Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 14:33:37 (74)



     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi er mikilvægt að setja það alveg skýrt fram að slík breyting á stjórnarskránni, sem hér er gerð tillaga um, er alls ekki nauðsynleg vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Um það mál liggja fyrir afdráttarlausar niðurstöður hinna færustu lögfræðinga. EES-samningurinn fer ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Auðvitað á ekki að breyta stjórnarskrá í hita hins pólitíska leiks. Í öllum lögfræðiálitum sem fram hafa komið í þessu máli leggja menn að sjálfsögðu áherslu á að stjórnarskráin sé grundvallarskjal sem aðeins megi breyta að vel athuguðu máli. Mér finnst það líka vera til umhugsunar fyrir þingheim hvort það væri Íslendingum álitsauki að breyta leikreglunum á lokastigi eftir að hafa staðið í samningum við samstarfsþjóðir sínar í þrjú ár samfleytt? Einnig má spyrja hvort Alþingi eigi nú að rjúka til í skyndingu að gera breytingar á stjórnarskrá og stofna til þingkosninga með þeim óróa og óvissu sem fylgja mundi við ríkjandi efnahags- og fjármálaaðstæður. Miklu réttara, virðulegur forseti, væri að ná samkomulagi um stjórnarskrárbreytingarnar eftir yfirvegun á breiðum grundvelli milli allra stjórnmálaflokka, eins og sem betur fer hefur verið venjan í sögu lýðveldisins, sé mönnum alvara með tillögunum um stjórnlagabreytingar.
    Flutningsmenn gefa í greinargerð þessa frv. sem ástæðu fyrir flutningi þess að þeir vilji heimila með ótvíræðum hætti að lögfesta megi alþjóðlega samninga þótt þeir feli í sér framsal á valdi til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka enda yrði til þess áskilinn aukinn meiri hluti á Alþingi. Í frv. er þessi aukni meiri hluti settur sem þrír fjórðu hlutar alþingismanna. Þetta segja flm. nauðsynlegt vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði sem nú er til meðferðar í þinginu.
    En er þetta í raun og veru tilgangur frv.? Það sem flutningsmönnum virðist reyndar þóknanlegast er að samþykkt frv. þeirra kæmi í veg fyrir staðfestingu EES-samningsins, valdi þannig þingrofi og nýjum kosningum. Frv. er rökstutt í lok greinargerðarinnar með því að það eyði þeirri áhættu sem í því felst að Alþingi samþykki EES-frv. sem síðar kynni að verða úrskurðað ólögmætt. Ég vil, virðulegur forseti, leyfa mér að halda því fram að í þessu efni sé um algerlega þarflausar áhyggjur að ræða eins og ítarlegar athuganir lögfræðinga hafa leitt í ljós. Um lagalega hlið þessa máls liggur fyrir afdráttarlaust álit fjögurra sérfræðinga sem veita fullnægjandi svör um það mál. Þar er enginn vafi talinn á því leika að samningurinn samrýmist stjórnarskránni.
    Auðvitað eru skiptar skoðanir meðal lögfræðinga ekki ný bóla, líka um stjórnarskrármálefni. Það er einmitt þess vegna sem reynir á þingmenn hvort þeir geta sjálfir tekið á málum í samræmi við sína samvisku og þarfir þjóðfélagsins. Það er fullkomlega ástæðulaust að tefja eða flækja EES-málið með slíkum frumvarpsflutningi sem hér er til umræðu. Séu flutningsmenn andvígir EES-samningunum eiga þeir auðvitað að fara beint framan að því máli en ekki leggjast í neina stjórnlagakróka.
    Lítum nú nánar á tillögugrein frv. Þegar hún er skoðuð hljóta menn að álíta að annað tveggja vaki fyrir flutningsmönnum. Annaðhvort eru þeir með frv. í raun og veru að staðfesta þann skilning, að vísu með gagnályktun, að ekkert sé því til fyrirstöðu að óbreyttri stjórnarskrá að samþykkja megi EES-samninginn. Þetta er reyndar að mínu viti rétt skoðun. Eða hins vegar að þeir vilji raunverulega beinlínis opna stjórnskipulega leið fyrir verulegt valdframsal vegna alþjóðasamninga. Er það ætlun þeirra að fara út í stórfellt valdframsal? hljóta menn að spyrja. En þá má líka spyrja hvort þessi tillaga um breytingu á einni grein stjórnarskrárinnar, 21. gr., stangist ekki á við grundvallarreglur 2. gr. stjórnarskrárinnar um það hverjir fari með ríkisvaldið. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að benda á að á því máli er ekki tekið í frv. eða greinargerð þess, eins og þörf væri á, væri þetta raunverulega ætlun flutningsmanna.
