Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 15:31:25 (5398)


     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hafa átt sér stað miklar umræður um heilbrigðismál, bæði hér á hinu háa Alþingi sem og úti í þjóðfélaginu. Það verður ekki svo fjallað um breytingar sem átt hafa sér stað í heilbrigðiskerfinu að ekki verði vikið almennt nokkrum orðum að efnahagsmálum.
    Þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum fyrir tæplega tveimur árum setti hún sé það sem

höfuðmarkmið að takast á við halla í ríkisfjármálum sem frekar hefur verið regla en undantekning sl. áratug og þó lengra væri litið til baka.
    Það er synd og skömm að hvort sem verið hefur í góðæri eða við lakari efnahagsskilyrði hefur stjórnvöldum ekki tekist að hemja gjöld innan þess ramma sem tekjur hafa markað. Það þarf ekki að leita langt til að sjá hverjar afleiðingar slík óstjórn efnahagsmála kann að hafa í för með sér. Raunar er það svo að flest vestræn ríki búa um þessar mundir við kreppu í efnahagsmálum borið saman við þann uppgang og hagvöxt sem átt hefur sér stað síðustu áratugi. Víðast hvar leita menn leiða til að draga úr halla í ríkisfjármálum. Stærstu tíðindin af þeim vettvangi koma þessa dagana frá Bandaríkjunum þar sem nýkjörinn forseti, sem mér skilst að sé framsóknarmaður, flutti stefnuræðu sína í síðustu viku. Þar sagði Clinton m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ef við áræðum ekki að hefjast handa við að byggja upp framtíð okkar og hætta lántökum þá erum við að hörfa á vit margra ára samdrátta og stöðnunar.``
    Þetta eru ekki ný sannindi, a.m.k. ekki fyrir okkur Íslendinga. Þannig hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar haldið á spilunum og bent á að ekki verði lengra gengið í erlendum lántökum sem ekki skila þjóðarbúinu arði. Hins vegar hafa menn leitast við að finna leiðir til að opna fyrir erlenda fjárfestingu hér í landi. Það hefur reyndar verið afar sérstætt að fylgjast með því í gegnum tíðina hversu íslenskir stjórnmálamenn hafa verið andvígir erlendum fjárfestingum þó svo andstaðan fari e.t.v. nokkuð dvínandi. Óttinn virðist hafa falist í því að eigendur fjármagnsins kynnu að hafa af því nokkurn arð sem ýmsum virðist hin mesta óhæfa. Helst hefur virst sem erlent fjármagn væri af hinu illa nema við fengjum að greiða af því vexti.
    Efnahagsaðgerðir Bills Clintons byggjast fyrst og fremst á fernu: Í fyrsta lagi niðurskurði í ríkisútgjöldum. Í öðru lagi skattahækkun á tekjum yfir 30.000 dollara. Í þriðja lagi að takast á við útgjaldavanda í heilbrigðiskerfinu. Í fjórða lagi í baráttu við atvinnuleysið.
    Þetta heitir á máli Bandaríkjamanna bylting til umbóta í efnahagsmálum. Hér á Íslandi eru aðgerðir af þessum toga hins vegar kallaðar árásir á hag landsmanna, stríðsyfirlýsingar og annað í þeim dúr sem frekar minnir á atburði á ófriðarsvæðum, svo sem í fyrrum Júgóslavíu.
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur gætt mikillar sjálfvirkni í útgjöldum til heilbrigðismála. Þannig hafa útgjöldin stöðugt vaxið umfram verðbólgu hvað þá heldur tekjur ríkissjóðs. Við slíkt verður ekki unað enda ekkert lögmál að þjónusta heilbrigðiskerfisins batni með auknum útgjöldum einum saman. Þannig er talið að bandaríska heilbrigðiskerfið sé það fjárfrekasta í veröldinni á sama tíma og þjónustan er í molum. Á undanförnum árum hafa heilbrigðisyfirvöld séð hvert stefndi og haft uppi nokkrar tilraunir til að ná tökum á útgjaldaaukanum. Þær tilraunir hafa meira og minna runnið út í sandinn vegna þess að vilja hefur skort til að taka á fjármálum ríkisins í heild og öðrum og óskynsamlegri ráðum beitt sem hafa haft það í för með sér að hið opinbera er að greiða 10,5 milljarða í vexti af lánum á þessu ári. Sú upphæð er nálægt því að vera 65% af þeim fjármunum sem ríkið ver til rekstrar sjúkrastofnana á þessu ári. 10.500 millj. er u.þ.b. fjórðungur þess fjár sem varið er til heilbrigðis- og tryggingamála á þessu ári.
    Það er fróðlegt að huga að heildarútgjöldum til heilbrigðis- og tryggingamála undanfarin fjögur ár. Árið 1990 var 40,55% af heildarútgjöldum ríkisins varið til heilbrigðis- og tryggingamála. Árið 1991 og 1992 var hlutfallstalan 40,7% og 40,13%. Svo ber hins vegar við að á þessu ári er 41,57% af heildarútgjöldum ríkisins varið til þessa málaflokks. Þetta er árásin sem gerð er á hag sjúkra, öryrkja og aldraðra í þjóðfélaginu. Þannig verjum við tæplega 176 þús. kr. á þessu ári á hvern einstaklinga í landinu til heilbrigðis- og tryggingamála.
    Á síðasta ári náðist mikilvægur árangur við að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Verulegur sparnaður náðist fram í rekstri sjúkrastofnana með sameiningu og ýmiss konar hagræðingu. Það gekk þvert á marga og mikla spádóma að þjónustan minnkaði ekki heldur varð um fjölgun á aðgerðum að ræða og skilvirkni varð meiri. Starfsfólk og stjórnendur sjúkrastofnana eiga heiður skilinn fyrir vaska framgöngu í þeim efnum.
    Það sem mestur styrr hefur staðið um á síðustu vikum og mánuðum er hækkun á lyfjakostnaði einstaklinga. Því er ekki á móti mælt að hækkanir hafi átt sér stað. Þess hefur þó ávallt verið reynt að gæta að þeim sé hlíft sem mest þurfa á lyfjum að halda. Það fer hins vegar ekki hjá því að þegar viðamiklar breytingar eru gerðar í viðkvæmum málaflokki sem þessum skjóta upp kollinum dæmi sem menn sáu ekki fyrir þrátt fyrir mikinn vilja. Hæstv. heilbrrh. hefur ítrekað lýst því yfir að hann muni gera breytingar í slíkum tilvikum sem upp kunna að koma.
    Aðgerðir hæstv. heilbrrh. í lyfjamálum hafa langt í frá miðað eingöngu að því að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Náðst hefur árangur í notkun ódýrari lyfja sem skila sama árangri og auk þess hefur álagning lækkað. Því miður heyrðist lítið um stuðning almennings í landinu og stjórnarandstöðu við baráttu heilbrrh. fyrir lækkun álagningar á lyf sem varð að dómsmáli eins og kunnugt er þegar lyfjaheildsalar stefndu ráðherra fyrir dóm. Það mál vannst og við það sparast á þriðja hundrað milljónir í útgjöldum. Auk þess er væntanlegt eins og fram hefur komið á næstu dögum frv. um lyfjadreifingu sem fjallar um að einokun verði aflétt og frjálsræði verði aukið í lyfjadreifingu. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því að verði frv. að lögum muni hagur samfélagsins og neytenda batna til muna hvað varðar lyfjakostnað. Það er hins vegar nokkuð ljóst að frv. mun eiga sér harða og sterka andstæðinga og fyrst og fremst

