Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 13:42:52 (4559)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vona að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur eða verði viðstaddur umræðuna. Ég ætlaði að hefja mál mitt á því að beina nokkuð orðum til hans, í framhaldi af ræðu hans hér við upphaf 3. umr. Ég tók þátt í þeirri umræðu og var reyndar fyrsti ræðumaður þeirrar umræðu og gerði þar grein fyrir mínum meginsjónarmiðum og míns flokks. Og hefði í sjálfu sér ekki þurft að bæta þar miklu við og e.t.v. engu, ef ekki hefði komið til fyrst og fremst dæmalaus ræða hæstv. utanrrh. sem sigldi í kjölfarið. En hann var eins og kunnugt er þriðji ræðumaður við upphaf 3. umr. og fór mikinn. Og ég held að hæstv. utanrrh. geti ekki vænst annars, eins og hann fór fram í þeirri umræðu, en að hann fái hér ýmis andmæli við sínum málflutningi og þaðan af síður getur hann vænst þess, hæstv. forseti, að við ætlumst ekki til þess sem þar var vikið að og nafngreindir í sumum tilvikum, eins og á við um ræðumann, að hann geri sjálfum sér og Alþingi þá virðingu að vera hér viðstaddur. Og ég nenni því ekki að fá þau skilaboð að hæstv. ráðherra sé einhvers staðar hér í þinghúsinu á ótilgreindum stöðum og kunni e.t.v. að fylgjast með umræðunum. Ég ætla að bera fram spurningar og sérstaklega þó mótmæli við hæstv. utanrrh. og ég krefst þess að hann komi hér í þingsalinn og verði hér viðstaddur. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að koma þeirri ósk á framfæri). Já. Nú ég sé að hæstv. utanrrh. er hér í hliðarsal og les Tímann og gerir þá ekki annað lakara á meðan. Og ég skal láta mér það nægja í sjálfu sér, ef það fer betur um hæstv. utanrrh. hér í hliðarherbergi meðan ég hef hann fyrir augunum, þó hann sitji ekki í sæti sínu. En það er eins og kunnugt er frekar þunnskipaður ríkisstjórnarbekkurinn, hæstv. forseti. Þarf væntanlega ekki að vekja athygli forseta á því að hér er enginn ráðherra í þingsalnum. ( Gripið fram í: Og einn stjórnarþingmaður.)
    En ég ætlaði fyrst og fremst, hæstv. forseti, að mótmæla ræðu hæstv. utanrrh. í heild sinni. Og reyndar þeim báðum við upphaf 3. umr., en sérstaklega fyrri ræðunni, sem ég tel verið hafa dæmalausa eða svo gott sem dæmalausa. Við skulum gæta þess að þarna er sá ráðherra að tala sem fer með þetta mál, sem ber á því stjórnskipulega ábyrgð fyrir hönd framkvæmdarvaldsins og þarna er á ferðinni sá ráðherra sem ætti að hafa einhvern lágmarksmetnað til að reyna að leiða þjóð sína í þessum efnum og ná sæmilegri samstöðu og sátt í þjóðfélaginu um þetta mál. Hvar kom það fram í ræðu hæstv. utanrrh. eða hitt þó heldur? Hæstv. utanrrh. gekk lengra en nokkru sinni fyrr í því að storka mönnum í þessu máli, í því að niðurlægja þá sem hafa aðra skoðun en hann sjálfur. Og það átti ekki bara við um hv. þm. sem hafa leyft sér að lýsa öðrum sjónarmiðum. Hæstv. ráðherra sendi pillur út í þjóðfélagið til aðila sem ekki hafa málfrelsi hér á Alþingi og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Hæstv. ráðherra gekk með allra ómerkilegasta móti fram í því að níða niður fjarstadda menn úti í þjóðfélaginu í krafti þinghelgi sinnar. Hann talaði um verkalýðsforingja sem hefðu leyft sér að vera á móti þessum samningi að lýsa öðrum sjónarmiðum en hann hefði sjálfur með óvenju niðrandi hætti. Hann bað guð að fyrirgefa þeim, þessi trúleysingi hæstv. utanrrh., því þeir vissu ekki hvað þeir gerðu. Hann talaði um verkalýðsforingjana sem hefðu þessi sjónarmið eins og þeir væru í raun og veru afbrotamenn, óforbetranlegir afbrotamenn sem ekkert þýddi annað en að biðja guð að fyrirgefa. Og er honum þó ýmislegt tamara heldur en að leita á náðir guðs, þessum hæstv. utanrrh., eins og kunnugt er.
    Nei, ég tel þessa ræðu hæstv. utanrrh. mikið hneyksli. M.a. vegna þess að hún er ekki einstök, og ekki einasta skiptið sem að hæstv. utanrrh. hefur hagað orðum sínum í þessa veru. Þvert á móti er þetta í raun og veru kórónan á ferlinum hjá hæstv. utanrrh. í þessu máli. Ég vænti þess að fleiri en ég hafi orðið fyrir því á undanförnum dögum úti í þjóðfélaginu í viðræðum við fólk að hroki og yfirgangur hæstv. utanrrh. hafi verið þar til umræðu. Ég minnist þess ekki í annan tíma á jafnskömmum tíma og jólaleyfið varði að ég hafi jafnoft verið tekinn tali af ólíklegustu mönnum og oftast nær var umræðuefnið eitt og hið sama. Það var undrun, hneykslun og mótmæli við framgöngu hæstv. utanrrh. sem virðist hafa blessunarlega gengið svo fram af þjóðinni með hroka sínum að það er mönnum mjög ofarlega í huga. Mjög algengt var að menn segðu sem svo að þeir hefðu það stanslaust á tilfinningunni að hæstv. utanrrh. talaði niður til þeirra. Ofan úr einhverjum hæðum sem hann hefur upphafið sig í talar hann niður til fólksins í landinu, ekki bara okkar hér á Alþingi. Við höfum orðið þess áþreifanlega vör að hæstv. utanrrh. ber ekki snefil af virðingu fyrir skoðunum alþingismanna sem leyfa sér að hafa önnur sjónarmið en hann sjálfur. Bæði innan lands og utan hefur hæstv. utanrrh. margafhjúpað það að hann býr yfir alveg einstökum hroka í þeim efnum. Ég hef leyft mér að þýða ákveðna þýska slettu sem oft er gripið til og kalla það beturvitrungshátt, að þykjast vita allt betur en aðrir menn. Þetta er ákveðinn sjúkdómur sem að hrjáir ýmsa og reyndar er það nú svo að ég held að af öllum íslenskum stjórnmálamönnum og öðrum ólöstuðum þá séu þeir Jónarnir í Alþfl., hæstv. utanrrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh., verr haldnir af þessum sjúkdómi en nokkrir aðrir núlifandi menn sem ég þekki, þessum beturvitrungshætti. Að vita að eigin dómi allt betur en aðrir menn. Og ég segi það alveg eins og er að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.
    Ég tel að ræða hæstv. utanrrh. hér við upphaf 3. umr. í fyrrakvöld hafi, þó hneyksli væri, haft það góða í för með sér að hún gerði útslagið varðandi viðhorf fólks í landinu til hæstv. utanrrh. Hann gekk svo fram af mönnum í hroka sínum og lítilsvirðingu gagnvart sjónarmiðum þeirra sem eru honum ekki sammála í málinu að ég held að það hafi verið sá dropi sem þurfti til að mælirinn fylltist. Hæstv. ráðherra leyfir sér að tala þannig um alla þá sem hafa einhverjar efasemdir um þetta mál að það er með ólíkindum. Ég er hér

með útskrift af ræðu hæstv. ráðherra og þar eru margar ótrúlegar setningar.
    Hæstv. utanrrh. segir t.d. eftir að hafa farið með frægar rangfærslur um þjóðhagslegan ávinning af samningnum sem ég mun koma að síðar, með leyfi forseta: ,,Þetta er sá fórnarkostnaður sem við verðum að færa ef við höfnum þessum samningi. Ég segi fyrir mig: Launþegaforingjar, sem berjast gegn þessum samningi, ég segi við þá: Guð fyrirgefi ykkur því að þið vitið ekki hvað þið gerið á sama tíma og atvinnuástand á Íslandi er eins og það er.`` Og svo kemur: ,,Sannleikurinn er sá að þetta er ábyrgðarlaus málflutningur . . .  `` (Gripið fram í.) --- Allt er þetta satt og rétt, kallar svo hæstv. utanrrh. fram í úr hliðarsölum og það er rétt að koma því frammíkalli inn í þingtíðindin. Allt er þetta satt og rétt, auðvitað. Ekki fer fyrir efasemdunum hjá hæstv. utanrrh. frekar en venjulega. Hann kallar það fram í að honum þyki þessi ummæli um verkalýðsforingja, sem hafa leyft sér að hafa aðrar skoðanir en hann sjálfur að sjálfsögðu réttmæt, sönn og rétt. Að það eigi að biðja guð að fyrirgefa þessum mönnum því þeir viti ekki hvað þeir gera. Við munum við hvaða aðstæður þessi fræga setning varð fyrst til. Það var þegar átti að krossfesta mann.
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég held að hæstv. utanrrh. sé orðinn svo heillum horfinn í þessu máli, sleginn slíkri blindu að honum sé í raun og veru ekki sjálfrátt nema að takmörkuðu leyti. Út af fyrir sig má segja að maður skilur það að ýmsu leyti þegar einn hæstv. ráðherra, forustumaður í stjórnmálum, hefur fjárfest jafnmikið persónulega í máli eins og hæstv. utanrrh. hefur gert og upplifað síðan þær hremmingar sem raun ber vitni að þá er það nú einu sinni mannlegt að mönnum fari eins og hæstv. utanrrh., hann bara missir fótanna, verður sleginn blindu, verður svo heltekinn af þessu máli að dómgreindin svíkur hann og hann nær ekki að hugsa skýrt eða rökrétt við þær aðstæður sem upp eru komnar í málinu.
    Hæstv. utanrrh. --- og verður mér þá aftur á að spyrða þá nafnana saman, hæstv. utanrrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh., sem báðir heita Jón eins og kunnugt er --- honum hefur farið að mörgu leyti í þessu EES-máli líkt og nafna sínum. En það er eitthvert skýrasta dæmi stjórnmálasögunnar á síðari árum um afdrifarík persónupólitísk mistök þegar hæstv. iðnrh. persónugerði svo álmálið við sjálfan sig og þvældist svoleiðis í eigin yfirlýsingum um að þessu máli væri nú senn lokið og það í höfn komið, að hann endaði með frægustu brotlendingu síðara tíma í stjórnmálasögu landsins, þ.e. því algjöra skipbroti sem hann, fórnarlamb eigin yfirlýsinga og þessarar persónugervingar álmálsins, hefur mátt þola. En hæstv. iðn.- og viðskrh. er, eins og kunnugt er, gersamlega sprungin blaðra í íslenskri pólitík og eitthvert mesta aðhlátursefni síðari tíma og á það ekki síst við um kjördæmaflakk hæstv. iðnrh. sem seldi sig Reyknesingum, eins og kunnugt er, út á það að hann væri að færa þeim álver á silfurfati.
    Hæstv. utanrrh. hefur að mörgu leyti á síðari stigum málsins lent í sömu gryfjunni. Hann hefur persónugert þetta mál, hann hefur dregið samasemmerki á milli sín og milli EES-samningsins, og þannig verður hvert kjaftshögg, sem samningurinn fær, um leið persónulegt kjaftshögg á stjórnmálamanninn Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta er auðvitað staðreynd málsins og liggur í málsmeðferð hæstv. utanrrh., sem hann hefur sjálfur valið. Enginn, hvorki hæstv. utanrrh. né hæstv. iðnrh., hefur reynt að persónugera þessi mál með þeim hætti sem þeir hafa gert. En hugsunin var sú að þeir ætluðu að slá keilur á þessum stóru málum. Hæstv. iðnrh. ætlaði auðvitað að verða erfðaprins og ókrýndur foringi Alþfl. í Reykjaneskjördæmi út á það að færa þeim álver, ekki sem ein ríkisstjórn hefði stutt, ekki sem Alþingi hefði tekið ákvörðun um. Nei, heldur sem ,,ég persónulega, stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson, færi ykkur, kjósendur mínir.`` Söm var hugsun hæstv. utanrrh. Hann ætlaði að verða afreksmaðurinn sem byggi til Evrópska efnahagssvæðið nánast eigin hendi og færði síðan þjóðinni þetta merka mál úr eigin hendi, frelsisskrá úr föðurhendi, hét það í gamla daga.
    Einmitt þessi aðferð þeirra hæstv. ráðherra, Jónanna, er nú að koma þeim í koll. Ég held að þessi dæmi og reyndar fleiri sem taka mætti af svipuðum toga sýni það í fyrsta lagi hversu hættulegt það er að persónugera mál með þessum hætti og í öðru lagi hversu ólánleg aðferð það er í stjórnmálum. Vegna þess að með því móti skapa menn ekki þá

samstöðu, ekki þann jarðveg fyrir málið sem skapar forsendur fyrir farsælli niðurstöðu og lendingu. Menn hafa eðli málsins samkvæmt engum skyldum að gegna við slík mál sem einstakir stjórnmálamenn taka upp á sína eign með svona hætti og gera að sínum persónulegu og prívat málum, að sjálfsögðu í eigingjörnum tilgangi af því að þeir ætla sér að slá af því miklar keilur.
    Nú ætla ég ekki að vefengja það að hæstv. utanrrh. sé á sinn hátt sanntrúaður í málinu og trúi sínum dæmalausu fullyrðingum um ábatann af samningnum sem hann þylur og sagði í ræðu sinni að það mætti lengi tíunda kostina í sambandi við EES-samninginn. Það er einhver dýrlegasta setningin í ræðunni. Það er lengi hægt að tíunda kosti EES-samningsins. Þannig hóf hæstv. utanrrh. eina málsgreinina í ræðu sinni.
    En þó að við látum liggja milli hluta trú og einlægni hæstv. utanrrh. þá held ég að það sé ekki atriði sem skiptir miklu máli í samanburði við hitt, að málsmeðferð hæstv. ráðherra, þessi persónugerving hans á málinu, í því er fall hæstv. ráðherra fólgið. Það er þess vegna sem hæstv. ráðherra hefur á síðustu mánuðum þegar hann er farinn að örvænta um að e.t.v. verði ekkert af þessu svæði, þegar hann minnist hrakfaranna sem starfsbróðir hans, hæstv. iðnrh. hefur farið og niðurlægingarinnar sem hæstv. iðnrh. hefur orðið fyrir í sambandi við álmálið, e.t.v. hugsar þá hæstv. utanrrh.: Á nú að fara eins fyrir mér? Verða þetta líka örlög mín að hinn stóri draumur minn, að hið persónulega stórframtak mitt í íslenskum stjórnmálum, sem ég er búinn að puða við í fjögur, fimm ár og fjárfesta óhemjulega í sem persóna í stjórnmálum, verði að engu? Öll ferðalögin, allur kostnaðurinn, allar ræðurnar, öll loforðin, allar yfirlýsingarnar, allt komi þetta fyrir ekki. Og hæstv. utanrrh. missir fótanna. Þessi tilhugsun er honum svo hræðileg að hann lendir út á hinn svikula ís rangfærslnanna, hrokans og lítilsvirðingarinnar í garð þeirra sem hafa efasemdir.
