Útboð opinberra aðila

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:24:50 (6789)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :

    Virðulegi forseti. Það sem er áþreifanlegt af því sem hv. 3. þm. Suðurl. hreyfði hér er framkvæmd opinberra útboða og samkeppnisstaða íslenskra tilbjóðenda gagnvart þeim. Að sjálfsögðu heyrir þetta mál undir fjmrh. samkvæmt lögum um opinber innkaup. Ég hef rætt það við Innkaupastofnun og ég veit að hún er að undirbúa reglur til að koma í veg fyrir að svo klaufalega sé að verki staðið sem dæmin greindu frá sem hv. málshefjandi kom með í fyrstu ræðu sinni.
    Ég minni á að í lögunum frá 1987 um opinber innkaup eru ekki nein ákvæði um forgangskaup á innlendri framleiðslu. Hins vegar hafa flestar ríkisstjórnir ýmist af sérstöku tilefni eða almennt ályktað um þetta efni og beitt tilmælum til opinberra aðila um að þeir taki tillit til hagsmuna íslenskra framleiðenda á jafnræðisgrundvelli. Þetta tel ég mjög mikilvæga reglu og að því leyti þarft að taka málið hér upp. En því miður er oft svo að erfitt er að greina í útboðunum milli innlendra og erlendra þátta. Sem dæmi má nefna húsgögn, járn og stálvörur. Þar getur innlendur tilbjóðandi boðið í verk án þess að fram komi hvað mikið af því sem hann býður er innflutt vara. Það er reynsla í opinberum útboðum að flestar útboðslýsingar eru gerðar ef það eru reyndir menn og lýsingum og kröfugerð sé hagað þannig að þetta henti íslenskum framleiðendum en á þessu er stundum misbrestur. Ég tel mikilvægt að Innkaupastofnun og aðrir opinberir innkaupaaðilar hafi kynningu á slíkum málefnum gagnvart hönnuðum og tilbjóðendum á almennum grundvelli einmitt til þess að jafna aðstöðu við tilboðsgerð. Þetta tel ég mjög mikilvægt vegna þess að það er sjónarmið flestra opinberra innkaupaaðila að velja fremur íslenskt en erlent ef um sambærilega vöru er að ræða. Það er svo íhugunarefni að stundum getur þetta reynst erfitt í framkvæmd. En það má ekki stafa af því að útboðum sé hagað þannig að hallað sé beinlínis á hinn innlenda framleiðanda. Það er vítavert eins og ég sagði hér áðan.