Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:49:20 (5943)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda beinir hann þeirri spurningu til mín hvort ég hafi beitt mér fyrir því að stálbræðslan við Straumsvík í Hafnarfirði, sem var í eigu Íslenska stálfélagsins, taki til starfa á nýjan leik. Svarið við spurningunni er já.
    Ég rifja upp að í mars 1991 beitti ég mér fyrir því að ósk stærsta íslenska hluthafans í Íslenska stálfélaginu að myndaður væri hópur með fulltrúum stálfélagsins, viðskiptabanka þess og ráðuneytisins til þess að fara yfir stöðu fyrirtækisins sem þá var að komast í greiðsluþrot. Ráðuneytið kostaði m.a. gerð rekstrar- og afkomuathugunar fyrir fyrirtækið á vegum þessa hóps. Það fór svo að sumarið 1991 tókst sænskum hluthöfum að fá aukið erlent lánsfé inn í þetta fyrirtæki. Því miður fór það svo í nóvember á því ári, 1991, að fyrirtækið varð gjaldþrota.
    Allt frá þeim tíma hefur ráðuneytið reynt að stuðla að áframhaldandi rekstri þess. Að sjálfsögðu dvínaði sá áhugi ekki þótt félagið væri lýst gjaldþrota. Iðnrn. og markaðsskrifstofa þess og Landsvirkjunar lýstu sig reiðubúin til að aðstoða bústjóra þrotabúsins við leit að aðilum til að kaupa þrotabúið og hefja rekstur þess að nýju. Iðnrn. hefur verið í sambandi við bústjóra þrotabúsins allan þennan tíma og lánastofnanir og átti fundi með mörgum íslenskum og erlendum aðilum sem sýndu búinu áhuga og hefur veitt þeim aðstoð eftir því sem eðlilegt gat talist.
    Í þessum viðræðum hefur jafnan verið lögð á það áhersla að rekstur verksmiðjunnar geti hafist sem fyrst. Ég nefni m.a. í þessu sambandi að sl. sumar fóru fram viðræður við forráðamenn bandarísks fyrirtækis St. Louis Cold-drawn um endurreisn verksmiðjunnar. Framkvæmdastjóri markaðskrifstofunnar fór m.a. í september sl. haust gagngert til fundar í höfuðstöðvum þessa fyrirtækis í St. Louis í Bandaríkjunum þar sem gerð var lokatilraun til að gera hugmyndir þessa fyrirtækis um endurreisn stálbræðslunnar að veruleika. Í þessum fundi tóku einnig þátt ýmsir aðilar sem að málinu höfðu komið. Framkvæmdastjórinn hafið þá heimild iðnrn., Landsvirkjunar og Hafnafjarðarbæjar til að bjóða fram ýmiss konar aðstoð ef það mætti verða til þess að reksturinn hæfist að nýju. Það tókst hins vegar ekki einkum af því að flutningskostnaður innan Bandaríkjanna virtist of hár til að hugmyndir hins bandaríska fyrirtækis gætu orðið að veruleika.
    Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda eignuðust Búnaðarbanki Íslands og Iðnþróunarsjóður eignir þrotabúsins á uppboði í lok október sl. Eignirnar hafa síðan verið auglýstar til sölu. Tilboð hafa borist frá tveimur innlendum aðilum auk þess sem nokkrir erlendir aðilar hafa spurst fyrir um verksmiðjuna með niðurrif hennar í huga. Þá hefur, eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, Hafnarfjarðarbær og nokkur verkalýðsfélög sýnt því mikinn áhuga að reksturinn geti hafist á ný og verið tilbúin til að leggja nokkurt fé í þennan rekstur.
    Ég vil taka það fram að um þessar mundir er til athugunar hjá eigendum þrotabúsins bæði tilboð og rekstraráform annars íslenska aðilans sem hefur boðið í verksmiðjuna og er niðurstöðu að vænta innan skamms í þeim samningaumleitunum. Reyndar er aðallega beðið álits sérfræðings í stáliðnaði á tæknilegum búnaði og ástandi verksmiðjunnar og mati á kostnaði við að gera hana starfhæfa að nýju.
    Verði það niðurstaða þessa sérfræðimats að ástandið sé í samræmi við forsendur tilboðsgjafa má ætla að af kaupunum geti orðið. Reyndar er mikilvægt að taka fram að það þarf umtalsverða fjármuni til

að gera verksmiðjuna starfhæfa og tryggja henni nauðsynlegt rekstrarfé. Hins vegar er líklegt að kaupverð hennar í þessum viðskiptum verði aðeins lítið brot af upphaflegum fjárfestingarkostnaði. Þess vegna ættu að vera betri forsendur en ella fyrir hennar rekstri. Niðurstöðu í þessum viðræðum er að vænta á næstu dögum.
    Ég hef átt viðræður við málsaðilana og vil benda á að lokum að það hefur verið tekið á móti brotajárni þrátt fyrir gjaldþrot fyrirtækisins, bæði á vegum þrotabúsins og seinna á vegum nýju eigendanna sem eru Búnaðarbankinn og Iðnþróunarsjóður. Brotajárnstætarinn var ekki hluti af eigum þrotabúsins þar sem hann var á kaupleigu. Hann hefur hins vegar verið seldur á kaupleigu að nýju einum af áhugaaðilunum. Kaupleigutakinn hefur keypt allt það brotajárn sem hefur verið safnað og á föstudag í síðustu viku eignaðist hann svo á uppboði það sem eftir var af brotajárnshaugnum í eigu annarra. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að gera tætarann starfhæfan að nýju og reksturinn hófst í gær eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda. Þeim rekstri einum fylgja allmörg störf, ellefu væntanlega.
    Ég vona að með þessu sé stigið nokkurt skref til þess að koma rekstri bræðslunnar af stað að nýju og vil taka það fram að ég hef undanfarna daga átt viðræður við eigendur verksmiðjunnar og áhugaaðila um rekstur hennar og vona að það finnist fjárhagsgrundvöllur fyrir rekstrinum því auk atvinnunnar sem honum fylgir er auðvitað mikilvægt umhverfisins vegna að það verði unnið á þessum stóra haug af brotajárni.