Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 10:40:07 (5522)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrstu heildarlögin um Seðlabanka Íslands voru sett árið 1961. Með þeim lögum varð bankinn að sjálfstæðri stofnun en áður hafði hann um langt árabil verið önnur af megindeildum Landsbanka Íslands. Hugmyndir um sjálfstæðan Seðlabanka höfðu þó verið lengi til umræðu eða allar götur frá árinu 1934 að Erik Lundberg, kunnur sænskur hagfræðingur, gerði um það tillögur við skipulagsnefnd atvinnumála sem þá starfaði á vegum ríkisstjórnarinnar.
    Lögin um Seðlabankann frá árinu 1961 voru svo endurskoðð um miðjan níunda áratuginn og ný lög tóku gildi í maí 1986. Með þeim lögum var starfsemi bankans takmörkuð í meira mæli en áður hafði verið við það sem kalla mætti hefðbundin verkefni seðlabanka. Þannig var t.d. lögfest sú meginregla að bankinn skyldi einungis eiga viðskipti við innlánsstofnanir og ríkissjóð og honum var bannað að skipta við almenning og keppa við innlánsstofnanir um viðskipti. Með lögunum voru tengslin milli bindiskyldu innlánsstofnana og endurkaupa Seðlabankans á afurðalánum af innlánsstofnunum endanlega rofin og bindiskyldan gerð að raunverulegu stjórntæki bankans í peningamálum. Jafnframt var bankanum í fyrsta skipti heimilað að setja innlánsstofnunum reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem þeim beri ætíð að ráða yfir. Þá var almenn heimild Seðlabankans til að ákveða innláns- og útlánsvexti innlánsstofnana felld niður. Þó var bankanum heimilað við tilteknar aðstæður að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana. Með lögunum var fellt niður það hlutverk Seðlabankans að veita umsagnir um umsóknir innlánsstofnana til að opna útibú og stunda gjaldeyrisviðskipti, enda gert ráð fyrir því að ákvarðanir þar að lútandi færðust alfarið til stofnananna sjálfra á grundvelli nýrra laga um þær og starfsemi þeirra. Þá var lögfest að ríkissjóður endurgreiddi skammtímaskuld sína við bankann eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok hvers fjárlagaárs. Loks má nefna að ákvæði um eftirlit bankans með innlánsstofnunum voru gerð mun ítarlegri en í fyrri lögum.
    Seðlabankalögunum frá 1986 hefur tvívegis verið breytt. Árið 1989 var m.a. orðalagi ákvæðisins um vaxtaíhlutun bankans breytt þannig að bankinn ætti einnig að líta til þess að raunvextir væru hóflegir en ekki aðeins að þeir skyldu eigi vera hærri en þeir væru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum. Einnig var bankanum heimilað að hlutast til um ávöxtunarkröfu á verðbréfamarkaði og hjá eignarleigufyrirtækjum. Í fyrra, eins og þingmenn muna, var lögunum svo breytt til samræmis við ákvörðun Alþingis í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þannig að erlendum hlutafélagsbönkum var heimilað að opna útibú hér á landi frá og með 1. jan. 1992. Jafnframt var gerð mikilvæg breyting á þeim ákvæðum sem fjalla um gengisskráningu þannig að unnt sé að láta gengi krónunnar ráðast á markaði.
    Virðulegi forseti. Á þeim tæpu sjö árum sem liðin eru frá því að seðlabankalögin gengu í gildi árið 1986 hafa orðið róttækar breytingar bæði á innlendum og alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Viðskiptabönkum og sparisjóðum hefur fækkað. Eignarleigufyrirtæki og verðbréfamarkaður hafa fest sig í sessi hér á landi. Viðskipti með hlutabréf hafa margfaldast og Verðbréfaþing Íslands er að slíta barnsskónum. Hér á landi hefur myndast allöflugur markaður fyrir langtímaverðbréf þar sem spariskírteini ríkissjóðs og húsbréf eru fyrirferðarmest. Á allra síðustu missirum hefur markvisst verið byggður upp markaður fyrir skammtímaverðbréf, einkum ríkisvíxla. Þá hafa útboð ríkisverðbréfa leyst af hólmi beina sölu þeirra. Í gær voru svo samþykkt á Alþingi ítarleg lög um Verðbréfaþing Íslands, verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem setja þessari starfsemi allri nútímalega umgjörð.
    Samhliða þessari öru þróun á innlendum fjármagnsmarkaði hefur markvisst verið dregið úr gjaldeyrishöftum, sérstaklega frá og með árinu 1990. Með nýjum gjaldeyrislögum sem Alþingi samþykkti í nóvember sl. og nýrri gjaldeyrisreglugerð sem tók gildi um sl. áramót er leiðin að afnámi síðustu gjaldeyrishaftanna vörðuð. Það mun gerast í nokkrum áföngum á næstu missirum.
    Á undanförnum árum hafa fjármagnsmarkaðir um öll lönd tengst stöðugt nánari böndum. Þetta gildir ekki eingöngu í Evrópu þar sem þróunin hefur reyndar verið hvað örust, heldur einnig í Ameríku og Austurlöndum. Þá stefna öll ríki í Austur-Evrópu og fyrrum Sovétlýðveldi, a.m.k. í orði kveðnu, að fullri þátttöku í hinu alþjóðlega efnahags- og fjármagnskerfi Vesturlanda og Kyrrahafsríkja.
    Samruni fjármagnsmarkaðanna skapar algerlega nýjar aðstæður fyrir hagstjórn. Hún verður vandasamari en áður. Ný sjónarmið koma til skjalanna. Stjórntæki, sem áður dugðu vel, missa gildi sitt þegar einstaklingar og fyrirtæki geta án takmarkana leitað eftir fyrirgreiðslu í öðrum ríkjum. Þessar aðstæður gera einnig auknar kröfur til eftirlits með rekstri og starfsemi fjármálastofnana. Slíkt eftirlit er vaxandi þáttur í starfsemi seðlabanka með öðrum þjóðum.
    Aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum kallar á endurskoðun á þeim aðferðum sem seðlabankar beita til að hrinda stefnu sinni í peningamálum í framkvæmd. Þessar breyttu aðstæður krefjast aukins sjálfstæðis Seðlabankans og virkrar faglegrar stjórnunar hans til þess að bankinn geti brugðist skjótt við síbreytilegum aðstæðum í peninga-, gengis- og gjaldeyrismálum. Sérstaklega er mikilvægt við þessi nýju skilyrði að bankanum sé tryggt sjálfstæði í framkvæmd peningamála.
    Að því hefur verið stefnt hér á landi um nokkurt skeið að gengi krónunnar ráðist í auknum mæli af framboði og eftirspurn á markaði. Það er sama fyrirkomulag og þekkist í öllum nágrannaríkjum okkar. Fyrsta skrefið í þessa átt var stigið í ársbyrjun 1992 þegar gjaldmiðlavogin, sem gengi krónunnar er miðað við, var einfölduð úr sautján gjaldmiðlum í einungis þrjá, Bandaríkjadollara, japanskt jen og evrópsku mynteininguna ECU. Vegna umróts og óvissu á gjaldeyrismörkuðunum að undanförnu hefur ekki þótt ráðlegt að hafast frekar að að sinni hvað varðar breytingar á gengisviðmiðum krónunnar. Hins vegar hefur undirbúningi að stofnun gjaldeyrismarkaðar hér innan lands miðað vel áfram. Þessi markaður yrði í upphafi fyrst og fremst millibankamarkaður. En allar þessar breytingar krefjast þess að stjórntækjum Seðlabankans verði breytt þannig að hann geti með kaupum og sölum á gjaldeyri, kaupum og sölum á verðbréfum, vaxtabreytingum og öðrum aðgerðum í peningamálum haldið gengi krónunnar innan þeirra marka sem ákveðin kunna að vera.
    Af öllu því sem ég hef nú rakið má vera ljóst að miklar breytingar hafa orðið, bæði innan lands og utan á fjármagnsmörkuðum frá því að lögin um Seðlabankann gengu í gildi árið 1986. Á síðustu árum hafa jafnframt komið í ljós ýmis atriði sem betur mættu fara í seðlabankalögunum. Nægir þar að nefna ákvæðin um stjórntæki bankans í peningamálum, ákvæði um vaxtaíhlutun, samskipti bankans og ríkisstjórnar, aðgang ríkissjóðs að lánsfé í bankanum, takmarkandi ákvæði um fyrirkomulag á skráningu á gengi krónunnar, skort á heimildum til þess að hafa eftirlit með nýjum tegundum stofnana á fjármagnsmarkaði og skort á heimildum til þess að setja innlánsstofnunum reglur um jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda. Úr sumu af þessu hefur verið bætt smám saman en þörfin fyrir heildarendurskoðun seðlabankalaganna hefur stöðugt orðið skýrari.
    Hæstv. forseti. Í ljósi þeirrar þróunar sem ég hef nú stuttlega lýst var skipuð nefnd í febrúar 1991 undir forustu Ágústs Einarssonar prófessors til þess að endurskoða lögin um Seðlabanka Íslands og til þess að gera tillögur um breytingar á þeim í samræmi við niðurstöður slíkrar endurskoðunar. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar allra þingflokka að tilnefningu þeirra en nefndarmennirnir voru Ágúst Einarsson, tilnefndur af Alþfl., formaður, hv. þm. Geir H. Haarde og Ólafur B. Thors forstjóri, tilnefndir af Sjálfstfl., Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, tilnefndur af Framsfl., hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir, tilnefnd af Kvennalista, Már Guðmundsson hagfræðingur, tilnefndur af Alþb. og Guðmundur Ágústsson lögmaður, tilnefndur af Borgaraflokki, en hann hætti störfum í nefndinni eftir þingkosningarnar vorið 1991.
    Nefndin lauk störfum í apríl 1992 og lagði þá fram tillögur að frv. til nýrra heildarlaga um Seðlabankann. Skömmu síðar var þetta frv., óbreytt frá tillögum nefndarinnar, lagt fram til kynningar á Alþingi. Að loknu þinghaldi vorið 1992 var frv. sent fjölmörgum aðilum til umsagnar. Við endurskoðun á frv. hefur verið tekið tillit til margvíslegra ábendinga umsagnaraðila en í öllum veigamestu atriðunum, öllum stefnuatriðunum, er frv. sem nú er til umræðu byggt á tillögum nefndarinnar frá því í apríl 1991 sem góð samstaða náðist um.
    Þetta frv. til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands felur í sér ýmsar grundvallarbreytingar frá gildandi löggjöf og mun breyta miklu um starfsemi bankans. Tilgangurinn er að mynda fjárhagslega traustan og sjálfstæðan banka sem hafi skýr og afmörkuð markmið og ráði yfir stjórntækjum sem dugi til þess að ná þeim markmiðum.
    Í grófum dráttum má segja að hlutverk seðlabanka sé fjórþætt.
    Í fyrsta lagi að gefa út seðla og mynt. Seðlabankar hafa yfirleitt einkarétt á þessu sviði.
    Í öðru lagi að varðveita gjaldeyrisforða landsins.
    Í þriðja lagi að vera banki ríkissjóðs.
    Í fjórða lagi að vera banki innlánsstofnana og veita þeim lán ef fjárhagslegt öryggi þeirra er í hættu.
    Vegna viðskipta sinna við innlánsstofnanir og útgáfu seðla og myntar hefur seðlabönkunum jafnframt verið falið í mörgum löndum að hafa eftirlit með starfsemi fjármálastofnana og eftirlit með greiðslumiðlun, bæði í landinu og við önnur lönd.
    Þau stjórntæki, sem seðlabankar hafa yfir að ráða, eru því einkum á sviði peningastjórnar, gengis- og gjaldeyrismála. Algengustu stjórntæki seðlabanka á sviði peningamála eru bindiskylda, markaðsaðgerðir og ákvörðun vaxta í viðskiptum seðlabankans sjálfs. Með markaðsaðgerðum er að sjálfsögðu átt við kaup og sölu verðbréfa á markaði. Á síðari árum hefur mikilvægi slíkra aðgerða hér á landi farið vaxandi. Með þeim getur seðlabanki haft áhrif á lausafé innlánsstofnana og þar með bein og óbein áhrif á vexti. Meginstjórntæki seðlabanka á sviði gengis- og gjaldeyrismála eru ýmist bein ákvörðun um gengi gjaldmiðilsins eða kaup og sala á erlendum gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði til þess að hafa þannig áhrif á gengið.
