Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:18:19 (6105)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. fjmrh. sem féllu í ræðu hans fyrr í dag þá get ég ekki annað en tekið fram að ekkert samkomulag hefur verið gert milli þingflokksformanna um annað en það að ljúka 1. umr. hér í dag enda má öllum ljóst vera að hv. efh.- og viðskn. þarf nokkurn tíma til þess að fara í gegnum málið. Við hófum yfirferð í morgun. Það var reyndar að beiðni eins þingmanns stjórnarandstöðunnar að sú umræða hófst þannig að þó að setið væri við frá kl. 10.15 og til kl. 13.30 þá er þeirri athugun langt í frá lokið. Ég tek þetta fram vegna þess að mér þykir gæta mikillar pressu í máli stjórnarsinna. Auðvitað þarf þetta mál að fá eðlilega og alvarlega vinnslu þannig að menn viti hvað hér er á ferð, hvað í þessu frv. felst og hvað liggur á bak við. Ég vil taka fram í upphafi að ég geri þá kröfu að við fáum þann tíma sem við þurfum í þetta mál.
    Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Eins og fram hefur komið þá er það að sjálfsögðu vandi Landsbankans sem liggur að baki þessa frv. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að gripið skuli til aðgerða til þess að rétta hag Landsbankans. Það má öllum ljóst vera að í kjölfar þeirra miklu erfiðleika sem á okkur hafa dunið þá hlytu þeir að bitna á bönkum landsins og þá ekki síst Landsbankanum sem hefur atvinnulífið á sínum herðum. Þær upplýsingar sem okkur hafa borist á undanförnum mánuðum hafa gefið til kynna að það kæmi að því að það yrði að styrkja stöðu bankans. Það er auðvitað ríkið sem stendur á bak við þennan stóra og gamla banka okkar og því er það að sjálfsögðu skylda þess að koma til aðstoðar þegar erfiðleikar steðja að.
    Það sem býr að baki þess ástands, sem nú er komið upp, eru auðvitað þeir miklu erfiðleikar sem dunið hafa á íslensku efnahagslífi á undanförnum árum. Við höfum horft upp á það að staða atvinnulífsins hefur farið hríðversnandi með hverjum mánuðinum sem liðið hefur og því miður virðist ekki vera bjart fram undan ef marka má nýjustu fréttir af lækkun fiskverðs, þeim aukna samdrætti sem fylgja mun og þeim auknu erfiðleikum sem lækkun fiskverðs hefur í för með sér fyrir sjávarútveginn, en Landsbankinn er einmitt fyrst og fremst banki sjávarútvegsins.
    Það er um það að ræða að hér er uppsafnaður vandi á ferð. Landsbankinn hefur staðið á bak við ýmsar fjárfestingar sem hafa brugðist og hér í dag hefur verið nefnt fiskeldi og loðdýrarækt en það er ekki síður í útgerðinni þar sem fjárfestingar hafa átt sér stað, oft og tíðum misheppnaðar og vanhugsaðar eða grunninum hefur hreinlega verið kippt undan útgerðarfyrirtækjum, ekki síst vegna aflasamdráttar.

    Þá er einnig um það að ræða að breyttar reglur um eiginfjárstöðu bankans og reyndar fleiri banka í landinu samkvæmt nýjum lögum valda því að styrkja þarf eiginfjárstöðu bankans.
    Almennur samdráttur í þjóðfélaginu kemur auðvitað líka við sögu, aflasamdrátturinn sem ég nefndi áðan og ýmsar ytri aðstæður sem eru að valda okkur erfiðleikum. Síðast en ekki síst er það stefna ríkisstjórnarinnar sem á hér nokkurn hlut að máli, sá samdráttur sem ríkisstjórnin hefur verið að ýta undir með aðgerðum sínum, niðurskurður og hávaxtastefnan sem því miður hefur allt of lengi verið við lýði en vonandi fer að hilla undir það að vaxtalækkanir fari að skila sér.
    Við okkur blasir að staða Landsbankans er slæm. Bankinn hefur tapað gífurlegu fé og hefur orðið að leggja mikið fé í afskriftasjóði til að mæta þessu mikla tapi og það er ekki síst þess vegna sem nú er verið að grípa til aðgerða.
