Í lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, segir að ársreikningur ríkisviðskiptabanka skuli lagður fyrir skoðunarmenn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok reikningsárs. Í lögum nr. 87/1985, um sparisjóði, segir í samsvarandi ákvæði að gerð og endurskoðun ársreiknings skuli vera lokið eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.

Um 43. gr.


    Þessi grein samsvarar 33. og 36. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að fellt verði brott ákvæði þess efnis að ársreikning Seðlabankans skuli birta í Stjórnartíðindum. Jafnframt er lagt til að ákvæði um að mánaðarlegt efnahagsyfirlit skuli birt í Lögbirtingablaðinu verði fellt brott og í staðinn einungis tiltekið að yfirlitið skuli birt án þess að tilgreina hvar. Mánaðarlegt efnahagsyfirlit liggur frammi í afgreiðslu bankans.

Um 44. gr.


    Þessi grein samsvarar 37. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lögð er til sú nýjung að sé eigið fé bankans í lok reikningsárs lægra en 6% af vergri landsframleiðslu árið á undan greiðist fjórðungur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð í ríkissjóð. Sé hlutfallið hins vegar hærra en 6% greiðist allur meðalhagnaður næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð í ríkissjóð. Samkvæmt núgildandi seðlabankalögum skal ávallt greiða helming af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára í ríkissjóð.
     Í grófum dráttum má segja að eigið fé Seðlabankans og aðrir sjóðir hans, einkum fé á bundnum reikningum lánastofnana og seðlar og mynt í umferð, myndi mótvægi við gjaldeyrisvarasjóð landsins og skuld ríkissjóðs við bankann. Í frumvarpinu er lagt til að aðgangur ríkissjóðs að bankanum verði takmarkaður verulega. Í framtíðinni standa því seðlar og mynt í umferð, eigið fé og bundið fé lánastofnana nánast eingöngu á móti gjaldeyrisvarasjóðnum. Sé eigið fé bankans aukið má því að öðru óbreyttu draga úr bindiskyldu lánastofnana.
     Æskileg stærð gjaldeyrisvarasjóðs ræðst einkum af tvennu: annars vegar mikilvægi utanríkisviðskipta fyrir þjóðarbúið og hins vegar hvort víðtækar hömlur gildi um fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Athuganir sýna að eigið fé Seðlabankans er lægra í hlutfalli við verga landsframleiðslu en eigið fé seðlabanka á öðrum Norðurlöndum að Finnlandi undanskildu. Í árslok 1990 var hlutfallið 3,6% í Danmörku, 1,8% í Finnlandi, 2,4% á Íslandi, 4,9% í Noregi og 4,4% í Svíþjóð. Einnig má benda á að í árslok 1990 var hlutfall eigin fjár seðlabanka af innflutningi 12,2% í Danmörku, 7,3% í Finnlandi, 6,8% á Íslandi, 13,4% í Noregi og 14,8% í Svíþjóð. Utanríkisviðskipti Íslands eru hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en á öðrum Norðurlöndum. Það kallar því á hlutfallslega stærri gjaldeyrisvarasjóð hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt hefur verið markvisst dregið úr hömlum á fjármagnshreyfingum síðan 1990 og innan nokkurra ára má búast við því að þær hafi horfið að fullu. Þá er það stefna ríkisstjórnarinnar að gengi krónunnar ráðist í auknum mæli af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði. Aukið frelsi í gengis- og gjaldeyrismálum leiðir væntanlega til meiri sveiflna í gjaldeyriskaupum og -sölu og kallar á stærri gjaldeyrisvarasjóð en ella. Þá má benda á að hér á landi eru seðlar og mynt í umferð mun lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu en á öðrum Norðurlöndum, eða 1,2% í árslok 1990 samanborið við 3,3% í Danmöku, 2,8% í Finnlandi, 2% í Noregi og 5,1% í Svíþjóð. Af öllum þessum atriðum, sem hér hafa verið nefnd, leiðir að eigið fé Seðlabankans er mikilvægara til að fjármagna gjaldeyrisforðann en á öðrum Norðurlöndum og þarf því að vera hlutfallslega meira hér á landi.
     Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er lagt til að eigið fé bankans verði markvisst byggt upp á næstu árum með því að helminga skattgreiðslu í ríkissjóð frá því sem hún er samkvæmt gildandi seðlabankalögum. Þegar takmarkinu um að eigið fé samsvari 6% af vergri landsframleiðslu er ekki talin þörf á að efla eigið fé bankans frekar. Því er lagt til að þegar takmarkinu er náð renni allur meðalhagnaður bankans í ríkissjóð. Í 3. mgr. er lagt til að lágmarksgreiðsla í arðsjóð, 40 m.kr. á verðlagi í árslok 1984, verði færð til verðlags í árslok 1991. Ný lágmarksgreiðsla er því 130 m.kr. Að öðru leyti er þessi málsgrein samhljóða 2. mgr. 37. gr. núgildandi seðlabankalaga.

