Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:44:46 (6367)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég fagna því að í ræðu hv. 8. þm. Reykn. kom fram vilji til að styðja breytingar á Seðlabanka Íslands í þá átt að gera hann betur færan um að starfa í opnu umhverfi, á opnum fjármagnsmarkaði, og beita nútímalegum vinnuaðferðum í stjórn peningamála. Þetta er að sjálfsögðu megintilgangur frv. Og mig langar til að rifja það upp að þegar frv. var upphaflega kynnt eins og það kom frá nefndinni í apríl í fyrra lýstu forustumenn Alþb. og Kvennalistans auk fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna stuðningi við meginstefnu frv.
    Að mínu áliti leggur hv. 8. þm. Reykn. allt of mikið upp úr mannaskipan og stjórnarákvæðum þessa frv. Ég er alveg opinn fyrir umræðum um að breyta þeirri tillögu sem nefndin gerir, sem er málamiðlun innan hennar. Mitt sjónarmið er að sú tillaga, sem fulltrúi Alþb., Már Guðmundsson, gerði í nefndinni um að þarna væri einn bankastjóri, sé tillaga sem mjög vel komi til greina. Ég taldi ekki rétt að breyta þessu í frv. eins og það kom frá nefndinni. Þetta verðum við að sjálfsögðu að ræða í þinginu. Ég kannast ekki við að ég hafi lagt upp með neina aðra meðferð á þessu máli en þá sem gefur kost á því að ræða þetta eðlilega í þingnefndinni og vildi með þessum orðum, virðulegi forseti, eingöngu leggja áherslu á að það er mikilvægt að þetta sé rætt vandlega og að víðtæk samstaða takist um þessa mikilvægu stofnun í okkar stjórnkerfi.