    Á undanförnum árum hefur vaxandi áhersla verið lögð á gildi þess að tryggja stöðugt verðlag. Þetta á einkum rætur að rekja til reynslunnar af mikilli verðbólgu víða um heim á áttunda áratugnum. Talið er nauðsynlegt að tryggja aga við stjórn peningamála þannig að stjórn þeirra ráðist ekki af skammtímasjónarmiðum. Hér liggur að baki það sjónarmið að ríkisstjórnir á hverjum tíma kunni að freistast til þess að slaka á taumhaldi peningamála í því skyni að ná öðrum efnahagslegum markmiðum en stöðugu verðlagi með ýmis stjórnmálaleg sjónarmið í huga. Af þessum sökum kann að vera heppilegt að auka sjálfstæði seðlabankans og einfalda markmið hans og fela honum fyrst og fremst það markmið að stuðla að stöðugu verðlagi. Í þessu felst að sjálfsögðu að bankinn móti stefnu í peningamálum og beiti stjórntækjum sínum á því sviði án beinna afskipta ríkisstjórnar. Með þessu móti er komið á þeirri verkaskiptingu milli ríkisstjórnar og seðlabanka að bankinn einbeiti sér að stjórn peningamála í því skyni að stuðla að stöðugu verðlagi. Eðli seðlabankastarfseminnar gerir það að verkum að eðlilegast er að fela honum þetta verkefni. Þau stjórntæki, sem hann hefur yfir að ráða, hafa áhrif á vextina, vaxtabreytingarnar hafa aftur áhrif bæði á gengi viðkomandi gjaldmiðils þegar engar hömlur eru á fjármagnshreyfingum milli landa og á eftirspurn innan lands ef um einhverjar slíkar hömlur er að ræða. Breytingar á gengi gjaldmiðils og innlendri eftirspurn hafa síðan áhrif á verðlagsþróun innan lands. Öðrum efnahagslegum markmiðum sem eru mikilvæg, svo sem jöfnuði í viðskiptum við önnur lönd, háu atvinnustigi, góðum rekstrarskilyrðum atvinnuvega, er alls ekki fórnað á kostnað verðlagsmarkmiðs sjálfstæðs seðlabanka heldur verða þau fyrst og fremst á verksviði ríkisstjórnar sem starfar í umboði lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Til að ná þessum efnahagslegu markmiðum getur ríkisstjórnin að sjálfsögðu beitt stefnu í gengismálum, ríkisfjármálum og launamálum að því leyti sem þau koma til kasta stjórnvalda. Það er álit flestra að með þessum hætti verði verkaskiptingin milli seðlabanka og ríkisstjórnar skýrari og eðlilegri.
    Aukið sjálfstæði seðlabankans þýðir hins vegar ekki að seðlabankinn beri ekki ábyrgð á gerðum sínum gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Með auknu sjálfstæði bankans er eðlilegt að honum verði á herðar lagðar auknar skyldur til að upplýsa almenning og kjörna fulltrúa um stefnu sína og aðgerðir. Einnig er nauðsynlegt að fulltrúar kjörnir til eftirlits með starfsemi bankans fái aukið vald og hlutverk. Þessar breytingar hljóta að vera nauðsynlegt og eðlilegt mótvægi við sjálfstæði bankans.
    Einn veigamesti gallinn á lögunum um Seðlabanka Íslands er sá að í þeim eru honum sett nokkur markmið sem oft og tíðum eru illsamrýmanleg. Þetta veldur því að Seðlabankinn þarf að velja á milli þeirra. Slíkt val er í eðli sínu stjórnmálalegt og á því með réttu að fara fram á vettvangi kjörinna fulltrúa almennings.
    Til þess að skýra þetta ætla ég að rekja þau markmið sem seðlabankanum eru sett í gildandi lögum en þau eru þessi:
    1. Að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Hér er því í rauninni um a.m.k. tvíþætt markmið að ræða.
    2. Að varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóð sem nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við.
    3. Að vinna að því að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar nái tilgangi sínum.
    Þessi markmið geta hæglega stangast á og nokkur þeirra eru í raun utan áhrifasviðs stjórntækja Seðlabankans en stjórntæki bankans eru á sviði peninga- og gengismála. Með þeim er ekki unnt að tryggja að framleiðslugeta atvinnuveganna sé nýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Þar verða að koma til önnur stjórntæki í efnahagsmálum auk aðgerða atvinnufyrirtækjanna sjálfra. Svipuðu máli gegnir um markmiðið að tryggja rekstrargrundvöll útflutnings- og samkeppnisgreina sem var í seðlabankalögunum þar til í fyrra að Alþingi felldi það brott. Einnig má benda á að Seðlabankinn getur ekki einn tryggt jöfnuð í viðskiptum við önnur lönd heldur skiptir þar ekki minna máli stefnan í ríkisfjármálum og launamálum.
    Reynslan bæði hér á landi og erlendis sýnir svo ekki verði um villst að það þjónar engum tilgangi að fela Seðlabanka fleiri verkefni en hann hefur stjórntæki til að ráða við. Af eðlilegum ástæðum eru verkefni seðlabanka á sviði peningamála og hallast margir fræðimenn og stjórnvöld erlendis að því að binda verkefni þeirra við það svið og efla þess vegna stjórntæki þeirra og sjálfstæði til þess að ná settum markmiðum á þeim vettvangi. Jafnframt hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að stöðugleiki í verðlags- og gengismálum sé mikilvægt skilyrði hagvaxtar og hagsældar. Æ fleiri halda fram þeirri skoðun að það sé aðeins tímabundinn ávinningur af því að auka nýtingu á framleiðslugetu atvinnuveganna með örvandi aðgerðum

á sviði peninga- og gengismála. Þegar til lengri tíma sé litið hafi aðgerðir af þessu tagi takmörkuð áhrif á hagvöxt og hagsæld en geti hins vegar leitt til aukinnar verðbólgu.
    Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, er í þessu frv. lagt til að markmið Seðlabankans verði einfölduð verulega og honum verði falið það eitt meginmarkmið að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins og stuðla að stöðugu verðlagi. Jafnframt er lagt til að sjálfstæði bankans til að móta og hrinda í framkvæmd stefnu í peningamálum verði aukið verulega frá því sem nú er. Í þessu felst m.a. að beiting á stjórntækjum bankans er ekki háð samþykki ríkisstjórnar. Jafnframt er lagt til að brott falli núgildandi ákvæði þess efnis að bankastjórn Seðlabankans skuli telja það eitt sitt meginhlutverk að vinna að því að sú stefna sem ríkisstjórnin markar nái tilgangi sínum. Áfram verður hins vegar gert ráð fyrir því að fram fari náið samráð milli þessara aðila enda er slíkt samráð til þess fallið að tryggja samræmda efnahagsstjórn í landinu. Með þessari tillögu er verið að gera bankann sjálfstæðari. Ég ítreka að hér er fyrst og fremst um að ræða aukið sjálfstæði gagnvart ríkisstjórninni og bankinn mun eftir sem áður lúta valdi Alþingis, annars vegar vegna löggjafarvalds þess og hins vegar vegna bankaráðsins sem kjörið er af þinginu.
    Auk fyrrgreinds meginmarkmiðs er í frv. lagt til að bankanum verði sett þrjú undirmarkmið.
    Í fyrsta lagi að stuðla að virkri og öruggri starfsemi á fjármagnsmarkaði. Það er ljóst að aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði eykur þær hættur sem starfsemi fjármálastofnunar eru samfara. Mikilvægur þáttur á þessu sviði er eftirlit með starfsemi fjármálastofnana í þeim tilgangi að vernda hag neytenda og fjárfestingaraðila. Lagt er til að Seðlabankanum verði áfram falið að hafa eftirlit með starfsemi fjármálastofnana.
    Í öðru lagi er Seðlabankanum falið að varðveita nægilegan gjaldeyrisvarasjóð til þess að greiða fyrir frjálsum viðskiptum við önnur lönd og treysta með því fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.
    Í þriðja lagi er lagt til að bankanum verði falið að stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við önnur lönd. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem eðlilegt er að fela Seðlabankanum í ljósi einkaréttar hans til þess að gefa út seðla og mynt.
    Í núgildandi seðlabankalögum eru eins og ég hef þegar nefnt ákvæði sem heimila Seðlabankanum undir vissum kringumstæðum að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana og ávöxtunarkröfu og annað endurgjald eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Nú er lagt til að íhlutunarákvæði af því tagi falli brott. Fyrir því eru einkum tvenns konar rök:
    Í fyrsta lagi hefur ákvæðinu ekki verið beitt hingað til þrátt fyrir nær stöðugar deilur um raunvexti hér á landi samanborið við raunvexti erlendis allan þennan tíma.
    Í öðru lagi hefur ákvæði af þessu tagi ekkert gildi þegar gjaldeyrishöft einangra ekki lengur innlendan fjármagnsmarkað frá erlendum. Eftir setningu nýrra laga um gjaldeyrismál í nóvember sl. og gildistöku nýrra gjaldeyrisreglna á grundvelli þeirra er ljóst að síðustu gjaldeyrishömlurnar falla úr gildi í náinni framtíð. Þess er því ekki langt að bíða að einangrun innlends fjármagnsmarkaðar verði að fullu rofin.
     Þróun innlends fjármagnsmarkaðar hefur á undanförnum árum leitt til þess að nær ókleift er fyrir Seðlabankann að hlutast til um vexti á markaðinum með beinum fyrirmælum. Ástæða þess er aukið vægi verðbréfaviðskipta þar sem ákvöxtunarkrafa kemur í stað formlegra vaxta. Þrátt fyrir heimild Seðlabankans í núgildandi seðlabankalögum til að hlutast til um ávöxtunarkröfuna sýnir reynslan að ákvæðið er í reynd óframkvæmanlegt. Grípi Seðlabankinn til þess ráðs að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana er næsta víst að fjármagn leiti frá innlánsstofnunum yfir á þann hluta fjármagnsmarkaðarins þar sem erfiðara er að beita slíkri beinni íhlutun. Þróun innlends fjármagnsmarkaðar og þær breytingar sem lagðar eru til með þessu frv. leiða hins vegar til þess að möguleikar Seðlabankans aukast til þess að hafa áhrif á vaxtaþróun með óbeinum hætti, fyrst og fremst með viðskiptum á verðbréfamarkaði.
    Loks skal á það bent að ákvæði þess efnis að unnt sé að hlutast til um vaxtamun innlánsstofnana lýtur fremur að samkeppnis- og neytendamálum en peningamálum og samræmist ekki vel því hlutverk Seðlabankans að móta og framfylgja stefnu í peningamálum. Hin nýsettu samkeppnislög, sem samþykkt voru á þinginu í gær, eiga að tryggja að eftirlit sé haft með því hvort um óeðlileg samtök eða samþjöppun valds sé að ræða á þessu sviði viðskiptalífsins eins og öðrum.
    Til þess að ná markmiðum í peningamálum er hér lagt til að stjórntæki Seðlabankans verði efld verulega frá því sem nú er. Stjórntæki bankans hafa á undanförnum árum einkum verið bindiskyldan og lausafjárkvöð, en í miklu minna mæli vextir í eigin viðskiptum og kaup og sala á verðbréfum. Síðastnefndi þátturinn hefur þó eflst að undanförnu. Samkvæmt frv. verða helstu stjórntæki bankans í framtíðinni einmitt bindiskylda, kaup og sala verðbréfa, útgáfa eigin verðbréfa og ákvörðun vaxta í eigin viðskiptum. Hins vegar er lagt til að ákvæðum um laust fé innlánsstofnana verði breytt á þann veg að það þjóni sínum eiginlega og upphaflega tilgangi, þ.e. að tryggja að innlánsstofnanir hafi jafnan yfir nægu fé að ráða til að mæta úttektum og verði því ekki eitt af stjórntækjum bankans í peningamálum í framtíðinni. Ég ítreka að það verður bankans sjálfs að móta nánari reglur um beitingu þessara stjórntækja án atbeina ríkisstjórnar. Þetta er auðvitað liður í því að efla sjálfstæði bankans.
