Pappírsnotkun þjóðarinnar

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:13:49 (7957)


     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Sú umræða sem vakin er af fsp. hv. 5. þm. Austurl. um pappírsnotkun er þörf. Vegna spurningar hv. 9. þm. Reykv. um eftirfylgd við samþykkt ríkisstjórnarinnar um aukna notkun á endurunnum pappír í ráðuneytunum þá ég hef þegar komið nokkuð að því máli í því sem ég lýsti hér fyrir hönd umhvrh. Ég get líka látið það koma fram að í kjölfar þeirrar samþykktar var aukin flokkun á pappír og það sem sent er til endurvinnslu er núna miklu meira en áður. Skipulag á gagnaeyðingu hefur líka haft þetta í för með sér þótt e.t.v. hafi aukning á frumnotkun endurunnins pappírs ekki orðið sú sem ætlað var þegar þáv. menntmrh., núv. 9. þm. Reykv. gerði þessa tillögu sem samþykkt var. En það hefur sannarlega verið unnið að málinu. Það væri sérstaklega athyglisvert og þarft verkefni fyrir hv. umhvn. þingsins með atbeina hv. 4. þm. Austurl. að kanna það hversu oft á ári Hallormsstaðaskógur fellur fyrir hendi penna- og pappírsglaðra þingmanna. Ég hygg að þar leggi margir drjúgan skerf til verka. Það væri ágætt mál að hv. 5. þm. Austurl. beitti sér fyrir því í samvinnu við hv. 4. þm. Austurl. að kanna þetta mál til hlítar.
    Þá kem ég að því sem hv. 14. þm. Reykv. sagði sem er sannarlega rétt að það þarf að velja pappír við hæfi. Margur endurunninn pappír hefur takmarkað geymsluþol og reyndar mun það gilda um allan nútímapappír að hann endist verr og prentmálið á honum miklu síður en áður var. Þetta leiðir hugann að því að það þurfi að huga að því hvernig best sé að varðveita skjöl og efni sem máli skiptir og þess vegna er það alveg rétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að það að nota endurunninn pappír er ekkert allsherjarhjálpræði. Það er líka ástæða til að leiða hugann að því að margir hafa bent á það að orkujöfnuðurinn við notkun á endurunnum pappír kunni að vera umhverfinu óhagstæður.