Um 45. gr.


    Þessi grein er nýjung. Með henni eru tekin af öll tvímæli um að Seðlabankanum er óheimilt að eiga innlend eða erlend verðbréf sem fela í sér þátttöku í atvinnurekstri eða taka að öðru leyti þátt í atvinnurekstri nema það samrýmist hlutverki hans sem seðlabanka. Í athugasemdum við 20. gr. er greint frá þátttöku Seðlabankans í Reiknistofu bankanna og í athugasemdum við 25. gr. frá hlutabréfaeign Seðlabankans í Alþjóðlega greiðslubankanum.

Um 46. gr.


    Efnisatriði þessarar greinar samsvara 1. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 29. gr. núgildandi seðlabankalaga. Lagt er til að sú breyting verði gerð að í stað þess að bankastjórar eigi rétt á biðlaunum í eitt til þrjú ár ef þeim er sagt upp starfi verði miðað við eitt ár eins og gildir samkvæmt núgildandi seðlabankalögum þegar þeir segja starfi sínu lausu.

Um 47. gr.


    Greinin samsvarar 38. gr. í núgildandi seðlabankalögum. Lögð er til sú nýjung að lögfest verði ákvæði um bann við svokölluðum „innherjaviðskiptum“, þ.e. viðskiptum þar sem einstaklingar hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón vegna upplýsinga sem þeir komast að í starfi sínu.

Um 48. gr.


    Greinin samsvarar 39. gr. í núgildandi seðlabankalögum og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 49. gr.


    Efnisatriði þessarar greinar eiga sér hliðstæðu í 41. gr. núgildandi seðlabankalaga og í reglugerð fyrir bankann. Í núgildandi seðlabankalögum er ekki kveðið á um hvernig farið skuli með brot gegn lögunum. Hins vegar er að finna þar heimild til að ákveða í reglugerð viðurlög í formi dagsekta og refsivaxta sé ákvörðunum bankans ekki hlítt. Einnig er í 41. gr. núgildandi seðlabankalaga kveðið á um að 3 / 4 hlutar af innheimtum viðurlögum renni til ríkissjóðs.
     Hér er lagt til að í lögum um Seðlabankann verði kveðið á um hvernig farið skuli með brot gegn lögunum. Jafnframt að í lögunum verði kveðið á um viðurlög í formi dagsekta gegn tilteknum ákvæðum í lögunum sem talin eru upp í lagagreininni. Þá er lagt til að horfið verði frá núgildandi fyrirkomulagi um að tiltekinn hluti innheimtra viðurlaga renni í ríkissjóð enda eru innheimt viðurlög hluti af tekjum bankans og mynda því stofn til skattlagningar samkvæmt 44. gr. frumvarpsins.

Um 50. gr.


    Við samningu frumvarpsins var við það miðað að ekki þyrfti að setja reglugerð til að kveða nánar á um framkvæmd einstakra ákvæða þess. Hins vegar kann reynslan að leiða annað í ljós. Því er lagt til að ráðherra geti, að fenginni tillögu bankaráðs, sett reglugerð um nánari framkvæmd einstakra ákvæða laganna.

Um 51. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


     Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


     Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


     Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða V.


     Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að skilgreining á lausu fé verði nokkru þrengri en verið hefur. Því er lagt til að heimilt verði að láta núgildandi reglur um laust fé gilda í allt að sex mánuði frá gildistöku laganna. Telja verður eðlilegt að Seðlabankinn kynni lánastofnunum nýjar lausafjárreglur sem fyrst eftir gildistöku laganna þannig að lánastofnunum gefist nokkurt ráðrúm til að búa sig undir gildistöku nýrra reglna.

Um ákvæði til bráðabirgða VI.


     Reglur um Verðbréfaþing Íslands, nú frá 21. janúar 1992, hafa verið settar á grundvelli heimildar í 1. mgr. 11. gr. núgildandi seðlabankalaga. Telja verður eðlilegt að starfsemi af þessu tagi byggist á ítarlegri lagaheimildum en þar um ræðir. Samkvæmt samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði er gert ráð fyrir að hér á landi verði lögfest ákvæði um kauphöll og kauphallarviðskipti. Þar til það hefur verið gert þykir rétt að heimila Seðlabankanum, þó ekki lengur en til ársloka 1994, að setja reglur um Verðbréfaþing Íslands að fengnu samþykki ráðherra.

