Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 16:34:12 (4304)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Í ítarlegri ræðu hinn 15. des. á fyrra ári fjallaði hæstv. utanrrh. um helstu spurningar og athugasemdir sem fram höfðu komið í máli þeirra sem þá höfðu talað í umræðunum um leið og hann tók á ýmsum grundvallaratriðum þessa mikilvæga máls. Ég vil leyfa mér að vísa til þessarar ræðu um margt af því sem síðan hefur komið fram í máli hv. þm. Ég mun því fyrst og fremst við 2. umr. um málið og undir lok hennar fjalla um beinar spurningar og athugasemdir sem til mín hefur verið beint, einkum á sviði fjármagnsmarkaðar og tengslanna við Evrópskt efnahagssvæði á þeim vettvangi. En áður en ég kem að þessum atriðum vil ég láta það koma fram að nefndir þingsins með utanrmn. í broddi fylkingar hafa starfað afar vel að því mikla verki að laga íslenska löggjöf að meginreglum Evrópska efnahagssvæðisins. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að þakka sérstaklega fyrir það góða samstarf sem tekist hefur milli efh.- og viðskn. þingsins og viðskrn. en um hendur þeirrar nefndar hafa farið mörg og mikilvæg mál sem tengjast Evrósku efnahagssvæði.
    Mér finnst það alveg sérstaklega athyglisvert að þingmenn allra flokka hafa í mjög mörgum greinum reynst sammála um mikilvæg efnisatriði þeirra leikreglna sem í reynd mynda Evrópskt efnahagssvæði. Þetta á ekki síst við um leikreglurnar á fjármagnsmarkaði og gjaldeyrismarkaði en hv. 8. þm. Reykn. beindi einmitt til mín þremur spurningum um banka og gjaldeyrismál. Hv. 7. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Austurl. komu einnig nokkuð að þessum málum í sínum ræðum fyrr í umræðunni.
    Í fyrsta lagi spurði hv. 8. þm. Reykn. hvort EES-samningurinn fæli ekki í sér hættur fyrir íslenska bankakerfið og gjaldeyrissjóði landsmanna. Að mínu áliti verður svo ekki. Ef íslensku bankarnir bregðast rétt við samkeppninni og gæta þess að rekstrarkostnaður þeirra fari ekki úr hófi. Reyndar hefur íslenska bankakerfið á síðustu árum verið að búa sig undir þessa fyrirsjáanlegu auknu samkeppni. Viðskiptabankarnir eru núna stærri en áður eftir fækkun þeirra úr sjö í þrjá. Það hefur verið unnið að hagræðingu í bankakerfinu. Ég nefni t.d. árangur Íslandsbanka sem hefur markvisst skorið niður sinn rekstrarkostnað. Bankinn hefur líka getað nýtt sér hlutafélagsformið á rekstrinum með því að bjóða út nýtt hlutafé og styrkja þannig eiginfjárstöðu sína. Innan ríkisbankanna hefur einnig á síðustu árum verið unnið að skipulagsumbótum og hagræðingu í rekstri. Það er mála sannast að vaxtamunur íslensku bankanna hefur verið tiltölulega mikill á síðustu árum en hann hlýtur að lækka með samkeppni erlendis frá. Af því munu bæði fólk og fyrirtæki hagnast þegar aðhald eykst að íslensku bönkunum vegna meiri samkeppni sem knýr þá til þess að bæta sinn rekstur.
    Hv. 8. þm. Reykn. nefndi það að hætta kynni að vera á því að stór íslensk fyrirtæki, kannski þau sem best gengju, leituðu frekar utan um lána- og fjármagnsfyrirgreiðslu en önnur fyrirtæki. Um það mál má fyrst og fremst segja að stærstu íslensku fyrirtækin hafa ávallt haft afar mikil viðskipti við erlenda banka. Ég tel líkur á því að með afnámi hafta í gjaldeyrisviðskiptum og með lægri rekstrarkostnaði íslensku bankanna, sem er markmið bankastefnunnar sem nú er fylgt, verði þeir einmitt samkeppnishæfari en áður um þessi viðskipti. Ég tel alls ekki ástæðu til að óttast að þeir muni eingöngu sitja uppi með þau fyrirtæki sem hafa slakari fjárhagsstöðu sem virtist vaka í máli hv. 8. þm. Reykn. Ég vil benda á það sem augljóst kann að vera að innlendu stofnanirnar hafa mikilvægt forskot einfaldlega með nærveru sinni hér. Þær gerþekkja markaðinn og njóta örugglega mikillar viðskiptavildar umfram erlendar stofnanir.