    Þetta eru auðvitað dapurleg örlög annars að ýmsu leyti merkum stjórnmálamanni sem hæstv. utanrrh. er. Því hvað sem um hann má segja og þó að menn hafi gengið svo langt, hæstv. forseti, að kalla hæstv. utanrrh. pólitískan villimann án þess að vera áminntir í umræðum á þingi þá ætla ég að segja það að ég tel að hæstv. utanrrh. hafi um margt sýnt eftirminnileg tilþrif í íslenskum stjórnmálum. Auðvitað er hæstv. utanrrh. garpur á ýmsa lund. En við vitum það úr sögunni að slíkum mönnum fylgir ekki alltaf gæfa, sérstaklega ekki ef þeir sjást ekki fyrir. Þá fara menn inn á spjöld sögunnar með meiri reisn ef þeir að sögn annálsritanna glottu við tönn í brennunni. En það breytir ekki hinu að lítil reynist þá gæfa þeirra.
    Þetta er það sem ég óttast að sé að koma yfir hæstv. utanrrh. Að gæfuleysi hans sé að verða algert í þessum efnum. Ég óttast t.d. að hæstv. utanrrh. sé á góðri leið með að brenna af sér virðingu og samstöðu í kringum sig í íslenskum stjórnmálum að hann muni ekki geta unnið þar með nokkrum manni innan tíðar ef svo heldur sem horfir. Ræða hæstv. utanrrh. við upphaf 3. umr. var auðvitað þannig að vandséð er að þeir menn sem fyrir henni urðu, ýmsir persónulega nefndir á nafn, geti á næstunni hugsað sér að vinna með hæstv. utanrrh., að bera traust til hans, að ganga til samstarfs við hann. Vel getur verið að hæstv. utanrrh. teli sig kominn í hjónaband lífsins þar sem er Viðeyjarsambúðin. Og þá það. En einhvern veginn læðist sá grunur að mér að þar gæti orðið skilnaður. Hjónaskilnaðir eru í tísku í dag og margt betur grundað hjónabandið en Viðeyjarsambúðin hefur farið fyrir lítið að undanförnu að sögn prestanna. Ég hugsa að þá þurfi hæstv. utanrrh., ef hann vill áfram vera foringi í íslenskum stjórnmálum, að hugsa sinn gang. Gandreið af því tagi sem hæstv. utanrrh. fór hér á í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld boðar ekki gott í samskiptum manna. Þegar hæstv. utanrrh. leggst svo lágt, eins og reyndar fleiri alþýðuflokksmenn hafa gert og maður tekur ekki mjög alvarlega þegar í hlut á t.d. hv. þm. Karl Steinar Guðnason sem heldur alltaf hina sömu ræðu um hina kommúnísku arfleifð og þessa vondu menn. Það er allt í lagi með það, maður kann ræðuna utan að og getur hlustað á útvarpið eða gert eitthvað annað á meðan hún er flutt. En hæstv. utanrrh., sem hafði takmarkaðan tíma til að verja málstað sinn í eldhúsdagsumræðunum, lenti ofan í þetta hjólfar og kallar menn ónefnum og uppnefnum. Menn sem hafa ekki annað til saka unnið en að hafa heita sannfæringu í þessu máli og hafa staðið fyrir henni og flutt hana af einurð hér á Alþingi. Mér finnst þetta óskaplega dapurlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Gerir það hæstv. utanrrh. að eitthvað merkari stjórnmálamanni eða málstað hans eitthvað betri að vera að kalla menn fjölfætlufræðinga eða fylgikonur eða eitthvað af því tagi? Venjan er sú að það er talið til marks um rökþrot manna að þurfa að grípa til slíks.
    Mér fannst afar athyglisvert að hæstv. utanrrh. beindi mikið máli sínu til fólksins úti á landi, taldi sig vera alveg sérstaklega að tala fyrir því, og þá ekki síst fólkinu í fiskvinnsluhúsunum og sjómönnunum úti á landi. Ég held að hæstv. utanrrh. hljóti að fara þarna nokkuð villur vegar. Skýringin er sennilega sú að hæstv. utanrrh. hefur haldið sig meira í útlöndum en úti á landi alveg síðan hann hélt hundrað fundina frægu og spurði hver ætti Ísland. Ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að það fólk sem ég umgengst, tala við og heimsæki talsvert úti á landi, þar á meðal fólk í dæmigerðum sjávarbyggðum á Íslandi þar sem allt snýst um sjávarútveg og fisk, afþakkar þessa umhyggju hæstv. utanrrh. Það hefur þveröfuga skoðun. Þar skrifar svo til hver einasti maður undir ósk um það að fá að kjósa um samninginn, til þess að fella hann, fullyrði ég, í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika. Það er vegna þess að þetta fólk hefur heita sannfæringu fyrir því að aðrir muni ekki verða til þess að leysa fyrir það vandamál sem það getur ekki leyst sjálft. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að fara varlega í það að þykjast vera sérstakur talsmaður fólksins í strjálbýlinu á Íslandi, þess fólks sem sjávarútvegsbyggðirnar byggir, sjómanna og fiskvinnslufólks. Það er fullfært um að móta sjónarmið sín sjálft og gæta sinna hagsmuna og þarf ekki á hjálp hæstv. utanrrh. að halda í þeim efnum.
    Það er mjög athyglisvert að hæstv. utanrrh. og fleiri talsmenn samningsins ganga svo langt að þeir falsa niðurstöður félagasamtaka og aðila úti í þjóðfélaginu til að reyna að búa til meiri stuðning við samninginn en í reynd hefur komið fram. Ég t.d. hef tekið eftir því að ekki er talað hátt úr munni þessara manna um samþykkt Sjómannafélags Reykjavíkur. Það var ekki hlýlegur tónninn í samþykkt Sjómannafélags Reykjavíkur í garð sjávarútvegssamningsins, var það? ( ÖS: Hann var á misskilningi byggður.) Þetta var fínt frammíkall, hæstv. forseti, frá formanni þingflokks Alþfl. Gamla, góða svarið. Allt, sem ekki er samferða okkur, er misskilningur. Allt, sem ekki fellur inn í okkar heimsmynd um ágæti þessa samnings og blessun Evrópuríkisins, er á misskilningi byggt. Bara misskilningur, eins og málflutningur allra sem hafa ekki sömu skoðun og hæstv. utanrrh. er og hefur alltaf verið allt misskilningur. Þetta er örugglega misskilningur hjá Þjóðhagsstofnun að hæstv. utanrrh. hafi logið um ávinninginn af samningnum. Það er ekki misskilningur hjá utanrrh. Nei. Það er örugglega Þjóðhagsstofnun sem misskilur sínar eigin niðurstöður, ég er viss um það. Það er örugglega Evrópubandalagið sem misskilur það að það ætlar ekki að halda leiðtogaráðstefnu fyrr en í mars. Jón Baldvin veit þetta betur. Hún verður í janúar, það er Evrópubandalagið sem misskilur þetta. Þannig er þetta. Málflutningurinn er svona. Þetta er til marks um það að menn eru heillum horfnir. Þeir hafa misst fótanna, þeir geta ekki viðurkennt þær aðstæður sem uppi eru í málinu, og því miður verður bara að segja það eins og það er, hæstv. utanrrh. er ekki lengur marktækur í málinu.
    Ég ætla að fara með lista sem ég tók saman, hæstv. forseti, við eldhúsborðið heima hjá mér í gærmorgun eftir minni, og hef nú ekki haft tíma til að lengja hann vegna þess að ég veit að hann er miklu lengri. Ég mundi ekki nema níu atriði, en ég tölusetti þau og ætla að fara með þau hér á eftir, níu atriði þar sem hæstv. utanrrh. hefur farið rangt með staðreyndir í sambandi við þetta mál. Flest tilvikin eru frá síðustu viku og aðeins eitt er verulega eldra og það er með langhalann og karfann. Þess vegna leyfi ég mér að túlka það þannig að hæstv. utanrrh. hafi fyrst og fremst farið að missa fótanna í þessum efnum á síðustu vikum og síðustu mánuðum af hvaða ástæðum sem það nú er. Ég get getið mér þess til að það sé ósköp einfaldlega örvænting sem sé þar á ferðinni, en annað kynni að koma til.
    En fyrst, hæstv. forseti, áður en ég kem að þessum lista ætla ég að segja hér nokkur orð um málþóf, sem hv. stjórnarliðir, einstöku menn og þó sérstaklega hæstv. utanrrh., að nokkru leyti hæstv. forsrh. --- sem er að lesa hér mjög athyglisvert blað úti í þingsalnum með sérstaklega fallegri forsíðumynd --- hafa rætt um. Þá hafa þeir gjarnan borið saman þjóðþingið yðar, hæstv. forseti, við önnur þjóðþing í nágrenninu. Ég geri miklar athugasemdir við þennan samanburð og það undrar mig nokkuð að virðulegur forseti Alþingis Íslendinga skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að koma fram og skýra þann mun sem er á uppbyggingu þinghaldsins og þingstarfanna hér og t.d. þjóðþinganna í nágrannalöndunum. Úr því að svo hefur ekki verið þá ætla ég að leyfa mér út frá minni takmörkuðu þekkingu að gera athugasemdir við þann samanburð og skýra nokkuð þann eðlismun sem er á ferðinni. Einhver verður að vera til þess að mínu mati.
    Þá er það auðvitað fyrst til að taka, hæstv. forseti, sem gerir aðstæður á Alþingi Íslendinga gjörólíkar því sem er t.d. í þjóðþingum hinna Norðurlandanna, sú staðreynd að um stórmál af þessum toga þarf aukinn meiri hluta á þjóðþingum hinna Norðurlandanna sem gerir það að verkum að stjórnarandstaða eða minni hluti á þeim þingum hefur málið í hendi sinni og getur ráðið því með atkvæði sínu. Það er önnur staða en stjórnarandstaðan hér er í. Við höfum ekki þau vopn í höndum eins og ákvæði stjórnarskrár hinna Norðurlandanna um aukinn meiri hluta veita minni hlutanum þar. Þeir þurfa ekki orðin ein til að skylmast með. Þeir geta með atkvæði sínu ráðið niðurstöðu málsins. Og það liggur í hlutarins eðli að það hefur áhrif á þær umræður sem þar fara fram ef stjórnarandstaðan er ekki sátt við málið. Ef ekki er samið við hana um stórmál af þessu tagi, þá ósköp einfaldlega stöðvar hún það. Það þarf engin löng ræðuhöld þar um. Þetta ættu menn að skilja og er auðvitað fyrsta atriðið og grundvallaratriði. Ég undrast að virðulegur forseti þingsins skuli ekki hafa með hógværð sinni leyft sér að vekja athygli á þessu.
    Í öðru lagi liggur mikill munur í tilhögun starfsins í þjóðþingunum, t.d. á hinum Norðurlöndunum og ugglaust víðar í fleiri EFTA-ríkjum. Þannig er það t.d. á hinum Norðurlöndunum að þar fer stjórnarandstaðan gjarnan með forustu í ýmsum nefndum þingsins. Í sumum tilvikum er það þannig nú á hinum Norðurlöndunum að stærsti flokkur þingsins er í stjórnarandstöðu og þá er það gjarnan þannig, bæði t.d. í norska og danska þjóðþinginu og því sænska að ýmist forseti þingsins eða formenn margra stórra nefnda eru úr röðum stjórnarandstöðunnar, gjarnan stærsta þingflokksins sem þá er í stjórnarandstöðu. Það gerir aðstöðu stjórnarandstöðunnar allt aðra. Ef stjórnarandstaðan hefði átt formann utanrmn., svo dæmi sé tekið, þá hefði málið snúið öðruvísi við, ef stjórnarandstaðan hefði getað haft áhrif á meðferð málsins og kannski stýrt vinnunni í þingnefnd. Þessa hluti verða menn að taka til greina ef menn ætla út í svona samanburð ef hann á að vera marktækur.
    Í þriðja lagi er rétt að minnast þess að í sumum tilvikum hefur meðferð mála á þjóðþingunum mótast af því að þjóðin hefur fengið að segja sitt álit. Það hefur legið fyrir að um málið færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Auðvitað hefur það áhrif á meðferð málsins inni á þinginu. Þá vísa menn yfir í þjóðaratkvæðagreiðsluna og þá umræðu sem fer fram í tengslum við hana, í raun og veru kannski þeim skoðanaskiptum sem ella verða að eiga sér stað inni á þinginu og hafa ekki annan vettvang vegna þess að meiri hlutinn neitar þessari sjálfsögðu ósk. Þess vegna er vettvangur hinnar pólitísku umræðu hér af því að því var neitað að hann mætti verða úti í þjóðfélaginu hjá fólkinu sjálfu. (Gripið fram í.) Það er rétt, við erum að reyna að gera skyldu okkar í þeim efnum. Við erum að reyna að nota lýðræðislegan, lögbundinn og stjórnarskrárvarinn rétt okkar til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og reyna að hafa áhrif á gang mála og tryggja að fram fari á Íslandi sú lýðræðislega umræða um þetta mál sem þarf að vera. Og það hefur áhrif á okkar framgöngu í þeim efnum að þjóðinni var neitað um kosningar um þetta mál. Svo kemur hæstv. utanrrh. hér og skósveinar hans ýmsir og éta upp einhvern samanburð um ræðutíma á þjóðþingum hinna landanna og Íslands þar sem gerólíkur aðstæður eru á ferðinni. Þar sem annað tveggja á við í öllum tilvikum, það þarf aukinn meiri hluta á þjóðþinginu eða þjóðin fær að kjósa.
    Auðvitað er það svo þannig að á Alþingi Íslendinga ríkja einfaldlega aðrar hefðir, gilda önnur lög. Og eigum við ekki að fara eftir þeim lögum, eða hvað? Eigum við að haga fundahöldum á Alþingi Íslendinga í samræmi við lög í útlöndum? Er það það sem verið er að fara fram á? Það væri þá forsmekkur að því sem koma skal. Eigum við að fara

eftir frönsku þingsköpunum, þýsku þingsköpunum eða þeim austurrísku eða svissnesku? Er það það sem hæstv. utanrrh. er að biðja um?
    Nei, ég skil ekki svona málflutning, hæstv. forseti, og ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur sárnað það nokkuð að enginn skuli hafa staðið upp til varnar Alþingi Íslendinga gegn þessum óréttmætu og lágkúrulegu ásökunum sem hér hafa farið fram og varða auðvitað miklu, miklu meira og margt annað en ræðutímann í þessari umræðu um Evrópska efnahagssvæðið, sem er ekkert tiltökumál þó hafi kannski orðið tvöfalt lengri en um önnur stór mál sem hér hafa verið til umræðu á síðustu árum. Er það ekki viðurkennt af öllum að þetta sé stærsta mál sem Alþingi hefur fjallað um á lýðveldistímanum? Jú, og eru menn þá eitthvað hissa á því þó það sé fyrirferðarmikið í umfjöllun Alþingis? Ég segi að það væri hneyksli ef Alþingi hefði ekki í samræmi við mikilvægi þessa máls eytt meiri tíma í það en önnur sem á dagskrá hafa verið.