Um ákvæði til bráðabirgða VII.


     Í ákvæðinu er kveðið á um hámarksskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum á hverjum tíma
á árunum 1993–1995 vegna yfirdráttarlána. Fyrsta árið er hámarksfjárhæðin 3 milljarðar króna, 2 milljarðar króna árið 1994 og loks 1 milljarður króna árið 1995. Eftir það verður Seðlabankanum óheimilt að veita ríkissjóði yfirdráttarlán, sbr. 19. gr. frumvarpsins. Um frekari skýringar vísast til athugasemda við þá grein frumvarpsins.



Fylgiskjal I.


SÉRÁLIT


Guðrúnar J. Halldórsdóttur um tillögur nefndar að


frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands.


    
Undirrituð stendur að þessari tillögu um lagafrumvarp um Seðlabanka með þeim fyrirvara að hún álítur að í bankaráði Seðlabankans eigi að sitja 7 aðilar en ekki 5 eins og lagafrumvarpið gerir ráð fyrir, sbr. 36. gr. Rökin fyrir þessari skoðun eru þau að frumvarpið gerir ráð fyrir miklu sjálfstæði bankans gagnvart ríkisvaldinu og um leið auknu hlutverki seðlabankaráðs. Það er því í hæsta máta eðlilegt að fulltrúar sem flestra stjórnmálaafla sem þjóðin styður til alþingissetu eigi sér málssvara í seðlabankaráði. Auk þess getur hæglega komið upp sú staða að ráðherra sá, er með málefni Seðlabanka fer, eigi sér ekki fulltrúa í seðlabankaráði verði það aðeins skipað 5 mönnum.
     Einnig er það álit undirritaðrar að í 31. gr. V. kafla um bankaeftirlit ætti að vera ákvæði um þá skyldu eftirlitsins að fylgjast með og grípa inn í ef vart yrði við eða grunur léki á um innherjaviðskipti í þeim stofnunum sem eftirlitið á að fylgjast með. Rökin mín fyrir þessu eru að ekki virðast vera til nein lagaákvæði um innherjaviðskipti önnur en þau sem er að finna í lögum frá 1989, um verðbréf og verðbréfaviðskipti. Á tímum þar sem losað er um sífellt fleiri höft og hömlur í viðskiptum verða slík ákvæði að vera skýr í lögum og ná til miklu víðara sviðs og fleiri þátta en verðbréfaviðskipta. Auk þess þarf að vera ljóst hver á að taka á vandanum.



Fylgiskjal II.


SÉRÁLIT


Más Guðmundssonar um tillögur nefndar að


frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands.


    
Það frumvarp að lögum um Seðlabanka Íslands, sem hér liggur fyrir, felur í sér veigamikil skref til að auka sjálfstæði bankans í mótun og framkvæmd stefnu í peningamálum, gera markmið bankans skýrari og styrkja stjórntæki hans í peningamálum. Það er sérstaklega mikilvægt í þessu sambandi að bankinn mun hafa nægjanlega sterk stjórntæki til að geta stýrt nafnvöxtum án beinnar íhlutunar, einkum á styttri enda peningamarkaðarins. Undirritaður styður þessar breytingar heils hugar. Í tveim atriðum hefði ég hins vegar kosið að frumvarpið hefði verið með öðrum hætti. Þar er annars vegar um að ræða yfirstjórn bankans og hins vegar heimildir ríkissjóðs til skuldasöfnunar í bankanum. Ég tel það samrýmast betur markmiðinu um sjálfstæðan faglegan seðlabanka að yfirstjórn bankans sé í höndum bankaráðs og eins faglegs seðlabankastjóra fremur en bankaráðs og fjölskipaðrar bankastjórnar eins og lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi. Ég hefði einnig kosið að nefndin hefði gert tillögu um að hraðar yrði farið í að loka fyrir heimild ríkissjóðs til skuldasöfnunar í Seðlabankanum. Ég vil hér gera nánari grein fyrir þessari afstöðu minni.

Yfirstjórn.
    