    Ég bendi á reynslu Dana í bankamálum síðustu 20 árin. Þeir hafa síðan 1972 verið aðilar að Evrópubandalaginu og þar hefur verið fullt starfsfrelsi fyrir erlendar lánastofnanir. Reynslan hefur hins vegar verið sú að dönsku bankarnir hafa haldið velli og erlend bankastarfsemi á danskri grund hefur ekki blómstrað á þessum tíma. Hv. 8. þm. Reykn. nefndi líka hvort breytingin á ríkisbönkunum í hlutafélagsbanka sem

áformuð er kynni að veikja bankakerfið. Mín skoðun er sú að slík breyting sé fyrst og fremst mikilvæg til þess að styrkja bankana og bæta samkeppnisstöðu þeirra og þar með atvinnuöryggi þess fólks sem þar starfar. Þá geta þeir aflað sér aukins eigin fjár með hlutafjárútboði. Það er enginn vafi á því að eignaraðild einstaklinga, fyrirtækja og lífeyrissjóða mun færa með sér aukið aðhald að stjórnendum bankanna og um leið bættan rekstrarárangur. Þar á ég fyrst og fremst við aðhald að kostnaði í rekstri þar sem aukin samkeppni mun setja verðlagningu þjónustunnar ákveðin mörk. Að mínu áliti er enginn vafi á því að hægt er að reka íslensku bankana á hagkvæmari hátt en nú er gert og þrátt fyrir þokkalegan rekstrarárangur sumra þeirra megi gera enn betur. Áður var bönkunum auðvelt að bæta afkomuna í rekstrinum með því að auka vaxtamuninn. Framvegis verður áherslan að vera á að ná fram aukinni framleiðni og hagkvæmari rekstri.
    Ég minni á að Alþingi samþykkti í mars á liðnu ári, reyndar samhljóða, nýjar alþjóðlegar reglur um lágmarkseiginfjárhlutfall banka. Í upphafi ársins 1992 stóðust bankarnir þessar kröfur. Þær gengu í gildi um síðustu áramót og munu gilda um ársreikningana fyrir liðið ár. Ég vil benda á í því sambandi að eiginfjárhlutfall íslenskra banka og stærstu sparisjóðanna er reyndar tiltölulega gott ef við miðum við samsvarandi stofnanir í nágrannaríkjum okkar. Ég bendi á að staða íslensku bankanna er slík að þeir verðskulda fyllsta traust sinna viðskiptavina þótt Landsbankinn hafi í varúðarskyni tekið víkjandi lán hjá Seðlabankanum til þess að vera með eiginfjárhlutfall sitt örugglega réttu megin þegar áramótauppgjörið verður gert. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þessi stærsta lánastofnun landsins sé yfir allan vafa hafinn hvað þetta varðar. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykn., eins og hann vék að fyrr í umræðunni, að í skýrslu þeirri sem hann vitnaði til og fjallar um hugsanlega breytingu ríkisbankanna í hlutafélagsbanka var lagt til að ríkissjóður yfirtæki lífeyrisskuldbindingar ríkisbankanna í því skyni að styrkja stöðu hlutafélaga sem um þá kynnu að verða stofnuð. Enn hefur engin afstaða verið tekin til þessarar tillögu en um það var spurt. En við mat á þessari tillögu þarf að líta til margra annarra atriða sem varða myndun hlutafélaga um ríkisbanka.
