Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:50:32 (6109)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram vegna spurningar sem hv. 18. þm. Reykv. beindi til mín að það er unnið að útfærslu á aðgerðaáætlun til sparnaðar og hagræðingar í rekstri Landsbankans, m.a. í samstarfi Seðlabanka og Landsbanka að tilmælum viðskrn. Það starf er á góðum vegi og reyndar í framhaldi af góðu starfi innan bankans sem unnið hefur verið af því tagi.
    Það var spurt hvort þessar aðgerðir dygðu, þær sem við ræðum hér í dag. Ég tel að með þessum ákvörðunum sé verið að setja traustan grundvöll fyrir Landsbankann. Ég vildi svara því líka með eignaskiptin að þau hafa verið rædd við bankastjórn Búnaðarbankans af minni hálfu og reyndar við fleiri af eigendum þeirra félaga sem þarna koma við sögu, en það er mjög mikilvægt að ríkið nýti þessar eigur sínar til þess að gefa sínum lánastofnunum það mesta traust sem út úr þeim má hafa.
    Hv. þm. spurði líka hvers vegna ekki hefði verið litið á þá leið að ríkið keypti kröfur og eignir sem kyrrstæðar væru í reikningum bankans og bankanna. Ég tel að það sé ekki heppileg leið eins og ég fjallaði um í alllöngu máli í framsöguræðu minni og ég vísa til þess.
    Síðan vék hv. þm. að því eins og reyndar ýmsir þingmenn aðrir hér fyrr í dag hvers vegna tímasetningar funda, viðræðna og ákvarðana hefðu verið með þeim hætti sem varð í gær. Ég vil leyfa mér, með mikilli virðingu fyrir hv. 18. þm. Reykv. og öðrum sem hér hafa talað, að benda á að þetta eru aukaatriði. Það er fagnaðarefni að hv. 18. þm. Reykv. eins og hv. 7. þm. Reykn. lýsir almennum stuðningi sínum við þessar aðgerðir og fagna þeim. Það er virðingarvert en ég bið menn nú að tala um kjarna málsins, ekki aukaatriði.