Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:30:37 (6277)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Enn hlýt ég að lýsa furðu minni á því að hv. 8. þm. Reykn. hefji umræðu um annað mál en það sem er á dagskrá þessa fundar. Ég vil láta koma alveg skýrt fram að í málinu er alls engin óvissa. Ekki síst með þeim aðgerðum, sem koma nú til atkvæða, hefur íslenska ríkið sett fullan stuðning á bak við íslenska bankakerfið, ríkisbankana jafnt sem aðra banka og alveg sérstaklega eflt eiginfjárstöðu Landsbankans. Ekki þarf frekar vitna við um það hvernig íslenska ríkið lítur á þetta mál. En þegar horft er til lengri framtíðar verða ekki gefnar yfirlýsingar af mér um það að stjórnin hafi breytt þeirri grundvallarstefnu sinni að hyggilegt sé að huga að breytingum á rekstrarformi bankanna. Um val á tíma til þeirra hluta mun ég alls ekki láta að duttlungum hv. 8. þm. Reykn. um það hvenær tímasetningar verða ákveðnar í því máli.