    Ég vil líka benda á að þótt ríkisbönkunum verði breytt í hlutafélög er ekki þar með sagt að þegar í stað verði hafin sala hlutabréfa í báðum bönkunum á opnum markaði. Um það hefur vissulega verið rætt að hefja sölu hlutabréfa í Búnaðarbankanum fyrr en sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands. Fjárfesting í slíkum hlutabréfum er vafalaust traust og arðbær fjárfesting þegar horft er til langs tíma. Bankarnir hafa, eins og ég hef þegar nefnt, yfirburðaaðstöðu á íslenskum markaði og hafa öll skilyrði til þess að ná góðum árangri þrátt fyrir aukna samkeppni. Því skyldi heldur ekki gleymt að einmitt vegna gagnkvæmniákvæðanna í EES-samningnum fá íslenskir bankar tækifæri til þess að hasla sér völl erlendis. Þótt sjálfsagt sé að sýna varfærni í þeim efnum, þá munu þeir í framtíðinni vafalaust finna sér þar ýmis verkefni á afmörkuðum sviðum.
    Í öðru lagi spurði hv. 8. þm. Reykn. hvort þau ákvæði um frelsi í fjármagnshreyfingum milli landa sem finna má í EES-samningnum mundu ekki fela í sér hættu á fjárstreymi úr landi. Reyndar hafa ýmsir aðrir þingmenn nokkuð vikið að þessu í sínu máli. Því vil ég fyrst til svara að samningurinn leggur Íslendingum í rauninni engar skyldur á herðar í gjaldeyrismálum aðrar en þær sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um hér á landi. Ég vil líka leyfa mér að benda á að það er í raun og veru viss tvískinnungur í því að halda því annars vegar fram að á Íslandi séu vextirnir svo háir að fyrirtækin muni leita úr landi eftir lánafyrirgreiðslu og hins vegar sé svo hætta á fjárstreymi úr landi. Menn geta haft aðra skoðunina en ekki báðar í senn.
    Vegna spurninga sem hér var hreyft um það hvort nýjar reglur breyti fjárstreymi milli Íslands og annarra landa langar mig að rifja það upp að ný stefnumótun í gjaldeyrismálum var sett fram haustið 1990 í tíð fyrri ríkisstjórnar, þar sem hv. 8. þm. Reykn. átti sæti ásamt hv. 7. þm. Reykn. auk ýmissa annarra hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það var einmitt haustið 1990 sem ákveðið var að aflétta hömlum á langtímahreyfingum fjármagns í fyrir fram tilgreindum áföngum fram til loka þessa árs. Þessari stefnu hefur verið fylgt með góðum árangri en sökum dráttarins sem orðið hefur á gildistöku EES-samningsins hefur þó verið ákveðið, einmitt samkvæmt heimild í nýsettum gjaldeyrislögum, að viðhalda a.m.k. fyrst um sinn hömlum á verðbréfakaupum Íslendinga erlendis. Þetta verður að sjálfsögðu að styðjast við það ákvæði í lögunum sem hv. þm. þekkja frá því þetta mál var samþykkt hér í nóvember.
    Þá hefur legið fyrir að þegar hömlunum hefur verið létt af langtímahreyfingum fjármagns verði tekið til við að létta af hömlum á skammtímahreyfingum fjármagns í skynsamlegum áföngum fram til ársins 1995. Ég tel að stefnumótun af þessu tagi sé bæði hyggileg og eðlileg og til þess fallin að draga úr líkum á áföllum og hættu á því að menn þurfi að taka skref til baka eftir að hafa stigið eitt fram. Um þetta atriði er einmitt alveg sérstaklega fjallað í nýútkominni greinargerð Seðlabankans um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum sem ég hygg að þingmönnum muni kunnug.