    Mér finnst auðvitað nauðsynlegt að það komi skýrt fram hvað það er sem í raun og veru vakir fyrir þeim. Vilja þeir samþykkja EES-samninginn en telja sig skorta til þess stjórnarskrárheimild eða eru þeir í reynd andvígir honum? Af ræðu hv. 1. flm. frv., Steingríms Hermannssonar, við umræðurnar um EES í fyrradag mátti ráða að hann vildi samþykkja EES að því tilskildu að stjórnarskránni yrði breytt. Er þetta rétti skilningurinn? Eru flutningsmenn efnislega samþykkir EES eða eru þeir andvígir samningnum? Þingið og þjóðin hlýtur að ætlast til þess að þeir geri grein fyrir þeirri efnislegu afstöðu sinni. Eða er í reynd verið að nota þessa stjórnarskrártillögusmíð til að þyrla upp pólitísku moldviðri og breiða yfir óeiningu í röðum stjórnarandstæðinga í þessu mikilvæga máli? Að mínu áliti er það afar óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að nota stjórnskipunarmálefni lýðveldisins í þessu skyni. Þau þarf að ræða af íhygli og yfirvegun. Reyndar er að störfum eins og á hefur verið bent, og hefur verið um árabil, sérstök stjórnarskrárnefnd.
    Virðulegur forseti. Í umræðunum um EES-málið að undanförnu og nú síðast í orðaskiptum þeirra hv. 7. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Reykv. á þessum fundi hefur verið nokkuð vikið að umfjöllun um þessi mál í síðustu ríkisstjórn. Í skýrslu sem Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. gaf Alþingi um stöðu samningaviðræðna um Evrópska efnahagssvæði í mars 1991, sem hv. 7. þm. Reykn. hefur hér nokkuð vitnað til, var að sjálfsögðu m.a. fjallað um EES-samningana og stjórnarskrána. Um drög að þeirri skýrslu var ítarlega rætt í þáv. ríkisstjórn en þar er sérstaklega fjallað um þá þætti málsins sem ástæða virtist til að skoða í ljósi íslensku stjórnarskrárinnar.
    Mér finnst, virðulegur forseti, nauðsynlegt að setja efnisatriði þessa máls skýrt fram á þessum fundi. Í lok þessarar skýrslu frá í mars í fyrra segir, með leyfi forseta, þótt í því felist nokkur endurtekning: ,,Telja verður að þær hugmyndir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Tveir flutningsmenn frv. sem hér er til umræðu, hv. alþingismenn Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson, áttu báðir sæti í þeirri ríkisstjórn sem athugasemdalaust lagði þessa skýrslu fyrir þingið. Þær breytingar sem orðið hafa á EES-samningunum, síðan þessi skýrsla var skrifuð, eru í þá átt að EES-samningarnir falli enn betur en fyrr innan ramma stjórnarskrárinnar. Þar á ég ekki síst við það að í stað sameiginlegra EES-stofnana eru komnar sérstakar EFTA-stofnanir, bæði dómstóll og eftirlitsstofnun, þar sem Íslendingar hafa enn skýrari stöðu og áhrif en var í samningsdrögunum í mars 1991. Ég nefni sem dæmi að dómar EES-dómstóls sem þá var fyrirhugaður áttu t.d. að vera bindandi. Nú verða dómar EFTA-dómstólsins aðeins leiðbeinandi.
    Vegna ummæla hv. 7. þm. Reykn., hv. 1. flm. þessa frv., um þetta efni hér áðan ( SvG: Var þm. að mismæla sig. Eru dómar aðeins leiðbeinandi?) --- nei, ég var ekki að mismæla mig --- er nauðsylegt að það komi fram að um aðfararhæfi úrskurðastofnana á hinu sameiginlega Efnahgassvæði að á íslenskum lögum hafa ekki verið gerðar neinar breytingar frá því sem var í mars 1991 en það mátti skilja af orðum hv. 7. þm. Reykn. að hann teldi að svo hefði verið. Það er ekki. Það er þess vegna mikið umhugsunarefni að þessir hv. þm. og um leið formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka skuli nú í ljósi þessarar forsögu málsins og aðdraganda þess kjósa að knýja fram umræður um stjórnarskrármál í beinu samhengi við EES-samninginn. Auðvitað er það rétt, eins og hér hefur komið fram á þessum fundi, að það má ævinlega skoða stjórnarskrána í ljósri breyttra tíma en óháð EES-samningnum að þessu sinni.
