Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:11:16 (81)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. 7. þm. Reykn. um að ég hef kynnt mér álitsgerðir þeirra dr. Guðmundar Alfreðssonar og prófessors Björns Þ. Guðmundssonar mjög vandlega. Í þeim er að finna ýmislegt efni sem er til fróðleiks og upplýsinga um eðli málsins. En niðurstöðuna sem þeir komast að get ég ekki fallist á. Hún nægir ekki til þess að við gerum hér stjórnlagabreytingar. Þetta vona ég að þingmaðurinn virði og skilji.
    Ég vildi líka nefna það af því að hann heldur því enn fram að íhlutunarréttur stofnana á EES-svæðinu um málefni íslenskra manna sem segja sig undir lögsögu þeirra með því að stunda viðskipti á EES-svæðinu hafi aukist frá því stofnanafyrirkomulagi sem ráðgert var í mars 1991. Þar verður að svo stöddu að standa fullyrðing gegn fullyrðingu. Hún er sú af minni hálfu að það sé nú minna um slíkt en var í þeirri stofnanatilhögun sem ráðgerð var í mars 1991. En ég legg til að þetta mál verði kannað í smáatriðum í utanrmn. undir öruggri forustu hv. 3. þm. Reykv. sem þegar hefur upplýst nokkuð um málið á fundinum.