Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:25:52 (5095)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Tillögurnar tvær sem hér eru til umræðu um það hvernig undirbúa skuli hálfrar aldar afmæli lýðveldisins á næsta ári eru sannarlega orð í tíma töluð. Ég vil taka undir tillögu þingforseta um það hvernig með þær skuli farið í þinginu. Ég tel að það fari afar vel á því að forsætisnefnd þingsins og formenn þingflokkanna fjalli um þessar tvær tillögur utan þingfunda og frá þeim komi svo tillaga, væntanlega sameiginleg, leyfi ég mér að lýsa yfir að ég vona, um það hvernig best verði að því staðið að undirbúa viðeigandi hátíðahöld á þessu merkisafmæli í okkar sögu.
    Ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni einstaka þætti eða efnisatriði sem hreyft er í tillögunum tveimur, en vildi eingöngu lýsa stuðningi mínum við það að þessar tillögur verði afgreiddar hið fyrsta þannig að ríkisstjórn og Alþingi undirbúi veglega og virðulega þennan merkisatburð í sögu okkar. Það er hverju orði sannara sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni að ekki er seinna vænna að fara að undirbúa þetta stórafmæli í sögu þjóðarinnar.