    Í því frv. sem er til umræðu felst fyrst og fremst tvennt að mínum dómi. Annars vegar er verið að undirbúa aðgerðir strax, aðgerðir sem verður gripið til strax. Hins vegar felst í þessu frv. eins konar fyrirbyggjandi kerfi, þ.e. það á að opna Tryggingarsjóð viðskiptabanka þannig að hann verði bakhjarl bankanna ef aftur þarf að grípa til ráðstafana til þess að styrkja stöðu þeirra. Þessar aðgerðir felast í því, eins og hér hefur komið fram, að meiningin er að veita til Landsbankans 2 milljörðum kr. beint úr ríkissjóði og það er auðvitað fyrsta spurningin hvaðan hann á að taka þá peninga, hvaðan koma þeir. Eftir því sem mér heyrðist á máli hæstv. fjmrh. í dag þá eykst halli ríkissjóðs við þetta þannig að það má líklega ljóst vera að hér verður um lánsfé að ræða.
    Þá er rætt um það að Landsbankinn fái 1 milljarðs kr. víkjandi lán úr Tryggingarsjóði viðskiptabankanna þegar búið verður að breyta lögum hans og þetta kemur til viðbótar þeim 1.250 millj. sem bankinn fékk um síðustu áramót til að styrkja stöðu sína. Það lán var bundið þeim skilyrðum að bankinn tæki til við að endurskipuleggja sitt starf og stöðu og ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvernig hann metur það hvernig bankanum hefur tekist til að bæta stöðu sína.
    Það kom fram í máli Halldórs Guðbjarnasonar á fundi efh.- og viðskn. í morgun að hann telur að bankinn hafi unnið mikið starf í þeim efnum en hann hefur þó orðið að fara nokkuð varlega og ekki síst vegna starfsfólks bankans. Það er ekki auðvelt að segja upp fólki á okkar tímum og senda það beint á vit atvinnuleysisins og hefur bankinn því verið að leita ýmissa leiða til að leysa þann vanda. Samt sem áður er spurningin hvort menn telja að bankinn hafi verið á réttri leið og sé á réttri leið í því að endurskipuleggja starf sitt. Þetta tengist auðvitað 6. gr. þessa lagafrv. þar sem kveðið er á um að það beri að gera samning milli fjmrh. og viðskrh. annars vegar og viðkomandi banka hins vegar ef þeir eiga að fá fyrirgreiðslu til þess að styrkja stöðu sína. Sú spurning kom upp á fundi efh.- og viðskn. hvort nauðsynlegt væri að setja í lög að þeim beri að gera slíkan samning, hvort bönkunum er ekki einfaldlega treystandi til þess að bæta stöðu sína upp á sitt eindæmi.
    Eins og ég hef sagt þá held ég að ekki sé nokkur vafi á að aðgerðir í málefnum bankans eru nauðsynlegar. Ég minnist þess að við kvennalistakonur áttum fund með hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. sumarið 1991, skömmu eftir kosningar þegar Álafossmálið var á döfinni, og ég minnist þess að þá beindi ég þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann teldi stöðu Landsbankans vera í hættu. Álafossdæmið var stórt og mikið mál og fulltrúi okkar í bankaráði Landsbankans hafði nokkrar áhyggjur af stöðu bankans ef allt færi á versta veg. Það er augljóst að á þeim tveimur árum sem ríkisstjórnin hefur setið hefur sífellt hallað undan fæti þó ég ætli ekki að kenna ríkisstjórninni alfarið um það, þar hafa fleiri þættir komið inn í. Þetta leiðir hugann að því hvað er fram undan og hvernig menn meta stöðuna fram undan. Því miður tel ég að harla fátt bendi til þess að það muni birta upp á næstu mánuðum, jafnvel ekki á næstu árum. Því miður bendir fátt til þess og þess vegna er auðvitað meginspurningin sú: Hve lengi duga þessar aðgerðir til þess að styrkja stöðu bankans og hvað gerist ef enn heldur áfram að halla undan fæti? Það beinir sjónum að lækkun fiskverðs og því mikla tapi sem henni fylgir sem kann að verða til þess að fella sjávarútvegsfyrirtæki víða á landinu. Við verðum því að gera okkur grein fyrir því þrátt fyrir þessar aðgerðir, þrátt fyrir það að hér eigi að styrkja stöðu Landsbankans, að enn meiri erfiðleikar geta verið fram undan þó ég voni að svo verði ekki.
