Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 15:59:42 (4561)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég hafði engar fullyrðingar uppi, hæstv. forseti, um það að verkalýðshreyfingin hefði lagst gegn EES. Ég benti hins vegar á þá staðreynd að hún hefði krafist þjóðaratkvæðis og hún hefði heldur ekki samþykkt neinn stuðning við EES. Og á þingi Alþýðusambands Íslands, eins og hv. þm. veit, voru ekki afgreidd þau drög að ályktun sem þar lágu fyrir með jákvæðu orðalagi gagnvart EES, þeim var vísað frá fundinum.

    Hv. þm. kom svo hér upp og flutti mjög hefðbundna alþýðuflokksræðu. Við erum fulltrúar vanmetakenndarinnar og aumingjadómsins, einangrunarinnar, og við segjum aldrei neitt nýtt. Þeir heyra aldrei neitt annað en það sem þeir sjálfir vilja heyra, enduróm sinna eigin skoðana, önnur hlið er ekki til á þessu máli í hugum þeirra gegnumtrúuðu, sanntrúuðu Evrópusinna sem þarna fara. Þannig er nú það. Mér finnst það auðvitað mjög sláandi að fyrsti þingmaður Evrópuaðildarinanr á Alþingi Íslendinga, Karl Steinar Guðnason, skuli koma upp og saka aðra þingmenn um vanmetakennd, þá sem tala fyrir óskertu sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Þá sem eru á móti því að afsala sér í nokkru frumkvæði að lagasetningum. Þá sem eru ekki hrifnir af því að missa lögsögu í málum íslenskra lögaðila og fyrirtækja og einstaklinga út úr landinu að hluta til. Það eru fulltrúar vanmetakenndarinnar. En ekki hinir, sem vilja bara ganga í Evrópubandalagið. Sem eru búnir að missa trúna á það að Ísland geti í raun og veru staðið á eigin fótum, verið sjálfstætt og fullvalda ríki áður en lýðveldið nær 50 ára aldri. Nei, þeir eru ekki fulltrúar vanmetakenndarinnar, nei nei nei, það eru hinir.
    Svona er nú hægt að snúa hlutunum við og þetta er alveg í stíl við annað hjá Alþfl. Ég er alveg viss um það að almenningur í landinu mun hugsa sig vel um áður en hann kýs þennan flokk í næstu kosningum. Ég leyfi mér að búast við þeim vatnaskilum að ekki fái Alþfl. bara rækilega á kjaftinn eins og hann fékk eftir samstarf með Sjálfstfl. í lok viðreisnar, heldur verði honum líka launuð frammistaðan í þessum sjálfstæðismálum þjóðarinnar í næstu kosningum.