Í starfi nefndarinnar var lengst af unnið samhliða með tvenns konar megintillögur varðandi yfirstjórn bankans. Önnur tillagan fól í sér þá skipan sem er að finna í fyrirliggjandi frumvarpi, þar sem yfirstjórn bankans er í meginatriðum óbreytt frá því sem nú er, þ.e. í höndum bankaráðs og þriggja manna bankastjórnar. Hin tillagan fól í sér að yfirstjórn bankans yrði í höndum bankaráðs og eins seðlabankastjóra. Með þessu séráliti fylgir í viðauka útfærsla þeirrar hugmyndar eins og hún hafði mótast hjá nefndinni áður en hún ákvað endanlega að leggja til fjölskipaða bankastjórn. Þann fyrirvara verður þó að gera að nefndin gerði ýmsar betrumbætur á ákvæðum um stjórnskipulag bankans eftir að hún lagði þennan valkost á hilluna. Sérstaklega á þetta við um verkefni bankaráðs. Gera verður ráð fyrir að þessar breytingar hefðu einnig verið gerðar á þessum valkosti. Verður nú skipan yfirstjórnar með einum seðlabankastjóra lýst stuttlega:
—    Einn seðlabankastjóri er æðsti stjórnandi bankans. Þar sem um valdamikinn stjórnanda er að ræða er vandað verulega til vals hans. Ráðherra skipar hann til sjö ára úr hópi þeirra sem sótt hafa um stöðuna samkvæmt auglýsingu og fengið hafa a.m.k. tvö atkvæði í bankaráði. Skilyrði er að seðlabankastjóri hafi víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum sviðum efnahagsmála. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að skipan ráðherra á seðlabankastjóra þurfi með einhverjum hætti staðfestingu Alþingis. Með þessu móti er reynt að tryggja víðtæka samstöðu um val seðlabankastjóra og gefa faglegum sjónarmiðum verulegt vægi.
—    Varaseðlabankastjóri er staðgengill seðlabankastjóra. Hann er valinn með sama hætti og seðlabankastjóri, nema hvað hann þarf ekki nema eitt atkvæði í bankaráði og ekki er gert ráð fyrir staðfestingu Alþingis. Dagleg stjórn Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og aðstoðarbankastjóra sem seðlabankastjóri ræður. Vægi aðstoðarbankastjóra eykst þar sem bankastjórum fækkar.
—    Gert er ráð fyrir að hlutverk bankaráðsins verði meira í þessari skipan en þegar um fjölskipaða bankastjórn er að ræða. Bankaráðið tekur þátt í ákvarðanatöku um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Vægi seðlabankastjórans er þó verulegt við þá ákvarðanatöku, þar sem tillöguvaldið er hans og hann hefur atkvæðisrétt í bankaráðinu þegar fjallað er um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, svo sem varðandi verðbréfaviðskipti bankans, eigin vaxtaákvarðanir, bindiskyldu og laust fé.
     Ég tel að þessi skipan hafi kosti umfram fjölskipaða bankastjórn, sérstaklega í ljósi þess markmiðs að gera bankann sjálfstæðari, faglegri og marksæknari. Einnig er þessi skipan algengari í löndunum í kringum okkur. Má þar nefna lönd eins og Þýskaland, Svíþjóð, Noreg, Frakkland og Bretland. Einnig má nefna að gert er ráð fyrir einum aðalbankastjóra í drögum að reglum um sameiginlegan seðlabanka EB-landanna. Algengt er þó að slíkir seðlabankastjórar eigi sæti í bankaráðunum. Það hefði komið til greina að þróa þessa hugmynd í þá átt, t.d. þannig að bankaráð hefði orðið sjö manna, þ.e. seðlabankastjóri og sex menn kosnir af Alþingi, á sama tíma og hlutverk bankaráðs í yfirstjórn bankans hefði enn verið aukið.
     Dagleg yfirstjórn eins er yfirleitt markvissari en fjölskipaðs stjórnvalds. Boðskapur eins talsmanns er einnig yfirleitt skýrari en þegar talsmenn eru margir. Stór fyrirtæki og ráðuneyti hafa yfirleitt einn aðalstjórnanda. Allt eru þetta röksemdir fyrir því að einn seðlabankastjóri skuli vera æðsti stjórnandi bankans. Meginástæða þess að ég tel kerfi eins seðlabankastjóra betra en kerfi fjölskipaðrar bankastjórnar liggur þó í nauðsyn þess að segja skilið við það kerfi pólitískt eyrnamerktra bankastjórastaðna sem sótt hefur á undanförnum árum ef eitthvað er. Þetta kerfi dregur úr faglegri tiltrú á bankann og stangast á margan hátt á við hugmyndina um sjálfstæðan faglegan seðlabanka. Það er kerfið við val bankastjóra sem hér skiptir máli en ekki mennirnir sem valdir eru. Allir núverandi og fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans hafa reynst hæfir og starfi sínu vel vaxnir. Það breytir því ekki að það grefur undan tiltrú almennings á bankanum sem faglegri stofnun ef bankastjórastöður eru svo rækilega eyrnamerktar einstökum stjórnmálaflokkum að jafnvel er leitað eftir tilnefningum forustumanna flokkanna í stöðurnar. Auðvitað þarf slík samtenging ekki nauðsynlega að tengjast fjölskipaðri bankastjórn. Hugsanlega má rjúfa hana með breyttum aðferðum við val bankastjóra, t.d. eins og lagt er til í núverandi frumvarpi. Ég tel hins vegar að kerfi eins seðlabankastjóra hefði falið í sér það mikla breytingu frá fyrra kerfi að það hefði orðið trúverðugt gagnvart almenningi að fagleg sjónarmið muni ráða mestu val bankastjóra. Ég tel að kerfi eins bankastjóra mundi beinlínis neyða alla hlutaðeigandi til að breyta aðferðum hvað þetta varðar. Kerfi eins bankastjóra krefst meiri pólitískrar samstöðu um skipun hans og blátt áfram neyðir menn til að gæta fyrst og fremst faglegra sjónarmiða.
     Við fyrstu sýn gæti svo virst að kerfi fjölskipaðrar bankastjórnar væri lýðræðislegra en kerfi eins seðlabankastjóra. Svo er þó alls ekki að mínu mati. Í kerfi eins seðlabanka- stjóra er vald bankaráðs meira. Kerfi eins seðlabankastjóra mun einnig leiða til meiri umræðu í bankanum og í umhverfi hans þegar stefna hans er mótuð. Einn bankastjóri getur einbeitt sér að því að ræða stefnumótun bankans við bankaráðið og skýra hana utan bankans. Fjölskipuð bankastjórn þarf að eyða meiri tíma og kröftum í að ræða mál innbyrðis og ná málamiðlunum þegar ágreiningur er til staðar. Fjölskipuð bankastjórn er um leið valdameiri sem stofnun heldur en einn seðlabankastjóri. Sú staða getur því skapast að meiri hluti hennar, þ.e. aðeins tveir menn, ráði öllu um aðgerðir bankans í peningamálum í fjölmörg ár, án þess að þurfa að sannfæra bankaráðið um réttmæti stefnu sinnar eða nokkurn annan aðila í þessu þjóðfélagi.
     Mín niðurstaða er því sú að það hefði verið eðlileg breyting að taka upp kerfi eins seðlabankastjóra og valdameira bankaráðs samfara þeim breytingum í átt til sjálfstæðari og sterkari seðlabanka sem nú eru lagðar til.

