Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:00:40 (4735)

     Svanhildur Árnadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er öllum ljóst að þegar gengið er til samninga er tekin viss áhætta. Við getum sjaldnast verið 100% viss um hver ágóðinn í raun verður. Það leiðir tíminn einn í ljós. Mér kemur ekki til hjartans hugar að með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu séum við að ganga inn í eitthvert framíðarsæluríki né heldur á hinn bóginn í allsherjar svartnætti. Þetta er ekki svart eða hvítt í mínum huga. Við stöndum frammi fyrir þeim kosti að geta gerst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og í ljósi þeirra erfiðleika sem að okkur hafa steðjað í atvinnu- og efnahagsmálum undanfarin ár eigum við að stökkva en ekki hrökkva í þessum efnum.
    Ekki ber ég kvíðboga fyrir því að með þessum samningi komum við til með að glutra niður menningu okkar eða sjálfstæði, þvert á móti. Reynslan hefur kennt okkur að með auknum samskiptum og samvinnu við aðrar þjóðir höfum við eflt og styrkt okkar menningu og svo mun verða áfram.
    Íslenska þjóðin hefur aldrei lagt upp laupana þótt móti blási, heldur leitað leiða til að vinna sig út úr vandanum. Og það gerum við einnig nú. Leiðin inn í Evrópska efnahagssvæðið mun örva atvinnu- og efnahagslíf okkar lands.
    Hæstv. forseti. Það er mat mitt að með því að gerast aðilar að EES horfum við fram á bjartari tíð. Ég segi já.