Þilplötuverksmiðja

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:34:46 (4972)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Suðurl., spyr hvað líði áformum um að hér verði reist verksmiðja til að framleiða þilplötur úr vikri.
    Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda hefur um nokkurt skeið verið unnið að athugunum á því að setja á fót hér á landi slíka verksmiðju. Þetta hefur verið gert í samstarfi íslenskra aðila og stórs byggingarvöruframleiðanda á Skotlandi sem er aðili að stóru alþjóðlegu fyrirtæki í byggingarvöruiðnaðinum.
    Það er skemmst frá því að segja að þróun þessarar framleiðsluvöru hefur gengið vel. Hins vegar eru erfiðleikar með markað fyrir þessa framleiðslu. Því miður er það svo að markaðsástandið, sérstaklega í byggingarvöruiðnaði í Evrópu og Bandaríkjunum, er slíkt að áhuginn á þessu nýja byggingarefni, vikurplötunum, nær ekki fram að ganga einfaldlega vegna þess að ekki er byggt nægilega mikið. Nú binda menn vonir við að hagvöxtur sé að glæðast á ný í Bandaríkjunum.
    Það síðasta sem fór á milli aðila í fyrra voru því miður þær fréttir að Skotum gengi illa að fá samstarfsaðila til að fjármagna verkefnið. Þeir benda m.a. á að í Evrópu hefur framleiðendum á þilplötum úr gifsblöndum fækkað úr fjórum í þrjá á þessum tíma. Hins vegar láta þeir í ljós að þeir hafi fullan áhuga á málinu áfram og eru enn að ræða við hugsanlega þátttakendur í málinu.
    Það er enn fremur frá málinu að segja að athugunum og þróunarstarfi er enn haldið áfram. En það er ekki unnt að vera bjartsýnn á framhald málsins fyrr en hagsveiflan fer verulega upp á við í heimsbúskapnum. Hún er því miður ekki á valdi hérlendra manna hversu fúsir sem þeir annars eru að hjálpa heimsbyggðinni að klæða sín þil með Hekluvikri.