    Að lokum, hæstv. forseti, verður svo ekki horft fram hjá því, og það er kannski kjarnaatriði þessa máls, að ríkisstjórnin sjálf hefur með framgöngu sinni í raun og veru kallað á þessa umræðu, kallað á þessar aðstæður í málinu því hún hefur neitað öllum óskum um samvinnu í þjóðfélaginu um þetta mál. Hún hefur gengið yfir allar óskir stjórnarandstöðunnar í sambandi við t.d. stjórnarskrárþátt þessa máls. Hún hefur daufheyrst við óskum hátt á fjórða tug þúsunda landsmanna sem skrifuðu undir áskorun um að fá að kjósa í málinu. Ríkisstjórnin hefur hunsað samþykktir heildarsamtaka launafólks í landinu í sambandi við þetta mál. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að reyna að ná einhverri lágmarkssamstöðu um meðferð málsins, þvert á móti. Og eru menn svo hissa á því að við þessar aðstæður verði harðar umræður um málið á Alþingi, vettvangi hinnar pólitísku umræðu?
    Það er eins og hæstv. utanrrh. hafi ekki áttað sig á því eða sé búinn að gleyma því að Alþingi er ekki bara færiband fyrir stjórnarfrumvörp eða tilskipanir frá Brussel, ekki enn að minnsta kosti. Alþingi er vettvangur hinnar stjórnmálalegu umræðu í landinu, hinna pólitísku skoðanaskipta og verður það þangað til málfrelsið verður tekið af mönnum. En það stendur kannski til að rjúfa þessa 1100 ára hefð, eða 1000 og hvað það er nú orðið, að menn geti verið frjálsir að því hvernig þeir haga orðum sínum á Alþingi Íslendinga? Það var stundum reynt að koma í veg fyrir það þegar mikið var uppi á söguöld eða sturlungaöld að hefta málfrelsi manna á Þingvöllum, þá gjarnan með vopnum. Það tókst ekki sem betur fer því yfirleitt voru menn til staðar sem vörðu þennan lýðræðislega rétt manna til þess að tjá sig. Þeim fer kannski fækkandi nú. Ég teldi það mjög vel við hæfi að Alþfl., sem er fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur innan sinna raða menn sem vilja ganga í Evrópubandalagið, vilji þá líka takmarka málfrelsið á Alþingi Íslendinga. Af hverju eruð þið ekki menn til þess að koma með þá tillögu úr því þið virðist ekki sofa út af áhyggjum yfir því?
    Nei, hæstv. forseti, þetta hafa auðvitað verið að mögu leyti mjög drungalegir dagar hvað varðar þessa hlið mála á Alþingi síðustu vikur og maður er náttúrlega nokkuð hugsi yfir því að sjá t.d. í gegnum fjölmiðlana framgöngu foringja í íslenskum stjórnmálum á erlendri grund eins og hæstv. utanrrh. sem reynir með aulafyndni að gera Alþingi Íslendinga hlægilegt og metur það meira að fá nokkur hlátrasköll einhverra hirðingja en að standa vörð um sóma Alþingis á erlendri grund. ( ÖS: Hverjir voru hirðingjar?) Þeir sem voru í kringum hirðinn. ( ÖS: Góða hirðinn?)
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði að þessum kafla ræðu minnar loknum að víkja aðeins efnislega að rangfærslum hæstv. utanrrh. og fara þar yfir þennan lista sem ég hef búið til og góðir menn gætu e.t.v. orðið svo vinsamlegir á næstu dögum eða klukkutímum að hjálpa mér við að fullbúa, þ.e. lengja því að lítill vafi er á því að hann er enn of stuttur hjá mér listinn því þetta var að mestu leyti eftir minni gert. En ég verð að játa að þótt ég þættist þekkja þetta nokkuð vel og hafa fylgst með umræðum og atburðum í þessu máli allvel sl. missiri, þá hnykkti mér við þegar ég sá að ég var kominn í átta, níu einstök tölusett atriði þar sem hæstv. utanrrh. fór annaðhvort með rangfærslur, sem stundum er kallað því rétta nafni lygi, eða í besta falli gerði sig beran að algjörri vanþekkingu og misskilningi á eðli málsins.
    Ég ætla að fara yfir þennan lista. Þá nefni ég í fyrsta lagi það sem öll þjóðin varð vitni að að hæstv. utanrrh. kom heim vígreifur frá enn einni sigurförinni á samningafund og sagði að búið væri að ná saman um ágætissamning um samskipti Íslendinga og Evrópubandalagsins á sviði sjávarútvegsmála. Það ætti að skiptast á gagnkvæmum veiðiheimildum. Evrópubandalagið fengi 3.000 tonna ígildi af karfa en tveir þriðju hlutar þess yrðu langhali. Í viðtölum við fjölmiðla og í viðtölum við forustumenn í sjávarútvegi eins og Magnús Gunnarsson gaf hæstv. utanrrh. þessa yfirlýsingu. Niðurstöðuna þekkja allir. Þennan atburð hef ég númer eitt á þessum lista.
    Hæstv. utanrrh. fór þarna með rangfærslur. Ég ætla að reyna að nota það kurteislega orð, það er á vissan hátt hlutlausrara en að segja að hæstv. utanrrh. hafi logið og ég vil helst forðast svo gróft orðbragð. Við skulum segja að þarna hafi verið rangfærslur á ferðinni af einhverjum toga, af einhverjum ástæðum. Langhalinn reyndist karfi og ef menn halda að þetta sé bara tilbúningur af hálfu stjórnarandstöðunnar, að annað hafi verið sagt þá skulu menn minnast þess að þessi atburður olli því að samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi drógu til baka stuðning sinn við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þegar þessar rangfærslur urðu ljósar. ( ÖS: Hvaða afstöðu hafa þeir nú?) Það á víst að heita svo að þeir styðji þetta með miklum semingi, hv. frammíkallandi, en það liggur ljóst fyrir að ýmis aðildarsamtök þar eru ekki sammála. Samtök fiskvinnslustöðva t.d. sem slík eru ekki sömu skoðunar og heildarsamtökin og ekki Sjómannafélag Reykjavíkur a.m.k. Og ekki Fiskifélagið og ekki Vélstjórafélagið og ætli það gætu ekki reynst ýmsir fleiri sem hafa önnur sjónarmið í þessu.
    Númer tvö á listanum er frammistaða hæstv. utanrrh. varðandi kostnað við þróunarsjóð sem EFTA-ríkin lofuðu að stofna handa Evrópubandalaginu. Ég þarf ekki að fara frekar út í það. Hæstv. utanrrh. varð náttúrlega svo rækilega að aðhlátursefni í því efni. Hann varð ekki bara tvísaga og ekki bara þrísaga, hann varð svo margsaga að það var með ólíkindum. Þegar Sviss felldi samninginn þá sneri hann gjörsamlega við málflutningi sínum gagnvart þessum þróunarsjóði á tveimur sólarhringum. Hann kom gjörsamlega aftan að sjálfum sér tveim dögum seinna og sagði hið gagnstæða við það sem hann hafði upphaflega haldið fram. Þetta má allt saman rifja upp en það nægir í raun og veru að vísa til þessa máls, það liggur svo ljóst fyrir að þarna er númer tvö rangfærsla hæstv. utanrrh., tilvik númer tvö af mörgum þar sem hann var ber að því að fara ekki rétt með hlutina. Reyna að fegra sinn málstað, reyna að gera sinn fugl fegurri en efni stóðu til.
    Númer þrjú á listanum lenti hjá mér sú dæmalausa uppákoma sem stór hluti þjóðarinnar hefur ugglaust horft á í beinni útsendingu kvöldið sem ljóst varð að Sviss hafði fellt samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þá kom hæstv. utanrrh. í sjónvarpið og sagði: Nú er alveg lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að afgreiða samninginn í hvínandi hvelli bara á næstu dögum helst og alla vega fyrir jól vegna þess að ef við gerum það ekki þá getum við ekki átt aðild að þeim viðræðum um framhaldið sem gert er ráð fyrir í samningnum. Þetta sagði hæstv. utanrrh. Það eru tugir þúsunda vitni að því. Hann sagði þetta í beinni útsendingu í fimmtán mínútna þætti sem fréttamaðurinn ástsæli, Ingimar Ingimarsson, útbjó handa honum kvöldið sem Sviss felldi þjóðaratkvæðið.
    En hvað gerðist svo? Um hádegið daginn eftir hafði utanrrh. dregið þetta til baka vegna þess að hann var rekinn algjörlega á gat því að það stóð í samningnum sjálfum og fylgiskjölum með honum að allir þeir sem undirritað hefðu samninginn mundu hittast um framhald málsins ef eitthvert ríki fullgilti hann ekki. Lygi númer þrjú, rangfærsla númer þrjú, sem öll þjóðin var vitni að vegna þess að það var í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins daginn eftir sem örugglega nokkrir tugir þúsunda hafa hlustað á sem sáu sjónvarpsfréttirnar kvöldið áður og horfðu upp á þessa ömulegu frammistöðu hæstv. utanrrh. --- Ömurlegu segi ég því svona skjóta menn sjálfa sig ekki í lappirnar viljandi. Það getur ekki verið. Þarna hlýtur eitthvað að hafa brugðist hjá hæstv. ráðherra.
    Fjórða atriðið á þessum lista er sú fullyrðing hæstv. utanrrh. í ræðum á Alþingi í desember, og í viðtali við fjölmiðla einnig hygg ég, í kjölfar þess að Sviss felldi samninginn, að ríkjaráðstefna yrði um framhaldið í janúar. Það er búið að lesa upp úr þingtíðindunum úr ræðum hæstv. utanrrh. þar sem hann fullyrðir, segir blákalt að þessi ríkjaráðstefna verði í janúar. Og þess vegna sé nauðsynlegt að hraða málinu svo og svo. Hvað kemur í ljós? Í ljós kemur að Evrópubandalagið hittist ekki fyrr en í byrjun febrúar og þá ræðst hvort ráðherrarnir fái umboð til að halda ríkjaráðstefnu einhvern tímann í framhaldinu og samkvæmt áætlunum Evrópubandalagsins og skjölum sem þaðan hafa komið er ráðgert að ráðstefnan verði í mars. Samt fullyrðir hæstv. utanrrh. úr þessum ræðustól á Alþingi að þessi ríkjaráðstefna verði í janúar og reynir að blekkja þingið og hafa áhrif á málsmeðferðina hér með slíkum hætti. Þetta er rangfærsla númer fjögur á listanum. Þetta er fjórða óhrekjanlega dæmið um það að hæstv. utanrrh. hefur ekki farið rétt með staðreyndir í þessu máli og slær hann þá gjarnan nánast einkarétti sínum á það að vita allt betur en aðrir menn og kunna í þessum efnum.
    Í fimmta lagi nefni ég sem dæmi um hreina rangfærslu hæstv. utanrrh. meðferð hans á tölum við upphaf 3. umr. málsins. Þegar hann fullyrti að á einu ári yrði ávinningur Íslendinga af þessum samningi 7 milljarðar kr. og það væri varlegt mat Þjóðhagsstofnunar. Nú skal ekki styðjast við minnið til að hafa allt á hreinu, heldur lesa upp úr ræðu hæstv. utanrrh., og hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Það er lengi hægt að tíunda kosti EES-samningsins. En við skulum vitna til opinberrar stofnunar eins og Þjóðhagsstofnunar. Hún hefur lagt fram varfærnislega útreikninga um það að EES-samningurinn muni færa okkur á einu ári um það bil 1,5% viðauka við okkar landsframleiðslu, þ.e. upp á um 7 þús. millj. kr.; að það gæti þýtt kaupmáttaraukningu á Íslandi á ári um 3%. Að afkoma sjávarútvegs gæti batnað um u.þ.b. 3,3% sem er nokkurn veginn það sem á vantar til þess að endar nái saman.``
    Hvað er verið að gefa þarna í skyn með því að vísa til afkomu sjávarútvegsins eins og hann er í dag annað en það að með tilkomu EES-samningsins komist sjávarútvegurinn á núllið? Ég fullyrði að ef menn lesa þennan texta þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að hæstv. utanrrh. hagar þannig orðum sínum að hann ætlast til þess að hann sé skilinn á þá leið úti í þjóðfélaginu að á fyrsta ári sem EES-samningurinn gildi fáum við 7 milljarða og sjávarútvegurinn komist á núllið. Og hvað eru margar rangfærslur í þessari meðferð hæstv. utanrrh. á staðreyndunum? Þær eru a.m.k. þrjár. Sú fyrsta er að þetta er ekki varfærið mat Þjóðhagsstofnunar. Þetta er hærri talan af tveimur sem Þjóðhagsstofnun gefur upp. Þetta er hámarkið en ekki varfærið mat því að Þjóðhagsstofnun gefur upp bil og er með lægri tölu sem nemur ekki einu sinni helmingi af þessari tölu í staðinn fyrir 7 milljarða þannig að fyrsta rangfærslan er að fullyrða að þetta sé varfærið mat Þjóðhagsstofnunar. Þetta er hámarkið sem Þjóðhagsstofnun setur. Í öðru lagi er auðvitað fullt af fyrirvörum í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem hæstv. utanrrh. nefnir ekki á nafn svo sem eins og sá fyrirvari að Íslendingar standi sig alls staðar í samkeppninni og það gangi hvergi af okkur störf eða markaðshlutdeild, t.d. í samkeppnisiðnaði, og það sem sjávarútvegurinn vinnur á þessum samningi verði allt hrein viðbót því að hvergi annars staðar tapist neitt á móti. Önnur rangfærslan í þessari setningu utanrrh. er auðvitað talan sjálf því að hún er ekki 7 milljarðar heldur nær því að vera 6, 5,5--6, og tæpir 3 ef lægri viðmiðun Þjóðhagsstofnunar er tekin þannig að þarna er ekki logið til nema um rúmlega 100%. Þriðja rangfærslan og sú langsvívirðilegasta er auðvitað sú að ekki er minnst á það einu orði að þetta er mat Þjóðhagsstofnunar á því sem gæti orðið eftir átta ár, á næstu öld. Það var ekki sagt í ræðu hæstv. utanrrh. þannig að þetta er atriði númer fimm á listanum yfir hreinar og klárar rangfærslur hjá hæstv. utanrrh. sem meira og minna öll þjóðin hefur orðið vitni að á síðustu vikum og mánuðum. Svo gersamlega óverjandi meðferð á talnalegum staðreyndum að hvaða maður sem er fengi algera falleinkunn fyrir umgengni sína á þessu sviði. Og svo var hæstv. ráðherra óbeint að gefa sjálfum sér fyrstu ágætiseinkunn, 9,6, eða 96%. Það er auðvitað þægilegt að gefa sér einkunn þegar maður er allt í senn, kennarinn, prófdómarinn og úrskurðaraðilinn. Er það þannig skólahald sem hæstv. utanrrh. dreymir um að vera allt saman, nemandinn, kennarinn, prófdómarinn í einum og sama manninum, þá er hægt að gefa sér 9,6 í einkunn? En þessi meðferð hæstv. utanrrh. á staðreyndum býður ekki

upp á annað en falleinkunn og er ég þó ekki búinn með listann.