þá sem fá notið einokunarinnar í dag.
    Virðulegi forseti. Ef ekki hefði verið brugðist við vandanum varðandi útgjöld til lyfjamála hefði kostnaðurinn á síðasta ári numið um 3,3 milljörðum kr. í stað 2,6 milljarða eins og raunin varð. Miðað við þá sjálfvirkni útgjalda sem verið hefur undanfarin ár í þessum málaflokki má ætla að kostnaður ríkisins hefði numið 3,7 milljörðum á þessu ári hefði ekkert verið aðhafst. Slíkan sjálfvirkan vöxt útgjalda á sama tíma og tekjur minnka getur hið opinbera ekki leyft sér fremur en heimilin í landinu geta leyft sér að auka útgjöld á samdráttartímum.
    Nokkuð hefur borið á því í umræðum að gagnrýnt hefur verið að ekki sé tekið á þeim starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu sem sagðir eru skammta sér laun að eigin vild. E.t.v. er nokkuð ofsagt í þeim efnum. Ég gat um það fyrr í ræðu minni að náðst hefði fram nokkur lækkun álagningar á lyf og frv. til að brjóta upp einokunarkerfið í lyfjadreifingu. Þá fékkst heimild í lögum um áramótin til að koma á svonefndu tilvísanakerfi sem vonandi mun leiða til sparnaðar við sérfræðilækningar.
    Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á því í nýlegri skýrslu að þörf sé að koma á stimpilklukkukerfi við sjúkrastofnanir þar sem gróf könnun bendir til að margir sérfræðingar vinni óeðlilega mikil störf utan spítalanna. Átak var hafið á Ríkisspítölum í því efni en nokkuð skortir á að tekist hafi að framfylgja skráningu. Það er verkefni stjórnenda og stjórnar spítalanna að koma þeim málum í viðunandi horf.
    Virðulegi forseti. Tími minn leyfir ekki mjög langt mál við þessa umræðu. Þannig gafst ekki tóm til að víkja að kostnaði við læknisþjónustu og fleira. Af nógu er að taka enda vega heilbrigðis- og tryggingamál langþyngst í útgjöldum ríkisins og eru jafnframt sérlega viðkvæmur málaflokkur. Þess vegna er eðlilegt og nauðsynlegt að þau málefni séu í stöðugri endurskoðun og athugun. Við versnandi hag þjóðarbúsins er því enn meiri nauðsyn en ella að huga vel að. Þess ber þó ávallt að gæta að byrðum sé jafnað á sem réttlátastan hátt. Það eru þau sjónarmið sem hæstv. heilbrrh. á að hafa og hefur haft að leiðarljósi við vanþakklát skylduverk sín.