    Ég bendi á að í 11. gr. frv. þar sem kveðið er á um lánveitingar til þeirra stofnana sem eru í innlánsviðskiptum við bankann er að finna mikilvæga breytingu frá gildandi seðlabankalögum. Samkvæmt

greininni verður bankanum heimilt að veita lánastofnunum lán þótt fyrir þeim séu ekki endilega fullgildar venjulegar tryggingar þegar sérstaklega stendur á í þeim tilgangi að varðveita traust á fjármálakerfi landsins, þ.e. til að firra fjármálakerfið áhættu. Í núgildandi lögum er einungis heimilt að veita slík lán ef hefðbundnar tryggingar eru fullgildar. Hér er um að ræða öryggisákvæði, sem lagt er til í þessu frv., sem vonandi þarf sjaldan eða aldrei að beita en ákvæði af þessu tagi er nauðsynlegt til þess að geta forðað keðjuverkandi áhrifum á fjármagnsmarkaðnum við óvænt áföll. Þessa heimild má bankinn hins vegar ekki nýta án samþykkis ráðherra enda um slíkt undantekningartilfelli að ræða að eðlilegt er að fleiri komi að þeirri ákvörðun en bankinn einn.
    Eitt af mikilvægustu ákvæðum frv. fjallar einmitt um lánafyrirgreiðslu bankans við opinbera aðila. Beinn aðgangur ríkissjóðs að skammtímalánum í Seðlabankanum hefur á undanförnum árum verið eitt af meginvandamálunum í stjórn peningamála. Sjálfdæmi ríkissjóðs um lántökur í bankanum í formi yfirdráttar á reikningum sínum hefur gert Seðlabankanum erfitt fyrir að reka sjálfstæða stefnu í peningamálum. Reynslan bæði hér á landi og annars staðar sýnir að nauðsynlegt er að fjármagna lánsfjárþörf ríkisins á markaði utan seðlabanka. Með þeirri aðferð er dregið úr sveiflum í peningaframboði og seðlabankinn kemst í þá aðstöðu að geta vegið og metið hvort hann skuli auka eða minnka lausafé á markaðinum með kaupum og sölu á verðbréfum í ljósi markmiðanna í peningamálum.
    Í frv. er lagt til að bankanum verði ekki heimilt að lána ríkissjóði, sveitarfélögunum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum eins og ég hef þegar lýst. Í ákvæði til bráðabirgða er svo lagt til að ríkissjóður geti fengið takmarkaða fyrirgreiðslu á þessu ári. Með því er í raun verið að staðfesta þá breytingu sem orðið hefur á fyrirgreiðslu bankans við ríkissjóðs, fyrst á grundvelli samnings frá því í júní 1992 og síðan í framhaldi af því af samningi sem gerður var fyrr í þessari viku og fram hefur komið í fréttum. Sú breyting hefur þar með orðið að ríkissjóður mætir nú tímabundinni fjárþörf sinni með sölu markaðsverðbréfa í stað þess að yfirdraga reikninga sína í Seðlabankanum. Þetta er í samræmi við þá starfsaðferð sem tíðkast í flestum nágrannaríkjunum. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð og engin ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram. Ég bendi jafnframt á að samkvæmt frv. er Seðlabankanum heimilt að kaupa verðbréf ríkissjóðs á markaði. Með því móti getur hann komið í veg fyrir óæskilegar skammtímasveiflur í vöxtum sem rekja mætti til sveiflna í skammtímafjárþörf ríkissjóðs.
    Ég vík þá að gengismálum en ákvæði frv. um gengismál og viðskipti fela ekki í sér neinar grundvallarbreytingar frá núgildandi lögum eftir að þeim var breytt á þinginu í fyrra. Bankinn ákveður samkvæmt tillögum frv. að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Talið er eðlilegt að ríkisstjórnin hafi lokaorðið í svo veigamiklu máli sem er nátengt almennri efnahagsstjórn. Þá hefur bankinn samkvæmt þessari tillögugerð fullar heimildir til að skipuleggja gjaldeyrismarkað eins og ég hef þegar nefnt.
    Af öðrum atriðum vil ég nefna að hér er gerð tillaga um að gleggri skil verði gerð milli seðlabankalaga annars vegar og laga um gjaldeyrismál hins vegar. Því er lagt til að ákvæði um gjaldeyrisverslun og eftirlit með henni falli brott enda er ákvæði þar að lútandi að finna í lögum um gjaldeyrismál sem Alþingi samþykkti í nóvember sl.
    Í þessu frv. er lagt til að starfsemi bankaeftirlitsins verði efld og staða þess í stjórnskipulagi bankans gerð skýrari en nú gildir. Samkvæmt núgildandi seðlabankalögum er bankanum falið að hafa eftirlit með því að innlánsstofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra. Í sérlögum hefur Seðlabankinn jafnframt fengið það verkefni að hafa eftirlit með öðrum stofnunum en innlánsstofnunum, þ.e. eignarleigum, verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum, auk þess sem honum hefur verið falið að setja reglur um gerð og endurskoðun á ársreikningum lífeyrissjóða.
    Nú er lagt til að eftirlit Seðlabankans nái í rauninni til allra stofnana og fyrirtækja sem starfa á fjármagnsmarkaði sem veita almenningi og fyrirtækjum fjármálaþjónustu. Einkum er um að ræða bankana, sparisjóði, fjárfestingarlánasjóði, eignarleigufyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfasjóði, lífeyrissjóði og tryggingafélög. Hins vegar er tekið fram í greininni að Seðlabankinn hafi því aðeins eftirlit með starfsemi þessara stofnana og fyrirtækja að eftirlitið sé ekki öðrum falið með sérstökum lögum. Þetta þýðir t.d. að eftirlit með tryggingastarfsemi tryggingafélaga heyrir ekki undir bankaeftirlitið. Þá felst í greininni að bankaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með nýrri starfsemi sem upp kann að koma á fjármagnsmarkaðinum þótt engin sérstök lög hafi verið um hana sett. Þetta tel ég mikilvægt í ljósi þeirrar þróunar á fjármagnsmarkaðinum sem verið hefur undanfarin ár og reyndar örra breytinga víða um lönd í þeim efnum. Iðulega hafa þessar breytingar verið á undan löggjafanum eins og oft gerist og eðlilegt hlýtur að teljast.
