Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:11:54 (6101)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um vandasamt viðfangsefni og þingið ber þess vegna mikla ábyrgð í því máli eins og mörgum sem það sinnir en sjaldan meiri en nú. Þess vegna segi ég að það er ábyrgðarhluti af hv. 8. þm. Reykn. að ganga hér fram og halda því blákalt fram að frv. fjalli alls ekki um vanda Landsbankans, að greinar þess eigi að litlu leyti við vandamál þess banka og það fjalli í reynd um eitthvert allt annað mál. Má ég vekja athygli á því að af sjö efnisgreinum frv. snerta fimm málefni Landsbankans. Af 5 milljarða fjárheimildum í frv. eru 3 beinlínis merktar Landsbankanum og aðgang ætti hann að hinum tveimur ef á þyrfti að halda. Málflutningur eins og þessi er gersamlega út í hött.
    En því miður verður þó annað enn verra að segja um málflutning hv. 8. þm. Reykn. því hann er sjálfur Írinn sem talar um írafárið. Hverjir voru það sem kölluðu þinghaldið eða tilhögun þess í gær rof á þinghaldi og að kallað væri til neyðarfundar? Það voru hv. 8. þm. Reykn. og hv. 7. þm. Reykn. Ég segi því í þeim spurningaleik sem hv. þm. jafnan stundar, hvort sem rædd eru alvörumál eða önnur mál: Þurfti hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, að halda þessa ræðu? Svarið er að sjálfsögðu nei.