Aukin hlutdeild raforku í orkubúskap þjóðarinnar

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 20:05:40 (7596)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég kaus að leggja nokkurt kapp á að þetta mál kæmist örugglega til nefndar og til umsagnar og lagði þess vegna á það áherslu að það kæmist til meðferðar núna og kæmist til umsagnar áður en þinginu lýkur. Þetta er tillaga til þál. um aukan hlutdeild raforku í orkubúskap þjóðarinnar.
    Flm. eru auk mín fimm þingmenn Alþb.
    Frá því að þessi tillaga var lögð fram, en það var í október, hefur ýmislegt gerst í þessum málum. Það er ljóst að það er vaxandi áhugi á því að koma þeirri raforku fyrir sem við erum að framleiða hér í raun og veru umfram þarfir. Við framleiðum 600--700 gígavattstundir á ári sem er umframorkan í raforkukerfi okkar. Sem dæmi má nefna að loðnubræðslur nota árlega orku sem samsvarar 600 gígavattstundum eða allri orku Blönduvirkjunar. Þannig að loðnubræðslurnar gætu notað alla orku Blöndu.
    Það hefur verið gert nokkurt átak í þessum málum í seinni tíð eða á síðustu mánuðum eftir að þessi tillaga var flutt. M.a. hafa garðyrkjubændur fengið tilboð um ódýrt rafmagn, um lækkun á raforkuverðinu um eina krónu á kílóvattstund, þ.e. úr kr. 1,45 niður í 45 aura, og iðnfyrirtæki eins og t.d. Ísaga hafa aukið framleiðslu sína á köfnunarefni og keypt viðbótarrafmagn og sömuleiðis Kaupfélag Skagfirðinga til kjöt- og mjólkurframleiðslu. Þannig að þessi mál eru á verulegri hreyfingu og ég kaus þess vegna, virðulegur forseti, þótt seint sé á þessum fundi að óska eindregið eftir því að málið kæmi til meðferðar, tel ástæðulaust að fara frekar yfir efni þess. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. iðnn.