    Tillögur eru gerðar um breytingar á skipun forstöðumanns bankaeftirlitsins. Hér er lagt til að hann verði ráðinn af bankaráðinu samkvæmt tillögum bankastjórnar. Samkvæmt gildandi lögum er hann skipaður af ráðherra. Þetta er liður í því að auka sjálfstæði bankans en ekki síður að gera skarpari skil milli ábyrgðarsviða og um stjórnskipulag innan bankans.
    Nokkur orð um alþjóðasamstarf, hæstv. forseti. Seðlabankanum hefur frá upphafi verið falið að annast tengsl Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Seðlabankinn leggur fjárframlög af Íslands hálfu til sjóðsins samkvæmt reglum og ákvörðunum hans og að fenginni heimild Alþingis hverju sinni. Þessi fjárframlög greiðast því ekki úr ríkissjóði. Þá hefur bankinn tekið þátt í samstarfi seðlabanka, bæði hinna norrænu og á vettvangi Alþjóðlega greiðslubankans í Basel í Sviss en sá banki er í eigu seðlabanka iðnríkjanna, m.a.

Seðlabanka Íslands. Þá hefur bankinn einnig ásamt fulltrúum ýmissa ráðuneyta og stofnana tekið þátt í starfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þessi þáttur í starfi seðlabanka verður stöðugt mikilvægari með opnun fjármagnsmarkaða um allan heim.
    Í frv. er gerð tillaga um ótvíræðar heimildir Seðlabankans til þess að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ákvæði núgildandi laga eru bundin við þá stofnun. Slíkt aðild verður þó að sjálfsögðu að samræmast hlutverki bankans sem Seðlabanka.
    Einnig eru í frv. ákvæði sem heimila bankanum að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra stofnana sem felast í því að gerðir eru tvíhliða eða marghliða samningar um gagnkvæm lánsréttindi, þ.e. að einn banki geti fengið lán hjá öðrum ef gjaldeyrisvarasjóðurinn rýrnar. Slíkir samningar verða mikilvægari þegar gjaldeyrishömlur hverfa og gengi ræðst af framboði og eftirspurn á markaði. Þess má geta að nýr samningur af þessu tagi milli norrænu seðlabankanna tók gildi í upphafi þessa árs. Samkvæmt honum getur Seðlabankinn fengið að láni allt að 200 millj. ECU, evrópskar mynteiningar, eða jafnvirði allt að 15,4 milljarða kr. frá hinum bönkunum.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir fjölmargar af þeim efnisbreytingum sem tillögur eru gerðar um í þessu frv. á starfsemi Seðlabankans. Ég mun nú fara nokkrum orðum um stjórnskipulag hans.
    Í frv. er lagt til að bankaráðið verði skipað með sama hætti og nú gildir, þ.e. verði skipað af fimm mönnum, kjörnum af Alþingi til fjögurra ára í senn. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á sjálfstæði og fagleg vinnubrögð er lagt til í frv. að þess sé gætt við kjörið að bankaráðsmenn hafi víðtæka þekkingu á efnahagsmálum. Einnig er lagt til að nýr ráðherra geti skipað nýjan formann og varaformann bankaráðs kjósi hann það. Þetta er gert til þess að ávallt ríki sem best samband milli ráðherra og bankaráðs sem ekki er síst mikilvægt í ljósi þess að bein afskipti ráðherrans af ákvörðunum bankans eru takmörkuð verulega með frv. frá því sem nú er.
    Í frv. er lagt til að bankastjórar Seðlabankans verði áfram þrír en að gerð verði sú breyting á stöðu formanns bankastjórnar og vali bankastjóra sem ég mun nú frá greina.
    Núgildandi fyrirkomulag er þannig að ráðherra skipar bankastjóra til allt að sex ára að fengnum tillögum bankaráðs. Bankastjórarnir velja einn úr sínum hópi sem formann bankastjórnar til þriggja ára í senn. Í gildandi lögum eru hins vegar ekki ákvæði um það í nánari atriðum hvert hlutverk formanns bankastjórnarinnar skuli vera.
    Í þessu frv. er lagt til að stöður bankastjóra verði auglýstar lausar til umsóknar. Gerð verði sú krafa að bankastjórar hafi víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum sviðum efnahagsmála. Telja verður eðlilegt að gera kröfu af þessu tagi, ekki síst í ljósi hlutverks bankans og þeirra tillagna um aukið sjálfstæði hans til stjórnunar peningamála sem felst í þessu frv.
    Að fengnum umsóknum um stöðu bankastjóra er gert ráð fyrir að bankaráð greiði atkvæði um umsækjendur. Til þess að ráðgerra geti skipað mann bankastjóra verður hann samkvæmt tillögunum í þessu frv. að hafa fengið a.m.k. eitt atkvæði í bankaráði. Í þessu felst mikilvæg breyting frá núgildandi lagaákvæðum sem hefur verið túlkað þannig að ráðherra geti í raun skipað hvern þann í stöðu bankastjóra sem honum sýnist án þess að taka tillit til tillagna bankaráðsins. Eina skilyrðið sé að ráðherra hafi tekið við tillögum frá ráðinu. Í frv. er lagt til að skipunartímabil bankastjóra verði sjö ár í stað allt að sex ára samkvæmt núgildandi seðlabankalögum. Fastákveðið skipunartímabil skapar að sjálfsögðu ákveðna festu í stjórn bankans.
    Í frv. er lagt til að formaður bankastjórnar gegni veigameira hlutverki en samkvæmt gildandi lögum og er beinlínis sagt að hann verði helsti talsmaður Seðlabankans sem komi fram fyrir hans hönd. Í ljósi aukins mikilvægis þessarar stöðu er lagt til að skipað verði sérstaklega í hana til sjö ára. Til að undirstrika mikilvægi stöðunnar er lagt til að umsækjandi um stöðuna verði að hafa fengið a.m.k. tvö atkvæði í bankaráðinu til þess að ráðherra geti skipað hann.
