Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:52:26 (5422)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. 6. þm. Norðurl. e. um þetta mál vil ég taka fram að það hefur verið kannað af embættismönnum viðskrn. og utanrrn. hvort sú tilvísun til samninganna um Evrópskt efnahagssvæði sem er að finna í XI. kafla samkeppnislaganna standist þær aðstæður sem nú eru uppi. Þeirra ótvíræða svar er að svo sé. Þótt breytingar verði á aðild að samningnum af hálfu Svisslendinga, þá hafi það engin áhrif á gildi þessarar tilvísunar. Hún geti staðið nákvæmlega svo sem hún er og tilvísunin til stofnananna sé ótvíræð ef samningurinn verður staðfestur. Verði hann það ekki er yfir allan vafa hafið að þessi kafli laganna öðlast ekki gildi. Áhyggjur stjórnarandstöðunnar af þessu máli eru því fullkomlega óþarfar.
    Ég vil að endingu, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að þakka hv. efh.- og viðskn. enn á ný fyrir starf hennar að þessari merku löggjöf sem nú er fengin, nýrri samkeppnislöggjöf sem sannarlega treystir íslenskt efnahags- og viðskiptalíf.