Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:48:06 (5704)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fannst ræða hv. þm. ekki svara spurningunni sem ég bar fram um það hvort hann teldi að við gætum veitt þessa skattafslætti í öðrum atvinnugreinum vegna samningsins um EES. Mér finnst það ákaflega ólíklegt að við getum gert það. Hins vegar er ég honum sammála um það að við eigum að leita allra leiða til þess að byggja upp okkar atvinnulíf og við eigum að fara mjög varlega í það að binda okkur við samninga sem taka af okkur möguleikana til að vernda okkar innanlandsframleiðslu og þeir atvinnuvegir sem byggjast á framleiðslu fyrir innanlandsmarkað eru auðvitað atvinnuvegir sem við eigum sérstaklega að vernda og þar með auðvitað flutninga að og frá landinu. Þess vegna er ég sannarlega sammála því að þessi mál verði skoðuð. En ég tel að við séum í miklum erfiðleikum og vanda vegna þeirra skuldbindinga sem við erum í þann veginn að taka á okkur um þessa samkeppni á öllum sviðum.