    Ef við lítum aðeins á þetta frv. sem hér er til umræðu þá er fyrsta spurningin sem vaknar varðandi tryggingarsjóðinn sú hvort verið sé að eyðileggja enn einn sjóðinn. Við höfum búið áratugum saman við ýmiss konar sjóði og höfum horft upp á það hvernig menn hafa notað þá þegar á herðir og kemur þá í hug Atvinnuleysistryggingasjóður. Síðan þegar tók að reyna á hann með vaxandi atvinnuleysi kom auðvitað í ljós að hann gat ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Ég varpa fram þeirri spurningu: Hvað er verið að gera með því að opna þennan sjóð með þessum hætti? Verður það tryggt að hann verði áfram sá tryggingarsjóður sem honum ber að vera samkvæmt lögum?
    Samkvæmt 51. gr. núgildandi laga um viðskiptabanka segir, með leyfi forseta:
    ,,Yfirstjórn Tryggingarsjóðs er í höndum viðskiptaráðherra og skal hann setja nánari ákvæði um sjóðinn í reglugerð, svo sem um skipan stjórnar og verksvið hennar, ávöxtun á fé sjóðsins og tilhögun greiðslna úr sjóðnum er tryggi eigendum innlánsfjár sem skjótasta endurgreiðslu innlána þegar úrskurður um töku bús viðskiptabanka til skipta er genginn.``
    Samkvæmt þessu er vald hæstv. viðskrh. mjög mikið í þessum efnum og sú spurning vaknar auðvitað hvort ekki sé eðlilegt að Alþingi komi að málum, þ.e. að þessi alvarlegu mál heyri undir Alþingi með

skýrari hætti en stefnt er að með þessu frv. Ég set mikið spurningarmerki varðandi það vald sem hæstv. viðskrh. hefur í þessum málefnum.
    Í grg. frv. kemur fram að í þeim samningum sem ætlað er að gera og í þeim skilyrðum sem ríkisstjórnin setur fyrir fyrirgreiðslu við Landsbankann er verið að draga Búnaðarbankann inn í dæmið. Hér segir að það skilyrði verði sett að viðræður hefjist milli Landsbankans og Búnaðarbanka Íslands í því skyni að bankarnir skipti á eignahlutum sínum í greiðslukortafyrirtækjum og eignarleigufyrirtækjum sem þeir eiga báðir hlut í þannig að fyrirtækin komist að meiri hluta í eigu annars hvors bankans. Spurningin er: Hvað þýðir þetta fyrir Búnaðarbankann? Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hefur verið haft samráð við Búnaðarbankann um málið?
    Það gefur auga leið að við í efh.- og viðskn. munum að sjálfsögðu kalla á fulltrúa Búnaðarbankans enda þótt ljóst sé að slík eignaskipti yrðu til þess að styrkja stöðu bankanna ef þessi fyrirtæki komast í meirihlutaeign en við verðum samt að gera okkur grein fyrir því hvað þetta þýðir fyrir hvorn banka fyrir sig. Þarna vantar okkur upplýsingar.
    Ég spyr einnig hæstv. viðskrh. hvaða aðrar leiðir en sú sem hér um ræðir komu til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Var rætt um aðrar leiðir? Ljóst er að Landsbankinn lagði áherslu á að farin yrði svipuð leið og farin var á Norðurlöndunum, þ.e. þar sem bankarnir hafa átt í miklum erfiðleikum, en hún felst í því að stofnaður sé eins konar sjóður eða fyrirtæki sem keypti af bankanum ýmsar eignir og skuldir til þess að létta á honum og síðan var það hugmynd Landsbankans að bankinn sæi sjálfur um að koma þessum eignum í verð samkvæmt samkomulagi við ríkisstjórnina. Ég spyr: Hvers vegna var sú leið Landsbankans ekki fyrir valinu? Hvaða gallar voru svo stórir á þessari leið sem farin hefur verið á Norðurlöndunum að ríkisstjórnin hafnaði henni?
