Vegaframkvæmdir í Vestur-Barðastrandarsýslu

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:39:14 (6635)

     Fyrirspyrjandi (Jörgína Jónsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 799 til hæstv. samgrh. svohljóðandi:
    ,,Hvað er fyrirhugað til að bæta akvegasamband þéttbýlisstaðanna í Vestur-Barðastrandarsýslu við ferjuhöfnina á Brjánslæk?``
    Það var ljóst á sínum tíma þegar ákveðið var að fara út í byggingu á nýrri Breiðafjarðarferju að sú framkvæmd var löngu orðin brýn. Bæði var aðbúnaður starfsfólks og farþega um borð orðinn í alla staði óviðunandi miðað við nútímakröfur fólks um aðbúnað á ferðalögum. Það var því mikil bylting á samgöngum íbúa Vestur-Barðastrandarsýslu þegar nýja ferjan kom og af þeim tölum sem framkvæmdastjóri Baldurs hf., Guðmundur Lárusson, gaf mér um fjölda farþega og bíla sem nýtt hafa sér ferjuna frá því hún kom í apríl 1990 er ljóst að um aukningu milli ára er að ræða. Þó stendur árið 1991 upp úr hvað það snertir. Samtals voru bílar árið 1990 6.012 í 860 ferðum og farþegar 20.016. Árið 1991 voru bílar samtals 7.269 í 836 ferðum eða 24 ferðum færri en árið 1990. Farþegar voru samtals 24.943. Árið 1992 fækkar ferðum enn eða í 784 og í kjölfarið fækkar bílum í samtals 6.647 og jafnframt farþegum í 21.985.
    Það er því spurning hvort ekki mætti fjölga þeim sem nýta sér ferjuna. Þá kemur fyrst upp hugsanlega bættur akvegur frá Patreksfjarðarbotni við Kleifaheiði um Barðaströnd að Brjánslæk. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um ástand vegarins, þ.e. Barðastrandarvegar núna, þá er hann það slæmur að fólk hugsar sig tvisvar um áður en það leggur bílana sína í slíka ófæru. Þarna er bókstaflega hola við holu. Þegar ég spurði um Kleifaheiði fékk ég það svar að hún væri sem hraðbraut yfirferðar miðað við Barðaströndina svo menn geta ímyndað sér hvernig ástandið er.
    Ég ætla nú ekki að gerast mjög langorð um þennan eina vegarkafla en vil þó vekja athygli á ástandi hans og tel það brýna nauðsyn að þarna verði eitthvað gert. Þetta er þjóðbraut og með það í huga að þéttbýlisstaðirnir á sunnanverðum Vestfjörðum hafa hafið mikla uppbyggingu á ferðaþjónustu og auglýst þá þjónustu skiptir það miklu máli að sú uppbygging skili árangri. Með tilliti til þess er mikilvægt að vegir séu nokkuð greiðfærir yfirferðar svo ekki sé meira sagt.