Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:37:26 (6279)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 8. þm. Reykn. heldur áfram sínum makalausa og rakalausa málflutningi. Hann gerir því skóna og byggir málflutning sinn á því að fram hafi komið stefnu- og skoðanamunur milli viðskrh., þess sem hér stendur, og forsrh. og seðlabankastjórans um hvort tveggja, stefnuna í sambandi við rekstrarform ríkisbankanna og hugsanlega einkavæðingu þeirra. Í öllum greinum er þetta rangt. Sé það efni skoðað sem hv. 8. þm. Reykn. leggur út af kemur í ljós að allir þessir þrír menn hafa í þessum atriðum lýst sömu viðhorfum. Það gildir jafnt um stefnuatriðin í málinu og tímasetningarnar í því.
    Ég vil því að lokum segja alveg skýrt að í þessu máli er engin óvissa. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur í þessu máli valið, eins og hún vill velja í öllum málum, þá leið sem tryggir best hagsmuni fólksins í landinu, þess fólks sem hv. 8. þm. Reykn. var að gera sér upp samúð með að þurfa að standa undir álögum vegna Landsbankans. Það er að sjálfsögðu rétt að þetta frv. er ekki hlutur sem menn bera fínlega fram. En það er kjarni málsins að það er líka ábyrgð Alþingis og ábyrgð ríkisstjórnarinnar að finna þann farveg fyrir bankakerfi okkar sem tryggir best almannahagsmuni.