Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 23:11:07 (216)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 9. þm. Reykv. vék hér nokkuð að afstöðu sjálfstæðismanna um það bil sem fyrri ríkisstjórn tók þá ákvörðun að hefja þessa samninga og taka boði Evrópubandalagsins um það að yfirtaka 70--80% af allri löggjöf Evrópubandalagsins. Það er vissulega rétt sem fram kom hjá hv. þm. að Sjálfstfl. lagði þá áherslu á að reyna til þrautar tvíhliða samninga við Evrópubandalagið. Vegna hvers? Vegna þess að við bentum þá þegar á að líklegt væri að aðrar EFTA-þjóðir mundu fyrr en síðar gerast aðilar að Evrópubandalaginu og við bentum á að það væri hluti af þessum samningum að yfirtaka svo stóran hluta af löggjöf Evrópubandalagsins. En hverjir komu í veg fyrir það að við þessum óskum yrði orðið? Það voru m.a. ráðherrar Alþb., hv. 9. þm. Reykv. sem með valdaaðstöðu sinni í þáv. ríkisstjórn kom í veg fyrir að þetta yrði reynt. Við töldum á hinn bóginn, og það kom fram í afstöðu okkar þá, að það væri Íslendingum mjög mikilvægt og nauðsynlegt að tengjast þeirri nýju efnahagssamvinnu sem hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu með samningum og við mundum styðja samningaviðræður með öðrum EFTA-þjóðum um Evrópska efnahagssvæðið ef okkar megintillögur næðu ekki fram að ganga og við höfum staðið við það.
    Skaftfellskir vatnamenn hafa gjarnan sagt að það væri hið mesta óráð að snúa hestunum við í miðju straumvatninu. Og ég held að það væri hið mesta óráð nú að fara að snúa við þegar við erum að ná landi í þessum samningum. En ef hv. þm. hefði á sínum tíma haft skilning á þessum sjónarmiðum, þá hafði hann tækifærið þá. Hann notaði það til annars og allar staðreyndir í þessu máli sem hann ber fyrir sig nú voru ljósar þá.