Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 17:46:47 (6386)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi koma að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hv. 18. þm. Reykv. Ég tók eftir því að hv. 18. þm. Reykv. taldi ekki fara vel á því að ræða eins og í samningastíl um það hver ætti að verða seðlabankastjóri á þessum vettvangi. Undir það tek ég með hv. 18. þm. Reykv.
    Um gengisákvæðin í þessu lagafrv. er það rétt, eins og fram kom hjá hv. þm., að það mál er hér lítt breytt frá því sem þingið hefur áður samþykkt án mótatkvæða. Opnar heimildir í lögum fyrir seðlabanka að ráða tilhögun gengismála er reglan í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Reyndar má segja að í þeim lagaákvæðum sem hér er gert ráð fyrir og reyndar í þeim lögum sem nú gilda um þetta mál eru víðtækari fyrirmæli um opinbera stjórn á þessum vettvangi en algengast er.
    Um hlutverk Seðlabankans sem viðskiptavaka ætla ég ekki að hafa mörg orð að þessu sinni, tel heppilegt að það sé rætt í hv. efh.- og viðskn. En það á að sjálfsögðu við á verðbréfamarkaði og á þeim millibankamarkaði með gjaldeyri sem mun myndast.
    Um eftirlitið, hverjir líti eftir bankanum, er það að sjálfsögðu bankaráðið eins og þetta lagafrv. er sett upp.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að ræða mikið um stjórnskipulagið. Ég tel það einmitt vera verkefni hv. efh.- og viðskn. að kanna það vandlega. En ég vildi að lokum segja vegna spurningarinnar um það hvaða atvinnufyrirtæki það gætu verið sem Seðlabanki gæti stöðu sinni og hlutverki samkvæmt tekið þátt í, þá bendi ég á að það er ekki óhugsandi að upp kynnu að verðar settar slíkarstofnanir eins og reiknistofnun banka eða einhverjar þjónustu- eða útgáfustofnanir fyrir bankakerfið í heild.