    Í sjötta lagi sagði hæstv. utanrrh. að allir fyrirvarar, sem þáv. forsrh. Íslands hefði sett fram í Ósló, væru inni í endanlegri samningsgerð. Þetta er rangt. Þetta er sannanlega rangt, hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. sleppti að nefna þann fyrirvarann sem kom fyrst, var hvað fyrirferðarmestur í máli forsrh. í Ósló í mars 1989 og það var sá fyrirvari að Ísland gæti ekki sætt sig við neinar yfirþjóðlegar stofnanir. Sú niðurstaða er alls ekki í samningnum og það er enginn fyrirvari um það. Samningurinn sjálfur slátrar þeirri áherslu, þeim fyrirvara sem forsrh. Íslands setti í mars 1989 um það atriði vegna þess að eftirlitsstofnunin og dómstóllinn eru yfirþjóðlegar stofnanir svo óumdeilt er. Jafnvel fjórlembingar hæstv. utanrrh. viðurkenna það í skýrslu sinni að um valdaframsal sé að ræða til þessara stofnana og þar með eru þær yfirþjóðlegar.
    Í sjöunda lagi mætti t.d. nefna það sem hv. þm. Ragnar Arnalds kom með þegar hann hefur spurt talsmenn Alþfl. hér um það hvenær menn hafa verið bornir sökum um landráð þegar umræður voru um aðild Íslands að EFTA. Það er fullyrðing, hrein og klár fullyrðing sem hæstv. utanrrh. reið á vaðið með og minni spámenn hafa svo étið upp eftir honum eins og hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Karl Steinar Guðnason, en þegar þeir eru beðnir að færa þessari fullyrðingu stað þá stendur í þeim. Þá leggja þeir ekki upp í ræðustólinn þannig að nú verða hv. þm. að standa sig betur ef þessi ummæli, sem eru býsna alvarlegar ásakanir, verða ekki dæmd dauð og ómerk af því að þeir geta ekki fundið orðum sínum stað.
    Í áttunda lagi gæti ég vel nefnt það, þó að vissulega sé þá farið að koma út á það svið þar sem má deila um túlkun en ég tel það hreina rangfærslu í málflutningi hjá hæstv. utanrrh. að segja t.d. að fyrirvarinn varðandi vinnumarkaðinn sé inni. Það er rangt, það er ekki svo. Og ég ætla að taka það atriði sérstaklega fyrir hér næst, hæstv. forseti, og sýna fram á að ég tel með alveg óyggjandi rökum að það sé ósköp einfaldlega rangfærsla hjá hæstv. utanrrh. að halda því fram, og auðvitað hrein og klár rangfærsla sem allir sjá, að allir fyrirvarar Íslendinga, eins og þeir voru settir fram 1989, séu til staðar í samningsniðurstöðunni. Það er furðulegt að hæstv. utanrrh. skuli leggja út í þá ófæru að halda því fram. (Gripið fram í.) Ég er þokkalega læs, hv. þm., ég var orðinn sæmilega læs fimm ára gamall og hef lesið heilmikið síðan, hæstv. geðgóður utanrrh. Og það er best að lesa fyrir þessa ágætu órólegu deild í Alþfl. svolítið upp úr samningnum sjálfum þar sem kemur að þessum öryggisákvæðum. Ég veit að þeir hafa gott af því að heyra það því að hv. þm. hafa sennilega aldrei fengið neinar upplýsingar um það nema rangfærslurnar úr hæstv. utanrrh.
    Málflutningurinn gengur út á það að hið almenna öryggisákvæði samningsins jafngildi fyrirvara varðandi t.d. vinnumarkaðinn. Það sé jafngilt fyrir okkur Íslendinga eins og að hafa hreinlega fyrirvara á því að opna upp okkar vinnumarkað fyrir útlendinga með svipuðum hætti og við höfum haft varðandi norræna vinnumarkaðinn með vísan til þess hversu agnarsmár og viðkvæmur íslenski vinnumarkaðurinn er. Vita menn ekki að hann telur ekki nema lítillega á annað hundrað þúsund manns? Þetta eru svona 120--150 þús. manns sem eru á íslenska vinnumarkaðinum. Hvað er það þegar við erum farin að tala um íbúafjölda hátt á fjórða hundrað millj.? Það gefur auga leið að minni háttar hræringar, hæringar sem ekki merkjast þegar stórþjóðirnar væru að telja upp hjá sér, gætu sett allt úr skorðum á Íslandi. Það þarf ekki annað að gerast en það verði vinsælt á Spáni eða í Portúgal að fara í fiskvinnslu til Íslands og menn ryðjist hingað inn og bjóðist til að vinna hér fyrir miklu lægra kaup. Það þarf ekki nema bara að íbúar í tveimur til þremur blokkum í Lissabon kæmu hingað til þess að ójafnvægi gæti skapast á íslenska vinnumarkaðnum. Portúgalar hafa unnið hér í fiski og þekkja það vel. Þeir eru ágætir starfsmenn. En því miður eru laun í því landi svo lág að það væri ástæða til að óttast að þeir kynnu að telja sér fært að koma hingað og vinna fyrir miklu hærra kaup sem Íslendingum hefur þó tekist að berja hér upp og er það þó ekki mikið.
    Þá segir hæstv. utanrrh.: Af þessu þarf ekki að hafa áhyggjur. Fyrirvaranum, sem Íslendingar settu fram, er haldið til haga í öryggisákvæðunum. --- Þetta er rangt. Það er algerlega fráleitt að útleggja þetta öryggisákvæði á þann veg að það jafngildi sjálfstæðum fyrirvara um einstakt atriði samninganna. Og við skulum þá fara yfir ákvæðið sjálft, hvernig um það er búið. Það er í 112. gr. samninganna og ég verð, hæstv. forseti, þó að þessi mál hafi komið eitthvað til umræðu áður, að fara yfir þetta vegna ummæla hæstv. utanrrh. í byrjun 3. umr. Það er ekki hægt að láta það standa þannig vegna þess að þetta er eitt af viðkvæmu og stóru atriðum þessa máls. Það er enginn vafi á því að áhyggjur margra verkalýðsforingja, sem hæstv. utanrrh. hefur í krafti þinghelgi sinnar svívirt hér, beinast að því að þeir óttast um vígstöðu verkalýðshreyfingarinnar og íslenskra launþega ef þeir fá samkeppni hér inn á vinnumarkaðinn frá t.d. láglaunasvæðum og atvinnuleysissvæðum Suður-Evrópu. Öryggisráðstafanirnar skv. 112. gr. eru svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.`` Og síðan segir áfram og það þurfa hv. þm. Alþfl. að hlusta á, líka þeir sem ganga um gólf:
    ,,Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsylegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.
    Öryggisráðstafanirnar skulu gilda gagnvart öllum samningsaðilum.`` Með öðrum orðum, þær eru skilyrtar í bak og fyrir, fyrir það fyrsta. Það er ekki þannig að menn geti bara gert það sem þeim sýnist.
    Í 113. gr. er svo mælt fyrir um það hvernig sá samningsaðili, sem hyggst grípa til öryggisráðstafana, skuli hegða sér gagnvart hinum samningsaðilanum:
    ,,Samningsaðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 112. gr. skal tilkynna hinum samningsaðilunum það án tafar fyrir milligöngu sameiginlegu EES-nefndarinnar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
    Samningsaðilar skulu tafarlaust bera saman ráð sín í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.
    Hlutaðeigandi samningsaðili má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar skv. 1. mgr. nema samráði skv. 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrir fram getur hlutaðeigandi samningsaðili strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.``
    Svo kemur 114. gr. sem skilyrðir þetta enn því að hún er þannig:
    ,,Ef öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafnumfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst starfsemi Evrópska efnahagssvæðisins.``
    Þá höfum við það. Þetta öryggisákvæði er skilyrt í bak og fyrir. Það ber að standa þannig að slíkum ráðstöfunum að þær hafi sem minnst áhrif á samninginn sjálfan, stofni markmiðum hans, þar á meðal um frjálsa för launamanna um svæðið, ekki í hættu, þar á meðal takmarki að sem minnst raski rétti launamanna alls staðar á svæðinu til þess að fara í vinnu, stofna fyrirtæki og að setja sig niður hvar sem þeim sýnist. Og ef við beitum þessu ákvæði geta hinar þjóðirnar gripið til gagnráðstafana. Við kunnum að segja sem svo: Það er nú ekki svo bölvað. Ef við stoppum Portúgala sem eru að koma til vinnu við fiskvinnsluna og segjum: Nei, nú gengur þetta ekki lengur. Hér er að verða svo mikið ójafnvægi og mikið atvinnuleysi að þið þurfið að fá atvinnuleyfi. Þá geta menn sagt: Þá geta Portúgalar gert það sama og það gerir okkur ekkert til því að það eru engir Íslendingar að fara að vinna í Portúgal. Þetta kann að vera rétt svo langt sem það nær. En Portúgalar geta gert annað sem er miklu líklegra að þeir mundu gera. Og hvað er það? Þeir ósköp einfaldlega mótmæla beitingu Íslands á öryggisráðstöfuninni og gera ágreining um umfang ráðstafananna. Þeir segja: Það er 20% atvinnuleysi hér í þessu héraði í Portúgal en það er ekki

nema 4--5% á Íslandi og er þó ljótt að taka þannig til orða að segja að það sé ekki nema. En Portúgalar gætu gert það eða Suður-Ítalir eða Grikkir eða Spánverjar. Þeir segja: Það er hlægilegt að Íslendingar fari að beita öryggisráðstöfun vegna atvinnuástands sem er miklu betra hjá þeim en okkur. Þetta er óleyfileg mismunun gagnvart þeim atvinnuleysingjum sem hér ganga tugum prósenta um göturnar. Við unum ekki þessari meðferð Íslands á öryggisákvæðinu gagnvart samningnum. Hvað gerist þá, hv. fyrrv. verkalýðsleiðtogi Karl Steinar? Hvað gerist þá. ( KSG: Hvað segir verkalýðshreyfingin um þetta?) Það ætti hv. þm. að kynna sér. ( KSG: Hvað segir verkalýðshreyfingin um þetta?) ( Gripið fram í: Þjóðaratkvæði.) Hún styður þetta ekki og vill þjóðaratkvæði um þetta. Tillögur um þetta --- (Gripið fram í.) Já, ég get svarað því. Loksins kom nú í ljós að blóðið rennur í hv. . . .  (Gripið fram í.) Forseti. Við skulum fara aðeins yfir það. ( Forseti: Það er hv. 4. þm. Norðurl. e. sem hefur orðið á fundinum.) Ég hef fulla samúð, hæstv. forseti, með því að fyrrv. verkalýðsleiðtogi gerist nú órólegur. Það er mjög skiljanlegt --- ( Gripið fram í: Það er formaður Alþb. sem er órólegur.) Ég held að miklu moldroki hafi verið þyrlað upp um þetta ákvæði en við skulum fara yfir það.
    Hvað gerist nú ef einhver þjóð --- hæstv. forseti. Ég sé að hv. þm. Evrópubandalagsins er orðinn mjög órólegur og kallar hér mikið fram í. Ég legg til að það verði einhverjar ráðstafanir gerðar til þess að hægja hug hans. Ef hann má ekki við bindast og hefur ekki þrek til þess að hlusta á þetta, þá legg ég til að hann fari og hvíli sig. En þannig er að verði slíkur ágreiningur um beitingu öryggisákvæðisins þá er mælt fyrir um það með skýrum hætti í samningnum hvað gerist. Og það er kannski þar sérstaklega sem brotalömin er í málflutningi hæstv. utanrrh. sem gerir það að verkum að það er hrein rangfærsla að halda því fram að fyrirvari um vinnumarkað sé í reynd fólgin í öryggisákvæðinu vegna þess að ef eitthvert samningsríkið reisir ágreining um beitingu öryggisráðstafananna þá hefur hver samningsaðili fyrir sig rétt til þess að vísa því í gerðardóm og þar stendur í 4. mgr. 111. gr.:
    ,,Varði deilumál umfang eða gildistíma öryggisráðstafana, sem gripið er til í samræmi við 3. mgr. 111. gr.`` --- sem ég vitnaði til áðan --- ,,eða 112. gr., eða umfang jöfnunarráðstafana, sem gerðar eru í samræmi við 114. gr.,`` --- þ.e. gagnráðstafanirnar --- ,,og hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að leysa deiluna þremur mánuðum eftir þann dag er málið var lagt fyrir hana getur hver samningsaðila sem er vísað deilumálinu til gerðardóms samkvæmt málsmeðferð sem mælt er fyrir um í bókun 33.`` Og þá er það þessi gerðardómur sem ósköp einfaldlega sker úr um það hvernig þessar öryggisráðstafanir megi vera eða hvort þær megi yfir höfuð verða einhverjar. Og það stendur aftast í málsgreininni: ,,Gerðin er bindandi fyrir deiluaðila.`` Þetta þýðir ósköp einfaldlega að ef hingað koma verkamenn í nokkuð stríðum straumum frá einhverju því láglauna- eða atvinnuleysissvæði í Evrópu sem býr við miklu lakari kjör en við Íslendingar gerum þó enn, en kannski ekki mikið lengur ef ríkisstjórnin heldur fram sem horfir, og fara hingað í vinnu og það kemur í ljós að þeir sætta sig við lægri laun og lakari aðbúnað en Íslendingar hafa gert og þeir fá vinnu í stórum stíl og svo sjá Íslandsmenn að þetta er nú ekki vænlegt, þeir vakna upp við vondan draum og sjá að hér er að aukast atvinnuleysi meðal landsmanna, m.a. vegna innstreymis slíks vinnuafls á grundvelli samningsins, og þeir ákveða að grípa til öryggisákvæðisins, þá væri líklegasta aðgerðin sú að segja: Menn verða hér eftir að fá atvinnuleyfi vegna þess að íslenski vinnumarkaðurinn er í uppnámi. Og við skulum segja að þetta séu Portúgalar sem í hlut eiga. Þeir mæta á vettvangi EES-nefndarinnar og segja: Nei, við unum því ekki að Íslendingar beiti þessu öryggisákvæði sem var nú aðallega hugsað ef einhverjar stórar katastrófur verða, náttúruhamfarir eða annað slíkt. Við gerum ágreining um þessa meðferð Íslands á öryggisákvæðinu skv. 112. og 113. gr. Þá taka við þessi fundahöld, sem mælt er fyrir um í EES-nefndinni, standa í mánuð, og ef enginn árangur verður af þeim þá gengur ákvæðið samt sem áður í gildi nema því hafi verið beitt fyrirvaralaust. Hafi deilan síðan ekki verið leyst innan þriggja mánaða með samkomulagi þá á hver samningsaðili um sig rétt til að setja málið í gerðardóm. Við skulum segja að þannig væri, um þetta stæði ágreiningur í þrjá mánuði og Portúgalar eða einhverjir aðrir una því ekki

að Íslendingar ætli að loka og verja vinnumarkað sinn þrátt fyrir að hér sé miklu minna atvinnuleysi en hjá þeim og þeir segja þá: Þetta er ekkert jafnræði, þetta er ekkert réttlæti, þetta er brot á jafnræðisreglu samninganna. Þá fer málið í þennan gerðardóm. Hvernig halda menn að staða Íslands yrði í honum? Hvaða íslenskur lögmaður, hvaða málflutningsmaður treystir sér til þess að vinna slíkt mál í gerð þar sem Íslendingar, hafandi lofað því að gera ekkert sem raskaði jafnvæginu í samningnum, gera ekkert það sem mismunaði þjóðunum, væru að reyna að verja sinn vinnumarkað þar sem væri miklu minna atvinnuleysi en hjá þeim þjóðum sem væru sækjendur í málinu? Það væri ekki beysin staða. Ég held að hlutlausir dómendur í slíkum gerðardómi hefðu ekki mikla samúð með þeim íslenska málstað.
