Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:16:17 (85)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er hárrétt athugað hjá hv. 2. þm. Vestf. að í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir einföldum orðum: ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína``. Hitt er svo annað að ég geri ráð fyrir því að fyrir flestum okkar sem hér störfum vaki hagsmunir þjóðfélagsins og þess fólks sem við störfum með og fyrir ,,og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum`` svo ég vitni nú aftur í 48. gr. Hitt er annað mál að ég er ekki alveg viss um að það verði mjög trúverðugt að hv. 2. þm. Vestf. ætli sér að taka að sér það hlutverk að verða samviskubit þjóðarinnar í þessu máli.