Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:54:48 (5535)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :

    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. 1. þm. Austurl. að hann vilji ekki á nokkurn hátt draga meðferð þessa máls á langinn með þeirri tillögu sem hann hér gerir. Það er auðvelt að taka undir það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. að það geti oft flýtt fyrir málum að þau gangi til nefndar fyrir 1. umr. Þess vegna er ég honum sammála um aðferðina almennt talað. Það sem mér finnst hins vegar orka tvímælis fyrir þingið er að hafa slíka skipan á máli, veita slíka meðferð á máli sem hefur verið kynnt þinginu með jafnlöngum fyrirvara og raun ber vitni.
    Frv. kom hér fyrst fram á þinginu --- samið af nefnd þingflokkanna --- fyrir tæpu ári, í apríl 1992. Í endanlegri mynd var það svo sent þinginu í desembermánuði sl. Þetta er til umhugsunar fyrir forseta þingsins, þótt ég geti tekið undir það sem hv. þm. tefldi hér fram máli sínu til stuðnings í almennum atriðum, þá á það ekki mjög vel við þetta sérstaka dæmi. Í þessu felst alls ekki að ég geti ekki fyrir mitt leyti fallist á þá tillögu sem hér er gerð. Ég tel að forseti þingsins og forsætisnefnd hljóti að taka ríkt tillit til þeirra óska sem hér koma fram, ég vildi einungis benda á að fordæmi kynni að vera nokkurt umhugsunarefni.