    Ég minni á að það var reyndar 11. nóv. sl. sem Alþingi samþykkti þessi nýju gjaldeyrislög. Sú samþykkt var gerð samhljóða. Þar var löggjöfin færð til nútímalegra horfs í ljósi frjálsræðisþróunar síðustu ára. Þar með var einmitt lögleidd meginreglan um frjálsar langtímahreyfingar fjármagns. Um þá lagasetningu var full samstaða innan efh.- og viðskn., í atkvæðagreiðslunum í þingsalnum og meðal þeirra hagsmunaaðila sem gáfu umsagnir um frv. Ég nefni þar sérstaklega Samband ísl. viðskiptabanka af því að hagur bankanna var hér nefndur. Reyndar komu fram ýmsar ábendingar frá hagsmunaaðilum þess efnis að kannski væri farið of hægt. Of hægt væri stefnt að fullu frelsi í gjaldeyrismálum. Að mínu áliti skapast þær

aðstæður með auknu frelsi í gjaldeyrisviðskiptum að fjármagn getur leitað úr landi með fjölbreyttari hætti en áður. Mig langar hins vegar til að benda á að allar götur frá árinu 1960 hefur fjármagn átt tiltölulega greiða leið frá landinu sem greiðsla fyrir innflutning eða sem tafir í uppgjöri fyrir útflutning og iðulega hefur það komið fyrir að fjármagn hafi streymt úr landi þegar upp hefur komið kvittur um að gengisfelling væri yfirvofandi. Ekkert slíkt hefur gert vart við sig á liðnu ári eða á þeim tíma sem rýmkað hefur um fjármagnshreyfingar frá haustinu 1990. Í reynd kemur ekkert í staðinn fyrir eðlilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum til að tryggja gjaldeyrisjöfnuð.
    Áður en frelsið í gjaldeyrismálum var aukið árið 1990 urðu ýmsir til að halda því fram að það mundi leiða til þess sama og getum var að leitt fyrr í þessari umræðu, að fjármagn mundi af þeim sökum streyma úr landi. Þetta hefur alls ekki gerst. Ástæðan er fyrst og fremst sú að raunvextir hafa verið tiltölulega háir, raunhæfir, og því ekki eftir miklu að slægjast erlendis fyrir íslenska sparifjáreigendur. Þá hefur að sjálfsögðu óróinn á erlendum gjaldeyrismörkuðum síðustu vikur og mánuði örugglega sannfært marga um að það væri áhættusamt að festa sitt sparifé erlendis þar sem gengisbreytingar geta þurrkað út nokkurra ára vaxtatekjur í einni svipan. Þess vegna sé betra að halda sig við þann gjaldeyri og þær aðstæður sem menn þekkja best. Sömu sögu er auðvitað að segja af sveiflum í gengi verðbréfa á erlendum hlutabréfamörkuðum sem hafa verið afar miklar síðustu missirin.
     Hv. þm. nefndi til sögunnar lífeyrissjóðina sem að sjálfsögðu eru fjársterkustu aðilarnir á innlendum fjármagnsmarkaði og helsta uppspretta peningalegs sparnaðar í landinu. Þeir munu væntanlega verða umsvifamestir íslenskra aðila á erlendum fjármagnsmarkaði þegar fram líða stundir og leitast við að ná sem jafnastri áhættudreifingu í ávöxtun þeirra fjármuna sem þeim er trúað fyrir. Ég tel þetta af hinu góða en ekki hinu illa. Það hefur glöggt komið fram í samtölum við forsvarsmenn lífeyrissjóðasambandanna tveggja þegar rætt hefur verið við þá um breytingarnar á gjaldeyrisreglunum að þeir ætla að fara mjög varlega í þessu. Þar kemur einkum tvennt til. Annars vegar er hér alveg nýtt svið á ferðinni sem stjórnendur sjóðanna þekkja ekki mikið til. Hins vegar er að áliti forsvarsmanna sjóðanna andstætt hagsmunum sjóðfélaganna þessi missirin að allt of mikið fjármagn fari úr landi, bæði vegna vaxtakjaranna hér heima og svo vegna fjárfestingarmöguleika og atvinnuþarfa tengdum þeim. Á hinn bóginn er líka hægt að benda á það að fari svo þegar frelsi til langtímafjármagnshreyfinga er fengið að íslenskir aðilar kaupi í verulegum mæli erlend verðbréf gefur það aukið svigrúm til erlendrar lántöku, t.d. af hálfu ríkisins, án þess að það hafi í för með sér hættu á ofþenslu í hagkerfinu.