Skuldasöfnun ríkissjóðs í Seðlabankanum.
    
Í ákvæði til bráðabirgða VII er gert ráð fyrir að Seðlabankanum verði heimilt að veita ríkissjóði yfirdráttarlán til ársloka 1996 sem að hámarki verði 3 ma. kr. á árinu 1993, 2 ma. kr. á árinu 1994 og 1 ma. kr. á árinu 1995. Ég tel hins vegar mikilvægt að reynt verði að loka yfirdráttarheimild ríkissjóðs í Seðlabankanum hraðar og hefði því kosið að nefndin legði til að hámarksyfirdráttur yrði 2 ma. kr. 1993 og 1 ma. kr. 1994. Það er mikilvægt að hér á landi verði byggður upp sem fyrst þróaður peningamarkaður. Það er forsenda þess að Seðlabankinn geti stýrt skammtímavöxtum sem er aftur forsenda þess að Seðlabankinn geti haft virk áhrif á gengi krónunnar á gjaldeyrismarkaði sem stefnt er að því að byggja upp. Því er mikilvægt að ríkissjóður fjármagni skammtímafjárþörf sína í ríkum mæli á markaði utan Seðlabankans. Klukkan gengur í þessum efnum. Verði af EES-samningi verða Íslendingar að hafa aflétt hömlum af öllum fjármagnshreyfingum, löngum sem stuttum, fyrir árslok 1994. Árið 1993 verður því mikilvægt í þessu sambandi. Hámarksyfirdráttur að upphæð 3 ma. kr. er einfaldlega ekki nógu afgerandi skref í þessu sambandi. Yfirdrátturinn var að meðaltali um 4,7 ma. kr. 1990 og sveiflast um þessar mundir á bilinu 1–2 ma. kr. Það ætti því að vera mögulegt að halda yfirdrættinum innan 2 ma. kr. á næsta ári. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að lögbundið hámark á yfirdrátt hefur áhrif á hvernig staðið er að áætlanagerð og ákvörðunum í ríkisfjármálum. Varfærni hlýtur að verða meiri, átak hlýtur að vera gert til að jafna dreifingu á tekjum og útgjöldum o.s.frv. Ég tel það einnig mikilvægt fyrir tiltrú á málið, að sú ríkisstjórn, sem ber það fram, taki afgerandi skref þegar í upphafi og að yfirdráttarheimildin verði afnumin fyrir lok kjörtímabilsins, þannig að málinu sé ekki vísað til nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar til endanlegrar úrlausnar.

