Vatnsborð og búsvæði bleikju í Þingvallavatni

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:20:18 (7959)


     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 17. þm. Reykv. spyr um vatnsborð og búsvæði bleikjunnar í Þingvallavatni. Hann spyr hvort umhvrh. hyggist beita sér fyrir því að reglurnar sem nú takmarka yfirborðssveiflur í vatninu vegna raforkuframleiðslunnar verði hertar til þess að vernda betur búsvæði fiska.
    Það er frá því að segja að Þingvallavatn hefur um langt skeið verið nýtt sem miðlunarlón vegna raforkuvinnslu sem hefur haft í för með sér reglubundnar breytingar á vatnsborðinu. Auðvitað geta slíkar breytingar haft neikvæð áhrif á vistkerfi í vatninu, m.a. á lífsskilyrði og hrygningu vatnafiska, svo sem urriða og bleikju. Reglubundnar breytingar á vatnsborði miðlunarlóna geta einnig valdið því ásamt ísmyndun að laus jarðvegur og set skolist burt sem síðan getur haft í för með sér landbrot og aukna hættu á foki. Það er því rík ástæða til þess að reyna að halda vatnsborðinu eins stöðugu og kostur er.
    Því hefur verið haldið fram að há vatnsstaða og miðlun vatns í Þingvallavatni hafi haft neikvæð áhrif á lífríki vatnsins og þar með á bleikjustofna þess, sem komi m.a. fram í landrofi og þverrandi veiði. Einmitt vegna þessara áhyggjumála kannaði umhvrn. sérstaklega hvað gert hefði verið til þess að stemma stigu við sveiflum á vatnsborðinu. Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá Veiðimálastofnun og Landsvirkjun hefur verið gert samkomulag milli veiðibænda við vatnið, Veiðimálastofnunar og Landsvirkjunar um að halda vatnsborðinu stöðugu í sem næst 100,6 m yfir sjávarmáli. Það hefur tekist að halda vatnsborðinu stöðugu í þessari hæð undanfarin ár með fráviki sem nemur 5 eða 10 sm til eða frá og með vísan til þess sem fram kom hér í máli hv. 17. þm. Reykv., eru náttúrlegar sveiflur 20--30 sm. Í reynd hefur verulegu vatnsmagni því verið hleypt niður farveg Sogsins í leysinga- og rigningatíð en dregið aftur úr rennsli í þurrkatíð eins og aðstæður hafa leyft.
    Þegar þetta efni er skoðað, þá hefur umhvrn. ekki séð ástæðu til þess að gera nú kröfu um hertar reglur sem takmarki enn frekar yfirborðssveiflurnar í Þingvallavatni vegna raforkuframleiðslu. Reglurnar eru strangar og þeim er vandlega fylgt. Hitt er svo annað mál, að það hefur komið til umræðu að Landsvirkjun kanni möguleika á því að hleypa vatni aftur í efsta hluta Sogsins til að freista þess að endurskapa náttúrleg tímgunarskilyrði fyrir urriðann sem beið mikinn hnekk þegar Sogið var virkjað. Þetta er mál óskylt því sem hér er rætt um búsvæði bleikjunnar, en auðvitað er það mjög mikilvægt að þær viðamiklu rannsóknir á lífríki vatnsins, sem fram hafa farið undir stjórn Péturs M. Jónassonar prófessors og annarra og rannsóknar Veiðimálastofnunar, verði fylgt eftir. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að Þingvallavatn er ein af perlunum í náttúru Íslands og við verðum að umgangast það af mikilli varfærni og freista þess að viðhalda lífinu þar eftir því sem við frekast getum.