Norræni fjárfestingarbankinn

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:25:16 (6695)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þann stuðning við þetta mál sem fram kom í máli hv. 18. þm.

Reykv. Ég vil fyrst vegna þeirra spurninga og athugasemda sem beint var til mín um þann þátt málsins sem lýtur að aðstoð við Eystrasaltsríkin láta það koma skýrt í ljós eins og reyndar kemur glöggt fram í athugasemdum við 2. gr. frv. að hér er um fjölþættan stuðning að ræða. Það sem ég tel einna mikilvægast er að Norðurlöndin hafa sameinast um að veita það sem kalla mætti nágrannaaðstoð við Eystrasaltsríkin þrjú. Þótt Íslendingar séu landfræðilega fjarri þessum vettvangi, þá teljum við þetta vera okkar granna sögulega og á ýmsan hátt. Við höfum sérstaka samkennd með þessum þjóðum.
    Það er einsdæmi í aðstoð við fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna að löndin sem eru nágrannar þeirra hafi tekið á þennan hátt saman höndum um að koma á ekki eingöngu neyðaraðstoð heldur líka aðstoð við skipulagsumbætur í rekstri þessara þjóðfélaga. Ég tel að það sé kannski ekki minnst um vert að þarna er gert ráð fyrir því að veitt verði liðsinni við að koma á fót fjárfestingarlánastofnun í hverju þessara ríkja þar sem hvert þeirra getur sjálft fengist við að sinna þörfum smáfyrirtækja og meðalstórra fyrirtækja í þessum löndum eftir viðskiptalegum reglum. Það hefur því miður orðið nokkur töf á því að einn af þessum bönkum hæfi störf, sá í Litáen, einfaldlega af því að þar voru menn ekki tilbúnir til að setja upp þannig fyrirkomulag að hægt væri að segja að þar yrði eðlilegt eftirlit með fjárfestingu og framkvæmdum. Þarna er samstarfið við Evrópska endurreisnarbankann sem hefur sitt aðsetur í London mjög mikilvægt. Reyndar var með þessari aðgerð Norðurlandanna laðað fram viðbótarfé eins og hér kemur fram með sérstökum sjóði hjá Evrópska bankanum fyrir áhættufjárfestingu í þessum löndum.
    Það verður ekki lögð á það næg áhersla sem ég tek heils hugar undir og fram kom í máli hv. 18. þm. Reykv., að það verði fylgst með því að þessu fé verði ekki á glæ kastað og það rati ekki inn í blindgötur í kerfi eða leifum af kerfi fyrri valdhafa. En það er líka mikilvægt --- og það er sérstaklega mikilvægt í starfsreglum og viðmiðunum evrópska bankans --- að mannréttindasjónarmiða sé gætt. Þar hefur Evrópubankinn tekið sig sérstaklega fram um að styðja við mannréttindabreytingar og umbætur og líta til með framkvæmd þeirra í þessum löndum þar sem hætta er á misrétti, m.a. vegna mismunandi málsamfélaga, trúsamfélaga o.s.frv. Þessir þættir málsins koma allir við sögu. Ég get fullvissað hv. þm. um að það vakir mjög í huga þeirra sem að þessu máli standa að þarna verði tryggilega um allt eftirlit búið.
    Vegna þeirrar spurningar sem hv. þm. tók upp um starfsemi Norræna fjárfestingarbankans, vil ég leyfa mér að vísa til þeirrar skýrslu um norrænt samstarf sem nýlega hefur verið lögð fram í þinginu þar sem m.a. kemur fram greinargerð um lánveitingar Norræna fjárfestingarbankans til Íslands. Hann hefur tekið þátt í mjög margvíslegri atvinnuuppbyggingu hér á landi á þeim 16 árum sem hann hefur starfað. Ég get ekki vegna viðskiptaleyndar rætt einstök verkefni sem þar kunna að vera á döfinni en vil eingöngu segja um það almennum orðum að ég tel að Norræni fjárfestingarbankinn sé eitthvert allra best heppnaða samstarf á norrænum vettvangi sem saga þess geymir. M.a. hefur það birst í því að þessi stofnun stendur traustum fótum og nýtur betra lánstrausts en nokkurt norrænt ríki gerir nú um þessar mundir. Það skilar sér að sjálfsögðu í hagstæðum kjörum. M.a. hefur Norræni fjárfestingarbankinn verið milligönguaðili um útvegun lánsfjár fyrir okkar stærstu atvinnuvegalánasjóði eins og Iðnlánasjóð, eins og Fiskveiðasjóð og reyndar einnig Byggðastofnun. Þetta læt ég nægja án þess að ég fari hér að telja upp einstakar lánveitingar, en vil að lokum segja að nú er mjög mikilvægt að Norræni fjárfestingarbankinn einbeiti sér að því að tryggja norræna hagsmuni á hinu Evrópska efnahagssvæði. Og ég get séð það fyrir að þar muni e.t.v. þurfa að breyta viðmiðunum í starfi hans. T.d. að því verði breytt sem áður hafa verið skilgreindir sem norrænir hagsmunir og er alger forsenda fyrir lánveitingum af hálfu bankans, í samstarfi séu aðilar frá fleiri en einu norrænu ríki. Ég er ekki viss um að það sé nauðsynlegt að halda fast við það. Aðalatriðið er að bankanum verði beitt til þess að norrænir framleiðendur hasli sér völl á þessu stóra markaðssvæði. Ég veit að það er mikill hugur í stjórnendum bankans að sinna einmitt því verkefni.