    Það gefur auga leið að hefði sú leið verið valin að stofna sjóð eða fyrirtæki hefði það komið miklu betur út í bókhaldi Landsbankans, en með þeirri leið sem hér er valin verða reikningar ársins 1992 með tveggja til þriggja milljarða kr. halla sem er auðvitað mjög slæmt fyrir stöðu bankans út á við. Auðvitað vaknar sú spurning hvort er mikilvægara að reikningar Landsbankans sýni lítinn sem engan hallarekstur eða bókhaldið hjá ríkissjóði. Hvort er mikilvægara?
    Ég ætla að víkja nokkrum orðum að gangi mála undanfarinn sólarhring og við hljótum að velta því fyrir okkur hvers vegna hér hefur verið farið fram af slíkum hraða og óðagoti sem mér finnst hafa einkennt málið. Ég get ekki annað en lýst þeirri skoðun minni að ég tel að svona hamagangur og sjónarspil eins og ríkisstjórnin setti á svið í gær geti orðið til þess að ekki eingöngu að skaða Landsbankann heldur einnig lánstraust Íslendinga út á við. Menn geta skapað panik með slíkum aðgerðum og eins og þetta horfir við mér var það ríkisstjórnin sem skapaði mikla spennu í gær með því að fresta fundum Alþingis, boða ríkisstjórnarfund á mjög óvenjulegum tíma, boða síðan þingflokksfundi og svo blaðamannafund. Þetta varð auðvitað til þess að skapa mikla spennu. Við kvennalistakonur höfðum ekki hugmynd um hvað þarna var á ferðinni enda var ekki hringt í okkur um hádegi í gær, eingöngu í Steingrím Hermannsson, formann Framsfl., að því er virðist og það var heldur ekki haft samband við okkur í dag til þess að ræða gang mála, ekki fyrr en haldinn var forsetafundur, þ.e. fundur forseta og þingflokksformanna. Hér hefur því ekki verið um neitt samráð af neinu tagi að ræða. Við hljótum auðvitað að spyrja hvaða ástæða er fyrir því að ríkisstjórnin hefur eingöngu samband við formann Framsfl. Þó Framsfl. sé stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn þá er hann ekki einn í stjórnarandstöðu. Ég held að það hafi bara verið til þess að bæta meðferð málsins og hraða henni ef eðlilegt samráð hefði verið haft við stjórnarandstöðuna. En ég vil lýsa því hér að ég tel ekki nokkra ástæðu og ég held ekki nokkur maður hafi áhuga á því að tefja þetta mál með nokkrum hætti en það þarf bara einfaldlega að fá eðlilega umfjöllun.
    Við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur ef þetta frv. verður að lögum. Ég held í fyrsta lagi að ekki sé nokkur vafi að með þessum aðgerðum verður staða Landsbankans mun styrkari en hún er núna og ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann telji að þessi aðgerð --- ég ætti kannski frekar að beina spurningunni til hæstv. fjmrh. sem hér er mættur --- muni skapa Landsbankanum forsendur fyrir vaxtalækkun. Telur hann að þetta geti leitt til vaxtalækkunar bankans?
    Á fundi efh.- og viðskn. í morgun kom fram að menn telja að fréttir af þessari uppákomu geti orðið til þess að hækka vexti á lánum erlendis sem Íslendingar þurfa að taka og það væri auðvitað mjög slæmt ef svo færi. Ég vildi gjarnan heyra álit þeirra ráðherra sem hér eru á þeirri fullyrðingu.
    Í þriðja lagi þá munu þessar aðgerðir að sjálfsögðu hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs, hjá því verður ekki komist. Fyrst hæstv. fjmrh. er sestur í salinn að nýju vil ég endurtaka þá spurningu sem ég bar fram áðan um þessa tvo milljarða kr. sem á að taka úr ríkissjóði, og spyrja hvaðan eigi að taka þá peninga. Að vísu er bent á fleiri leiðir en beint framlag.
