Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 19:26:06 (6401)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls við 1. umr. um seðlabankafrv. Í máli þeirra hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ábendingar sem ég er viss um að hv. efh.- og viðskn. mun taka til gaumgæfilegrar skoðunar.
    Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. Mér þótti athyglisvert að ólíkt hv. 8. þm. Reykn. taldi hv. 4. þm. Norðurl. e. engan skort á stjórntækjum í Seðlabankanum miðað við það frv. sem hér liggur fyrir. Þar fór þeim gerólíkt, hv. 8. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Norðurl. e.
    Ég get verið hv. 4. þm. Norðurl. e. sammála um að það er mikill vandi að ná niður raunvöxtunum við þau skilyrði sem við búum nú við. Segja má að það sé einn helsti tilgangur þessa frv. að finna þau stjórntæki sem koma á betra jafnvægi á lánamarkaðnum við lægra vaxtastig við skilyrði lágrar verðbólgu eða helst stöðugleika í verðlagi. Þetta er sú þraut sem flestum ríkjum hefur gengið illa að glíma við. Ég vil hins vegar vara hv. 4. þm. Norðurl. e. við því að draga ályktanir af því hvort frjálsræðið í vaxtamálum muni duga miður eða betur út frá þeim árum sem liðin eru frá því að það var innleitt hér. Svo vill til að það er einmitt tíminn sem fellur saman við efnahagslægð, eina þá lengstu sem hefur gengið yfir heimsbúskapinn á seinni tímum og reyndar enn lengri í þjóðarbúskap okkar. Ég vil láta í ljós þá skoðun að þar hafi margt tekist vel þótt sumt megi betur fara. Það er einmitt megintilgangur þessa frv. að finna betri lausnir. Ég treysti þess vegna á gott samstarf við hv. efh.- og viðskn. að fjalla ítarlega um þau mál sem hér hefur borið á góma.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék nokkuð að bankaeftirlitinu. Ég vek athygli á því að nefndin sem samdi frv. var sammála um að það væri skynsamleg stefna við aðstæður okkar að hafa bankaeftirlitið hluta af Seðlabankanum. Það er reyndar rétt eins og kom fram í máli hv. þm. að það er sú þróun sem er að verða í löndunum sem við lítum oftast til. Þar hafði áður ríkt eins konar sjálfstæðishreyfing fyrir bankaeftirlitið. En menn eru svo komnir að þeirri niðurstöðu að það sé heppilegast að tengja það við þá stofnun sem hefur yfirumsjón með lánamarkaðnum, Seðlabankann, og það á áreiðanlega við okkar fámennisskilyrði. Mjög oft er kvartað yfir hátimbruðum yfirbyggingum í þjóðarbúskap okkar, ekki síst í Seðlabankanum. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að Seðlabankinn hefur oft og tíðum verið ómaklega gagnrýndur á liðnum árum. Sannarlega er ég ekki í hópi þeirra manna sem hafa vegið að honum. Ég tel þvert á móti að það sé einmitt stofnun sem við þurfum núna að efla.
    Þá kem ég að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. um stjórnarfyrirkomulagið. Auðvitað er rétt að það er aðalatriðið að fagleg sjónarmið ráði þegar menn eru skipaðir í æðstu stöður og auðvelt er að taka undir það að það skiptir meira máli en fjöldi starfsmannanna. Þar er náttúrlega við það sama að fást og ég nefndi áðan að við megum ekki hlaða upp allt of mikilli yfirstjórn. Þess vegna tel ég að það eigi að kanna það vandlega í hv. efh.- og viðskn. hvort komast megi af með færri menn í æðstu stjórn bankans. Ég get tekið undir það að það sé tillaga sem vel megi ræða hvort einn aðalbankastjóri sé rétt fyrirkomulag. Ég bendi þó á að ég valdi þann kost að flytja inn á þingið óbreytta málamiðlun nefndarinnar sem frv. samdi. Ég tek það fram að ég tel það einmitt eðlilegt að þetta álitamál verði sérstaklega kannað af þingnefndinni áður en hún skilar nefndaráliti sínu.
    Um stöðu og styrk Seðlabankans, þá er það alveg rétt ábending hjá hv. þm. að eiginfjárstaða Seðlabankans þyrfti að vera sterkari. Þess vegna er frv. einmitt svo úr garði gert sem raun ber vitni. Þar er beinlínis sett það markmið að meira en tvöfalda eiginfjárstöðuna á nokkrum næstu árum í hlutfalli við þjóðarframleiðsluna. Þetta er nauðsynlegt til þess að mynda sterkari bakhjarl fyrir frjálsræði í viðskiptum til þess að Seðlabankinn geti gegnt sínu hlutverki og líka til þess að losna út úr bindiskylduvandanum sem hefur lengi loðað við bankakerfi okkar. Þetta er hins vegar mál sem hlýtur að taka nokkurn tíma og þar verður líka að taka tillit til fjárhagssjónarmiða ríkissjóðs sem hefur notið verulegra tekna af rekstrarafgangi Seðlabankans. Ég er sammála hv. þm. um að það er mjög mikilvægt að stofnunin verði efld um leið og aukið frjálsræði er veitt í gjaldeyrisviðskiptum og milliríkjaviðskiptum yfirleitt og á fjármagnsmarkaði.
