Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:04:59 (4309)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta það koma alveg skýrt fram að engin ástæða er til að ætla að fjármagnshreyfingar úr landi hefðu valdið Íslendingum skaða þótt fullkomið frjálsræði hefði verið innleitt um sl. áramót. En vegna þess að hugmyndir af því tagi sem hv. þm. lýsir hér eru á sveimi, þá þótti mönnum rétt að nýta til fulls þau varúðarákvæði laganna sem nýsett voru. Það er eina ástæðan en ekki neitt sérstakt tilefni.
    Í öðru lagi hvað Landsbankann varðar vil ég láta það koma fram að ég hef í hyggju að kynna efh.- og viðskn. þingsins sérstaklega þau áform sem þar eru uppi um skipulagsbreytingar í bankanum og aðgerðir til þess að treysta hag hans því hann er mikilvægasti banki okkar bankakerfis. Hann er um leið undirstaða fyrir fjármögnun atvinnuvega okkar og þess vegna verður hann að standa traustum fótum.