    Í lokaorðum skýrslu utanrrh. frá því í mars 1991 segir einmitt, eins og hv. 7. þm. Reykn. vitnaði til hér áðan og ég leyfi mér að endurtaka þá tilvitnun: ,,Í þessu sambandi má hins vegar benda á að ef litið er til þróunar alþjóðamála almennt má vænta aukinnar þátttöku Íslands í samvinnu þjóða á fjölmörgum sviðum efnahagsmála, menningarmála, mannréttindamála og ekki síst umhverfismála. Í ljósi þessarar þróunar er full ástæða til að kanna þörf á nýju ákvæði í stjórnarskrána sem kvæði skýrt á um heimildir til þátttöku í alþjóðasamstarfi.``
    Mér virðist það eðlilegt verkefni stjórnarskrárnefndarinnar, sem nú starfar undir forustu hv. 1. þm. Vestf., að fjalla um þetta og önnur stjórnarskrármálefni. En mig langar til að endurtaka, virðulegur forseti, að það var niðurstaða fyrri ríkisstjórnar, eins og þeirrar sem nú situr, að EES-samningarnir samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það hefur verið tekið skýrt fram alla tíð að þeir brjóti ekki í bága við hana. Hins vegar, og ég undirstrika hins vegar, var þá þegar á það bent að kanna mætti þörf á nýju ákvæði í stjórnarskrána um heimildir til þátttöku í alþjóðasamstarfi.
    Ég vil líka benda á að fyrri ríkisstjórn undir forsæti hv. 7. þm. Reykn., Steingríms Hermannssonar, taldi EES-samningana sjálfa ekki gefa tilefni til stjórnarskrárbreytinga enda hefði þá verið eðlilegast að flytja slíkar tillögur fyrir þinglok 1991 í mars. Það gerðu þeir menn ekki sem nú flytja þetta frv. til stjórnlagabreytinga.
    Virðulegur forseti. Lítum nú nokkru nánar á tillöguna sem hér er gerð um breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar. Í greinargerðinni er sagt að hér sé lagt til að upp verði tekinn svipaður háttur og tíðkast í stjórnarskrám Norðurlanda. En hvernig er þessu farið? Norsk stjórnarskrárákvæði eru ekki síst nefnd til sögunnar í þessu máli. Þá þurfum við að huga að því að í Noregi er við lýði allt annað stjórnskipunarkerfi varðandi þjóðréttarsamninga en hér á landi. Samninga sem hafa í för með sér lagabreytingar má væntanlega telja sambærilega við breytingar á stjórnarhögum í 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Slíkir samningar þurfa samþykki einfalds meiri hluta á þingi eins og fram kemur í 26. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Hliðstæð grein í okkar stjórnarskrá, hin 21., kveður hins vegar einnig skýrt á um heimild fyrir Alþingi til að samþykkja samninga þótt þeir feli í sér kvaðir eða afsal á landi eða landhelgi en sambærilega heimild er ekki að finna í 26. norsku stjórnarskrárinnar.
    Þá hefur það verið nefnt að í 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar eru ákvæði sem sérstaklega heimila Stórþinginu að gera undantekningar frá stjórnarskránni. Þar er sérstaklega kveðið á um að heimilt sé með auknum meiri hluta að fela alþjóðastofnunum vald sem samkvæmt stjórnarskránni er falið stjórnvöldum. Þetta ákvæði er ekki bundið við staðfestingu á þjóðréttarsamningi heldur er þar um að ræða almenna heimild til að víkja frá ákvæðum í stjórnarskrá sem eru eða telja má vera sambærileg 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar en þar eru ákvæði um það hverjir fari með hið þrígreinda ríkisvald. Reyndar felur þessi 93. gr. í norsku stjórnarskránni í sér heimild til að fela slíkt vald alþjóðastofnunum.