    Í þriðja lagi spurði hv. 8. þm. Reykn. um það hvort óskað hefði verið eftir skýrslu frá Seðlabankanum um það hvort gjaldeyrisvarasjóðurinn nægði við hin nýju skilyrði sem EES-samningurinn kveður á um. Auðvitað hefði þar verið réttara að vitna til hinna nýju laga um gjaldeyrisviðskipti sem Alþingi sjálft hefur sett. Því er til að svara að auðvitað hefur sú breyting verið ítarlega rædd við Seðlabankann. Seðlabankinn gefur ráðuneytinu reglulega upplýsingar og skýrslur um gjaldeyrisvarasjóðinn. Tölur Seðlabankans sýna að fyrstu 11 mánuði ársins 1992 batnaði gjaldeyrisstaða bankans um 6,1 milljarð kr. Samanborið við mörg fyrri ár er gjaldeyrisstaðan frekar góð. Með þeim aðlögunartíma sem við fáum samkvæmt EES-samningnum til þess að gefa skammtímahreyfingar fjármagns frjálsar tel ég að breytingin frá höftum til fulls frelsis muni alls ekki valda verulegri röskun á gjaldeyrisjöfnuði landsmanna, enda verði hún framkvæmd í skynsamlegum áföngum sem taki mið af aðstæðum.
    Ég hef þá lokið, virðulegi forseti, að svara beinum spurningum hv. 8. þm. Reykn. sem reyndar höfðu í sér fólgnar ýmsar ábendingar og spurningar frá öðrum þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. vék sérstaklega að hugmyndum um beinan útflutning á raforku til Evrópu um sæstreng og hver áhrif samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefði á það mál. Ég vil fyrst segja um það mál að í iðnrn. er nú unnið að gerð yfirlitsskýrslu um sæstrengsmálið á grundvelli þeirra allmörgu hagkvæmniathugana, bæði tæknilegra og fjárhagslegra, sem ýmist eru í bígerð, er verið að framkvæma eða þegar hefur verið lokið. Í þeirri skýrslu vonast ég til að geta kynnt málið rækilega fyrir þinginu á þessu ári og með þeirri skýrslu megi leggja grundvöll að stefnumótun um þetta mikilvæga mál. Að því má að sjálfsögðu ekki hrapa. Það þarf að huga afar vel að stofnanauppbyggingunni í sambandi við slíkt fyrirtæki og lagahlið málsins, ekki síst um auðlindaaðganginn sem í þessu felst. En þegar litið er á EES-samninginn, þá breytir hann engu um það að Alþingi hefur það í sinni hendi að veita fyrst og fremst --- og eingöngu ef það svo kýs --- opinberum aðilum rétt til þess að virkja orkulindir Íslands. Á það mál hefur EES-samningurinn engin áhrif.
    Hæstv. forseti. Að lokum nokkur orð um almenna stöðu þessa máls. Ýmsir ræðumenn hafa í þessari umræðu talið að það að EES-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss 6. des. sl. hafi á einhvern hátt gerbreytt málinu. Þetta nefndu m.a. hv. 7. þm. Reykn. en einnig hv. 18. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v. og reyndar allra síðast hv. 3. þm. Norðurl. v. Auðvitað er rétt að það að Svisslendingar höfnuðu EES-samningnum var áfall í því samningaferli sem við höfum nú unnið að í tæplega fjögur ár. Svisslendingar hafa tekið virkan þátt í þessum samningum og þeir eiga mikilvægan hlut að því að gera EES-samninginn jafnhagfelldan EFTA-þjóðunum og raun ber vitni. Hins vegar er ástæða til þess að ítreka það, ekki síst vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. að EES-samningurinn er samningur milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Evrópubandalagsins í heild hins vegar. Að þessu leyti er hann samningatæknilega og lögformlega alveg sama eðlis og fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna hvers um sig við EB. EFTA er ekki samningsaðili að EES-samningnum. EES-samningurinn bindur ekki hendur okkar í viðskiptum við önnur lönd, lönd utan EES-svæðisins og vík ég þar með örfáum orðum að því sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Suðurl. Þetta vildi ég segja um Sviss og samninginn.
