Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 12:44:16 (6260)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Vegna þeirra orða hv. 5. þm. Vestf. að sagt hafi verið að afskrifa þurfi sérstaklega 5.800 millj. kr. á þessu ári í rekstri Landsbankans þá vil ég nota þetta tækifæri til að leiðrétta það. Það sem segir í athugasemdum frv. er efnislega að endurskoðandi bankans og ríkisendurskoðandi og reyndar bankaeftirlit telji nauðsynlegt að afskriftareikningur útlána, þ.e. það fé sem lagt er til hliðar til að mæta hugsanlegum áföllum, verði 4.500 millj. kr. í árslok 1992 en að æskilegt væri að sú fjárhæð, þ.e. þessi varúðarfjárhæð, verði enn hærri eða 5.800 millj. kr. Þetta er bakgrunnur þeirra tillagna sem hér eru gerðar. Með þeim er alls ekki sagt --- og ég endurtek --- alls ekki sagt að slíkar afskriftir þurfi að gera og þaðan af síður sérstaklega eins og hv. þm. orðaði það. Þegar málið er skoðað er ég viss um að hv. þm. verður mér sammála um þann skilning á efninu sem hér liggur fyrir.
    Að lokum vil ég benda á það sem reyndar hefur áður verið gert í þessum umræðum að um val leiða til að bæta stöðu Landsbankans eru rúmar heimildir í 1. gr. frv. og ekki hyggilegt að ræða á þessu stigi nákvæmlega hvernig það verður gert eða hvernig það muni á endanum birtast í reikningsskilum bankans. Eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. er efnið hið sama þótt við getum fengið í ljós ýmsar myndir af þessu í reikningunum. Þar verða valdar þær leiðir sem endurskoðendur bankans og stjórnendur hans í samráði við ríkisstjórnina telja affarasælastar fyrir bankann og fyrir ríkissjóð, eiganda hans.