Viðauki við sérálit Más Guðmundssonar.


Úr drögum nefndarinnar að frumvarpi til laga um


Seðlabanka Íslands frá 21. febrúar 1992.



37. gr.


Starfshættir bankaráðs.


    
Bankaráð heldur fundi eftir þörfum. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar einn eða
fleiri bankaráðsmenn æskja þess. Fundir bankaráðs eru lögmætir ef að minnsta kosti [þrír] [fjórir] bankaráðsmenn eru á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Á fundum bankaráðs skal halda gerðabók.
     Seðlabankastjóri situr fundi bankaráðs með málfrelsi og tillögurétti. Varaseðlabanka- stjóri situr fundi bankaráðs með málfrelsi. Þeir skulu þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður það.
     Seðlabankastjóri hefur atkvæðisrétt á fundum bankaráðs þegar fjallað er um tillögur hans að reglum bankans um viðskipti bankans með verðbréf skv. 12. gr., vexti í viðskiptum bankans skv. 14. gr., bindiskyldu skv. 15. gr., laust fé fjármálastofnana skv. 16. gr. og fyrirkomulag gengisskráningar skv. 21. gr.

38. gr.


Verkefni bankaráðs.


    
Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Seðlabankans. Sérstaklega skal bankaráð sinna eftirtöldum verkefnum:
    Taka ákvörðun um útgáfu, gerð, lögun, útlit, verðgildi, innlausn og innköllun peningaseðla og sleginna peninga.
    Hafa eftirlit með öllum eignum og rekstri bankans og taka ákvörðun um allar meiri háttar fjárfestingar.
    Staðfesta að fengnum tillögum seðlabankastjóra reglur bankans um viðskipti bankans með verðbréf skv. 12. gr., vexti í viðskiptum bankans skv. 14. gr., bindiskyldu skv. 15. gr., laust fé fjármálastofnana skv. 16. gr. og fyrirkomulag gengisskráningar skv. 21. gr.
    Staðfesta stjórnskipulag bankans að fenginni tillögu seðlabankastjóra.
    Auglýsa eftir umsóknum um stöður seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra og gera tillögur til ráðherra um skipun í þær.
    Ákveða laun og ráðningarkjör seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra og gera við þá ráðningarsamninga þar sem m.a. er kveðið á um rétt til biðlauna og eftirlauna.
    Ráða forstöðumann bankaeftirlitsins að fenginni tillögu seðlabankastjóra. Bankaráðið ákveður laun og ráðningarkjör forstöðumannsins og gerir við hann ráðningarsamning þar sem m.a. er kveðið á um rétt til biðlauna og eftirlauna. Bankaráð segir forstöðumanni bankaeftirlitsins upp störfum að fenginni tillögu seðlabankastjóra.
    Staðfesta reglur um fjárhagslegt öryggi fjármálastofnana, sbr. 30. gr.
    Hafa umsjón með starfi sérstakrar endurskoðunardeildar við bankann, ráða forstöðumann hennar og segja honum upp starfi, ákveða laun og ráðningarkjör hans og gera við hann ráðningarsamning þar sem m.a. er kveðið á um rétt til biðlauna og eftirlauna.
    Ákveða hvaða starfsmenn bankans aðrir en seðlabankastjóri hafa heimild til að skuldbinda bankann og setja reglur þar um.
    Eiga aðild að kjarasamningum við starfsmenn bankans og setja reglur um eftirlaunasjóð starfsmanna hans.
    Gera tillögu til ráðherra um reikningsskil og gerð ársreiknings bankans.
    Taka ákvörðun um ráðstöfun á tekjuafgangi að því marki sem annað er ekki ákveðið í lögum og staðfesta ársreikning bankans.

39. gr.


Æðstu stjórnendur.


    
Dagleg stjórn Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og
aðstoðarbankastjóra.

40. gr.


Seðlabankastjóri.


    
Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri Seðlabankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum. Seðlabankastjóri skal hafa náið samráð við bankaráð um stefnu og meginþætti í starfsemi bankans.
     Auglýst skal opinberlega eftir umsóknum um stöðu seðlabankastjóra. Seðlabanka- stjóri skal hafa [háskólapróf og] víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum sviðum efnahagsmála.

VALKOSTUR 1:
     Ráðherra skipar seðlabankastjóra til sjö ára úr hópi þeirra sem sótt hafa um stöðuna og fengið að minnsta kosti tvö atkvæði í bankaráði.