    Af þessum fáu orðum má draga þá ályktun að samanburður við norska stjórnskipan segi ekkert um það hvort heimilt sé að samþykkja EES-samninginn á grundvelli 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eða ekki. Ákvæði 26. gr. norsku stjórnarskráinnar er annars eðlis en ákvæði 21. gr. okkar stjórnarskrár. Fullyrðingarnar um það að nauðsynlegt sé að bæta við nýju ákvæði vegna EES eiga ekki við nein slík rök að styðjast.
    Í þessu sambandi er líka rétt að nefna að í greinargerð með samningunum um EES til norska Stórþingsins er þeirri spurningu varpað fram hvort 26. gr. í norsku stjórnarskránni nægi ekki í raun og veru til þess að staðfesta EES þótt hún sé miklu þrengri að orðalagi en 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Niðurstaða Norðmanna er sú að það sé einungis sá þáttur EES-samningsins sem lýtur að eftirlitsvaldi með samkeppnisreglum sem valdi því að ekki sé víst um heimild 26. gr. Það er því engum blöðum um það að fletta að það er í hæsta máta villandi að vísa til Noregs og norsks réttar um fordæmi fyrir þessum tillöguflutningi.
    Þá vil ég líka, virðulegur forseti, leyfa mér að benda á að 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar, sú sem helst er til vitnað í greinargerðinni með frv., var sett í norsk lög á sínum tíma vegna hugsanlegrar aðildar Noregs að Evrópubandalaginu en ekki EES. Henni er nú beitt þar í landi af því að hún er þar á lögbókinni við meðferð EES-samningsins eingöngu vegna eftirlits með samkeppnisreglum þ.e. áskilinn er aukinn meiri hluti við samþykkt hans.
    Mig langar, virðulegur forseti, til að víkja hér nokkrum orðum að því að sömu flutningsmenn og standa að flutningi á þskj. 30 standa að flutningi annars frv. um stjórnlagabreytingu á þskj. 31 um þjóðaratkvæði, m.a. sérstaklega um alþjóðasamninga. ( Gripið fram í: Er það mál á dagskrá?) Spurningin sem ég vildi hreyfa hér, virðulegur forseti, er sú hvort tillögurnar á þskj. 30 og 31 geti í raun og veru farið saman. Ef við gefum okkur það að báðar tillögurnar yrðu samþykktar sem stjórnarskrárbreytingar þá kynni gangur ímyndaðs máls að verða sá að samningur sem samþykktur hefði verið af þremur fjórðu hlutum þingheims, þ.e. með atkvæðum 48 þingmanna, samkvæmt nýrri 21. gr., gæti þurft að ganga til þjóðaratkvæðis samkvæmt ákvörðun þriðjungs alþingismanna, 21 þingmanns, eftir nýrri 46. gr. sem tillaga er um. Þetta gætu meira að segja að hluta til verið sömu mennirnir sem áður samþykktu samninginn. Maður hlýtur því að spyrja: Hvers vegna ætti Alþingi sem a.m.k. að þremur fjórðu hlutum hefði samþykkt slíkan samning að vísa honum aftur til þjóðarinnar. Hér er ekki eingöngu um talnadæmi að ræða, hér er vakin mikilvæg spurning og álitamál um sjálfan grundvöll löggjafarstarfsins og löggjafarvaldsins sem mér virðist að flutningsmenn þessara tveggja tillagna, en það eru sömu mennirnir, hafi hvorki fjallað um né gaumgæft.
    Ég bendi líka á að í frv. á þskj. 31 um þjóðaratkvæði er enginn frestur gefinn vegna málskots samkvæmt hugsanlega nýrri 46. gr. Ekki er hægt að skilja annað af þessu frv. en að þriðjungur þingmanna hafi ótakmarkaðan tíma til að krefjast málskots til þjóðarinnar. Í því segir að vísu að nánari reglur um framkvæmd skuli setja með lögum. Á það má hins vegar benda að með almennum lögum væri ekki unnt að þrengja rétt þingmanna til málskots af því tagi sem hér eru gerðar tillögur um. Einnig má spyrja varðandi sama mál: Hvers vegna er milliríkjasamningum einum gefið það mikilvægi í málinu að hægt sé að skjóta þeim til þjóðarinnar eftir að þeir hafa verið afgreiddir í Alþingi? Er ekki hugsanlegt að önnur mál séu fólkinu jafnmikilvæg og slíkir samningar?
