Vatnsborð og búsvæði bleikju í Þingvallavatni

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:26:31 (7961)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 17. þm. Reykv. að við höfum skyldur við framtíðina. Lífríkið í Þingvallavatni er líka hluti af menningararfleifð þjóðarinnar. Við eigum að reyna að tryggja það að bleikjustofnarnir fjórir geti áfram lifað í Þingvallavatni og dafnað þar þannig að þá megi nýta með eðlilegum hætti af þeim sem við vatnið búa og öðrum sem heimsækja þann stað.
    Ég vil taka það fram að ég veit að umhvrh. leggur mikla áherslu á eftirlit með breytingum á fiskstofnunum í þessum vötnum, að eftirlitið verði eflt og hann treystir á að Veiðimálastofnun sjái um það í samvinnu við veiðibændur og aðra sem hlut eiga að máli að þessu sé stranglega framfylgt.
    Vegna þess sem hv. fyrirpsyrjandi hreyfði hér um hvers eðlis breytingarnar á vatnsborðinu væru og hvernig þær hefðu verið á undanförnum árum, þá lýsi ég því yfir að um það mál þarf alveg greinilega að hafa samráð því að ég hef það eftir öruggum heimildum að þessar sveiflur séu ekki nema 5--10 sm frá þessu marki sem að er stefnt að halda vatnsborðinu í, 100,6 m yfir sjávarmáli. ( ÖS: Að jafnaði.) Nei, ég sagði ekki að jafnaði. En ég tek það fram að þar hef ég staðreyndirnar eftir heimildum umhvrn. en það er sjálfsagt að hafa þar það sem sannara reynist og meta það jafnframt hvort jafngildar sveiflur eru þarna á ferðinni.
    Ég vil að endingu, virðulegi forseti, ítreka það sem ég hef áður sagt að það skortir ekki á af hálfu umhvrn. að vandlega verði með þessu máli fylgst og ég þakka hv. fyrirspyrjanda enn á ný að hreyfa því máli sem hér er til umræðu.