Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:37:17 (137)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér hafa gerst merkir atburðir. Eftir fyrirspurn mína í dag og kröfu um að það yrði upplýst hvort utanrrn. hefði látið framkvæma leynikönnun á kostnað almennings til þess að þjónusta áróðursdeild ráðuneytisins þá neyðist hæstv. viðskrh. hér og nú til að staðfesta að þetta er rétt. Þetta er rétt. En hann hefur ekki manndóm í sér til þess að gera það í nafni utanrrn. heldur les hér upp fréttatilkynningu sem markaðsrannsóknarfyrirtækið hefur verið knúið til að gefa út í dag. Hvenær var þessi könnun framkvæmd? Henni var lokið fyrir mánuði síðan. Það kemur fram að henni var lokið 28. júlí, fyrir mánuði síðan. Hvað tekur langan tíma að vinna úr svona könnunum á tölvuöld? Tvo til þrjá daga. Þannig að

niðurstaða þessarar könnunar hefur legið fyrir fyrstu daga ágústmánaðar. Enda er það fyrir viku síðan sem utanrrh. notar þessa könnun sem meginröksemd sína fyrir að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu um EES hér á Alþingi. Það er því alveg ljóst að utanrrn. ætlaði sér ekki að birta þessa könnun, það er búið að liggja á þessari könnun og halda henni leyndri í mánuð, notar opinbera fjármuni til að þjónusta áróðursdeild Alþfl. í utanrrn.
    Og hvers vegna er þessi könnun feimnismál? Jú, hún er feimnismál fyrir utanrrn. vegna þess að af þeim sem tóku afstöðu eru u.þ.b. tæplega fjórðungi fleiri sem eru á móti EES-samningnum en þeir sem eru með. Það eru tæplega fjórðungi fleiri sem eru á móti samningnum en sem er með honum. Og það er auðvitað slík niðurstaða eftir allar áróðursherferðir utanrrn. og svo það að eftir allar áróðursherferðirnar, tugi milljóna sem búið er að verja í þetta, bækling sem utanrrn. hefur sent með formála utanrrh. inn á hvert heimili í landinu, þá segja tæplega 80% að þeir viti frekar lítið um málið. Þannig er þessi könnun slíkur áfellisdómur yfir verkum utanrrn. og innihaldi EES-samningsins að það er skiljanlegt að utanrrn. hafi farið með hana sem algjört hernaðarleyndarmál í heilan mánuð þó að hér í dag hafi það verið knúið til að segja loksins sannleikann í málinu.