Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 432 . mál.


932. Nefndarálit



um frv. til l. um Fiskistofu.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, Þórarinn Árnason, Marías Þ. Guðmundsson, Jónas Blöndal og Emil Ragnarsson fyrir hönd starfsmanna Fiskifélags Íslands, Jón Gíslason frá Hollustuvernd ríkisins, Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir og Einar Jóhannsson frá Ríkismati sjávarafurða. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Fiskifélagi Íslands, starfsmönnum Fiskifélags Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ríkismati sjávarafurða, Samtökum fiskvinnslustöðva og Vélstjórafélagi Íslands.
    Frumvarp þetta mælir fyrir um breytingu á stjórnsýslu á sviði sjávarútvegsmála, að komið verði á fót Fiskistofu sem verði opinber stofnun og starfi á ábyrgð sjávarútvegsráðherra. Við umræðu málsins í nefndinni kom m.a. fram varðandi 3. gr. frumvarpsins að réttara hefði verið að kjósa stjórn fyrir Fiskistofu og að hún hefði sjálfstæða stöðu. Rétt væri þó að láta reynslu skera úr um það hvort gera þyrfti breytingar í þessa átt. Enn fremur kom fram að ástæða væri til þess að stofnun þessi væri utan höfuðborgarsvæðisins að nokkru eða öllu leyti og það gæti átt við um ákveðna starfsemi, svo sem veiðieftirlit.
    Nefndin leggur til tvær breytingar við frumvarpið, annars vegar að ákvæði 2. málsl. 2. gr. falli brott og hins vegar leggur nefndin til breytingu við 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið verði skýrt á um að Fiskistofa skuli, að höfðu samráði við Hagstofu Íslands, fela Fiskifélagi Íslands söfnun tiltekinna upplýsinga, úrvinnslu þeirra og útgáfu hagskýrslna á sviði sjávarútvegsmála.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. maí 1992.



Matthías Bjarnason,

Össur Skarphéðinsson.

Árni R. Árnason.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Árni Johnsen.

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.



Jóhann Ársælsson,

Stefán Guðmundsson,

Jón Helgason,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.