    Samkvæmt núgildandi seðlabankalögum eru engar takmarkanir á því hversu oft má skipa sama mann í stöðu bankastjóra, en víða um lönd gilda slíkar takmarkanir. Hér er lagt til að meginreglan verði sú að óheimilt sé að skipa sama mann oftar en tvisvar í stöðu bankastjóra. Meginreglan er því sú að enginn geti gegnt slíkri stöðu lengur en í 14 ár. Maður sem gegnir stöðu bankastjóra verður að sækja um hana að nýju þegar skipunartímabil hans rennur út hafi hann hug á því að gegna henni áfram. Í frv. er þó lagt til að skipa megi sama mann í þriðja sinn í stöðu bankastjóra, enda sé þá um að ræða skipun í stöðu formanns bankastjórnar og viðkomandi hafi annaðhvort aldrei eða aðeins einu sinni áður gegnt slíkri stöðu. Samkvæmt þessum reglum er hugsanlegt að sami maður geti gegnt stöðu bankastjóra í 21 ár samfleytt þótt það verði að teljast harla ólíklegt. Hann gæti gegnt stöðu bankastjóra í eitt skipunartímabil og síðan stöðu formanns bankastjórnar í tvö skipunartímabil eða stöðu bankastjóra í tvö skipunartímabil og síðan stöðu formanns bankastjórnar í eitt skipunartímabil. Einnig gæti að sjálfsögðu komið upp tilvik þar sem sami maður er skipaður þrisvar en gegnir þó störfum í skemmri tíma samfleytt en í 21 ár. Þetta gæti gerst með þeim hætti að starfandi bankastjóri sækti um og væri skipaður í stöðu formanns bankastjórnar áður en sjö ára skipunartímabili hans væri lokið.
    Þessar reglur fela að sjálfsögðu í sér mikla þrengingu á valdi ráðherrans frá því sem nú er og verður að telja það eðlilegt miðað við þá tillögu sem hér er gerð um aukið sjálfstæði bankans.
    Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að menn spyrji: Hvernig er hægt að bera þessar tillögur um seðlabankalöggjöf sem hér eru gerðar saman við sams konar löggjöf með öðrum þjóðum. Ég tek skýrt fram að við samningu þessa frv. voru gildandi lög um seðlabanka í flestum iðnríkjanna könnuð vandlega, ekki síst þau lög sem gilda á öðrum Norðurlöndum auk stofnskrár hins áformaða sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins. Þá voru yfirfarnar margar greinargerðir alþjóðastofnana og fræðimanna um starfsemi seðlabanka. Nefndin sem undirbjó þetta frv., og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka henni fyrir vel unnið verk, tók til sérstakrar athugunar ýmis mikilvæg atriði: Í fyrsta lagi markmið og hlutverk seðlabanka, í öðru lagi stjórntæki í peningamálum, í þriðja lagi stjórnskipulag seðlabanka, í fjórða lagi verkaskiptingu bankaráðs og bankastjóra, í fimmta lagi tengsl seðlabanka við ríkisstjórn, í sjötta lagi fyrirgreiðslu við ríkissjóð og í sjöunda lagi hvort og hvernig seðlabanki hafi bankaeftirlit með höndum.
    Í þessum samanburðarathugunum kom í ljós að lög um seðlabanka í iðnríkjum geta á engan hátt talist einhlít fyrirmynd um efnisatriði í lögum um Seðlabanka Íslands. Þó má draga þá ályktun ef maður skoðar fyrst og fremst yngstu löggjöfina, ekki síst nýleg lög á Nýja-Sjálandi, stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins og fyrirliggjandi tillögur um breytingar á lögum um Seðlabanka Kanada, að þeirri skoðun vaxi nú fylgi að æskilegt sé að seðlabanki hafi aðeins eitt meginmarkmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi. Jafnframt er reynt að tryggja í þessari nýlegu löggjöf sem ég hef hér vitnað til og reyndar stofnskránni að hugsanlegum, sameiginlegum seðlabanka Evrópu og lagadrögunum að nýjum lögum fyrir Seðlabanka Kanada, að seðlabankinn geti mótað stefnu sína í peningamálum og beitt þeim stjórntækjum sem hann hefur yfir að ráða án beinna afskipta ríkisstjórnar.
    Hæstv. forseti. Nokkur orð um löggjöfina í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við. Seðlabanki Danmerkur, Danmarks Nationalbank, starfar samkvæmt lögum frá árinu 1942. Hann hefur samkvæmt þeim lögum það hlutverk að viðhalda öruggu fjármálakerfi í landinu og greiða fyrir greiðslumiðlun og lánastarfsemi. Í Finnlandi, en þar heitir Seðlabankinn Suomen Pankki og starfar í grundvallaratriðum samkvæmt lögum frá árinu 1925, er bankanum ætlað að viðhalda stöðugu og traustu peningakerfi og tryggja lipra greiðslumiðlun í landinu. Í Noregi, Norges Bank, gilda lög frá árinu 1985 og voru þau samin á grundvelli mjög ítarlegrar könnunar á gildandi seðlabankalöggjöf um víða veröld. Þar er markmið bankans að stuðla að hagkvæmri greiðslumiðlun í landinu. Sama gildir í Svíþjóð um Sveriges Riksbank. Þar eru lögin líka nýleg, frá 1988. Athyglisverð eru seðlabankalögin frá Nýja-Sjálandi, Reserve Bank of New Zealand sem starfar samkvæmt lögum frá árinu 1989. Þar hefur seðlabankinn það eina markmið að tryggja stöðugt verðlag, en ríkisstjórnn getur þó ákveðið með sérstökum hætti að bankinn víki tímabundið frá því markmiði. Í Þýskalandi gilda lög frá árinu 1957 um Deutsche Bundesbank. Þar er markmið seðlabankans fyrst og fremst að tryggja verðgildi gjaldmiðilsins. Hann skal jafnframt styðja almenna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar svo framarlega sem það gengur ekki gegn meginmarkmiði bankans. Svipað ákvæði er að finna í stofnskrá hins sameiginlega seðlabanka Evrópubandalagsins, The European Central Bank, sem samin var á árinu 1991, nema hvað þar er það meginmarkmið bankans samkvæmt skilgreiningu í stofnskránni að viðhalda stöðugu verðlagi.