    Reyndar er rétt að rifja það upp að svissneskir kjósendur eru þekktir fyrir að sýna ákaflega mikla íhaldssemi í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það tók t.d. margar kosningar og margra áratuga baráttu að koma á kosningarrétti kvenna í Sviss, einkum vegna þess að kantónurnar sem nú felldu þennan samning voru alla tíð á móti kosningarrétti kvenna. Fyrir aðeins tveimur árum var aðild Sviss að Sameinuðu þjóðunum felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir að í Genf sé umfangsmikil starfsemi á vegum Sameinuðu þjóðanna og aðeins New York borg sé mikilvægari hvað þetta varðar. Þetta sýnir auðvitað að þarna er um rótgróna íhaldssemi að ræða sem oftast nær hefur þó breyst við endurteknar þjóðaratkvæðagreiðslur. Þarna er að sjálfsögðu um að ræða einkenni á svissnesku þjóðlífi sem hefur lítið með Íslendinga að gera. En auðvitað vakti það athygli að næstu nágrannar Svisslendinga, íbúarnir í Liechtenstein, skyldu samþykkja EES-samninginn óbreyttan í þjóðaratkvæðagreiðslu aðeins fáum dögum eftir svissnesku atkvæðagreiðsluna. Mér finnst líklegt að þar hafi einhverju ráðið það sem kalla mætti eftirköst þessarar niðurstöðu í Sviss hjá þeim sjálfum og umræðan sem þar fór í kjölfarið. En það hvarflaði greinilega ekki að þinginu eða stjórninni í Liechtenstein að fresta atkvæðagreiðslunni um EES þótt þeirra helsta viðskiptaland og nágranni hefði fellt þennan samning.
    Úrslitin í Sviss eru auðvitað ákveðið áfall en þau eru alls ekki óbætanlegt slys og EES-samningurinn mun engu að síður komast á. Það hefur ítrekað komið hér fram að það nægir að bæta stuttri bókun við EES-samninginn þess efnis að ákvæðin í honum sem varða Sviss og aðild Sviss að samningnum séu óvirk. Það liggja reyndar fyrir drög að slíkri bókun og miðað við þau verður hún fyrst og fremst þjóðréttarlegs eðlis og hefur því ekki bein réttaráhrif á Íslandi. Það mun því væntanlega nægja að flytja þáltill. til þess að staðfesta slíka viðbótarbókun.
    Það er líka ástæða til að rifja það upp að EES-samningurinn sjálfur gerir ráð fyrir ákveðnum verklagsreglum ef eitthvert þeirra ríkja sem undirritað hefur samninginn getur ekki staðfest hann. Þeim reglum verðum við að sjálfsögðu að fylgja. Þá kem ég að því hvers vegna það er mikilvægt að Alþingi afgreiði samninginn enda þótt ljóst sé að á næstunni þurfi að gera á honum fáeinar tæknilegar breytingar sem að sjálfsögðu verða bornar upp til staðfestingar á þingi svo fljótt sem kostur er. Meginástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að okkar viðsemjendur og samstarfsaðilar verða að hafa fulla vissu fyrir því að okkur sé alvara með aðildina að EES. Þeir munu varla fást til þess að undirbúa og efna til ráðstefnu stjórnarerindreka, eins og hér hefur nokkuð verið rætt, hvenær sem hún nú nákvæmlega fer fram, og setja þar með af stað ákveðið ferli um nauðsynlegar breytingar á EES-samningnum ef þeir eiga á hættu að Íslendingar hafni samningnum síðar og þannig þurfi þeirra vegna að endurtaka allt ferlið. En einmitt til þess að tryggja það að okkar sjónarmið, okkar hagsmunamál, komist að þegar frá upphafi þurfum við sjálfra okkar vegna að hafa sömu réttarstöðu og Austurríki, Finnland, Noregur og Sviss gagnvart EES á þessari væntanlegu ráðstefnu og í aðdraganda hennar.
    Virðulegi forseti. Það er einmitt af þessum ástæðum sem það er afar brýnt að við samþykkjum það frv. sem hér er til umræðu. Það er nú á dagskrá af þeim ástæðum og á þeim tíma sem er sjálfum okkur hagfelldastur og sjálfra okkar vegna þurfum að taka þessa ákvörðun sem allra fyrst.