    Og að halda því fram að svona skilyrt ákvæði sem að lokum er ekki í valdi okkar sé jafngilt beinum fyrirvara, einhliða fyrirvara, það er rangt. Það er bara rangt, allir hljóta að sjá það og skilja það þegar farið er yfir málið með þessum hætti. Staða Íslands er ekki slík eins og hún hefði orðið ef við hefðum náð að verja varanlegan fyrirvara um möguleika okkar til að takmarka innstreymi á íslenska vinnumarkaðinn. Ég skal segja þér það, hv. þm. og fyrrv. verkalýðsleiðtogi, Karl Steinar Guðnason, að þeir eru margir í forustustétt verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi sem hafa af þessum málum miklar áhyggjur. Skyldi það nú ekki vera m.a. vegna þess sem ekki hefur náðst stuðningur við þennan samning, þrátt fyrir ítarlegar ( KSG: Rangt.) tilraunir, í svo til öllum heildarsamtökum í verkalýðshreyfingunni á Íslandi ( KSG: Rangt.) nema ef vera kynni í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur? Ég skal ekki alveg segja um það, ég fylgist ekki svo náið með starfseminni þar. Það væri aðeins hugsanlegt að sá klúbbur hefði samþykkt eitthvað í þessa veru. En þetta er svona.
    Ég sé að hæstv. umhvrh. hefur hlustað með mikilli athygli á þetta og væntanlega lært nokkuð af þessu. Hann eins og e.t.v. fleiri hv. þm. Alþfl. og hæstv. ráðherrar hefur sjálfsagt trúað hinum stórkallalegu fullyrðingum hæstv. utanrrh. um það að þetta væri allt í lagi. Öryggisákvæðið væri jafngilt einhliða fyrirvara sem er rugl, sem er rangt, sem er enn ein ómerkileg rangfærslan hjá hæstv. utanrrh. og e.t.v. sett fram í trausti þess að enginn hafi nennt að lesa samninginn, pappírana sem honum fylgja. Enginn hafi nennt að rekja sig í gegnum ferlið í þessu máli og komast að raun um það að að endingu hafa Íslendingar ekki tök á málum af þessu tagi þó svo þetta skilyrta öryggisákvæði sé inni í samningnum, nema menn séu svo forspáir að þeir þykist vita það fyrir að við mundum vinna alla gerðardóma sem féllu um ágreiningsmál af þessu tagi. Það væri þá eftir öðru.
    Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir ein átta atriði þar sem ég tel mig hafa sýnt fram á það ( EgJ: . . .  ekki væri níu?) þannig að það verði ekki hrakið að hæstv. utanrrh. hafi farið með hreinar rangfærslur. Talan skiptir svo sem ekki meginmáli. Það ætti að vera okkur nógu mikið áfall þó þau væru ekki nema sex eða átta. En það er örugglega hægt að hafa þau níu, hv. þm. Egill Jónsson, ég er ekki í neinum vafa um að ég gleymi einhverju. Enda hef ég ekki lagt mikla vinnu í þennan lista og fyrst og fremst tekið það sem mér var efst í huga af þeim fjölmörgu tilvikum, sem reyndar þjóðin öll hefur í mörgum tilvikum horft upp á, að hæstv. utanrrh. hefur orðið sér til skammar og farið rangt með. Þau dæmi eru það mörg að ég veit að það þýðir ekki fyrir hv. þm. að reyna að bera á móti því.
    Þá fer að síga á síðari hluta ræðu minnar, hæstv. forseti, og eru þó nokkur efnisatriði eftir sem ég þarf hér aðeins að nefna.
    Það sem næst kemur er spurningin um atvinnuástandið og atvinnuna á Íslandi. Og digurmæli hæstv. utanrrh. í þá veru að það sé alveg sérstakt ábyrgðarleysi að hafa efasemdir um ágæti samningsins í ljósi þess að atvinnuástand fari versnandi á Íslandi, það sé sérlega fráleit afstaða hvort sem heldur er hjá þingmönnum eða verkalýðsforingjum að vera ekki trúaður á ágæti samningsins af því að hér sé vaxandi atvinnuleysi --- að vísu hefur ekki mikið farið fyrir því að hæstv. utanrrh. útskýri hvernig tilkoma EES eigi að leysa allan vanda í atvinnumálum okkar, en það er skiljanlegt að hann reyni að flýja í það far því ekki er það stefna ríkisstjórnarinnar sem er að leysa þann vanda, svo mikið er víst, því að atvinnuleysið hefur vaxið nokkurn veginn línulega með líftíma þessarar ríkisstjórnar í mánuðum. Ég hygg að það sé nokkurn veginn 100% fylgni á milli aldurs ríkisstjórnarinnar í mánuðum og vaxandi atvinnuleysis. Hæstv. utanrrh. ber þetta á borð fyrir þjóðina að það sé sérstakt bjargráð í atvinnumálum að ganga inn í þetta EES. Við þetta er margt að athuga. Það fyrsta er að atvinnuleysið er miklu meira í þeim löndum sem við eigum að tengjast og ef maður ímyndar sér að atvinnustigið sé bara rétt eins og hvert annað fyrirbæri sem leiti tiltekins jafnvægis innan þess svigrúms sem það hefur eins og fé í afréttum --- og hv. þm. Egill Jónsson veit að dreifist jafnan út um það svæði sem það hefur, ef fækkar á einum bænum þá sækir féð af næsta bæ yfir á það land o.s.frv. --- gæti ekki hugsast að atvinnumarkaðurinn sé eitthvað svipaður, þ.e. að hann hafi tilhneigingu til að leita í visst jafnvægi? Þá fær maður ekki séð að það í fljótu bragði líti vel út fyrir þá þjóð sem hefur minnsta atvinnuleysið í Evrópu að beita því ráði til varnar vaxandi atvinnuleysi að opna markað sinn upp gagnvart hinum þjóðunum þar sem atvinnuleysið er miklu meira. Ég verð að segja alveg eins og er að ég kem því ekki alveg heim og saman.
    Í öðru lagi er það þannig að því miður er enginn vafi á því að einhver íslensk fyrirtæki munu verða undir í harðnandi samkeppni á þessum markaði. Þar munu einhver störf tapast á sviðum þar sem við Íslendingar höfum setið nokkurn veginn einir að starfseminni hingað til. Á þeim nýju sviðum viðskipta og þjónustu sem opnast upp fyrir óheftri samkeppni, þar á meðal við stórfyrirtækin, munum við auðvitað fara halloka í einhverjum greinum, það getur ekki öðruvísi farið. Guð láti gott á vita að það verði sem minnst en það verður eitthvað um það. Þá er þetta orðin spurningin um það hvort við getum sótt okkur annars staðar, í sjávarútveginum eða einhvers staðar annars staðar, störf sem því nemur á móti þannig að reikningarnir verði a.m.k. í jafnvægi hvað Ísland snertir. Þá er bent á sjávarútveginn og fyrst og fremst á eitt: útflutning á ferskum flökum. Hvar eru útreikningarnir um það hversu mikil viðbótarvinna færist inn á íslenska vinnumarkaðinn jafnvel þó svo við förum að flytja út nokkur þúsund tonn eða jafnvel nokkra tugi þúsunda tonna af ferskum flökum? Hafa menn ekki komið í frystihús og séð flökunarvélarnar frá Baader og roðflettingarvélarnar sem oftast eru frá sama fyrirtæki? Hvað eru margir menn sem vinna þar við hvert stykki? Í mesta lagi tveir við vélar sem afkasta jafnvel tugum tonna á sólarhring. Það er ekki í sjálfu sér sú grein í íslenskum sjávarútvegi sem er vinnuaflsfrek hlutfallslega. Staðreyndin er nefnilega sú að hin hefðbundna vinnsla í frystihúsunum, snyrting og pökkun, er miklu vinnuaflsfrekari en flökun fisksins. (Gripið fram í.) Nú segir hv. frammíkallandi meira en hann getur staðið við. Til marks um virðingu hans fyrir staðreyndum að hann fullyrðir gjörsamlega út í loftið að ræðumaður hafi aldrei komið í frystihús. Það vill svo merkilega til að fyrsta launavinnan sem ég vann var í fiskverkun, reyndar aðallega í saltfiskverkun en það skiptir ekki máli. Það var hjá fyrirtæki sem líka rak frystihús og ég hef reyndar unnið í sal. En ég læt mér nú detta í hug að það séu nokkur ár síðan hinn vel snyrti formaður fjárln. vann í frystihúsi síðast, ég leyfi mér að halda því fram. Ég veit þó ekki mikið um það enda skiptir það ekki máli. Það gerir skoðanir okkar ekki minna réttháar hvort það er lengra eða styttra síðan ég eða hann vann í frystihúsi eða var á sjó. En rök Alþfl. eru hins vegar athyglisverð í umræðunum, þau eru á þessum nótum.
    Út af fyrir sig er það ekki mitt að reyna að gerast hér einhver úrskurðaraðili um það hvernig vinnuaflsþátturinn kynni að standa eða gerast upp í þessum sjávarútvegsmálum. En ég spyr um útreikningana, hvar eru þeir? Staðreyndin er náttúrlega sú að við höfum takmarkað hráefni til að spila úr hér á Íslandi. Því miður er það alltaf takmarkaðra með hverju árinu sem líður. Sá fiskur sem á að fara í útflutning á ferskum flökum verður að koma einhvers staðar frá, það verður ekki bara til meiri fiskur sem fer í fersk flök, nei vinnslan minnkar einhvers staðar annars staðar. Ísfiskurinn er ósköp einfaldlega ekki það magn að hann einn geti lagt til öll þessi fersku flök sem menn ætla að flytja út. Er þá ekki mögulegt að að einhverju leyti dragi þá úr vinnslu á hefðbundnum saltfiski og í hefðbundnum frystihúsum á móti? Ef það er nú t.d. vinnsla í smápakkningar á Evrópumarkað, ég tala ekki um á Bandaríkjamarkað, þar sem mesta vinnuaflsnotkunin liggur á bak við hvert kíló, þá er það afturför en ekki framför í þessu tilliti hvað vinnslustigið í íslenskum sjávarútvegi snertir. Það er því ekki sjálfgefið nema síður sé að þessi þróun liggi einhliða í átt til fjölgunar starfa. Það er ekki sjálfgefið, við höfum enga tryggingu fyrir því. Það er út af fyrir sig þannig að ef við getum tekið allan ísfiskinn sem fer út í gámum og fer út með siglingum og sent hann út sem fersk flök þá gætum við bætt nokkurri vinnu við. En ég leyfi mér að efast stórlega um að þróunin verði einhliða þannig. Hitt er svo allt annað mál og alveg sjálfstætt hvort það kunni að koma þjóðhagslega betur út í formi meiri verðmæta úr íslenska sjávaraflanum að nýta okkur slíka möguleika sem geta opnast með EES. Það kann vel að vera að þegar dæmið verður gert upp á þá hliðina þá komi heldur meiri verðmæti heim af því að við séum að senda eitthvað verðmætari vöru út og það er gott. En menn eiga ekki að rugla því saman við spurninguna um atvinnuna. Oft er bent á að rekstur frystitogaranna sé mjög arðbær fyrir viðkomandi fyrirtæki. Hann gat skilað því góðri afkomu en hann dró úr atvinnunni sem var samfara úrvinnslu aflans og menn höfðu efasemdir um þjóðhagslega hagkvæmni þess að auka sjófrystingu en draga úr vinnslu í landi. Þannig ber að hyggja að mörgum þáttum málsins.
    Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki í höndum gögn eða útreikninga sem gera það að verkum að ég geti treyst mér til að fella stóra dóma í málinu. Ég hef það því miður ekki vegna þess að mér er ekki kunnugt um að þeir hafi farið fram. Hvaðan koma þá hæstv. utanrrh. vísindin til að fullyrða blákalt að þetta verði svona og svona? Að mesta bjargræðið í sambandi við atvinnuna séu EES? Hvaðan koma honum rök í því máli? Eru það kannski jafnmerkileg rök og lágu á bak við fullyrðingu hans forðum um langhalann, eða ríkjaráðstefnuna, eða þróunarsjóðinn o.s.frv.? Leyfist manni að efast þegar maður hefur fylgst með málflutningi hæstv. ráðherra um nokkurt skeið. Ég held að gylliboð hæstv. utanrrh. um atvinnu handa öllum í sambandi við þennan samning gangi nú ekki upp þegar betur er að gáð. Ef ég ætti að leggja nokkurn veginn huglægt mat á aðstæður í málinu þá segði ég að bjartsýnt viðhorf mitt væri það að við næðum að halda vel í horfinu. Við næðum að halda nokkuð vel í horfinu með atvinnu með tilkomu EES-svæðisins vegna þess að okkur takist að bæta einhverjum störfum við í sjávarútvegi sem mundi vega upp á móti þeim störfum sem við töpuðum vegna harðnandi samkeppni eða opnunar á samkeppni á öðrum sviðum, t.d. í þjónustunni. Eitt svið tel ég mig þekkja þokkalega og ég leyfi mér nú að segja, hæstv. forseti, jafnvel betur en hv. þm. Karl Steinar Guðnason, með fullri virðingu fyrir honum, og það er ferðaþjónustan því að ég glímdi dálítið við það um skeið að fylgjast með hagsmunum þeirrar greinar. Það er því miður alveg borðleggjandi að í ferðaþjónustunni munu tapast störf. Hvers vegna? Vegna þess að þau eru svo til öll í höndum Íslendinga í dag. Það eru nánast engir útlendingar í þessari grein. Þess vegna er áhættan auðvitað öll á okkar hlið. Ef einhver breyting verður þá verður hún í þá átt að útlendingar taka að sér eitthvað af þeirri þjónustu á þessu sviði sem Íslendingar hafa hingað til sinnt og það munu þeir væntanlega gera í einhverjum mæli í ferðaþjónustunni, í ferðaskrifstofunum í sambandi við leiðsögn og ýmiss konar ferðaheildsölu og ýmsa þjónustu. T.d. er nánast óumflýjanlegt að sterkar þýskar ferðaskrifstofur munu koma hér inn með starfsmenn og gæta hagsmuna sinna í vaxandi mæli. Þær vita vel að nokkrir peningar eru fólgnir í því að gera út á Íslandi yfir sumartímann.