    Með því að setja seðlabanka það eina meginmarkmið að stuðla að stöðugu verðlagi er vitaskuld verið að gefa stöðugleika í efnahagsmálum vissan forgang. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst að stöðugt verðlag sé til lengdar forsenda þess að öðrum mikilvægum markmiðum verði náð eins og auknum hagvexti og góðri atvinnu. Reynslan hefur sýnt, bæði hér á landi og erlendis, að til lengri tíma litið er enginn ávinningur af verðbólgu. Það er ekki unnt til lengdar að tryggja hátt atvinnustig og hagvöxt með verðbólgunni einni saman. Þvert á móti gerir verðbólgan einstaklingum og fyrirtækjum erfiðara um vik að horfa fram á veginn og vinna að ákveðnum framtíðarmarkmiðum sem er forsenda framfara í atvinnumálum. Þá fer, eins og Íslendingar þekkja manna best, mikil orka og tími einstaklinga og fyrirtækja í það að verjast áhrifum verðbólgunnar auk þess sem hún hefur einatt óæskileg áhrif á tekjuskiptinguna í samfélaginu.
    Verðlagsmarkmið er í eðli sínu langtímamarkmið. Það er því nauðsynlegt að tryggja seðlabanka sjálfstæði til að geta beitt þeim stjórntækjum sem hann hefur yfir að ráða til að ná þessu markmiði.
    Stjórnskipulag seðlabanka er með ýmsum og ólíkum hætti í iðnríkjunum. Víða eru bankaráðsmenn kosnir af þjóðþingum en annars staðar eru þeir skipaðir af ráðherra og ríkisstjórn. Sums staðar situr bankastjóri í bankaráðinu, er jafnvel formaður þess. Víðast er einn bankastjóri ásamt einum eða fleiri varabankastjórum, en einnig þekkjast dæmi um fjölskipaðar bankastjórnir, svo sem í Danmörku og Finnlandi.
    Hér hefur í frv. verið valin millilausn. Í öðrum löndum eru bankastjórarnir ýmist valdir af bankaráði, ráðherra eða ríkisstjórn. Í sumum tilvikum er óheimilt að endurskipa bankaráðsmenn og bankastjóra nema í tiltekinn fjölda skipta en í öðrum tilfellum eru engar slíkar takmarkanir og bankastjórar jafnvel ráðnir til óákveðins tíma. Sums staðar tekur bankaráðið ákvarðanir um beitingu helstu stjórntækja bankans í peningamálum. Annars staðar er þetta vald falið bankastjórnunum. Í sumum ríkjum er seðlabanka bannað að veita ríkissjóði lán. Í öðrum ríkjum eru settar einhverjar skorður við lánum til ríkissjóðs og í enn öðrum gilda engar takmarkanir á þessu sviði.
    Það er auðvitað mála sannast um þetta eins og margt annað að þar veldur hver á heldur. Hins vegar er það mín skoðun að með þeim tillögum sem hér eru fluttar, og samdar eru á vegum þessarar nefndar sem ég hef þegar lýst, er verið að reyna að sameina það besta sem þekkist í seðlabankalöggjöf iðnríkjanna um leið og sú löggjöf er löguð að íslenskum aðstæðum.
    Virðulegi forseti. Ég tel það ákaflega mikilvægt að í nefndinni sem frv. samdi náðist víðtæk samstaða um meginatriði málsins. Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir, og fulltrúi Alþb., Már Guðmundsson hagfræðingur, skiluðu að vísu séráliti en þar kom ekki fram ágreiningur við grundvallaratriði frv. Fulltrúi Kvennalistans taldi rétt að bankaráðið yrði skipað sjö mönnum í stað fimm í því skyni að fulltrúar sem flestra þingflokka gætu setið í bankaráðinu. Einnig lagði hún til að í seðlabankalögum væri beinlínis tekið fram að bankaeftirlitinu bæri að fylgjast með og grípa til aðgerða ef það yrði vart við innherjaviðskipti í þeim stofnunum sem það hefur eftirlit með.
    Fulltrúi Alþb. lagði til róttækari breytingar á núgildandi stjórnskipulagi bankans en gert er ráð fyrir í frv., einkum þannig að bankastjóri yrði einn í stað þriggja. Þá vildi hann veita skemmri aðlögunartíma fyrir ríkissjóð en meiri hluti nefndarinnar komst að niðurstöðu um að þeirri meginreglu frv., sem ekki var ágreiningur um, að lántökur ríkissjóðs og annarra opinberra aðila í Seðlabankanum verði óheimilar. Við endurskoðun frv. milli þinga var einmitt ákveðið að stytta þennan aðlögunartíma. Það hefur því verið komið til móts við þetta sjónarmið í séráliti fulltrúa Alþb.
    Það var athyglisvert þegar tillögur nefndarinnar voru kynntar sl. vor að það kom fram í máli allra talsmanna stjórnmálaflokka í fjölmiðlum stuðningur við meginstefnu frv. Reyndar komu þá fram og hafa komið fram síðar efasemdir um tillögur um breytingar á stjórnskipulagi bankans sem felast í því að formaður bankastjórnar verði ráðinn sérstaklega en ekki valinn af bankastjórninni. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að menn staldri við þegar gerðar eru tillögur um breytingar á fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði frá stofnun bankans. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að þessar breytingar eru liður í því að efla faglega stjórnun í bankanum í því skyni að treysta stjórn peningamála og þar með efnahagsstjórn hér á landi og eru, eins og fram kom í mínum orðum, málamiðlun milli þeirra sjónarmiða sem komu fram í nefndinni.
    Seðlabankinn er ein af mikilvægustu stofnunum í stjórnkerfi hverrar þjóðar. Því er ákaflega brýnt að góð samstaða geti tekist hér á Alþingi um þetta frv. Miðað við þá samstöðu sem var í nefndinni sem samdi frv. og þau orð sem talsmenn stjórnmálaflokkanna hafa látið falla um málið er ég ekki í vafa um það þorri þingmanna getur sammælst um þetta frv. og veitt því brautargengi á yfirstandandi þingi. Ég vil, hæstv. forseti, einmitt vinna að slíku samkomulagi með hv. efh.- og viðskn.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja efnisatriði þessa viðamikla frv. frekar en ég hef þegar gert og legg til að þessu frv. verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.