Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:34:57 (5526)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Hér hefur komið fram ósk um sérstaka nefndarmeðferð á þessu máli áður en 1. umr. um það lýkur. Ég tel eðlilegt að fyllsta tillit verði tekið til óska þingmanna í slíku máli en vildi þó benda á að málið var lagt fram til kynningar á þinginu í apríl 1992. Frv. sem við ræðum nú var svo lagt fram á þingi fyrir jólaleyfi þingsins í góðan tíma, hefur þess vegna legið fyrir í þeirri mynd sem það er nú í allmargar vikur í höndum þingmanna og í þriðja lagi að það er samið af nefnd þar sem fulltrúar þingflokkanna voru beinlínis tilnefndir af þeim. Það er vart sjáanlegt að það sé hægt að vísa til þess að þingheimi hafi ekki gefist tækifæri til að kynnast málinu þegar þessi tillaga er gerð. En ég vil engu að síður láta þá skoðun mína í ljós að það sé eðlilegt að forseti taki fyllsta tillit til þessara óska og hugleiði þessa málsmeðferð en að sjálfsögðu hvílir það í hendi forseta að skera úr um það.
    Ég vil koma aðeins að því sem hv. 8. þm. Reykn. vék að í sinni ræðu þótt það verði nú varla flokkað undir þingsköp. Fyrst vil ég nefna það sem hann vék að um gengis- og gjaldeyrismál og vil leyfa mér að vísa til þess sem fram kom í ræðu minni um það mál. Og svo að lokum bar hann upp þá spurningu hvort þetta mál tengdist mér persónulega. Ég vil vísa því fullkomlega frá. Það kemur þessu máli ekki við. Röksemdir hv. þm. eru af því taginu að það mætti eins segja að hv. alþm. gætu ekki tekið þátt í umræðum um kosningalög af því að þeir sækist eftir kosningu til Alþingis.