    Eitt atriði enn sem ég held að geri það að verkum að málflutningur hæstv. utanrrh. um atvinnustigið í sambandi við EES er sérstaklega ábyrgðarlaus og það er spurningin um túlkun hins evrópska réttar gagnvart málum af þessu tagi. Það er spurningin um hluti eins og beitingu þessa öryggisákvæðis og spurningin um það hvernig dæmt yrði í þeim málum þar sem Íslendingar væru að reyna að gæta hagsmuna sinna og vernda stöðu sína í slíkum tilvikum. Þá er ég með þessa litlu bók, þetta litla handrit sem utanrrn. lét vinna um dómareifanirnar ágætu. Staðreyndin er sú að af mörgu athyglisverðu í málinu ættu hv. þm. einna síst að láta það alveg fram hjá sér fara að líta í þetta litla hefti, þeir sem ekki eru þá það vel læsir á erlendar tungur, ensku eða frönsku, að þeir geti ósköp einfaldlega lesið dómana á frummálinu. Í heftinu er sagt frá ákaflega mörgum athyglisverðum dómum hjá Evrópubandalaginu sem eru til marks um það hvernig líklegt er að rétturinn tæki á deilumálum sem upp kæmu þar sem Íslendingar eða einhverjir aðrir eftir atvikum væru

að reyna að gæta réttar síns og hagsmuna og vernda t.d. vinnumarkað sinn eða innlenda framleiðslu sína. Við skulum líta niður í nokkra þeirra, með leyfi hæstv. forseta:
    Þá er það mál nr. 167/73. Það er framkvæmdastjórnin gegn aðildarríkinu Frakklandi. Málavextir voru þeir að Frakkar létu hjá líða að fella úr gildi lagaákvæði um að 75% áhafnar á frönskum skipum skyldu vera innlendir ríkisborgarar. Þeir báru því við að ákvæðunum væri ekki beitt í framkvæmd. Þeir væru ekki í framkvæmdinni með þá reglu að 3 / 4 hlutar skipshafnar skyldu þurfa að vera Frakkar. Þess vegna skipti það ekki máli þó það stæði í lagasafninu og það gæti varla angrað Evrópubandalagið mikið þó að þessi dauði bókstafur væri í franska lagasafninu. En hvað sagði Evrópudómstóllinn? Niðurstaðan varð þessi:
    ,,Óheimilt er að halda í gildi í landsréttinum ákvæðum um mismunum á grundvelli þjóðernis. Engu skiptir þótt sönnuð séu munnleg fyrirmæli til stjórnvalds frá æðra stjórnvaldi um að beita ekki ákvæðunum. Á meðan ákvæðin eru ekki numin úr gildi þurfa borgararnir að búa við óviðunandi réttaróvissu.``
    Þá hafa menn það. Það er ekki bara nóg að framkvæma hlutina þannig að það sé ekki um mismunun að ræða gagnvart borgurunum eftir því hvaðan þeir koma af svæðinu. Nei. Menn skulu gera svo vel og breyta hjá sér hverju einasta ákvæði í lagasafninu sem gæti túlkast á þann veg að í því fælist mismunun því að annað skapar borgurunum réttaróvissu og borgararnir þurfa að búa við réttarvissu. Bendir þetta til þess að einhverrar miskunnar verði að vænta frá úrskurðaraðilum í deilumálum sem tengdust því að menn væru að að vernda eitthvað sinn innlenda vinnumarkað? Ég spyr. Ekki sýnist mér það.
    Annað afar athyglisvert mál, sem ég vænti að forsvarsmenn íslensks iðnaðar hafi kynnt sér, er mál framkvæmdastjórnarinnar gegn Írlandi um kynningarherferð á írskum vörum. Það vill nefnilega svo skemmtilega --- eigum við að segja grátbroslega til --- að það er nýafstaðin heilmikil kynningarherferð innlendra iðnaðarframleiðenda í samvinnu við verkalýðshreyfinguna um íslenskar vörur og að kaupa íslenskt. Sjónvarpið og útvarpið og blöðin hafa verið full af auglýsingum og forustumenn úr þessum geira hafa komið fram og sagt: Kaupið íslenskt, veljið íslenskt. Í hvert skipti sem þú kaupir útlenda vöru, þá missir maður atvinnuna og krakkarnir sjá litla karla detta niður, svona einhverjar trébrúður, þegar menn eru að missa atvinnuna. En hvað hefði nú gerst ef menn væru komnir inn í EES, komnir undir hinn evrópska rétt? Hver er þá staðan gagnvart því að hefja svona kynningarherferð fyrir innlendum vörum? Þá skulu menn bara lesa um mál framkvæmdastjórnarinnar í Brussel gegn Írlandi. Málavextir eru þessir, með leyfi forseta:
    ,,Írsk stjórnvöld skipulögðu þriggja ára kynningarherferð þar sem landsmenn voru hvattir til kaupa á írskum vörum. Einkafyrirtæki var fengið til að stjórna herferðinni og fékk það umtalsverðan, opinberan stuðning. Írsk stjórnvöld skipuðu menn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins, greiddu stóran hluta herferðarinnar með almannafé og skilgreindu í grófum dráttum markmið hennar. Tilgangurinn var að kynna innlendar vörur fyrir írskum neytendum og að örva vitund almennings um tengslin milli sölu innlends varnings og atvinnuleysisvandans þar í landi.`` Nákvæmlega það sama og gert hefur verið á Íslandi núna síðustu vikurnar, að reyna að efla vitund almennings um tengslin milli innlendrar framleiðslu og atvinnuvandans í landinu. Og Írar höfðu upp varnir í málinu. Þeir höfðu m.a. uppi þær varnir að það væri ekki um bindandi ráðstafanir af þeirra hálfu að ræða og það væri mikið atvinnuleysi á Írlandi. Þetta voru varnir þeirra. Þær yrðu væntanlega þær sömu ef Íslandsmenn ætluðu nú á tímum vaxandi atvinnuleysis að hefja herferð til kynningar á innlendri framleiðslu.
    Hvernig dæmdi Evrópudómstóllinn? Hver var samúð Evrópudómstólsins með þessari kynningarherferð Íra fyrir eigin vörum og eru Írar þó viðurkennt vanþróað svæði innan Evrópubandalagsins sem fær styrki þar. En leyfðist þeim að reyna að verja sig með því að kynna írskar vörur og hvetja almenning í Írlandi til að kaupa þær umfram innflutning? Nei. Niðurstaða Evrópudómstólsins var svohljóðandi:
    ,,Herferðin er ekki sambærileg auglýsingum fyrirtækja eða hóps fyrirtækja þar sem neytendur eru hvattir til að kaupa vörur hlutaðeigandi fyrirtækja. Henni er stjórnað af hinu

opinbera og er ætlað að sannfæra neytendur um ágæti innlendrar framleiðslu á kostnað erlendrar og getur hún haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkja.``
    Og svo segir: ,,Herferð af þessum toga fellur undir bannákvæði 30. gr. þótt um sé að ræða hvatningu en ekki bindandi ráðstafanir, svo sem löggjöf. Herferðin getur haft áhrif á samskipti seljenda og neytenda og brotið gegn þeim markmiðum bandalagsins sem lýst er í 2. gr. sbr. 3. gr. Rómarsamningsins.``
    Sem dagt, dómsorðið afdráttarlaust. Herferðin er brot á samkeppnisákvæðum Rómarsáttmálans. Og Írar voru dæmdir fyrir að leggja út í kynningarherferð á írskum vörum og fyrir að reyna að upplýsa írskan almenning um það að með því að kaupa írskar vörur, þá sköpuðu þeir störf á Írlandi. Það er óleyfilegt. Það er bannað samkvæmt Rómarréttinum, það er mismunun. Og ég get ekki séð annað á þessum dómi ef hann er hafður til hliðsjónar en að kynningarherferð iðnrekenda og verkalýðshreyfingarinnar á síðustu vikum yrði dæmd kolólögleg ef hún færi fram eftir að við værum komnir undir hinn evrópskra rétt. Algerlega óleyfileg mismunun. Þetta eru aðstæður málsins. Hafa menn ekki gert sér grein fyrir því eða hvað? Eru menn virkilega í þeirri trú að við getum þá bara haft þetta eins og okkur sýnist, að við getum bara tekið við kostunum en ekki göllunum, að við þurfum ekki axlað skyldurnar, við getum bara fleytt rjómann ofan af? Það er ekki reynsla Íra. Írar eru eins og ég segi eitt af vanþróuðum svæðum innan Evrópubandalagsins sem fær styrki úr fátæktarsjóðum Evrópubandalagsins. Þar er atvinnuleysið meira en í flestum hinna Evrópubandalagsríkjanna og iðnaðarframleiðsla fábreyttari og vanþróaðri. Samt var samúð Evrópudómstólsins með þeim ekki meiri en þetta að tilburðir þeirra til þess að reyna að efla vitund írsks almennings um gildi innlendrar framleiðslu voru dæmdir ólöglegir. Þetta skiptir máli þegar við spyrjum okkur að því, hvernig mun Íslendingum ganga að halda utan um sinn vinnumarkað og sína framleiðslu ef við göngumst undir þessi ströngu lög?
    Hæstv. forseti. Ég gæti farið hér yfir marga fleiri dóma sem eru mjög af sama toga, nánast allir því marki brenndir að Evrópudómstóllinn dæmir af fullkomnu miskunnarleysi ólöglega alla tilburði manna, ríkja eða fyrirtækja til þess að reyna að nýta sér aðstöðu sína bundið við eigið land. Allt slíkt sem hægt er hugsanlega að flokka undir tilraun til mismunar er dæmt ólög. Landamærin er lögð niður. Þjóðrétturinn er lagður niður gagnvart þessum atriðum. Ágætt dæmi um þetta er t.d. mál framkvæmdastjórnarinnar gegn Bretum sem heimtuðu upprunamerkingar á vörur. Smásala á ýmsum varningi var bönnuð í Bretlandi nema upprunamerkingar væru á vörunni og þá kom auðvitað fram með tilteknum hætti að varan væri útlend en ekki bresk í gegnum slíkar upprunamerkingar. Þetta var dæmt ólöglegt vegna þess að þetta var brot á 30. gr. Rómarsamningsins. Þetta gat mismunað. Það gat hugsast að aðstaða fyrirtækja í útlöndum, sem þyrftu þá að upprunamerkja vöruna og taka það fram að hún væri framleidd í Belgíu en ekki Bretlandi, væri lakari í samkeppninni og þar með var þetta dæmt ólöglegt. Þannig að Íslendingar geta ekki sett reglur um að það skuli t.d. koma fram hvort dekk séu sóluð á Íslandi eða í útlöndum. Nei, það er bannað. Slíkar upprunamerkingar eru ólöglegar ef þær geta falið í sér mismunun.
    Svo langt gengur þetta ofstæki dómstólsins og er það líklega frægasta málið þegar framkvæmdastjórnin stefndi Ítalíu vegna þess að Ítalía lagði tolla á útfluttan listvarning sem hefði menningarsögulegt gildi á Ítalíu. Ítalir sem forn menningarþjóð hafa lengi mátt búa við það að menningarverðmæti væru að streyma úr landi, keypt upp af ríkum aðilum hist og her í heiminum. Þeir hafa af þessu áhyggjur eins og fleiri slíkar þjóðir og gripu til þess ráðs að setja útflutningstoll á ítalska listmuni. Málavextir voru þeir að framkvæmdastjórnin stefndi Ítalíu fyrir EB-dómstólinn, fyrir að láta hjá líða að afnema toll á útflutningi muna með listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, sbr. 16. gr. Rómarsamningsins. Ítalir höfðu uppi þær varnir að þessar munir féllu ekki undir vöruhugtakið, þetta væri ekki vara, þetta væri list. Í annan stað töldu þeir ráðstafanirnar falla undir undantekningarreglu 36. gr. Rómarsamningsins og lítum nú á, hvernig gekk nú Ítölum að fá að halda þessum listmunum inni í landinu og leggja á tolla í því sambandi? Evrópudómstóllinn sagði í dómsorði sínu:

    ,,Með hugtakinu vörur í skilningi 9. gr. Rómarsamningsins þá er átt við hlut sem unnt er að meta til fjár og er framseljanlegur í viðskiptum.`` Punktur. Skiptir ekki máli hvað það er. Svo fremi sem unnt sé að meta hlutinn til verðs og hann geti gengið kaupum og sölum milli manna, þá skal það teljast vara í skilningi 9. gr. Rómarsamningsins. ,,Því teljast fornmunir vara samkvæmt þessari skilgreiningu.`` Þá höfum við það. Það er alveg sama hvaða menningarverðmæti væru í húfi. Ef hægt er að slá á þau einhverju verði, ef finnst einhver einhvers staðar í heiminum sem vill kaupa þau, a.m.k. innan Evrópska efnahagssvæðisins, þá er óheimilt að mismuna þeim um það, hvort sem það væru handrit eða hvað sem það nú væri. Ef svo gleðilega vildi til að fram kæmi skinnhandrit, sem einhver teldi sig eiga því að það væri búið að vera í ættinni síðan á miðöldum, og íslenska ríkið hygðist verja það að handritið lenti úr landi með því að leggja á það útflutningstoll, þá er það veskú bannað því skinnhandritið, svo fremi sem hægt sé að meta það til verðs og einhver vilji kaupa það, er vara samkvæmt 9. gr. Rómarsamningsins. Þetta segir Evrópudómstóllinn, hæstv. forseti.
    Það mætti fara í gegnum þessar dómareifanir meira og minna koll af kolli. Niðurstaðan er sú sama. Evrópudómstóllinn dæmir miskunnarlaust í þágu réttar fjórfrelsisins, í þágu samrunans, enda er honum ætlað að gera það því að Evrópudómstóllinn er nefnilega ekki venjulegur hlutlaus dómstóll sem á að túlka réttinn hlutlaust. Nei. Evrópudómstólnum ber samkvæmt lögunum að túlka samrunanum í vil, að dæma honum í vil og hann er nokkuð einstakt fyrirbrigði, hygg ég, í réttarfarssögunni hvað það snertir að hann er með fyrirmæli um réttarþróunina. Hann metur hana ekki sjálfur eins og Hæstiréttur Íslands á að gera. Það kemur fyrir að í dómsorðum í Hæstarétti er vísað til hugtaksins ,,réttarþróunar`` og sagt: Tímarnir hafa breyst og nú er það orðin viðtekin venja, nú er það orðin almenn skoðun að svona og svona skuli hlutirnir vera og þá er dæmt í samræmi við það. Það kemur því fyrir að dómstólar beyta túlkun sinni á gömlum rétti og kalla það réttarþróun. Það eru nokkur dæmi um það frá síðari árum að með dómsorði frá Hæstarétti hafi slíkur rökstuðningur aðeins komið fram, ekki mikið að vísu því að Hæstiréttur Íslands er nú svona frekar róleg stofnun. En Evrópudómstóllinn starfar ekki þannig, hann þarf þess ekki. Hann þarf ekkert að spekúlera í réttarþróuninni í Evrópu. Hann hefur fyrirmæli um það hvernig hann eigi að dæma þegar um slíkt er að ræða í þágu samrunans. Það er nú þannig. Og þetta skýrir m.a. það algera miskunnarleysi sem í raun og veru er í dóminum gagnvart t.d. aðilum eins og Írum sem þarna voru við erfiðar aðstæður að gæta sinna hagsmuna og kynna fyrir almenningi mikilvægi þess að kaupa írskar vörur frekar en innflutning. Það var ekki mikið til þess að hafa áhyggjur af að þeirra mati hjá Evrópudómstólnum.
