Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 11:39:26 (6253)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég benda á að það er alls ekki fjallað um leiðirnar til þess að bæta eiginfjárstöðu Landsbankans með óskýrum hætti í þessum tillögum. Það sem þar er lagt til er valið að ráðum endurskoðenda bankans og bankaeftirlits sem hafa tekið fullan þátt í undirbúningi þessa máls og lýst sérstaklega stuðningi við þessar aðgerðir. Það sama gildir um bankastjórn Landsbankans.
    Hvort umfjöllun um þetta mál veki traust og viðhaldi því á íslenskum bönkum þá leyfi ég mér að vekja athygli hv. þm. á því að hann er líka þátttakandi í þeirri umfjöllun sem um það mál skiptir verulega miklu. Þess vegna held ég að menn ættu líka að velja orð sín þótt þeir séu í stjórnarandstöðu og kjósi að vera á móti því sem hér er lagt til, en vil að endingu þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir það hvernig hún hefur haldið á þessu máli og alveg sérstaklega meiri hlutanum sem hér stendur saman að nál.