    Virðulegi forseti, eins og hv. 2. þm. Vestf. benti á, hefur þetta að nokkru leyti verið útúrdúr. En þó bendi ég á að hér eru málin samantvinnuð og nátengd eins og dæmið sýndi sem ég tók áðan.
    Ég vil því víkja hér að frv. sem er beinlínis á dagskrá. Viðbótin sem tillagan er gerð um við 21. gr. felur reyndar í sér að sú grein yrði að mestu svipt sínu gildi. Næði breytingin fram að ganga er ljóst að hið sama mundi gilda um þjóðréttarsamninga hvort sem þeir fela í sér kvaðir á landi eða landhelgi eða afsal á fullveldisrétti, hugtak sem reyndar er ekki skilgreint nánar í frv. eða grg. þess. T.d. virðist ljóst, að undir sömu meðferð yrðu seldir aðildarsamningur við Evrópubandalagið, svo ég taki nú dæmi, eða fiskveiðisamningur við Færeyjar. Hvort tveggja þyrfti samþykki þriggja fjórðu hluta þingheims og 21 alþingismaður gæti skotið hvoru sem væri undir þjóðaratkvæði. Aðrir samningar sem féllu væntanlega hér undir væru landhelgissamningar, sbr. samningana 61/1976 og núgildandi samninga við Belga, Norðmenn og Færeyinga, samning um aðild að EFTA og að Sameinuðu þjóðunum og fleira.
    Þá verður ekki annað séð í fljótu bragði en að frv. til staðfestingar á samningum á borð við samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu og samninginn um Alþjóðakjarnorkumálastofnunina gætu orðið tilefni þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi vegna heimilda samkvæmt þeim samningum til þess að kanna og líta eftir efndum á skyldum sem þessir samningar fela í sér.
    Virðulegi forseti. Er þetta virkilega stjórnarfar sem þingheimur sækist eftir? Auðvitað væri það almennt talað ekki óeðlilegt að síðar tekið verði upp ákvæði í íslensku stjórnarskrána um sérstaka meðferð og e.t.v. aukinn meiri hluta þegar um er að ræða aðild Íslands að alþjóðastofnunum sem fara með víðtækt samþjóðlegt vald ef einhvern tíma kæmi til slíks. Þennan kost bæði má og á gjarnan að ræða og skoða vandlega og vitaskuld er sú stjórnarskrárnefnd sem nú starfar rétti vettvangurinn til að taka það mál upp og skila um það áliti til þingsins. En það þarf bæði vandaðan undirbúning og víðtæka samstöðu um slíka breytingu ef hún á að verða þjóðinni til gagns. Ef slík samstaða næðist mætti t.d. hefja slíkar breytingar í sambandi við næstu þingkosningar.
    Þá er einnig rétt að taka fram að út af fyrir sig þarf enga stjórnarskrárbreytingu til þess að þingið geti vísað óafgreiddu lagafrumvarpi til þjóðarinnar ef þingmenn treysta sér ekki að taka afstöðu til máls. Það er hægt að gera með almennum lögum. Þetta nefni ég af því að samtímis stjórnlagafrumvörpunum á þskj. 30 og 31 er lögð fram á þskj. 32 þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Þegar litið er á þessar hugmyndir í samhengi má auðvitað spyrja sig hvort þingmenn hafi ekki kjark til að afgreiða mál sem þinginu berast. Það má spyrja um það hvort þingið væri ekki með þessu að skjóta sér undan ábyrgð með því að vísa málum til þjóðaratkvæðis. Efasemdir nokkurra lögfræðinga, sem ég geri ekki lítið úr, um það hvort EES-samningurinn samrýmist stjórnarskránni er alls ekki fullgild ástæða til svo róttækrar ráðstöfunar. Enn síður þegar þess er gætt að þorri þeirra lögfróðu manna, sem hafa tjáð sig um þetta mál, er þeirrar skoðunar að EES-samningarnir samrýmist stjórnarskránni.