    Síðan eru auðvitað hér á köflum alveg bráðfyndnir dómar eins og þessi ágæti dómur sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson las upp úr um hjálpartæki ástarlífsins sem Bretum var stefnt fyrir og ekki er nú minna fyndinn dómurinn um markaðsráð svínakjötsframleiðenda á Norður-Írlandi og væri ástæða til að lesa það upp fyrir mönnum. Ef menn halda að landbúnaðarmálin séu eitthvað flókin á Íslandi, þá ættu þeir nú að skoða þetta aðeins. Málavextir voru þeir að á Norður-Írlandi var sala svínakjöts undir stjórn sérstakrar nefndar sem hét á þeirri tungu Pigs Marketing Board og það var mælt þannig fyrir að svín yfir 77 kg á þyngd, þ.e. ,,flesk-svín``, skyldi ekki selja nema fyrir milligöngu þessarar nefndar, svínamarkaðsnefndar. Með sérstakri reglugerð var lagt bann við flutningi á ,,flesk-svínum``, svínum yfir 77 kg, annað en til kaupmiðstöðvar nefndarinnar. Framleiðendum var skylt að sinna þessu o.s.frv. og gátu fengið á sig sektir allt að 200 pundum ef þeir hlýddu ekki. Og niðurstaða dómsins var auðvitað alveg ljós í þessu. Svona húmbúkk og svínarí vill nú ekki Evrópudómstóllinn. Hann sagði ósköp einfaldlega: Þegar bandalagið, þ.e. Evrópubandalagið, hefur sett á laggirnar sameiginlegt stjórnkerfi í ákveðinni grein landbúnaðar, er aðildarríkjunum skylt að forðast allar ráðstafanir sem geta dregið úr áhrifum kerfisins og það á að fylgja þeirri almennu reglu og svínamarkaðsnefnd þeirra á Norður-Írlandi var dæmd ólögleg. Þannig var nú það, hæstv. forseti.
    Ég hygg að þessu litla kveri, sem reyndar kom seint fram þegar langt var liðið á þetta mál, hafi verið of lítill gaumur gefinn vegna þess að menn hafa e.t.v. ekki skoðað

það sem skyldi hvaða hlutverki dómstóllinn og rétturinn evrópski og túlkun hans hefur í þessu sambandi öllu. Það verður auðvitað úrslitaatriði þegar út í framkvæmdina er komið hvers er vænta gagnvart tilburðum einstakra ríkja til að gæta sinna hagsmuna eða verja sinn hag. Hvaða vísbendingar fáum við um framgöngu Evrópudómstólsins og þróun Evrópuréttarins frá undanförnum árum í því sambandi? Ég held að þær séu mjög á eina leið. Það er engrar miskunnar þaðan að vænta gagnvart tilburðum einstakra samningsaðila, t.d. til að halda utan um sinn vinnumarkað, vera hliðhollur sinni framleiðslu, sínum vörum o.s.frv. Ó, ekkí. Nei, aldeilis. Þvert á móti liggur hið gagnstæða fyrir að þar er engin miskunn hjá Magnúsi. Þar skulu sko allir vera jafnir hvort sem þar er mikið eða lítið atvinnuleysi, hvort sem þeir eru með jákvæðan eða neikvæðan viðskiptajöfnuð, hvort sem þeirra iðnaður blómstrar eða hann er að deyja. Því að það er nú einu sinni lögmál markaðarins og lögmál frelsisins, sem eru bara að birtast mönnum í slíku, að Írar fara halloka, að þeirra iðnaður stendur veikt og stórfyrirtækin á meginlandinu valta yfir þá. Ætli það ekki. Og Írar skulu ekki vera með neitt múður þó að markaðurinn hafi sinn gang og innflutningur flæði yfir þá og þeir missi atvinnuna því að Evrópudómstóllinn dæmir: Engar kynningarherferðir fyrir írskar vörur, takk. Engan áróður fyrir írskri framleiðslu. Svo kemur hæstv. utanrrh. hér og segir við alþýðu manna á Íslandi gegnum fjölmiðlana: Evrópusamningurinn EES er lausn á öllum ykkar vanda. Atvinnuleysið, kjósið EES.
    Hæstv. forseti. Ég hafði ætlað mér hérna í umræðum um samning um sjávarútvegsmál að fara dálítið yfir þann þátt og mér þykir mjög miður að stjórn þingsins hefur ekki fallist á þá réttmætu ósk sem ég hygg að hafi verið borin fram að umræðum um sjávarútvegssamninginn lyki áður en 3. umr. um frv. um samninginn sjálfan yrði lokið. Það hefði verið langeðlilegast að mínu mati að þau skoðanaskipti sem eftir eru í umræðum um sjávarútvegssamninginn hefðu farið fram í umræðum um þann dagskrárlið og ekki þurft að blandast inn í umræður um þetta frv. En vilji menn hafa til hliðsjónar áhrifin af þessum sjávarútvegssamningi, þegar þeir ræða þetta mál, þá verður það að gerast hér vegna þess að stjórn þingsins hefur kosið að haga því þannig. Það tel ég miður. Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að ég telji þennan sjávarútvegssamning okkur Íslendingum óhagstæðan og ég hygg að þeim fjölgi mjög þessa dagana sem eru að komast á sömu skoðun. Tilburðir hv. stjórnarliða til að verja þennan samning gerast í raun og veru broslegri með hverjum deginum sem líður. Meira að segja fjölmiðlarnir hafa í talsverðum mæli kveikt á því að þetta sé heldur aumlegur málatilbúnaður. Það finnst ekki nokkur maður sem vill skipta á loðnukvótanum og karfakvótanum og þegar gengið er jafnvel á hetjur sem hér eiga sæti á Alþingi eins og formann Farmanna- og fiskimannasambandsins og hann spurður, þó hann ætli að styðja þennan samning, hvort hann vilji skipta, þá eftir japl, jaml og fuður og stam mikið er hann ekki tilbúinn til þess. Þannig hefur þeim farið fleirum.
    Þessi samningur er auðvita býsna gildur þáttur þessa máls og þess vegna, eins og ég segi, hefði það verið eðlilegt að hann hefði verið útkljáður fyrst og umræðum um hann lokið þannig að ekki þyrfti að fara að draga inn í umræður um frumvarpið sjálft málefni þessa hliðarsamnings.
    En ég verð að segja eins og er að mér hefur komið á óvart viðbrögð ýmissa manna gagnvart þessum sjávarútvegssamningi og þessum samningi í heild, m.a. ýmissa forustumanna Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum, ef svo má að orði komast. Ég velti því fyrir mér hvort þeir hafi verið bundnir í eitthvert sérstakt haft, hýddir með einhverri hnútasvipu til þess að ýmist styðja eða þegja um þennan samning. Það er t.d. alveg kostulegt að hér skuli sitja á Alþingi, ég hygg vera formaður Sjómannafélags Reykjavíkur og hann býr við það að á 100 manna fundi í félaginu er þessum sjávarútvegssamningi úthúðað. Mér var ekki kunnugt um annað, a.m.k. þangað til það gerðist, en að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ætli að styðja samninginn. ( Gripið fram í: Guðmundur Hallvarðsson.) Guðmundur Hallvarðsson. ( Gripið fram í: Það má alls ekki rugla þeim saman.) Það má náttúrlega ekki rugla þeim saman því það liggur ljóst fyrir hvað hinn hefði gert. ( Gripið fram í: Það voru ekki nema 30 á fundinum.) Nú dregur hann heldur úr. ( Gripið fram í: Eru þetta ómerkilegir fundir hjá þér?) En hvað sem því líður þá verð ég að segja það að manni kemur dálítið á óvart miðað við þann tón sem maður heyrir meðal óbreyttra sjómanna víða og forustumanna í einstökum sjávarútvegsfyrirtækjum sem upp til hópa eru mjög gagnrýnir eða alfarið á móti þessum hlutum, að forustumenn ýmsir í sjávarútveginum hafa eftir sem áður, með semingi þó miklum, eins og allir hafa horft upp á varðandi samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi, að nafninu til lýst blessun sinni eða a.m.k. þegja um þessa samninga. En gæti það e.t.v. átt sér þá skýringu að þessir menn, sem eru þarna í forsæti, eru nánast upp til hópa forustumenn í Sjálfstfl.? Þeir eru hugsanlega settir undir nokkurn aga og hafa ekki haft þann kjark, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð og fleiri hafa haft til að bera, að rífa sig lausa. Mér hefur einhvern veginn virst að þarna gætu verið á ferðinni slíkar tangarfæðingar --- ekki ætla ég að gera lítið í sjálfu sér úr sannfæringu þessara manna, en mér hefur nokkuð þótt skorta á að þeir rökstyddu sína niðurstöðu með þeim sannfæringarkrafti sem nauðsynlegt væri til þess að réttlæta hana.
    Ég er t.d. dálítið hissa á því miðað við þá miklu andúð, sem ég þykist verða var við við sjávarsíðuna víða um landið, gegn því að opna upp íslensku landhelgina á nýjan leik og sjómenn mjög víða lýsa sig a.m.k. í einkasamtölum algjörlega á móti, þá skuli það ekki endurspeglast í raun og veru í harðari andstöðu nema svona hjá einstöku kjarkmönnum eins og þeim óbreyttum í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem þrátt fyrir formann sinn rífa sig upp og álykta gegn samningnum. Kannski eigum við eftir að heyra á næstum dögum fleiri slíkar ályktanir frá fleiri sjómannafélögum. En ég hef a.m.k. hitt á sl. ári og nú upp á síðkastið ýmsa sem ekki hafa þurft flóknari röksemdafærslu um þessi Evrópumál öllsömul en þau að berja á brjóstkassann á sér og segja: Ég er á móti því að hleypa EB-flotanum inn í landhelgina. Punktur. Það er mér nóg. Ég er á móti þessu drasli öllu af því ég vil ekki Evrópubandalagsflotann á nýjan leik inn í landhelgina.
    Þetta er fullboðleg röksemdafærsla og ekki ómerkilegri en hver önnur því þar fara menn sem vita hvað fyrir því þurfti að hafa að ná þeim árangri á sínum tíma.
    Svo koma menn vælandi eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og reyna að réttlæta þetta með því að þrír eldgamlir belgískir síðutogarar koma endrum og sinnum enn þá vegna samninga sem gerðir voru við Belga í miðju þorskastríðinu. Þar með sé nú ljóst að floti Evrópubandalagsins sé í reynd inni í landhelginni og þess vegna sé þetta allt í lagi, þess vegna séu þetta engin tímamót. Ja, þvílík endemi. Það má ýmislegt segja um þennan samning við Belga á sínum tíma og líklegt er að ef menn hefðu haft meira úthald þá hefði ekkert þurft að gera hann og við hefðum unnið Breta og Þjóðverja hvort sem var og Belgar hefðu þá farið út úr landhelginni sömu leið og hinir. ( GÁ: Þeir stóðu með okkur.) En þeir stóðu þó með okkur. Þeir viðurkenndu þó rétt okkar fyrir 200 mílunum út á það að fá þennan samning og það er enginn vafi á því að sálræn áhrif af því voru nokkur. Það eitt með öðru veikti mótstöðuafl Breta og Þjóðverja. Samningurinn er í eðli sínu þannig að hann hverfur úr sögunni og þó svo að Belgar hafi reynst drjúgir við að halda þessum kláfum við og halda þeim haffærum alveg furðanlega og snilldarlega þá eru þetta ekki orðin merkileg veiðiskip í dag. Það vill svo til að fyrir einum tveimur árum sá ég einn þeirra og hann var ekki til stórræðanna miðað við upplitið á honum enda varla von, eldgamlir litlir síðutogarar. Þeir gera okkur ekki mikinn usla, þeir síðustu munu hverfa af miðunum á þessu ári eða hinu næsta eða innan skamms, það er alveg augljóst mál. Ég meira segja held að það hafi verið áhöld um hvað mikið þeir sáust yfirleitt á síðasta ári.
    Þannig að með þessum aumlega málflutningi tekst hvorki hv. formanni þingflokks Alþfl. né öðrum að komast undan því að með þessum sjávarútvegssamningi er verið að opna íslensku landhelgina fyrir flota Evrópubandalagsins til árlegra samninga um þau samskipti og sér ekki fyrir endann á því.
    Ég held reyndar að hæstv. sjútvrh. væri nær að skammast sín fyrir þá hluti sem hann er að gera á hlut sjávarútvegsins um þessar mundir en ekki tala jafndigurbarkalega um hagsmuni hans eins og hann gerir. Ég er þá að tala um það sem gerst hefur í fisksölumálum okkar Íslendinga, en þar hefur hæstv. sjútvrh. nú tekist með langri aðför að sölusamtökunum að afnema einkaleyfi Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda á saltfiskútflutningi. Svo eru menn að tala um að þeir ætli að ná hingað heim hærra verði fyrir saltfisk vegna tollaniðurfellinga á grundvelli EES. Vel má það vera að það skili hingað heim einhverju og örugglega nokkru því svo illa tekst nú varla til að við missum það allt í hendur kaupendanna og neytendanna þó þeir hafi örugglega hug á því að ná í sinn hlut. En hvernig meta menn þá áhrifin af þeim aðgerðum sem hæstv. utanrrh. hefur beitt sér fyrir sl. ár á skilaverði á saltfiski? Ég er með þetta merka fréttarit samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegsmálum, sem þeir stjórnarliðar gera ekki lítið með að styðji samninginn. Við skulum þá vita hvað þeir segja um ráðstafanir hæstv. utanrrh. um sölumál í saltfiski. Ætli það gæti ekki farið svo að það sem hæstv. ráðherra hefur gert þar mundi gera meira en að vega upp hugsanlega ávinninga vegna tollaniðurfellinga. Það er a.m.k. enginn efi í hugum Norðmanna eða Spánverja þegar leitað er álits þeirra á því hvað muni gerast á saltfiskmörkuðunum í kjölfar þess að SÍF missi sitt einkaleyfi. Norðmenn hafa verið með blaðamenn samkvæmt þessu fréttabréfi niður á Spáni til að kynna sér málin þar og hvað er sagt þar? Það er sagt að margar greinar hafi birst að undanförnu í norskum blöðum um þetta efni og í þeim kemur fram að Spánverjar eru þeirrar skoðunar að íslenski saltfiskurinn sé sá besti. Mikill munur sé á gæðum íslenska og norska saltfisksins þeim íslenska í hag. Í þessum greinum er mikið skrifað um ,,íslensku mafíuna`` SÍF. SÍF einoki markaðinn, haldi verði uppi og stjórni því hverjir fái að selja íslenskan fisk og hverjir ekki.
    Í greinunum kemur enn fremur fram að munurinn á að versla við norska og íslenska saltfiskframleiðendur er að Íslendingar eru meira ,,professional`` og á það við um gæði, merkingar og flokkun.
    Svo er sagt frá því hvernig Norðmenn hafi farið halloka fyrir Íslendingum á Spánarmarkaði og það er auðvitað einkaleyfið héðan og skipulag okkar Íslendinga á þessum markaði sem er orsökin. Þarna fullyrða þeir sem best þekkja til í málefnum Norðmanna á þessu sviði að staða íslensku mafíunnar, eins og það er kallað innan gæsalappa, haldi verðinu uppi.
    Svo kemur neðar: ,,Í viðtölum við spánska saltfiskseljendur kemur fram að þeir búast við að framboð verði mun meira og að verð muni lækka er SÍF missir einkaleyfi sitt frá og með 1.1. 1993.``
    Ætli þessir tveir aðilar, helstu samkeppnisaðilar okkar í útflutningum, Norðmenn, og kaupendurnir, Spánverjar, séu ekki dómbærari á þetta en hæstv. utanrrh.? Norðmenn segja: Staða SÍF hefur haldið verðinu uppi. Spánverjar segja: Verðið mun lækka þegar SÍF missir einkaleyfið.
