Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:52:40 (7899)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að orkan er lykillinn að farsæld þjóðarinnar í framtíðinni. Þess vegna eru þau mál sem hér hafa orðið að umræðuefni milli mín og hv. 4. þm. Austurl. og hv. 9. þm. Reykv. þannig vaxin að það þarf að taka til þeirra tíma þannig að um þau megi nást sem víðtækust samstaða. Ég fagna því að hv. 9. þm. Reykv. lýsti sig reiðubúinn til samstarfs um þessi mál. Þegar ég sagði áðan í minni ræðu að það væru ekki skýr flokkamörk í þessu máli, þá átti ég reyndar við þá mynd sem hann tók af mér ómakið að lýsa hér áðan. Úr því má vinna og úr því þarf að vinna. En það er með þetta mál eins og önnur að það þarf til þeirra réttan tíma. Ég treysti því að við finnum hann í haust. Hv. 9. þm. Reykv. spurði hvort á því væri kostur að leggja fram í hv. iðnn. skjöl og gögn sem undirbúin hefðu verið vegna þessara frumvarpssmíða. Það mál mun ég ræða við formann iðnn., hv. 17. þm. Reykv., og kanna það hvernig því verði best fyrir komið. Ég þekki ekki starfsáætlun þeirrar góðu hv. nefndar það sem eftir lifir þessa þings en mun ræða málið við hann.