Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:38:55 (7895)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Austurl. óskaði eftir því að ég skýrði frá stöðu þessara tveggja mála sem er verið að undirbúa sem þingmál. Það hef ég gert. Ég ætla mér ekki þá dul að leggja út þá lögfræðilegu þrætubók sem hefur tafið þetta mál. Ég vil í því sambandi, virðulegi forseti, leyfa mér að vísa til deilna sem staðið hafa um afnotarétt og virkjunarrétt fallvatna og afnota til virkjana af landsvæðum sem tengjast Blönduvirkjun sem hv. 4. þm. Austurl. mun vafalaust vera kunnugt um. Þeir sem hafa fylgst með því máli munu fljótt átta sig á því að þar er í lögfræðilegum deilum seilst til raka langt aftur í sögu landsins og farið um víðan völl á mörkum eignarlanda og almenninga og yfirleitt um eignarréttar- og afnotaréttarhugtökin. Það eru fyrst og fremst þessi atriði og að sjálfsögðu bótarétturinn sem á bak við eignarréttarkröfur frá einkaaðilum býr sem er það sem hefur tafið framgang þessa máls. Ég vil alls ekki kenna þetta mál við flokka eða setja það upp fyrir fram á þann veg að það séu flokkamörk í málinu. Hitt er miklu réttara að málið er vandasamt og menn greinir á um það. Ég held að við munum finna á því viðunandi lausn.