VALKOSTUR 2:
     Ráðherra skipar seðlabankastjóra til sjö ára úr hópi þeirra sem sótt hafa um stöðuna og atkvæði fengið í bankaráði. Skipun ráðherra skal hljóta staðfestingu Alþingis. Synji Alþingi um staðfestingu skal staðan auglýst að nýju.
     Óheimilt er að skipa sama mann í stöðu seðlabankastjóra oftar en tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri skal láta af störfum þegar hann er fullra sjötíu ára að aldri.
     Bankaráð getur gert tillögu til ráðherra um að seðlabankastjóri sé leystur frá störfum. Í tillögu bankaráðs skulu tilgreindar ástæður þessa. Hafi seðlabankastjóri brotið af sér í starfi getur bankaráð vikið honum fyrirvaralaust úr starfi án staðfestingar ráðherra.

41. gr.


Varaseðlabankastjóri.


    
Varaseðlabankastjóri er staðgengill seðlabankastjóra. Í forföllum seðlabankastjóra gegnir varaseðlabankastjóri störfum hans.
     Bankaráð auglýsir opinberlega eftir umsóknum um stöðu varaseðlabankastjóra. Ráðherra skipar varaseðlabankastjóra til sjö ára úr hópi þeirra umsækjenda sem atkvæði hafa fengið í bankaráði.
     Ákvæði 40. gr. um hæfniskröfur til seðlabankastjóra, skipunartíma, endurskipan og brottvikningu úr starfi gilda einnig um varaseðlabankastjóra.
     Forfallist varaseðlabankastjóri um stundarsakir er bankaráði heimilt að setja einn af aðstoðarbankastjórum tímabundið í stöðu hans.

42. gr.


Aðstoðarbankastjórar.


    
Aðstoðarbankastjórar veita forstöðu einstökum sviðum eða deildum í Seðlabankanum. Seðlabankastjóri ræður aðstoðarbankastjóra og segir þeim upp störfum að höfðu samráði við bankaráð.

43. gr.


Störf æðstu stjórnenda utan bankans.


    
Seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra, aðstoðarbankastjórum og forstöðumanni bankaeftirlitsins er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Rísi ágreiningur um ákvæði þessarar greinar gagnvart seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra sker ráðherra úr.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands.


