Flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:36:11 (7716)

     Þuríður Pálsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir flutning þessarar þáltill. Ég tel þó rétt að benda á nokkur atriði sem ég vil gjarnan að komi fram.
    Vissulega er þetta gott mál og löngu tímabært að tryggja það að merk leikrit og einkum íslensk leikverk, sem flutt eru í Þjóðleikhúsinu, verði tekin til flutnings í sjónvarpi eftir að ákveðinn tími hefur liðið frá uppfærslu verkanna í leikhúsinu. Einnig er sjálfsagt að sjónvarpa einstaka sinfóníutónleikum, svo sem ef stór tónverk eru á efnisskrá, t.d. Sálumessa Verdis sem var flutt fyrir skömmu. En hljómsveitarflutningur nýtur sín ekki síður vel í hljóðvarpi þannig að það er varla til bóta að sjónvarpa öllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er einnig svo að leikverk á sviði eru venjulega unnin með öðrum formerkjum en leikverk í sjónvarpi. Tjöld og sviðsbúnaður allur er mjög ólíkur og því þyrfti í flestum tilfellum að gerbreyta öllu umhverfi ásamt því auðvitað að áherslur í leik eru aðrar á leiksviði en við kvikmyndun. Kvikmyndun og leiksviðsverk lúta einfaldlega ekki sömu lögmálum.
    Líka er rétt að taka fram að þótt rekstur þessara stofnana sé að mestu leyti kostaður af ríkissjóði er aðgöngumiðasalan stór þáttur í velgengni starfseminnar og ef ég vísa til þess sem stendur í þáltill., með leyfi forseta: ,,að slíkar sjónvarpssendingar tíðkist víða í nágrannalöndum okkar og hafi gefist vel``, þá eru mjög skiptar skoðanir um það þar sem þetta hefur tíðkast.
    Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að álykta að ef fólk á von á að sjá og heyra þennan listflutning í sjónvarpi muni draga stórlega úr aðsókn, bæði á sinfóníuhljómleika og ekki síst að leikhúsinu. Þá vil ég benda á að nauðsynlegt yrði að gera sérstaka samninga við Félag ísl. leikara fyrir hönd sviðslistamanna leikhússins og einnig við hjóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem tekið er tillit til þeirrar staðreyndar að starfsmenn þessara stofnana eru þegar á launaskrá hjá ríkinu því að væntanlega hefur það vakað fyrir hv. flm. tillögunnar að þeir listamenn sem um ræðir séu þegar á ríkislaunum og ríkissjónvarpið ætti að geta nýtt sér þá starfskrafta á þeim grundvelli. Ef svo væri ekki þá vil ég benda á að eins og stendur í texta tillögunnar, með leyfi forseta, ,,að ríkissjónvarpið hafi miklum skyldum að gegna við fólkið í landinu sem sameiginleg menningarstofnun þjóðarinnar`` eiga þær skyldur ekki síður við annan listflutning og þá aðra íslenska listflytjendur sem eru ekki kostaðir af ríkissjóði svo sem söngvarar, dansarar, hljóðfæraleikarar og aðra leikstarfsemi einnig. Þessa þáltill. þyrfti því að útfæra á mun víðtækari hátt þannig að það verði skýlaus krafa að sjónvarpinu sem ríkisstofnun beri skylda til að flytja list viðurkenndra íslenskra listamanna til þjóðarinnar og gera það jafnmyndarlega og sjónvarpið stendur að öllu því efni sem lýtur að popptónlist sem ég hef ekkert við að athuga annað en það hversu mikið rými slíkt listform fær í sjónvarpinu miðað við klassískan listflutning. Ég mæli því með því að þessi að mörgu leyti ágæta tillaga fái nánari umfjöllun og útfærslu og hæstv. menntmrh. leiti leiða til að gera íslenskum, klassískum listflutningi hærra undir höfði í dagskrá sjónarps en nú er gert. Það er skylda þess og krafa sem íslenska þjóðin á að gera til ríkissjónvarps.