    Virðulegi forseti. Því frv. sem við ræðum hér í dag verður að sjálfsögðu vísað til sérnefndar samkvæmt ákvæðum 42. og 32. gr. laga um þingsköp. Sú nefnd hlýtur að íhuga það mjög vandlega. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að þetta frv. er í raun alls ekki tengt EES-samningunum og það má alls ekki hafa það að yfirvarpi til þess að flækja EES-málið eða tefja framgang þess á Alþingi. Sannleikurinn er sá að íslenskt þjóðarbú þarf meira en nokkru sinni fyrr á þeim tækifærum til hagvaxtar að halda sem EES-samningurinn felur í sér. Það er almennt viðurkennt að aðild að EES mun með aukinni samkeppni stuðla að lægra vöruverði og lægri vöxtum á Íslandi og einnig treysta atvinnugrundvöllinn í landinu. Þess vegna þurfum við að afgreiða EES-samninginn sem fyrst. Hann færir okkur vitaskuld engan fyrirhafnarlausan ávinning en hann gefur möguleika til framfara sem annars færu forgörðum.
    Í ræðum stjórnarandstæðinga í umræðunum um EES-frumvarpið hefur verið hamrað á því að mikið atvinnuleysi ríki nú í Evrópulöndum og atvinnuástand hér á landi sé ekki tryggt. Þeir hafa haldið því fram leynt og ljóst í þessum ræðum að atvinnuleysið mundi aukast á Íslandi ef Ísland tengist EES. Þetta er fjarstæðukenndur málflutningur. Mig langar t.d. að nefna að öll hagsmunasamtök atvinnulífsins og stéttarfélaga eru sammála um að EES-samningurinn færir með sér möguleika á aukinni atvinnu og þá gildir einu hversu varfærin þau annars eru að öðru leyti í umsögnum sínum um þennan samning.
    Tveir hv. þingmenn, 8. þm. Reykn. og 4. þm. Austurl., hafa í ræðum sínum í gær og í fyrradag útmálað böl atvinnuleysisins réttilega. Þeir hafa reyndar minnst á kreppuárin milli stríða. Ég tel alveg sérstaka ástæðu að minna á að það er almennt viðurkennt sem hagsöguleg staðreynd að það var einangrunarstefnan sem mörg ríki gripu til á þessum árum sem varð þess valdandi að heimskreppan á fjórða áratugnum varð jafnþrálát og alvarleg og sagan greinir.
    Mig langar líka að víkja að því að 1. flm. þessa frv., hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, hélt fram þeirri firru í umræðum um EES-frv. í fyrradag að helmingurinn af íslenskum iðnaði hefði lagst af og flust til útlanda á þeim tíma sem liðinn er frá því Íslendingar gerðust aðilar að EFTA. Þetta eru óbreytt orð hans og hann sagði reyndar: Þetta eru afleiðingarnar af þessum samningi.
    Þetta er alrangt, þetta er hrein fjarstæða. Hið rétta er eins og þingmenn geta auðveldlega kannað og sannfært sig um að íslenskur iðnaður hefur á þessum árum náð þokkalegum hagvexti og haldið hlut sínum í þjóðarbúskapnum ótrúlega vel þessi 20 ár. Þetta er þeim mun athyglisverðara þegar samanburður er gerður við iðnþróun í nágrannaríkjum okkar þar sem miklu meira hefur dregið úr hlut iðnaðarins í atvinnulífinu en raun ber vitni hér allra síðustu ár. Sumar greinar hafa vaxið og dafnað, aðrar hafa að vísu dvínað eins og gerist í samkeppni og EES mun gefa íslenskum iðnaði og þjónustu nýja möguleika. Á okkar dögum er flestum ljóst, og ég vona sem allra flestum þingmönnum, að til þess að sigrast á efnahagskreppu er fríverslun milli landa nauðsynleg. Einmitt fríverslun af því tagi sem EES-samningurinn felur í sér.
    Þess vegna er sá boðskapur hið mesta öfugmæli sem stjórnarandstæðingar hafa reynt að læða að fólki í ræðum sínum að þykjast ætla að forðast atvinnuleysið með því að hafna aðild að EES. Slík íhalds- og varnarviðbrögð við aðsteðjandi vanda eru beinlínis hættuleg efnahag landsins. Nú ríður á að þingmenn vegi og meti af skynsemi það sem vinnst og það sem tapast með aðild að EES og taki efnislega afstöðu til málsins en fari ekki út í aðra sálma á örlagastund. Þá mun þjóð eins og Íslendingar hafa sérstaklega mikið að vinna á þeirri gagnkvæmni og þeim aðgangi að markaði og sameiginlegum stofnunum sem felst í EES-samningnum eins og hann liggur fyrir nú. Þannig munum við ná árangri, ekki með einangrunarstefnu.