    
Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að gera Seðlabanka Íslands að sjálfstæðari stofnun innan stjórnkerfisins en verið hefur. Honum verði falið það meginhlutverk að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilisins og stuðla að stöðugu verðlagi. Sjálfstæði bankans og geta til að móta og hrinda í framkvæmd stefnu í peningamálum verði eflt og möguleikar annarra þátta stjórnkerfisins til áhrifa á bankann minnkaðir.
     Að því er ríkissjóð varðar gerir frumvarpið ráð fyrir tveim meginbreytingum sem hafa munu bein áhrif á tekjur og starfsemi ríkissjóðs. Í 19. gr. er gert ráð fyrir að lokað verði fyrir möguleika ríkissjóðs til yfirdráttar í Seðlabankanum og í 44. gr. er áformað að breyta reglum um hlut ríkissjóðs af hagnaði Seðlabankans.
     Í 19. gr. frumvarpsins er lagt til að bankanum verði óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán. Bráðabirgðaákvæði VII heimilar bankanum allt til ársloka 1996 að veita ríkissjóði yfirdráttarlán. Skuli heildarskuld ríkissjóðs í bankanum ekki vera hærri en 3 milljarðar króna á árinu 1993, 2 milljarðar króna á árinu 1994 og 1 milljarður króna á árinu 1995.
     Með þessari breytingu verður takmörkuð sú leið sem ríkissjóður hefur í mörg ár haft til að fjármagna sig til skamms tíma. Ákvæði þetta lagar löggjöf um Seðlabankann að lögum annarra landa þar sem bein lán seðlabanka til ríkissjóðs eru ekki leyfð. Aftur á móti er gert ráð fyrir í 2. mgr. 19. gr. að bankinn geti keypt verðbréf ríkissjóðs á verðbréfamarkaði eða af lánastofnunum. Með því verður ríkissjóður að afla sér lánsfjár að öllu leyti á almennum peninga- og verðbréfamarkaði og mun ekki lengur geta notað yfirdrátt í Seðlabankanum. Það verður síðan aftur sjálfstæð ákvörðun bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans, óháð áhrifum ríkisstjórnar, að hve miklu leyti Seðlabankinn kýs að grípa inn í verðbréfamarkaðinn til að hafa þar áhrif á framboð og eftirspurn.
     Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi bein kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóðs þar eð vaxtakjör á yfirdrætti ríkissjóðs í bankanum hafa verið nálægt almennum vaxtakjörum á undanförnum árum. Aftur á móti hefur það umtalsverð áhrif á lánsviðskipti ríkissjóðs þar eð hann mun ekki lengur hafa yfirdráttarmöguleikann hjá Seðlabankanum upp á að hlaupa. Miklar líkur eru til að þegar á árinu 1993 muni hið nýja fyrirkomulag hafa snör áhrif þar eð þá verður yfirdráttur ríkissjóðs í bankanum takmarkaður við 3 milljarða króna, en skuld ríkissjóðs við bankann sveiflaðist til um meir en 10 milljarða króna innan ársins 1991.
     Bent skal á að fjallað er um yfirdrátt ríkissjóðs í frumvarpi til laga um greiðslur úr ríkissjóði o.fl. flutt af þingmönnum í fjárlaganefnd, 479. mál á þessu þingi. Í því frumvarpi (9. gr.) er gert ráð fyrir heimild til fjármálaráðuherra til að stofna árlega til tímabundins yfirdráttar í Seðlabanka Íslands vegna árstíðabundinna sveiflna og skuli hámark yfirdráttar ákveðið í fjárlögum ár hvert.
     Í 44. gr. er gert ráð fyrir að árlega skuli meðalhagnaður næstliðinna þriggja ára að frádregnu framlagi í arðsjóð greiddur í ríkissjóð. Á þessu verði þau takmörk skv. 2. mgr. sömu greinar að greiðsla Seðlabankans í ríkissjóð skuli einungis nema fjórðungi af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára þar til eigið fé bankans hefur verið í aukið í jafngildi 6% af vergri landsframleiðslu. Verg landsframleiðsla er talin muni verða um 385 milljarðar króna á árinu 1992 þannig að 6% þar af eru rúmir 23 milljarðar króna. Eigið fé bankans stendur í rúmum 9 milljörðum í árslok 1991 þannig að hér er lagt til að bankinn noti hluta af hagnaði sínum á næstu árum til að safna u.þ.b. 14 milljörðum króna miðað við núverandi hlutföll eigin fjár og landsframleiðslu.
     Samkvæmt núgildandi seðlabankalögum (37. gr.) á helmingur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára að renna í ríkissjóð. Með öðrum orðum, hagnaðarhluti ríkissjóðs frá Seðlabanka mun lækka úr helmingi í fjórðung á komandi árum verði 44. gr. frumvarpsins að lögum. Greiðslur Seðlabankans í ríkissjóð af hagnaði bankans námu 473 m.kr. á árinu 1989, 770 m.kr. 1990 og 686 m.kr. 1991. Á þessu ári er gert ráð fyrir í fjárlögum að greiðsla bankans til ríkissjóðs nemi 600 m.kr.
    Því til viðbótar skal bent á að 3. mgr. 44. gr. kveður svo á að leggja beri jafngildi a.m.k. 130 m.kr. árlega í arðsjóð miðað við verðlag í árslok 1991. Framlagið má vera hærra og er það einhliða ákveðið af bankaráði skv. o-lið 38. gr. Arðsjóður er ekki talinn til eigin fjár í ársreikningum Seðlabankans. Ráðstöfun í arðsjóð er eins fyrir komið í núverandi lögum, nema hvað þar er lágmarkið 40 m.kr. miðað við verðlag í árslok 1984 (37. gr. laga nr. 11/1989) sem jafngildir rúmum 140 m.kr. við verðlag í árslok árslok 1991.
     Í greinargerð með 44. gr. frumvarpsins eru talin upp rök fyrir því að nauðsynlegt verði að auka eigið fé Seðlabankans, m.a. til að mynda mótvægi við gjaldeyrisvarasjóð landsins. Við þetta vill fjármálaráðuneytið bæta að ekkert samband er milli þess hvað landið safnar í gjaldeyrisvarasjóð og þess hvað Seðlabankinn á af eigin fé. Uppbygging gjaldeyrisvarasjóðs ræðst af því hvernig útflutningur, innflutningur svo og fjármagnsstreymi til og frá landinu vegast á. Aftur á móti getur upphæð eigin fjár hjá Seðlabankanum ráðið því hversu stór hluti þess gjaldeyrisvarasjóðs verði keyptur inn í bankann frá öðrum aðilum í þjóðarbúinu sem annars kynnu að vilja eiga erlendan gjaldeyri. Ber að hafa þessa staðreynd í huga þegar það er metið hver þörf sé á eigin fé fyrir Seðlabankann.
     Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er það lagt fram til kynningar á þessu þingi. Umsögn þessi verður því endurskoðuð þegar frumvarpið verður flutt að nýju.