    Hvað gæti þetta þýtt í hundruðum milljóna króna sem utanrrh. með skemmdarverkum sínum er að kosta íslenska hagsmuni? Þetta er maðurinn sem kemur svo og ber á borð ýkjukenndar tölur um ávinninga okkar af því að gera EES. Hann hafði ekki svona miklar áhyggjur af íslenskum hagsmunum þegar hann var að brjóta niður það skipulag á markaðnum sem við Íslendingar höfum byggt upp og búið að og notið sannanlega í hærri verðum um áratuga skeið þannig að allir viðurkenna það. Þeir sem fást við sölumálin á Íslandi viðurkenna það, samkeppnisaðilar okkar í Noregi viðurkenna það, kaupendur okkar á Spáni viðurkenna það. Og hverjir eru þá eftir? Jú, náttúrlega hæstv. utanrrh., sem eins og venjulega veit þetta einn, betur en allir aðrir menn, er óskeikull og talar af hroka og lítilsvirðingu um önnur sjónarmið en sín eigin.
    Hæstv. forseti, ég ætla þá að ljúka máli mínu, enda flest það sagt af minni hálfu í þessu máli sem ég tel að fram þurfi að koma. Ég hef við þessa 3. umr., fyrst og fremst í seinni ræðu minni, svarað því sem fram hefur komið af hálfu hæstv. utanrrh. í hans dæmalausu ræðu í upphafinu sem gerði það að verkum að af minni hálfu var ekki nokkur kostur þess að láta hjá líða að taka aftur til máls og svara þar ýmsu. Ég hef látið hjá líða að minnast á ræðu hv. 6. þm. Reykn., Karls Steinars Guðnasonar, nema í stuttu andsvari í gær og ég held ég geti látið það duga í sjálfu sér. Ég hef ekki orku í það alveg á næstunni að fara að ræða við þennan fyrsta þingmann sem lýsir því yfir á Alþingi Íslendinga að við eigum að ganga í Evrópubandalagið. Ég gerði það hins vegar í gær að ég þakkaði hv. þm. fyrir að koma til dyranna eins og hann væri klæddur og segja sinn hug í þessum efnum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við vitum hvernig þessi mál standa orðið í Alþfl., a.m.k. hjá þessum hv. þm. Hv. þm. er þar sannarlega ekki einn á ferð, hann vísaði máli sínu til ungkrata og gerir sér örugglega vonir um að hann verði ekki lengi einn foringi þeirra eða boðberi þeirrar stefnu í Alþfl. að við eigum að ganga í Evrópubandalagið.
    Nei, ég ætla að leiða þessa ræðu hjá mér í bili, það kemur að því ef svo illa fer, hæstv. forseti, að við þurfum að taka á Alþingi upp umræðuna um aðalmálið sjálft, þ.e. inngöngu í Evrópubandalagið. Þeir eru ýmsir sem óttast að það séu fleiri sem hugsi eins og hv. 6. þm. Reykn. en bíði með að segja það. Það læðist ýmislegt út úr foringjum Alþfl. í útlöndum eins og kunnugt er. Hæstv. iðnrh. slæddist á fund í Noregi á síðasta ári og lét þar taka við sig viðtal í einhverju blaði, Aftenposten eða eitthvað. Þá komu allt í einu upp úr honum hlutir sem hann hafði aldrei þorað að segja hér heima um hug hans til Evrópubandalagsins. Þannig að e.t.v. er það svo að í Alþfl. séu fleiri sem hugsi á svipuðum nótum og hv. 6. þm. Reykn. en þora ekki að segja það eða bíði með það, e.t.v. af taktískum ástæðum að segja það, af því þeir telji það ekki skynsamlegt að ráðast á aðalvirkið sjálft í þessu áhlaupi, þ.e. andstöðuna við sjálft Evrópubandalagið. Þeir láti sér nægja að brjóta niður ytri múrana með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og þessari aukaaðild að Evrópubandalaginu sem sá samningur sannanlega er.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta frekari orð, hæstv. forseti, en ég ætla aðeins í lokin að ræða um þessa blómabrekku, framtíðarríkið sjálft, Evrópubandalagið, af því að fyrir utan margt athyglisvert í ræðu hv. þm. og reyndar fleiri þá hafa mér um margt þótt merkilegastar væntingar manna í sambandi við þetta nýja stórríki Evrópu. Þessi ótrúlega bjartsýni á að þar sé að rísa upp í raun og veru fyrirmyndarríkið sem verði lýðræðislegt, sem verði ekki miðstýrt, þar sem verði alls engin skriffinnska, eins og hv. þm. Karl Steinar sagði í gær, það væri bara lygi að það væri mikil skriffinnska í EB, það væri bara allt saman lygi. Það eru ekki nema 16.000 manns sem vinna þar, sagði hann, þetta er bara svona eins og lítill og þægilegur hreppskontór. Svo er það auðvitað þannig að menn tala um það að þetta sé alveg sérstaklega vingjarnlegur félagsskapur, samvinnuhreyfing, sagði einhver. (Gripið fram í.) Og hafi það einhvern tímann verið að Evrópubandalagið væri bandalag stórfyrirtækjanna þá er það liðin tíð. Þetta er bandalag fólksins væntanlega --- er það ekki? Er það svo? Ja, hvað segir fólkið í Evrópu? Telja Danir að þetta sé alveg sérstaklega lýðræðislegt og gæfulegt sem stefnir í í Evrópubandalaginu, með Maastricht og öllu því? Þeir telja það nú ekki, hv. þm. Ýmsu geta kratar reynt að ljúga en ekki því að Danir hafi samþykkt Maastricht, það er alveg vonlaust. Það væri þá helst að hæstv. utanrrh. hefði kjark í sér að koma hér og fullyrða það alveg blákalt að Danir hefðu samþykkt Maastricht, það væri misskilningur og lygi að þeir hefðu fellt það. Það væri eftir öðru. Nei, það reyndist svo að í Danmörku, í Frakklandi, í Sviss, í Bretlandi, í Þýskalandi og víðar, þá kom bullandi andstaða almennings við þetta batterí mönnum mjög á óvart. Ársins 1992 mun verða minnst fyrir ákveðin straumhvörf sem urðu í umræðunum um þetta mál af þessum sökum. Frakkar, Evrópusinnaðastir allra þjóða, rétt mörðu Maastricht í gegn og lagði þá goðið sjálft, Mitterrand, undir titil sinn.
    Í Þýskalandi sýndu skoðanakannanir ótrúlega útbreidda andstöðu. Í Bretlandi fara menn ekki í grafgötur um það hvað mundi gerast ef breska þjóðin fengi að segja sitt álit. Breski íhaldsflokkurinn hefur þurft að beita alls konar bolabrögðum til að ná að berja nógu marga þingmenn sína til fylgilags við Maastricht. Þetta liggur fyrir. Þannig að fólkið hefur efasemdir, hv. þm. Þvert á móti halda menn að þetta sé dálítið ólýðræðislegt, að það sé fjandans skriffinnska þarna, að embættismennirnir séu orðnir nokkuð valdagírugir og hafi mikla tilhneigingu til þess að ráða þessu sjálfir hvað sem fólkinu líður.
    Þannig verður til orðbragð af því tagi að beint lýðræði og vilji fólksins sé vandamál. Þessir Svisslendingar sem eru alltaf að kjósa, þetta er vandamál, þetta er voðalegt ,,problem`` að vera með svona þjóð með í lestinni sem er alltaf að kjósa og fær sjálf að ráða. Þetta er ekki hægt, segja þeir í Brussel, við viljum ekkert hafa með þessa Svisslendinga, þeir eru alltaf að spyrja þjóðina álits, við þurfum að geta ákveðið þetta sjálf. Þannig eru viðhorfin, því miður.

    Staðreyndin er auðvitað sú að það er ekki bara uppbygging og þróunin í Evrópubandalaginu sem menn horfa til með nokkrum áhyggjum, menn horfa náttúrlega líka á þau vandamál sem þarna er við að glíma eins og atvinnuleysið. Við skulum ekkert fara í grafgötur með það hver bakgrunnurinn fyrir þessum samruna og þessum innri markaði er. Hann er auðvitað ótti Evrópu við það að þeir væru að verða undir í samkeppni stórveldanna á markaðinum. Að Bandaríkin, með sínu nýja viðskiptasamkomulagi við Kanada og Mexíkó, sem er búið að vera í undirbúningi í mörg ár, mundu verða of sterkt afl gegn þeim, að Japan og Austur-Asía mundu keyra yfir evrópsk stórfyrirtæki ef þeir ekki sameinuðu kraftana í þessum markaði. Gömlu nýlenduríkin í Evrópu töldu ósköp einfaldlega sína daga talda sem stórveldi og sem heimsveldi ef þau legðu ekki saman kraftana.
    Eru þeir þá að hugsa um jaðarsvæðin? Eru þeir þá að hugsa um lýðræðið, eru þeir þá að hugsa um valddreifða ákvarðanatöku? Nei. Og auðvitað er það út af fyrir sig ljóst að þessi sameining kraftanna í evrópska fjármagnsheiminum og hjá evrópsku stórfyrirtækjunum hefur aukið mönnum víða trú á að Evrópublokkin muni geta staðið sig í samkeppninni. Ég er ekkert að gera lítið úr því. Menn sem fullyrtu fyrir svona fimm árum síðan að það yrði hlegið að Evrópu strax á fyrri hluta næstu aldar og þá hefðu Asíuþjóðirnar og Norður-Ameríka jafnvel keyrt fram úr. Þeir gera það kannski ekki með sama skapi.
    En það er ekki það sem snýr að okkur Íslendingum og okkar hagsmunum í þessu sambandi. Þvert á móti. Það á að vera nægjanlega upplýsandi fyrir okkur um það hverra hagsmunir ráða þarna ferðinni. Það eru auðvitað hagsmunir fjármagnsins og stórfyrirtækjanna. Það er auðvitað samkeppnisstaða Evrópu í viðskiptastríði blokkanna, sem m.a. endurspeglast í GATT-viðræðunum og þráteflinu þar, sem þarna er undirrótin, undirstraumarnir eru af þeim toga. Alveg fjandans sama hvað menn fjasa um á sunnudögum og er ætlað fyrir almenning til að hlusta á um að þetta eigi að verða umhverfisvænt og lýðræðislegt og vinsamlegt allt saman. Það er hægt að setja á slíkar plötur endalaust.
    Við Íslendingar þurfum að eiga góð samskipti við þessar þjóðir eins og við höfum átt og eins og við eigum, og er ekkert í sjálfu sér hvorki nýtt né gamalt í þeim efnum. Menn tala eins og hér sé tekist á um það hvort Ísland eigi að vera Evrópuþjóð og eiga viðskipti við Evrópu. Hvílík fjarstæða. Það hefur enginn talað um annað, það hefur engum dottið annað í hug. Ísland er auðvitað Evrópuþjóð, að vísu í útjaðrinum, ákveðin brú milli heimsálfanna. Við þurfum að rækta og gæta að þessum samskiptum, hér eftir sem hingað til, en við eigum að reyna að kappkosta að gera það sem mest á okkar eigin forsendum þannig að við getum varðveitt okkar sérstöðu og gætt hennar og notið hennar.
    Ég heyrði í útvarpinu í morgun ágætis fólk koma aðeins inn á þetta mál. Og eitt af því sem einn aðilinn þar sagði, væntanlega stuðningsaðili þessa máls að nokkru leyti a.m.k., að þetta yrði svo gott fyrir okkur Íslendinga því að við gætum sent ungt fólk til menntunar í Evrópu ef við gerðumst aðilar að þessum samningi. Hefur eitthvað staðið á því? Höfum við átt í einhverjum erfiðleikum með það? Hafa menn ekki verið að læra í Frakklandi allt frá því að Sæmundur var í Svartaskóla? Ég veit ekki annað. Það er þá fyrst núna sem ríkisstjórnin er að eyðileggja Lánasjóð ísl. námsmanna að þetta er að verða erfitt. Evrópa hefur verið opin fyrir íslenska námsmenn og það er ekkert nýtt í því. Við höfum gert samninga við Evrópulönd um gagnkvæm skipti, Háskóli Íslands er með samninga við bæði bandaríska og evrópska háskóla o.s.frv. Við þurfum ekki út í svona skógarferðir til að rökstyðja okkar mál. Þannig mál getum við leyst án þess að gerast aukaaðilar að Evrópubandalaginu.
    Við getum tekið upp flugpakkann, við getum gerst aðilar að frelsi á sviði flugmála án þess að gerast aukaaðilar að Evrópubandalaginu. Það er enginn minnsti vafi á því að okkur stendur það til boða. SAS-löndin höfðu þegar 1989 fengið vilyrði fyrir því að hvað sem yrði um EES eða EB þá gætu þau sem slík gerst sjálfstæðir þátttakendur í flugpakkanum. Þannig er það auðvitað þegar við förum yfir málin að við getum gert samninga um samskipti á einstökum sviðum, um menntun og þróun, um samgöngur og fjölmargt fleira á okkar eigin forsendum og höfum verið að gera það. Þannig að það er misskilningur að þetta mál snúist um það hvort við ætlum að eiga samskipti eða ekki samskipti við Evrópuþjóðir, fjölbreytt og vonandi hagstæð. Málið snýst um það hvaða aðferð er best, hvað hentar okkur Íslendingum. Hvernig við getum, þessi pínulitla smáþjóð, þessi agnarsmái markaður, sem býr við það undur að eiga sjálfstæða menningu og sjálfstæða tungu, samt verið fullgildir þátttakendur í þessu og borið höfuðið hátt.
    Það þýðir ekki að bera okkur saman við Lúxemborg, eins og hér var gert, sem deilir tungu og menningu og landamærum og landi við þessar þjóðir og hefur atvinnulíf sem er miklu sambærilegra þeirra og reyndar eins, sem er iðnaðarþjóð. Sem veiðir ekki fisk af skiljanlegum ástæðum. Ég veit ekki hvar menn eru staddir sem þurfa að fara út í slíkt máli sínu til framdráttar, af því að Lúxemborg hafi ekki orðið rústir af sambýli við hinar Evrópuþjóðirnar þá sé þetta allt í lagi fyrir Ísland. Svoleiðis málflutningur dugar ekki. Ef á hólminn er komið þá skulum við ræða þetta út frá íslenskum aðstæðum, íslenskum hagsmunum og íslenskum forsendum, þ.e. þeir sem það kjósa. Ef menn eru komnir inn á annað spor, ef það er orðið eitthvað annað, ef framtíðarsýn þeirra er önnur en sjálfstætt Ísland, þá er auðvitað nauðsynlegt að fá það fram og þá skulum við ræða það þannig. Ég er ekki þeirrar skoðunar, það er vonandi ljóst af mínum málflutningi hér.
    Hæstv. forseti, ég lýk þá máli mínu við þessa 3. og síðustu umræðu um þennan samning. Ég á mér ennþá trú að við getum komist hjá því að gera hann og leyst okkar samskipti við grannríki okkar og vinþjóðir í Evrópu með öðrum og farsælli hætti en ég er sannfærður um að yrði ef við neyðumst til þess að gera þennan samning.