    Kannski má segja það að nær allir þeir sem hér hafa talað hafi mælt með því að auka sjálfstæði Seðlabankans. Þar má kannski undanskilja hv. 1. þm. Norðurl. v. Allir aðrir töluðu um það sem æskilegt markmið. Ég tel að það sé í samræmi við þá almennu skoðun að aukið sjálfstæði Seðlabanka geti leitt til þess að það gangi betur en ella að halda verðbólgunni í skefjum. En einmitt vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. finnst mér rétt að við reynum aðeins að skilgreina nánar hvað átt er við með sjálfstæðum seðlabanka. Í mínum huga er það fyrst og fremst það að sjálfstæðri stofnun sé falið að móta stefnu í peningamálum sem hefur það markmið að tryggja lága verðbólgu. Þannig verður sjálfstæði bankans aukið gagnvart ríkisstjórninni hverju sinni í hinni daglegu stjórn peningamála. Hér er fyrst og fremst um breytta verkaskiptingu að ræða, en ekki breytingu á valdahlutföllum.
    Það er þetta sem ég á við þegar ég tala um sjálfstæðan seðlabanka en alls ekki að hann verði eitthvert ríki í ríkinu sem geti farið sínu fram án tillits til skoðana lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Á sama tíma og dregið væri úr daglegum áhrifum ríkisstjórnar á mótun og framkvæmd stefnu í peningamálum finnst mér mjög mikilvægt að styrkja samtímis önnur tengsl Seðlabankans og almannavaldsins, t.d. með því að auka vald og verksvið hins þingkjörna bankaráðs, t.d. með því að auka upplýsingaskyldu og samskipti Seðlabankans við þingið. Þetta er sú áherslubreyting sem er meginstefna. þessa frv. Ég fagna því að ýmsir, m.a. hv. 4. þm. Norðurl. e., fögnuðu því þegar frv. kom fram og töldu það horfa til þess að færa starf Seðlabankans í nútímalegra horf.
    Ég held að það sé yfirleitt ekki lengur um það deilt að sjálfstæður seðlabanki getur átt veigamikinn þátt í því að halda verðbólgu í skefjum. Spurningin er hins vegar hvernig hægt er að færa sönnur á þetta og rök fyrir því. Mig langar í þessu sambandi að benda á að í tímariti Alþjóðabankans um rannsóknarniðurstöður birtist í lok liðins árs greinargerð um rannsóknir þriggja fræðimanna í Alþjóðabankanum og við Tel Aviv háskólann í Ísrael. Þeir höfðu einmitt kannað tölfræðilega samhengið milli sjálfstæðis seðlabanka á eina hlið og verðbólgu á hina. Við þessa rannsókn kom skýrt í ljós að meðal iðnríkjanna var alveg öruggt tölfræðilega marktækt samband milli sjálfstæðis seðlabanka og lágrar verðbólgu. Þeir litu reyndar ekki einungis á lögbókina heldur skyggndust líka svolítið bak við hana um það hvernig sjálfstæði seðlabankans væri háttað í reynd. Þessi ransókn náði til margra ríkja, allra iðnríkjanna, auk þess til 50 þróunarríkja eða rúmlega það. Rannsóknin náði yfir langan tíma, alveg frá sjötta áratugnum til loka þess níunda.
    Þessi rannsókn, sem á margan hátt er mjög merkileg, styður meginstefnu þessa frv. Ég vil taka það fram að það er ekkert sem segir að aukið sjálfstæði Seðlabankans þýði í sjálfu sér aukna áherslu á markaðslausnir þótt mjög margir sem eru fylgjandi sjálfstæðum seðlabanka séu um leið markaðshyggjumenn. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er fyrst og fremst um það að ræða að búa miðstjórn peningamálanna í landinu þeim tækjum sem duga til þess að koma fram því meginmarkmiði sem bankanum er falið með lögum, eins og hér er gerð tillaga um, stöðugu verðlagi.
    Ég vil að endingu, hæstv. forseti, ítreka það sem fram kom hjá mér hér áðan að ég þakka þær ábendingar sem fram hafa komið í umræðunum. Ég er viss um að hv. efh.- og viðskn. mun kanna þær og aðrar sem fram kunna að hafa komið um þetta mál við sína yfirferð á málinu.