    Í ljósi þess ástands sem við erum að ræða þá hef ég velt því mikið fyrir mér hvort ekki sé full ástæða til þess að fara rækilega ofan í útlánastarfsemi Landsbankans, skoða það hvernig þeirri starfsemi hefur verið háttað á undanförnum árum. Við höfum fengið upplýsingar um það í hvaða greinum tapið hefur einkum átt sér stað en ég held það væri vissulega ástæða til þess að fara mjög rækilega ofan í þetta.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna það að ég tel að stjórn Landsbankans og reyndar fleiri banka en þó einkum og sér í lagi Landsbankans árum saman hafi verið að mörgu leyti óviðunandi. Ég tengi það því að bankastjórastöður hafi verið veittar eftir pólitískum leiðum. Þar hefur ekki legið faglegt mat að baki

og ég tel þetta algerlega óviðunandi og að það hafi skaðað Íslendinga og íslenskt efnahagslíf mikið hvernig staðið hefur verið að því að skipa stjórnir helstu fjármálastofnana landsins og þarna verður breyting að verða á. Það verður að hætta að úthluta bankastjórastöðum til fyrrverandi stjórnmálamanna eða leysa einhver innanflokksvandamál með því að gera menn að bankastjórum og það ber að gera miklar, faglegar kröfur til þeirra sem stjórna bönkunum. Við vitum það að í gegnum bankana hefur fé verið veitt í alls konar fyrirtæki og fjárfestingar sem aldrei áttu nokkurn grundvöll. Þessu verður að linna. Ég held reyndar að það hafi nú orðið töluverð bót á og fagmennskan sé heldur að sækja á í bönkunum, en það er mikil vinna fram undan í þeim efnum.
    Varðandi rás viðburða hér í gær, þá er það rétt sem hér hefur komið fram að stjórnendur Landsbankans töldu sig hafa nokkurn frest og áttu ekki von á því að atburðarásin yrði með svona miklum hraða og ég spyr auðvitað: Hvað gerðist eftir fund hæstv. viðskrh. með stjórnendum Landsbankans í gær? Hvað var það sem olli því að ákveðið var að fara í þetta mál með svona miklum hraða og hver var það sem tók þá ákvörðun, hvar var sú ákvörðun tekin? Þetta kemur okkur býsna spánskt fyrir sjónir sem fylgdumst hér með rás viðburða í gær. Og í ljósi þessa hraða hljótum við að velta því fyrir okkur, hvaða skilaboð ríkisstjórnin sé að senda þjóðinni með þessum aðgerðum og með þessu óðagoti. Er ríkisstjórninni að sýna þjóðinni að hún sé svona einhvers konar ,,súpermann`` sem birtist á ógnarhraða á neyðarstundu og bjargar málunum? Hér sitji ríkisstjórn sem grípur til aðgerða þegar á þarf að halda. Ég held nú reyndar að það sé nokkuð til í þeirri skýringu að ríkisstjórnin sé að reyna að sýna þjóðinni að hún geri eitthvað því að hún hefur ekki haft það orð á sér að bregðast við þeim erfiðleikum sem við okkur blasa. Maður veltir því líka fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé fyrst og fremst að senda samtökum launafólks skilaboð sem nú standa í kjarasamningum. Eru þetta skilaboð um það að hér ríki svartnættisástand sem boði hvorki launhækkanir né kaupmáttaraukningu? Er kannski verið að boða skerðingu og launalækkun í anda Færeyjaleiðarinnar? Hvaða skýringar eru á þessu? Ég held að það geti ekki farið á milli mála að hér hefur verið farið fram af of miklum hraða og hefur verið skapaður nokkur órói sem ég vona svo sannarlega að hafi ekki mikil áhrif þegar til lengri tíma verður litið.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fara nánar út í þetta mál að sinni. Við kvennalistakonur erum efnislega sammála því að nauðsyn hafi borið til þess að grípa til aðgerða en ég ítreka það að ég hef ákveðinn fyrirvara við einstakar greinar þessa frv. og ég geri þá kröfu að í efh.- og viðskn. fáum við þann tíma sem við þurfum til þess að vinna þetta mál því ég fæ ekki með nokkru móti séð að það liggi svo mikið á að það þurfi að keyra þetta frv. hér í gegn á einum sólarhring eða svo. Ég held að það skipti miklu meira máli að málið sé vel unnið og traust þannig að öllum megi ljóst vera að Landsbankinn standi styrkur.